05.05.1965
Efri deild: 80. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1590 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

8. mál, náttúrurannsóknir

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 626 við það frv., sem hér liggur fyrir.

Eins og fram kom í ræðu hv. frsm., sendi háskólaráð menntmn. Ed. álitsgerð um frv. þetta. Var þar óskað eftir því, að ekki yrði að svo stöddu sett slík löggjöf um náttúrurannsóknir og færð fyrir því þau rök, sem fram komu í ræðu hv. frsm., svo að ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka þau.

Forstöðumenn Náttúrugripasafnsins hafa hins vegar lagt á það ríka áherzlu, að löggjöf af þessu tagi yrði sett, til þess að stofnunin fengi eðlilegan starfsgrundvöll að þeirra áliti.

Ég hef ekki séð mér fært að leggjast gegn því í sjálfu sér með tilliti til þessa, að þessi löggjöf næði fram að ganga. En í grg. háskólans var það tekið fram, að ef frá slíkri löggjöf ætti að ganga, þá væri það þrennt sem háskólinn óskaði eftir, að breytt yrði. Í fyrsta lagi nafn stofnunarinnar, að það yrði óbreytt frá því, sem nú er og héti stofnunin Náttúrugripasafn. í öðru lagi, að til samræmis við það yrði breytt 5. gr. frv., sem fjallar um hlutverk stofnunarinnar, þannig að þar yrði tekið fram, að aðalverkefni stofnunarinnar væri náttúrugripasafnið, en náttúrurannsóknirnar kæmu þar í annað sæti. Í þriðja lagi var lögð áherzla á það, að 4. gr. frv. félli niður, en efni hennar er að skylda þá, sem við náttúrurannsóknir fást, hverjir sem það eru, til að hafa samráð við Náttúrufræðistofnunina, eins og nánar er tiltekið í gr. Um það hefur náðst samkomulag við forstöðumenn Náttúrugripasafnsins, sem undirbjuggu þessa löggjöf, að þessi gr. félli niður. Eins og fram kom hjá hv. frsm., flytur menntmn. sameiginlega till. um það. Þetta telur háskólinn að vísu til bóta, en þó ekki fullnægjandi.

Þær brtt., sem ég flyt hér, ganga þó ekki svo langt að breyta nafni stofnunarinnar þannig, að það verði áfram Náttúrugripasafn. Hins vegar hef ég tekið upp tillögur háskólaráðs um hlutverk stofnunarinnar, þannig að 1ögð sé megináherzla á það, að hlutverk stofnunarinnar sé að koma á fót náttúrugripasafni og nánar skilgreint, hvaða skyldum safnið skuli leggja áherzlu á að fullnægja. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að safnið annist náttúrurannsóknir, en þeim er þó nokkru þrengri stakkur sniðinn, en í hinu upphaflega frv.

Ég tel rétt, að það komi fram í þessu sambandi, að af Happdrætti háskólans hefur verið varið allmiklu fé til Náttúrugripasafnsins, en happdrættisféð hefur, eins og tilætlun hv. Alþingis var á sínum tíma, þegar til þess var stofnað, runnið fyrst og fremst til þarfa háskólans. Háskólinn telur sig því hafa siðferðilegan rétt til þess að hafa nokkur áhrif á það, hvert sé starfssvið þeirrar stofnunar, sem hann hefur þannig aðallega lagt fram fé til, að komið yrði á fót og í samræmi við þessar óskir háskólans, sem ég tel sanngjarnt, að orðið sé við, þá hef ég flutt þessar brtt. En hitt er rétt, sem fram kom hjá hv. frsm., að um þessi atriði er ekki samkomulag við þá, sem unnu að undirbúningi þessa frv., þannig að hver einstakur hv. þdm. verður þá að vega það og meta, hvort hann vill í þessu efni frekar gera til hæfis háskólanum eða Náttúrugripasafninu eða forstöðumönnum þess.