06.05.1965
Efri deild: 83. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1679 í B-deild Alþingistíðinda. (1556)

203. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Út af ummælum síðasta ræðumanns vil ég í fyrsta lagi taka það fram, að ein af ástæðunum til þess, að fjhn. gat ekki kallað þá aðila, sem hér áttu hlut að máli, á sinn fund, var sú, hve mjög hún er störfum hlaðin. Við sátum á samfelldum fundi í morgun frá kl. 9–12. Fyrir okkur lágu 7 mál, sem öllum var rekið á eftir að afgreidd yrðu og meðal þeirra stórmál. (Gripið fram í.) Ég efast um, að það hefði verið hægt að fá þessa menn til þess að fara á fætur um miðja nótt, hvort sem við hefðum talið það eftir okkur eða ekki. En meðal þeirra mála, sem n. hafði til meðferðar, voru stórmál eins og virkjunarmálin og skattamálin.

Ég hygg, að það hafi verið skoðun nm., að þegar svo stóð á eins og nú, að fyrir lá, að báðir aðilar óskuðu eindregið eftir því að fá þennan frest, þá væri, hvað sem öðru liði, rétt að verða við því, en í öðru lagi vorum við svo vel settir, að í n. á sæti einn úr samninganefnd hæstv. ríkisstj. um kjaramál opinberra starfsmanna, hv. 9. landsk. og hann gaf okkur þær upplýsingar, sem mér komu a. m. k. ekki á óvart, að ein af meginástæðunum til þess, að bandalagið óskaði einnig eftir þessum fresti, er sú, að þeir hafa till. sínar ekki tilbúnar. Það tekur mjög langan tíma og á því hef ég skilning, af því að ég er kunnugur þessum málum frá fornu fari, að samræma kröfur allra þeirra óteljandi starfsstétta, sem þar eiga hlut að máli. Að því er ég bezt veit, mun þetta hafa verið meginástæðan fyrir því, að frestsins er óskað. En hvað sem því líður, þá var það skoðun okkar, að hv. Alþ. bæri ekki að hindra það, að þessi frestur væri veittur, úr því að fyrir lá, að báðir aðilar óskuðu eftir því.