01.04.1965
Neðri deild: 61. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1492 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

138. mál, læknaskipunarlög

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég vil hér með flytja þökk mína og íbúa Bakkagerðislæknishéraðs til hv. heilbr.– og félmn. fyrir að leggja einróma til, að numið verði burt úr læknaskipunarfrv. hæstv. ríkisstj. ákvæði um að leggja Bakkagerðislæknishérað niður. Þessi till. n. ásamt fleiri hliðstæðum brtt. er að mínum dómi sérstaklega athyglisverð, ekki sízt fyrir það, að það er ekki daglegur viðburður, að þingnefnd gangi einróma gegn mikilvægum ákvæðum frv., sem hæstv. ríkisstj. stendur að.

Ég vil í þessu sambandi aðeins minnast á, að hv. frsm. heilbr.- og félmn. vék að því, að við 1. umr. málsins hefði meira komið fram af ádeilum á frv. en að viðurkenna kosti þess. Þetta má vel vera rétt og er ekki óeðlilegt. En í þeim orðum, sem ég vék að í sambandi við þetta frv. við 1. umr., gat ég þess einmitt jafnframt, að ég þakkaði þær breyt., sem frv. fæli í sér til umbóta á læknaskipunarlögunum frá 1962, en harmaði um leið, að einmitt 1962 skyldu ekki hafa verið teknar upp í þessi lög ýmsar umbótatill., sem við hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG) bárum þá fram og hæstv. þáv. heilbr.- og félmrh. eyddi að verulegu leyti. Og ég gat þess jafnframt, að það lægi ekki fyrir, hvaða afleiðingar það hefði haft, hvað seint ráðamenn í þessum efnum hefðu tekið við sér í því að sinna vandkvæðum dreifbýlisins í sambandi við læknaskipunina. Ég skal ekki fara neitt út í þær umr. að öðru leyti.

Ég fagna því, að hæstv. heilbrmrh. hefur nú lýst ánægju sinni og samþykki yfir þeim brtt., sem hv, heilbr.- og félmn. ber fram. Ég fagna því vegna þess, að ég harmaði það, þegar málið var hér við 1. umr., að hæstv. ráðh. skyldi lána nafn sitt við það að leggja niður ákveðna tölu læknishéraða í mesta og erfiðasta dreifbýlinu. En ég þakka hæstv. ráðh., að hann skuli nú hafa fallizt á þær breyt., sem eru verulega til bóta, sbr. till. hv. heilbr.- og félmn.

Ég skal ekki heldur víkja neitt að þeim orðum, sem hæstv. forsrh. lét falla í þessu máli við 1. umr. Það sýndi aðeins, að hans sjónarmið höfðu lítið breytst frá 1962, þegar hann var þá hæstv. heilbrmrh. og lagðist á móti ýmsum þeim umbótatill., sem voru þá lagðar fram við þáverandi frv.

Ég dreg hins vegar ekki dul á, að ég sakna þess, að hv. nefnd hefur ekki séð sér fært að taka upp í brtt. sínar ýmislegt af því, sem ég vakti athygli á við 1. umr. málsins, t.d. að heilbrigðismálastjórninni yrði heimilað að greiða í staðaruppbót allt að 100% á föst laun, ef slíkt mætti teljast líklegt til árangurs til að laða lækna til starfa í erfiðustu og tekjurýrustu læknishéruðunum. Enn fremur, að meðan slík læknishéruð væru læknislaus, væri heimilt, að það opinbera legði þeim til lærða hjúkrunarkonu, héruðunum að kostnaðarlausu. Enn fremur hefði ég talið æskilegt, að ákveðnari heimild hefði komið fram í brtt. til handa heilbrigðismálastj. að láta þá læknanema sitja fyrir námsláni, sem vildu skuldbinda sig til að taka að sér læknisstörf í dreifbýlinu að námi loknu.

Þótt ég þannig sakni ýmislegs af því, sem ég hefði kosið, að hv. nefnd hefði tekið upp til umbóta á frv., tel ég, að mikilvægum áfanga sé náð með brtt. nefndarinnar, fyrst og fremst að leggja til að nema burt ákvæði um, að það skuli leggja niður tiltekin læknishéruð og að með þeirri brtt. séu raunverulega mörkuð mikilvæg tímamót í viðhorfi heilbrigðismálastj. um það, að hið opinbera viðurkenni þar með, að vandi dreifbýlisins í sambandi við læknaþjónustu og heilbrigðisgæzlu leysist ekki með því að leggja læknishéruðin niður, heldur beri að vinna markvisst að því, að hlutaðeigandi héruðum séu búnar þær aðstæður að geta laðað að sér lækna til starfa.

Að lokum vil ég aðeins geta þess, að ég mun greiða þeim brtt. einstakra hv. þm. atkv., sem mér finnst stefna að betri læknaþjónustu í dreifbýlinu og síðan brtt. hv. heilbr.- og félmn.