08.05.1965
Efri deild: 85. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í B-deild Alþingistíðinda. (1462)

30. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir það, að hann hefur lýst skilningi sinum á nauðsyn þess, að þessum verkefnum í þágu sjávarútvegsins sé sinnt. Það, sem kann að greina á, er þá það, með hverjum hætti þessum verkefnum verður bezt sinnt í von um verulegan árangur. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé að öllu leyti eðlilegast, að stefnt sé að því nú þegar frá upphafi, að hér verði um að ræða sjálfstæða stofnun með sérstakri yfirstjórn, en get mjög vel fallizt á það, að þetta þróist í einum eða tveimur áföngum og byrjunarskrefin verði stigin innan Hafrannsóknastofnunarinnar, en þó þannig, að það verði sérstök deild, sem hefur þessi verkefni með höndum þegar frá upphafi, því að það er vitanlega tvennt ólíkt, tvenns konar menntun, sem til þarf að sinna þessum verkefnum, annars vegar þeim meginrannsóknum, sem Hafrannsóknastofnuninni eru ætlaðar, þ.e.a.s. rannsóknum á fiskigöngum og hafinu og lífinu þar og hins vegar á fjölmörgum tækniatriðum. Ég legg því á það mjög ríka áherzlu, ef hv. deild kæmist að þeirri niðurstöðu að athuguðu máli að fallast ekki á till. mína, að stefnt verði að því í áföngum, eins og þar er lagt til, að slík tæknistofnun komist á fót, en innan Hafrannsóknastofnunarinnar í fyrstu, þangað til þróunin hefur sýnt, að hin leiðin er sú endanlega og rétta, þegar fram í sækir.