03.05.1965
Efri deild: 78. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1703 í B-deild Alþingistíðinda. (1573)

201. mál, Landsvirkjun

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Áður en ég vík beint að því frv., sem hér liggur fyrir, þykir mér ástæða til að fara nokkrum orðum um starfshætti hæstv. ríkisstj, og í því sambandi um vinnubrögð og vinnuskilyrði Alþingis, sem bókstaflega leiðir af þessum starfsháttum. Ég nefni þetta ekki eingöngu vegna þess stóra og viðamikla frv., sem verið er að leggja fram nú, þegar svo sem vika er til þingslita, heldur nefni ég það vegna þess, hvernig vinnubrögðum hefur verið háttað á þessu Alþingi, frá því að það hófst hinn 10. okt. s.l.

Ég skal ekki nota langan tíma til þess að rifja þetta upp, enda er það hv. alþm. harla kunnugt, að í upphafi þings eru lögð fram nokkur stjórnarfrv. og þeim er fljótlega vísað til n. Síðan má segja, að líði októbermánuður og nóvembermánuður í verkleysu að verulegu leyti hjá Alþ. og það er ekki fyrr en kemur að jólum, að tekinn er dálítill sprettur, aðallega til þess að afgr. fjárl. og eitthvað fátt annað, sem hæstv. ríkisstj. fannst ástæða til, söluskatt og eitthvað fleira, sem henni fannst ástæða til, að afgreitt væri, áður en jól og áramót færu í hönd.

Snemma í febrúar hófst síðan þinghaldið að nýju, eða svo átti það a.m.k. að heita. Það hefði mátt ætla, að hæstv. ríkisstj. hefði nú notað þennan biðtíma eftir föngum til þess að undirbúa mál, sem hún hugðist fá afgreidd á þinginu, en því var því miður ekki að heilsa. Nú hófst að heita mátti sama starfsleysið hjá Alþingi og í upphafi þings, vika leið eftir viku, án þess að stórmál, sem ýmist höfðu verið boðuð eða vitað var, að ætlunin var að leggja fyrir þingið, kæmu fram. Febrúarmánuður kvaddi á þennan hátt og marzmánuður sömuleiðis. Alþingi sat, ég vil segja oft aðgerðalítið.

Síðustu dagana fyrir páska var svo dálítið lífsmark hér á hv. Alþingi, fáein mál hlutu afgreiðslu. En nú hina síðustu daga og vikur, eftir að þingslit hafa verið ráðgerð, ég hygg hinn 13. þ. m., þá er því líkast sem þingið sé að færast í kaf í nýjum stjórnarfrv. Ríkisprentsmiðjan Gutenberg prentar dag og nótt og skjölin hlaðast hér upp og nú sá ég í dag, að prentsmiðjan hefur engan veginn við, því að það er farið að fjölrita stjórnarfrv. líka. Mér telst svo til, að síðustu tæpar þrjár vikurnar hafi verið lögð hér fram hvorki meira né minna, en annaðhvort 11 eða 12 ný stjórnarfrv. Sumt af þessu eru stórir bálkar, sem vissulega þyrfti tíma til þess að kanna, ef ætti að gera það eins og ástæða væri til og mér er ekki grunlaust um, að eitthvað af stjórnarfrv. sé jafnvel ókomið enn.

