06.04.1965
Neðri deild: 64. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

138. mál, læknaskipunarlög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég flutti við 2. umr. þessa frv. brtt. á þskj. 380, sem ég kynnti þá. Hún gengur út á það, að þeim læknastúdentum skuli veitt námslaun, sem hægt er að gera samninga við af hálfu ríkisstj. um að gegna síðan læknaþjónustu í héraði, þ.e. að í staðinn fyrir þau námslán, sem talað er um í frv. hæstv. ríkisstj., 13. gr., þá komi námslaun. Annars eru að mestu leyti sömu skuldbindingar, nema þá það, að menn geta fengið þessi námslaun frá upphafi.

Hæstv. menntmrh. skýrði hér við 2. umr. málsins, hverjar stórar breytingar hafa orðið á námsstyrkjum í sambandi við nám stúdenta bæði innanlands og utan og það var alveg rétt hjá honum. Mér reiknaðist til, að með tilliti til gengisbreytinga og slíks, þá mundu raunverulega þessir námsstyrkir hafa meir en ferfaldazt á þeim tíma, sem hann gat um, mestmegnis í hans eigin stjórnartíð sem menntmrh., og það er mjög vel, að svo er, og er ánægjulegt til þess að vita. En sannleikurinn er samt, að við gerum of lítið á þessu sviði. Við þurfum að stíga þarna stærri spor og þau spor, sem eru fullnægjandi í þessum efnum, það er að tryggja full námslaun, þ.e. námslaun, sem nægja til lífsframfæris þeim stúdent, sem er við nám. Við verðum að gá að því, að það eru orðnar ákaflega miklar breytingar á þessu frá því, sem áður var. Í fyrsta lagi má kannske nefna það, að menn sætta sig ekki lengur við það að lifa á sama máta og gert var fyrir 40–50 árum af hálfu stúdenta. Í öðru lagi er hitt, að mjög mikill hluti af stúdentum er þegar giftur eða kvæntur, þegar þeir eru að nema, og hafa jafnvel fyrir fjölskyldu að sjá. Þess vegna er það svo, að mjög mikið — við skulum segja t.d. af mönnum, sem gjarnan vildu nema í læknadeild, neyðist til þess að hætta við það af efnahagslegum ástæðum og það er mjög slæmt, vegna þess að ekki hvað sízt í aðra eins grein og læknisfræðina þyrftum við að geta tryggt, að þeir menn, sem hefðu áhuga á að rækja það starf, gætu fengið að læra það. Og þetta gildir ekki einungis um þá ungu pilta, unga stúdenta, sem vilja læra þetta. Það gildir ekki siður um konur, því að fáar eru þær greinar, sem manni virtist eðlilegra að kvenfólk legði fyrir sig, þær sem á annað borð eru stúdentar, heldur en einmitt að verða læknar, enda er sú reynslan víða, þar sem jafnrétti er fullt milli karla og kvenna og þar sem full námslaun eru, að þar er yfirgnæfandi meiri hluti lækna kvenfólk.

Ég held, að það væri þess vegna rétt, einmitt með tilliti til þess vanda, sem á hvílir í sambandi við læknaþjónustu við dreifbýlið og í öðru lagi vegna þess vanda, sem að vísu er miklu minni, en er að verða í sambandi við að tryggja sjúkrasamlagslækna, þá væri mjög heppilegt, að þessari gr. væri breytt eins og ég hef orðað hana. Hún hljóðar svo, mín brtt., með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt skal samkv. till. landlæknis, að fenginni umsögn læknadeildar Háskóla Íslands, að veita á ári hverjum læknastúdentum námslaun, er nægi þeim til lífsframfæris, meðan þeir stunda nám í læknadeild, gegn. skuldbindingu um þjónustu í læknishéraði að afloknu námi. Nánari ákvæði um námslaun þessi skal setja í reglugerð. Er og heimilt, ef þörf þykir, að hafa þar ákvæði til þess að tryggja á sama hátt sjúkrasamlagslækna.“

Þó að sjúkrasamlagslæknar séu ekki starfsmenn ríkisins, þá eru engu að síður að verða vandræði með að fá menn til þess að stunda það starf og mætti þess vegna líka reyna að semja um það.

Ég hef áður tekið það fram í sambandi við þetta, að ef svo færi, að þeir menn, sem upprunalega hafa notið slíkra námslauna, skyldu óska eftir því seinna meir að verða sérfræðingar eða yfirgefa þessa leið, að verða héraðslæknar og slíkt, þá væri hægt að hafa í reglugerðinni ákvæði þess efnis, að viðkomandi gæti fengið sínum námslaunum breytt í námsstyrk að einhverju leyti eða námslán, þannig að hann gæti þá borgað til baka og verið laus við þær skuldbindingar, sem hann hefur á sig tekið. Hins vegar, eins og við vitum, þá geta þetta orðið engar smáræðisskuldbindingar. Það hefur reiknazt svo til, að það sé allt frá 1/2 millj. upp í 1 millj. fyrir þá, sem eitthvert framhaldsnám stunda líka eða fara út til þess að læra eitthvað meira, — skuldirnar, sem menn geta steypt sér í, ef menn fá yfirleitt að skulda svo mikið, þeir sem ætla að læra til læknis hér heima.

En það er líka annað, sem er vert að athuga í þessu. Ef við byrjuðum á þessu og gerðum tilraun einmitt á þessu sviði, þar sem okkur virðist svo mikil nauðsyn á að leysa úr vandamáli dreifbýlisins í þessu efni, þá værum við um leið að gera aðra tilraun. Við værum að gera tilraun um það að framkvæma efnahagslegt jafnrétti til menntunar. Raunverulega er það hart, að í okkar þjóðfélagi, eins ríkt og það er orðið og eins almenn velmegun og ríkir, að það skuli ekki vera nokkurn veginn efnahagslegt jafnrétti til menntunar, þannig að það geti ekki komið lengur fyrir það, sem gerðist á meðan Ísland var fátækt land, að menn verði að hætta við það nám, sem menn helzt vildu leggja stund á, sökum efnahagslegs skorts á möguleikum til þess.

Ég held þess vegna, að frá öllum sjónarmiðum væri það ákaflega gott og rétt að samþykkja þessa brtt. og gera þar með þessa tilraun. Það er að öllu leyti lagt í hendur ríkisstj., á hvern hátt hún framkvæmir þetta, þannig að þetta væri af hálfu Alþingis aðeins uppörvun til þess að stíga spor áfram á þeirri braut, sem hæstv. menntmrh. var að lýsa, að farin hefði verið hér undanfarin 10 ár.