04.03.1965
Neðri deild: 50. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

138. mál, læknaskipunarlög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil segja nokkur orð í sambandi við 13. gr., áður en þetta frv. fer til n. Ég held, að höfuðatriðið í sambandi við að bæta úr þeim mikla skorti á læknum, sem hjá okkur er, sérstaklega í dreifbýlinu, sé fyrst og fremst að framleiða meira af læknum og ég held, að það þurfi að taka til alvarlegrar rannsóknar það ástand, sem ríkir hjá stjórn læknadeildar háskólans, í þessu sambandi. Ég held, að það ríki ófremdarástand þar, sem komi fram í því, að það sé verið að bægja læknanemum frá námi með því að fella í svo stórum stíl læknanema, sem vel gætu haldið áfram, að þetta bókstaflega hrindi mönnum frá læknadeildinni og ég tel, að sú n., sem þetta frv. fer til, hv. heilbr.– og félmn., ætti að taka þessa hluti til alvarlegrar rannsóknar. Við bætum aldrei úr þessum hlutum, ef andinn er þannig í háskólanum, sá gamli andi, sem við þekktum einu sinni, að það yrðu sem fæstir að verða sérmenntaðir menn á Íslandi og það ætti þess vegna að reyna að halda mönnum frá því að fara í háskólann. Ég held, að við verðum að sjá um, að þarna verði breyting á. Það hefur komið fyrir, að það væri felldur allt að helmingi stúdenta, sem gengur undir próf, að því er mér virðist stundum kannske frá því sjónarmiði, að það sé ekki pláss fyrir fleiri þar. Þessi hugsunarháttur getur ekki gengið, og það verður að uppræta hann. Og ég veit til þess, að það hefur verið beitt þannig ráðum til þess að hindra menn í að halda áfram að læra til þess að verða lækni, og það er til skammar og ég vil alvarlega beina því til hæstv. heilbr.- og félmrh., um leið og þessi mál eru athuguð, að læknadeild háskólans sé tekin undir rannsókn og stjórn hennar, hvernig hún hagi sér í þessum efnum og hvað það sé, sem hún leggi fram til þess að bæta úr þeirri neyð, sem Íslendingar eiga við að búa.

Ég vil taka það fram um leið, að það er nú að koma svo, að það er ekki aðeins að verða neyðarástand í dreifbýlinu og hefur verið lengi, sem vissulega eru ýmsar till. hér um að reyna að bæta úr. Það er að verða vandræðaástand hvað snertir sjúkrasamlagslækna hér í Reykjavík. Það er bráðum að verða vart mögulegt að kjósa sjúkrasamlagslækna í Reykjavik og það er farið að verða kunningsskapar atriði, hvort menn hafa nokkurn lækni og menn hafa ekki lengur einu sinni neitt til þess að velja úr að heita má. Það er að verða svona ástandið í læknamálunum hjá okkur og á meðan er rekin afturhaldspólitík í læknadeild háskólans, sem á ekki að viðgangast. Ég vildi alvarlega skjóta því til hæstv. heilbr.- og félmrh. og þeirrar n., sem þetta fer til, hvort það væri ekki rétt að gera mjög róttæka ráðstöfun í sambandi við að útskrifa lækna hér á Íslandi, og það er að taka upp í læknadeild háskólans námslaunakerfi, a.m.k. alveg sérstaklega fyrir alla þá læknanema, sem ætla sér að verða almennir læknar, þ.e. námslaunakerfi þannig, að frá því að stúdentinn byrjar þar, nýr stúdent, sem hefur áhuga á því að læra þetta, þá sé hann launaður og hann verði launaður maður síðan áfram, eftir að hann hefur þarna útskrifazt, launaður starfsmaður ríkisins, meðan hann lærir þetta og áfram, bæði sem héraðslæknir og jafnframt sem sjúkrahúslæknir. Ég held, að það ætti að taka þetta til alvarlegrar athugunar. Það er dýrt að nema til þess að verða læknir og ég er hræddur um, að allt of mikill bókstafslærdómur sé í sambandi við læknadeildina. Ég held, að það ætti alvarlega að athuga að ganga sporinu lengra, en hérna er lagt til, þarna er talað um ríkislán og taka beinlínis upp námslaunakerfi til þessara lækna, fyrst og fremst þeirra, sem taka að sér að verða héraðslæknar. En það má mikið vera, ef það kemur ekki að því, að það verði að vera með þá almennu lækna líka.

Þessu vildi ég skjóta að til hæstv. ríkisstj. og hv. n. Ég veit, að það eru fátækir menn, sem hafa gjarnan viljað verða læknar og sumpart ekki hafa haft efni á því og sumpart hafa mætt slíkum kulda og skilningsleysi frá þeirra hálfu, sem stjórna læknadeildinni, að þeir hætta við það. Ég held, að andinn þar þurfi að breytast, um leið og við leggjum okkur fram til þess að reyna að bæta úr þeirri neyð, sem ríkir í þessum málum.