05.05.1965
Efri deild: 80. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1529 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

138. mál, læknaskipunarlög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég þakka hv. heilbr.- og félmn. góða afgreiðslu þessa máls og síðasta ræðumanni fyrir þakksamleg ummæli í minn garð í sambandi við þetta frv. og þá náttúrlega fyrst og fremst þeirra sérfræðinga, sem fyrir mitt tilstilli unnu að undirbúningi málsins.

Mér finnst aðeins ástæða til þess út af brtt. hv. 1. þm. Vesturl. á þskj. 640 að segja nokkur orð. Þessi till., eins og hann sagði réttilega, kom fram í Nd., flutt þar af 3. þm. Vestf. (SE). Ég taldi þar, að till. ætti ekki rétt á sér, m.a. af þeim efnisástæðum, að það getur verið alveg jafnerfitt að sækja lækni í héraði, sem er ekki læknislaust, jafnkostnaðarsamt, ef þannig háttar til og um langa vegalengd er að fara og till. væri ekki til þess fallin að leysa þennan mikla vanda. Hins vegar gerði ég grein fyrir því að það hefði lengi staðið til og eiginlega raunverulega verið í endurskoðun lögin um læknisvitjanasjóð, en sá sjóður hefur þann tilgang að aðstoða við dýrar læknisvitjanir, en hefur orðið, við skulum segja, alveg óvirkur á síðari árum og sú endurskoðun, sem ég nefndi þarna, hefur ekki borið neinn árangur.

Það var samþ. á sínum tíma í þinginu till. í sameinuðu þingi um áskorun til þáv. ríkisstj. um endurskoðun á þessum lögum. Ég hef séð ummæli fyrrv. landlæknis, þess sem var á undan núverandi landlækni. Hann taldi, að það væri rétt að afnema lögin algerlega og púkka ekki upp á neina endurskoðun þeirra. Og sama sinnis er núverandi landlæknir, dr. Sigurður Sigurðsson. Og þá vakti sennilega fyrir báðum, a.m.k. veit ég núv. landlækni, að þetta mál verði að takast upp á miklu breiðari og öðrum grundvelli heldur en gömlu lögin um læknisvitjanasjóð. Fyrst og fremst í sambandi við tryggingarnar, sem eru orðnar sterkur og stæltur aðili og ættu að geta veitt verulega aðstoð, fyrir utan framlög úr ríkissjóði og þá kannske sveitarsjóðum, sem ég skal ekki segja um á þessu stigi málsins, en yrðu miklu ríflegri og verulegri, en áður hefur verið.

Nú hef ég síðan þetta mál var til umr. í Nd. efnt til endurskoðunar á lögunum um læknisvitjanasjóð, eða þessu vandamáli, skulum við heldur segja, með það fyrir augum, að frv. geti legið fyrir næsta þingi. Að þessu máli vinna nú landlæknir og fulltrúinn í heilbrigðismálum í dómsmrn. Ég hef farið þess á leit jafnframt við félmrh., að ráðuneytisstjórinn í félmrn. ynni að þessari endurskoðun með þess um tveimur mönnum, einmitt til þess að félmrn. hefði hönd í bagga með þá tengingu, sem við höfðum rætt um að skapa við tryggingarnar í sambandi við úrlausn þessa máls. Ég vildi því mælast til þess, þegar málið liggur svona fyrir, hvort hv. þm. gætu ekki á það fallizt að draga till. til baka, en ef honum er það samt ekki í mun, þá mundi ég af þessum ástæðum, sem ég nú hef greint, telja óráðlegt að samþykkja hana.

Um brtt. á þskj. 588 vil ég segja, að það má segja, að það eru ekki verulegar efnisbreytingar, a.m.k. ekki 1. og 2. till. Þær voru allar ræddar undir meðferð málsins í Nd. og við þá, sem undirbjuggu frv. og þeim þótti ekki ástæða til þess að breyta þarna „ónæmisaðgerðum“, að það kæmi í þeirra stað í 8. gr. „lögboðnar ónæmisaðgerðir“ og þetta byggist á öðrum lagaákvæðum. Sannast að segja man ég ekki í bili og þó er eins og mig minni, að það sé í erindisbréfum héraðslækna, sem fær alveg úr skorið um þetta, að af þessu getur ekki neinn vafi eða vandræði stafað.

Varðandi það að breyta ákvæði 7. gr., þar sem eru ákvæði um aðstoðarlæknana, þar segir svo, að heimilt sé að greiða úr ríkissjóði fjárhæð, sem svarar árslaunum átta aðstoðarlækna, héraðslækna, þá var því breytt frá upprunalegri mynd frv. Hjá undirbúningsnefndinni voru sjö aðstoðarlæknar, það var fjölgað um einn í Nd.,og að vandlega athuguðu máli í heilbrmrn. og miðað við læknafjöldann og þann tíma, sem þessir aðstoðarlæknar ættu að grípa inn i, í orlofum og hvíldartíma annarra lækna, þá var það að beztu manna yfirsýn talið fullkomlega nægjanlegt að fjölga þeim um einn, upp í átta aðstoðarlækna og ég fyrir mitt leyti féllst á það við nánari athugun málsins, að það mundi vera algerlega óþarfi að hafa það meira, miðað við almennan orlofstíma og eðlilegan hvíldartíma.

Við 13. gr. er efnisbreyting, þar sem gert er ráð fyrir að veita fjárframlag úr ríkissjóði. Það er víst sú grein, sem fjallar um lán í frv. eða ríkislánin. Um það vil ég ekkert annað segja en það, að það væri náttúrlega gott og blessað að geta veitt styrki og fjárframlög til þessa. En það hefur alltaf tvær hliðar og getur verið varasamt og ég vildi vara alvarlega við því að fara út í það í þessu sambandi lengra, en gengið er í frv. að veita sérstök lán til þess að stuðla að því, að menn verði héraðslæknar, sérstaklega miðað við önnur hlunnindi frv.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Ég vænti, að það séu með þessu nokkrar skýringar gefnar á brtt., sem fluttar hafa verið. En mér þykir samt vænt um, að skapazt hefur góð samstaða, — þetta eru auðvitað smávægileg atriði, sem ég hef vikið að, — það hefur skapazt góð samstaða um málið og eins og ég hef áður sagt, þá er hitt auðvitað miklu meira, að það komi til með í framkvæmdinni að geta borið árangur og eflt aðstöðu fólksins, sem í dreifbýlinu býr, til þess að njóta sómasamlegrar eða góðrar læknisþjónustu.