03.11.1964
Neðri deild: 10. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1618 í B-deild Alþingistíðinda. (1440)

30. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð út af því, sem hv. 4. þm. Reykn. sagði hér áðan.

Í sambandi við þá ráðstefnu, sem haldin var af raunvísindamönnunum, þá er það misskilningur hjá honum, að þeir hafi verið allir á eitt sáttir um það, að stjórnarfyrirkomulag væri bezt með því móti, eins og meiri hluti atvinnunefndar hafði lagt til, að það væru samtök atvinnurekenda, sem hefðu þar öll völd. Það var síður en svo, að raunvísindamenn okkar langaði til þess að heyra undir slíka stjórn eða slík stjórn ætti að ráða því, hverjir þar væru forstjórar. Það kom fram gagnrýni á þessu og var líka send til okkar í atvinnumálanefndinni frá ýmsum aðilum þar. Hins vegar eru skiptar skoðanir um þetta, líka þar, það er rétt að taka það fram.

En það er aðallega eitt atriði í ræðu hv. 4. þm. Reykn., sem ég vildi gera mjög alvarlega aths. við. Hann talar um þessar rannsóknastofnanir þannig, að það þurfi að tryggja sjálfsforræði þeirra, eins og hann orðaði það og tengsl við atvinnuvegina. En hvað er það, sem vakti fyrir meiri hl. atvinnumálanefndar, sem hann virðist alveg vera sammála, í sambandi við tillögur þess meiri hl.? Það, sem vakti fyrir með till. meiri hl. atvinnumálanefndarinnar, var raunverulega að tryggja atvinnurekendasamtökunum í landinu valdið yfir rannsóknastofnununum og það var það, sem ég var á móti. Þetta var rökstutt með því, að þessir atvinnuvegir ættu að leggja fram féð með þeirri skattlagningu, sem gert var ráð fyrir. Ég spurði þá, hvort ekki væri meiningin, að þessir atvinnurekendur fengju að velta því fé yfir á almenning með því að hækka verðið og það var að vísu gengið út frá því, þegar meiri hl. svaraði, að þeir fengju vafalaust að leggja það á, en hins vegar mundi verða svo frjáls verzlun hér á Íslandi bráðlega, að þeir yrðu að bera þetta sjálfir eða einhvern veginn eigi samkeppnin að geta risið undir því. M.ö.o.: þessar tilhneigingar á árinu 1960 eða fram að því, sem fram komu í atvinnumálanefnd og meiri hl. hennar var svo hrifinn af, voru í ætt við það, sem þá var að koma fram hjá vissum aðilum í þjóðfélaginu, að það ætti að taka frá ríkinu þær stofnanir, sem ríkið hefði og setja undir einstaka atvinnurekendur. Það var í sama stíl og Einar Sigurðsson, sem hér sat um tíma á þingi með okkur, skrifaði í Morgunblaðið 1959, að það ætti að taka ríkisfyrirtækin og selja þau í hendur samtökum atvinnurekenda. Á sama hátt lagði meiri hl. atvinnumálanefndar til að setja þessar stofnanir ríkisins raunverulega undir atvinnurekendasamtökin í landinu og það var það, sem ég var á móti. Og ég skoða það ekki sem neitt sjálfsforræði, heldur alveg þveröfugt. Ég álít, að það að setja rannsóknastofnanirnar undir atvinnurekendasamtökin í landinu þýði sama sem að gera þær háðar þeim, það þýði að gefa þessum atvinnurekendum og þeirra samtökum valdið yfir þessum rannsóknastofnunum og það þýði oft og tíðum að gera þær smærri í sniðum en ella mundi vera. Ég treysti ríkinu, hver sem í ríkisstj. er, betur til þess að setja samvizkusama embættismenn, sem stjórna slíku og geta gert það af stórhug og unnið að því, heldur en að þeir einstöku atvinnurekendur og þeirra samtök eigi að ráða því á hverjum tíma, hvaða menn séu ráðnir þarna forstjórar til nokkurra ára. Við þekkjum þann klíkuskap, sem í sambandi við slíkt er og álítum þess vegna, að það sé heppilegra, að ríkið, eins og það hefur haft með að gera stofnanir eins og Raforkumálastofnunina, sem hefur unnið einna bezt á þessum sviðum af íslenzkum ríkisstofnunum, þá álít ég, að það sé miklu betra að treysta á ríkið í þessum efnum. Og svo er það víðast hvar úti um heim. Hitt er aftur á móti rétt, að það eru ýmsir voldugir auðhringar erlendis, sem hafa voldugar rannsóknastofnanir og vinna þar líka um leið mjög mikil verk fyrir vísindin. Það eru forríkir auðhringar, eins og við skulum segja I. G. Farbenindustrie gerði í Þýzkalandi á sínum tíma og aðrir slíkir, sem vissulega hafa unnið að vísu fyrir hernaðinn um leið, en fyrir vísindin líka mjög stór verk. En þeir kosta þetta þá líka sjálfir. En hvert ríki hefur venjulega litið á það sem sitt verkefni, að rannsóknastofnanirnar skyldu heyra undir það, þeim skyldi séð fyrir nægu fé og sem starfsmenn við slíkar rannsóknastofnanir skyldu settir hinir færustu vísindamenn og reynt að gera þeim mögulegt að fá þar sem bezta starfsaðstöðu. Þess vegna held ég, að raunverulegt sjálfsforræði þessara rannsóknastofnana sé einmitt öruggast með því, að þær séu sjálfstæðar ríkisstofnanir, en ekki undir samtök atvinnurekenda gefnar. Tengsl við atvinnuvegina aftur á móti álít ég vera mjög nauðsynleg og þau álít ég rétt að skapa, eins og ég tók fram í ræðu minni áðan, með þeim ráðgjafarnefndum, sem þarna er gert ráð fyrir. Og ég vil undirstrika það, að ég álít það mjög nauðsynlegt og mjög stórt spor einmitt fram á við, að rannsóknastofnanir ríkisins hafi gott samband við bæði samtök atvinnurekenda í landinu, samtök verkalýðs og starfsmanna í landinu og samtök áhugamanna og þeirra, sem hagsmuna hafa að gæta á hverju slíku sviði. Ég álít það mjög heppilegt og álít það alveg nauðsynlegt og var því sammála frá upphafi að hafa það í lögum.

