29.04.1965
Efri deild: 76. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1559 í B-deild Alþingistíðinda. (1289)

177. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd., þar sem það var samþ. við 3. umr. með shlj. atkv. þm., eftir að hv. menntmn. Nd. hafði samróma gert till. um nokkrar smávægilegar breyt. á frv., sem ekki snertu efni þess að neinu meginefni, heldur voru að verulegu leyti formseðlis.

Gildandi lög um menntaskóla eru þannig, að því er varðar tölu menntaskólanna og staðsetningu þeirra, að svo segir, að menntaskólar skuli vera tveir, annar í Reykjavík, en hinn á Akureyri og að stofna skuli hinn þriðja í sveit, þegar fé sé veitt til þess á fjárl., en þessi lagaákvæði eru frá árinu 1946. Skv. heimildinni í þessum lögum var síðar stofnaður menntaskóli á Laugarvatni, svo að nú eru starfandi í landinu þrír menntaskólar, í Reykjavík, á Akureyri og á Laugarvatni, og eru skólarnir á Akureyri og Laugarvatni heimavistarskólar.

Fyrir nokkru hefur ríkisstj. ákveðið og það hefur verið tilkynnt hér á hinu háa Alþingi, að reistur skuli nýr menntaskóli hér í Reykjavík. Eru fjárveitingar til þess skóla af hálfu Alþingis þegar hafnar og er verið að ganga frá teikningum þess skóla og framkvæmda undirbúningur þegar hafinn. Er að því stefnt, að bygging fyrsta áfanga þess skóla hefjist nú á þessu vori og standa vonir til þess, að byggingu þessa fyrsta áfanga geti verið lokið í haust, þannig að þar geti hafizt kennsla í haust. En eins og lagaákvæðinu er nú háttað, mundi þessi menntaskóli verða hluti af Menntaskólanum í Reykjavík. Það tel ég hins vegar ekki heppilegt, heldur rétt að breyta lagaákvæðinu um menntaskóla á þann veg, að menntaskólar í Reykjavík skuli vera tveir, þ.e. að hinn nýi skóli verði sjálfstæður skóli, sem þá að sjálfsögðu mun fá sína sérstöku skólastjórn. Jafnframt því, að þetta er nauðsynlegt, þá þykir eðlilegt að marka framtíðarstefnuna í skólabyggingarmálum menntaskólanna og við það eru ákvæði þessa frv. miðuð, en í því segir, að menntaskólar á Íslandi skuli vera 6, tveir í Reykjavík, einn á Akureyri, einn á Laugarvatni, einn á Ísafirði, eins og frv. var breytt í hv. Nd., upphaflega stóð „einn á Vestfjörðum“, og einn á Austurlandi. Jafnframt er kveðið svo á, að menntaskólarnir utan Reykjavíkur skuli vera heimavistarskólar. Jafnframt er heimilað að reisa þriðja menntaskólann í Reykjavík eða nágrenni.

Enn fremur eru í frv. ákvæði um það, að menntmrn. sé heimilt að koma á fót kennslu í námsefni fyrsta bekkjar menntaskóla við þá gagnfræðaskóla, þar sem nemendafjöldi og önnur skilyrði gera slíka ráðstöfun eðlilega og framkvæmanlega, en þriðja bekkjar deild menntaskóla hefur um nokkurt skeið verið starfrækt á Ísafirði skv. sérstakri heimild menntmrn. Óskir hafa verið uppi um það frá fleiri stöðum og þá sérstaklega frá Vestmannaeyjum að fá heimild til þess að starfrækja þriðja bekkjar deild menntaskóla við gagnfræðaskólann þar og má búast við því, að óskum um slíkt fari fjölgandi á næstu árum og þess vegna þykir rétt að lögfesta almenna heimild til handa menntmrn. til þess að heimila slíka starfrækslu fyrsta bekkjar menntaskólans í tengslum við gagnfræðaskóla, að sjálfsögðu þó að uppfylltum vissum skilyrðum.

Þetta frv. fékk hinar beztu undirtektir í hv. Nd., eins og sjá má af því, að það var samþ. með shlj. atkv. og sama vona ég, að verði niðurstaðan hér í hv. Ed. Með samþykkt þessa frv. má segja, að mörkuð sé framtíðarstefna, sem ætti að geta dugað um nokkurn aldur í byggingarmálum menntaskólanna, þar sem gert er ráð fyrir því, að menntaskólar í Reykjavík, heimagönguskólar, verði þegar tveir á næsta hausti og að hinn þriðji verði reistur í Reykjavík eða nágrenni, þegar þörf fyrir hann kemur í ljós og að jafnframt skuli verða starfræktir heimavistarmenntaskólar í hinum landsfjórðungunum þremur, á Vestfjörðum, á Norðurlandi og á Austurlandi. Er þá gert ráð fyrir því, að skólarnir á Vestfjörðum eða á Ísafirði og á Austurlandi verði byggðir í áföngum og þá að sjálfsögðu eftir því sem fé er veitt til þeirra á fjárlögum.

Ég leyfi mér svo að endurtaka óskir mínar um það, að þetta frv. fái góðar undirtektir hér í þessari hv. d. og hljóti afgreiðslu nú á þessu þingi og að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, að frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. menntmn.