04.05.1965
Neðri deild: 80. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

186. mál, Húsmæðrakennaraskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed., þar sem það var samþ. með shlj. atkv., eftir að menntmn. d. hafði einróma mælt með samþykkt þess, og voru engar breyt. gerðar á frv., frá því að það hafði verið lagt fram. Frv. er samið af n., sem menntmrn. skipaði vorið 1962 til þess að endurskoða reglugerðina fyrir Húsmæðrakennaraskóla Íslands, en síðar var komizt að raun um, að nauðsynlegt mundi vera að endurskoða lögin sjálf og er þetta frv. samið af þessari n. Í henni áttu sæti Vigdís Jónsdóttir skólastjóri húsmæðrakennaraskólans, sem var formaður n., Halldóra Eggertsdóttir námsstjóri húsmæðrafræðslunnar og Knútur Hallsson deildarstjóri í menntmrn.

Meginbreytingin, sem frv. mundi hafa í för með sér, ef samþ. yrði, er sú, að skólinn mundi útskrifa húsmæðrakennara eftir 3 vetra nám og eins sumars í stað þess að útskrifa nemendur sína nú eftir 2 vetra og eins sumars nám. Tala þeirra, sem mundu útskrifast, yrði væntanlega hin sama. Skortur á húsmæðrakennurum er hins vegar ekki svo mikill í bili, að það ætti að hafa nokkra röskun í för með sér, þótt skólinn útskrifi framvegis húsmæðrakennara aðeins þriðja hvert ár, í stað annars hvers árs, eins og nú á sér stað. Það, sem vinnst við þessa breytingu er, að væntanlegir húsmæðrakennarar fá tækifæri til fullkomnari menntunar og íslenzkir húsmæðrakennarar yrðu þá á líku menntunarstigi og húsmæðrakennarar á hinum Norðurlöndunum, en þar hefur húsmæðrakennaranám einmitt verið lengt með svipuðum hætti og gert er ráð fyrir í þessu frv. Íslenzkir húsmæðrakennarar mundu þá einnig öðlast þann undirbúning, sem nú er krafizt til þess að geta fengið að stunda nám á norræna búsýsluskólanum, sem Ísland eins og hin Norðurlöndin á aðild að.

Það er rétt að vekja athygli á því, að námsefni í húsmæðrakennaraskólanum er nú raunverulega meira en svo, að það rúmist með góðu móti á þeim námstíma, sem nemendum er nú ætlaður. Auk þess að veita meira svigrúm til að nema þær námsgreinar, sem þegar eru kenndar í skólanum, skapast við lengingu skólans um eitt ár möguleikar á því að bæta við nýjum námsgreinum, sem ýmist eru taldar æskilegar eða óhjákvæmilegar. Ég vona, að niðurstaðan verði eins hér í hv. Nd. og í Ed., að hv. d. geti orðið sammála um að afgr. þetta frv. og leyfi mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.