Ég held þess vegna, að það sé sjálfsagt, að menntmn, athugi þessa hluti alla saman mjög vel, líka þær uppástungur, sem hv. 4. þm. Reykn. kom með og við förum líka vandlega yfir það, sem samþ. var og rætt var á fundi raunvísindamanna í háskólanum og liggur fyrir fjölritað. En það er rétt, að þá komi líka fram þær till., sem þeir vísindamenn hafa gert, sem látið hafa í ljós skoðanir sínar á fyrirkomulaginu á þessu sviði. Það eru sem sé mjög skiptar skoðanir hjá þeim, en þær eru ekki aldeilis allar á þá leið að vera undir samtök atvinnurekenda gefin, eins og var raunverulega tilgangurinn með till. meiri hl. atvinnumálanefndar. Mér þykir satt að segja leitt, að einmitt hv. 4. þm. Reykn., — ég veit ekki, hvort hann hefur talað hér fyrir Framsfl. eða aðeins fyrir sjálfan sig, — mér þykir það mjög leitt, ef hann tekur afstöðu, sem ég mundi skoða hægra megin við það, sem hæstv. ríkisstj. þó hefur fengizt til að taka. Það væri ákaflega leiðinlegt, ef það yrði nú allt í einu svo, að Framsfl., sem við höfum nokkurn veginn getað treyst á, að væri þó vinstra megin með okkur hér í þinginu frekar en hitt, að hann væri allt í einu farinn að hoppa yfir og taka sér sæti hægra megin. Ég vil þess vegna vona, að hv. þm. Framsfl. átti sig nú á þessu, hvar hann muni eiga að vera, þegar til kemur.