30.04.1965
Efri deild: 77. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1656 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

199. mál, lántaka til vegaframkvæmda

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Vegáætlunin er vitanlega ekkert úrelt, þó að hér sé í einu atriði gert ráð fyrir að breyta henni. Vegáætlunin er þingsályktun, sem hv. Alþ. hefur afgr. Þessari þál. er nefnilega hægt að breyta með lögum, en ekki með öðrum hætti og ef hv. Alþ. vill ekki samþ. ábyrgðarheimild það háa, að hægt verði að steypa Keflavíkurveg, þá verður það vitanlega ekki gert. En með l. er hægt að breyta þál., jafnt vegáætlun sem öðrum þál. og vegáætlun verður ekki breytt með öðrum hætti, en með l. Þess vegna eru þessar 62.5 millj. ekki bindandi, ef Alþ. ákveður að hækka þessa upphæð með l. Um niðurskurð á vegafé, þá lá það fyrir, áður en vegáætlunin var afgreidd, að 47 millj. kr. framlagið, sem á fjárl. er, yrði lækkað um 20% . Þessu var lýst yfir í hv. fjvn., og fjvn. bókaði það, að framkvæmd á þessum niðurskurði skyldi þannig hagað, að vegamálastjóri hefði samráð við þm. viðkomandi kjördæma og ég vænti þess, að vegamálastjóra takist að fá upplýsingar hjá hv. þingmönnum um það, hvernig þeir vilji haga niðurskurðinum í kjördæmunum. Og ég hef bent á það, að niðurskurðurinn og framkvæmd hans, það eru tvö atriði: Annars vegar það, hvort eigi að skera niður og ég get vel skilið stjórnarandstöðuna og reyndar alla þm., að þeir eru á móti því, að niðurskurðurinn sé gerður, 20% af þessum 47 millj., en það er staðreynd. Svo er hins vegar framkvæmdin. Úr því að það er ákveðið, að þetta skuli gert, þá hljóta þm. að reyna að finna út það skásta í framkvæmdinni, þannig að það lá allt saman fyrir.

Kostnaðarmismunurinn á að steypa og malbika, það hefur verið fullyrt, að hann mundi nema á milli 40 og 50 millj. kr., eins og kom fram í vegáætluninni, þar sem dæmunum var stillt upp, annars vegar 62.5 millj. og hins vegar 110 millj., ef hann væri steyptur. Það lá fyrir.

En hin spurningin, um það, hversu langan tíma tæki að borga þennan mismun með vegtollinum og hvað hann þyrfti að vera hár, þær tölur hef ég nú ekki nákvæmlega hérna hjá mér og vil þess vegna ekki hafa þær yfir að þessu sinni, en ég tel sjálfsagt, að n. fái útreikning um það, — alveg sjálfsagt.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fjölyrða að svo komnu meira um þetta, en endurtek það, sem ég sagði áðan, að ég tel forsvaranlegt, að þrátt fyrir mína stefnu, sem ég heyrði að hv. 6. þm. Sunnl. er alveg sammála, að við eigum að leggja áherzlu á að fá slitlag sem víðast, þá vil ég samt sem áður leggja til, að Keflavíkurvegurinn verði steyptur, með tilliti til þess, að það hefur þegar verið steyptur helmingurinn af veginum og það er ákveðið að taka umferðargjald. Það er sérstaða, sem alveg réttiætir það að ljúka veginum með þeim hætti, sem byrjað var á að gera.