Og ég vil nú aðeins spyrja: Hvernig ætlast hæstv. ríkisstj. til þess, að Alþingi geti á eðlilegan hátt fjallað um málin, þegar þau berast ekki fyrr en þetta og ofan á þessi nýju stjórnarfrv. bætist það, að mál, sem jafnvel hafa — verið fyrir þingnefndum og einhverra hluta vegna hafa legið þar í salti, eru loksins að rakna við og koma t.d. til síðari d., þegar svo sem vika er eftir af þingtíma, jafnvel stórmál, langir bálkar, fjöldi greina? Ég veit ekki, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlast til þess, að Alþingi geti, þegar slík og því lík vinnubrögð eru viðhöfð, fjallað um mál á þann hátt, sem þinginu ber og því sæmir. Ég sé ekki betur, en að með þessu sé hæstv. ríkisstj. að gera Alþingi nær ómögulegt að standa þannig að afgreiðslu mála eins og ætlazt er til af þinginu og það eigi að innleiða þau vinnubrögð, að Alþingi hafi í rauninni lítið annað að gera en að segja já og amen við því, sem hæstv. ríkisstj. þóknast að leggja fyrir það. Ég vil fyrir mitt leyti mótmæla harðlega þessum og því líkum vinnubrögðum hæstv. ríkisstj., sem ég tel algerlega óhæf. Ég fæ ekki séð, að þingheimur geti tekið því með algerri þögn og þolinmæði, að þannig sé á rétt Alþingis gengið, rétt Alþingis til þess að kanna mál, til þess að afla nauðsynlegrar vitneskju, til þess að fjalla um þau í sæmilegu tómi.

Eins og ég sagði áðan, þá segi ég þetta ekki aðeins vegna þessa eina máls, sem hér er á dagskrá, en mér finnst, að þetta hátterni að láta Alþingi sitja nær aðgerðarlaust langtímum saman, en ætlast svo til, að það flaustri af fjölda mála undir þinglok, það nái ekki neinni átt. Þetta er að vísu ekki alveg nýtt fyrirbrigði hér á hv. Alþ., þetta er nokkuð gamall ósiður, en hann er stöðugt að færast í aukana, og ég held, að aldrei hafi keyrt eins um þverbak og nú.

Það frv., sem hér liggur fyrir til umr. og ég skal nú víkja að, er eitt af þeim stóru málum, sem boðað hafði verið og vitað var, að Alþingi kæmi til með að fjalla um, enda er það fyrir löngu orðið ljóst, að þörf var aðgerða í raforkumálum okkar. Og hér er um að ræða mál, sem er vissulega ekkert smámál á okkar mælikvarða og væri vissulega full ástæða til þess, að Alþingi hefði getað haft sæmilega rúman tíma til þess að kanna slíkt mál, því að þetta frv. um Landsvirkjun, sem hér liggur fyrir, hefur að geyma ýmis ákvæði, sem eru sum hver nýmæli og önnur, sem fjalla um stórframkvæmdir og miklar fjárhagslegar skuldbindingar. Í fyrsta lagi hefur þetta frv. að geyma ákvæði, sem gera mjög verulega breytingu á skipulagsmálum íslenzkra vatnsvirkjana. Í öðru lagi hefur það inni að halda nýmæli um eignaraðild helztu rafvirkjana hér á landi, bæði þeirra, sem þegar eru komnar, og væntanlega þá helztu virkjana í framtíðinni. Í þriðja lagi veitir þetta frv., ef að lögum verður óbreytt, ríkisstj. heimild til að reisa allt að 210 þús. kw raforkuver við Búrfell í Þjórsá, en þetta er stórum meiri raforka en öll sú raforka samanlögð, sem hefur verið beizluð á Íslandi fram á þennan dag. Sú raforka mun vera um 120 þús. kw. Í fjórða lagi heimilar frv. ríkisstj. að taka eða ábyrgjast lán til þessara framkvæmda, byrjunar framkvæmda, sem nema að fjárhæð rúmum 1.200 millj. kr., nánar tiltekið 1.204 millj. Í fimmta lagi eru í þessu frv. ákvæði um nýja viðmiðun raforkuverðs til almennra nota og þar er í rauninni um að ræða grundvallarbreytingu frá þeim ákvæðum eða þeim venjum, sem gilt hafa um það efni. í sjötta lagi er hér lagt til að taka upp þá nýbreytni að fella niður aðflutningsgjöld af efni og tækjum og vélum til hinnar fyrirhuguðu virkjunar. Og í sjöunda lagi er ráð fyrir því gert, að verulegur hluti hinnar væntanlegu raforku frá Búrfellsvirkjun kunni að verða seldur erlendum aðila, sem hyggst reisa hér alúminíumverksmiðju. Það er í fyrsta lagi vitað, að miklar umr. og langvinnar hafa farið fram um þetta mál og jafnframt skín það mjög í gegn, sérstaklega í grg. þessa frv., að þetta er ætlunin og það liggur á bak við og það er einnig vitað í þessu sambandi, að því aðeins munu samningar um slíka raforkusölu fást við hið erlenda fyrirtæki, að um verði að ræða sölu á raforku á tiltölulega lágu verði og til langs tíma.

