25.02.1965
Efri deild: 46. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

8. mál, náttúrurannsóknir

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er aðeins ein aths. og þó ekki aths. Hæstv. ráðh. vék að þeim tveim megin verkefnum, sem mest væru talin aðkallandi og ég efast ekki um, að það sé svo í raun og veru og það muni vera vilji ráðamanna háskólans, að unnið sé að því, að þeim verkefnum verði sem allra fyrst sinnt. En það var einmitt annað af þessum tveim höfuðverkefnum, sem ég hafði sérstaklega í huga, þegar ég vék að þessu hér áðan, sem sé menntun framhaldsskólakennara. Ég hef haldið, að það, sem þar vantaði m.a., væri nám fyrir kennara við framhaldsskóla í þessum greinum, sem hér er um að tefla og það held ég, að hljóti að verða tekið upp einmitt í sambandi við þá framhaldsskólamenntun kennara, sem ráðgerð er í háskólanum. Og þá er það, a.m.k. frá mínu sjónarmiði fljótt á litið, eðlilegast, að sú kennsla sé tengd þessum stofnunum að einhverju leyti, því að mér kemur varla annað til huga,r en að þeir sérfræðingar, sem starfa við þessar deildir og þær stofnanir, sem þarna er um að tefla, verði aðalkennarar einmitt í þessum fræðum varðandi framhaldsmenntun kennara, dýrafræði og landafræði o.s.frv. Þess vegna held ég, að það hljóti raunar að koma að því mjög bráðlega, að það verði tekin upp kennsla í þessum fræðum, einmitt af þessari ástæðu, að það vantar menntun fyrir kennara í þeim og þess vegna hefði mér þótt ekki óeðlilegt, að það hefði strax verið horfið að því að gera ráð fyrir því, að stofnunin tengdist háskólanum í einhverri mynd.

Það má vel vera, að einhverjir hafi um þetta aðrar hugmyndir og ég heyrði, að hæstv. ráðh. gerði ráð fyrir því að slík framhaldskennaramenntun yrði tengd heimspekideild eða þeirri deild, sem annast kennslu í norrænum fræðum. Ég veit ekki, hvort það er nægilega athugað, hvort það eru endilega ástæður til þess að tengja það allt þeirri deild, hvort það gæti ekki allt eins verið eðlilegt að leggja grundvöll einmitt að náttúrufræðideild, náttúruvísindadeild, sem hefði með höndum menntun þeirra kennara, sem ætla að fást við að kenna þessi fræði við framhaldsskóla, menntaskóla og gagnfræðaskóla og aðra þá framhaldsskóla, sem hér er um að tefla. — Það var aðeins þessi aths., sem ég vildi koma á framfæri.