Ég hef hér aðeins vikið að nokkrum þeim atriðum, sem mér virðist í tiltölulega fljótu bragði, að séu einna stærst í þessu frv. og mestrar athygli og athugunar verð. Margt er vitanlega ótalið, enda er skammt síðan þetta frv. sá hér dagsins ljós og þar af leiðandi hefur ekki gefizt mikill tími til þess að athuga það enn sem komið er, eins og ástæða væri vissulega til.

Það blandast ekki neinum hugur um, að nýjar framkvæmdir í virkjunarmálum eru orðnar næsta aðkallandi. Það liggur þegar fyrir athugun á því, að árleg aukning orkunotkunar fyrir íslenzkar þarfir einvörðungu er nú að ná því að vera um 10 þús. kw á ári og þessi orkunotkun fer býsna ört vaxandi. Eins og fram hefur komið og síðasti hv. ræðumaður skýrði frá í ræðu sinni, þá eru nú liðin sjö eða átta ár síðan síðast var hafizt handa um vatnsaflsvirkjun hér á landi og það er þess vegna staðreynd, að það er yfirvofandi skortur og raunar þegar orðinn skortur á rafmagni fyrir íslenzka notendur þess og sá skortur hlýtur að fara ört vaxandi á næstu árum. Það hefur því vissulega dregizt lengur, en góðu hófi gegnir að ráðast í nýjar virkjanir eða nýja virkjun með þarfir okkar íslendinga fyrir augum. Hæstv. núv. ríkisstj. hefur ekki — eða það hefur dregizt hjá henni að hafa það frumkvæði í þessum málum, sem hefði mátt ætlast til af henni og ég held, að ástæðan sé nokkuð augljós, þegar málið er skoðað dálítið. Hún er sú, að nokkuð mörg síðustu missiri hefur hæstv. ríkisstj. verið á linnulausum spretti við að leita uppi erlenda aðila, sem væru fáanlegir til þess að koma hér upp orkufrekum iðnaði, aðila sem vildu kaupa rafmagn á föstu verði til langs tíma og þess vegna hefur hæstv. ríkisstj, ekki linnt á sprettinum, að svo virðist sem hún hafi ekki trú á því, að við íslendingar getum ráðizt í virkjun, stórvirkjun, sem væri okkur sjálfum hagkvæm. Fram til þessa höfum við þó getað leyst okkar raforkumál sjálfir, en nú hin allra síðustu missiri virðist allt í einu vera svo komið að íslenzk stjórnarvöld telji okkur þetta ofviða. Það hefur komið fram hvað eftir annað í skrifum stjórnarblaðanna og í opinberum umr. stjórnarliða, að þeir telja okkur þetta nánast ofviða og þess vegna þurfi að leita eftir því, að aðilar, sem mundu koma hér upp stóriðju, erlendir aðilar, keyptu svo og svo mikið af því rafmagni, sem virkjað yrði í næstu virkjun. Og það er einmitt vafalaust vegna þessarar kenningar, sem ég tel hreina meinloku, að rannsóknum síðustu ára á virkjunarmöguleikum hefur fyrst og fremst verið beint að því, hvar hagkvæmast yrði að virkja með þessa sölumöguleika til erlends aðila fyrir augum og þetta hefur vafalaust dregið úr því, að þetta mál væri tekið fyrir á þann veg, að leitað væri beinlínis og eingöngu að lausn eða svari við þeirri spurningu, hvernig okkur hentaði bezt að leysa raforkumál okkar sjálfir, t.d. miðað við raforkuþörf okkar, áætlun um raforkuþörf okkar næstu 10–15 árin, svo að hóflega langt tímabil sé tekið.

Ég ætla, að þetta frv. og ýmis fskj. þess beri þess nokkurn vott, að í þessum rannsóknum, sérstaklega nú upp á síðkastið, hefur verið einblínt nokkuð mikið á þetta, hvað hentast sé með þá virkjun fyrir augum, sem væri til þess fallin að selja verulegan hluta orkunnar til erlends fyrirtækis. Og það er vitað og raunar viðurkennt, að ýmsir virkjunarmöguleikar aðrir hafa verið afgreiddir með hálfgerðu hraði, af því að þeir samrýmdust ekki þeim hugmyndum, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið með um sölu á orku til alúminíumverksmiðju.

Ég veit það vel, að í þeim áætlunum, sem fylgja þessu frv. er því slegið algerlega föstu, að Búrfellsvirkjun verði okkur Íslendingum hagkvæmust, þegar til lengdar lætur, þó að aðeins yrði um það að ræða, að orkan yrði seld íslenzkum kaupendum og ég skal út af fyrir sig ekkí draga í efa, að þessi niðurstaða sé rétt, ég hef engin skilyrði til að vefengja það. En þó er rétt að gera sér þess grein, að aths. og það alvarlegar aths. hafa verið gerðar við þessar áætlanir um Búrfellsvirkjun af sérfróðum mönnum á þessum sviðum og það hefur verið vefengt, að svo nákvæmar rannsóknir hafi legið fyrir um virkjunarkostnað, að traustar niðurstöður séu þegar fengnar.

Ég skal játa það, að ég hef enga sérþekkingu til þess að dæma neitt um slík mál sem þessi og ég býst við, að enginn hv. alþm.hæstv. ráðh. hafi það og ég skal ekki draga það í efa, að sú niðurstaða sé rétt, að Búrfellsvirkjun verði okkur Íslendingum hagkvæmust, þegar öll kurl koma til grafar. En það er þó engin ástæða til að láta eins og sú gagnrýni hafi ekki komið fram frá ábyrgum mönnum og sérfróðum í þeim efnum, að eitt og annað í sambandi við virkjunarmál Búrfells sé ekki fullrannsakað eða fullkannað enn þá og er þá sérstaklega á það bent, að ísmyndun og ísskrið sé mjög mikið í þessari á og er talað um, að það geti truflað rafmagnsframleiðslu þar tilfinnanlega. Og það mun nú, að ég hygg, orðið almennt viðurkennt af öllum sérfræðingum og þá jafnframt sérfræðingum hæstv. ríkisstj., að þarna sé atriði, sem gefa þarf fullkominn gaum og að gera verði ráð fyrir því, að grípa þurfi til jafnvel kostnaðarsamra aðgerða til þess að draga úr þessari hættu. Það er þess vegna ljóst, að vissulega hefði það verið æskilegt, að enn þá fyllri og ég vil segja traustari rannsóknir hefðu legið fyrir um Búrfellsvirkjun, áður en ákveðið væri að ráðast í hana. Hér er um svo mikið og kostnaðarsamt mannvirki að ræða, að það er ekki viturlegt að taka um það lokaákvarðanir, áður en niðurstöður t.d. um lausn ísvandamálsins eru fengnar. En jafnvel þótt niðurstaðan verði sú, að Búrfellsvirkjun reynist hagkvæmust og ódýrust allra þeirra virkjunarmöguleika, sem nú eru fyrir hendi og það má vel vera, að þetta sé og verði svo, þá tel ég það eðlilegt og raunar sjálfsagt frá mínu sjónarmiði, að virkjunarheimild sú, sem gefin yrði í þessari löggjöf, miðist við þarfir Íslendinga sjálfra og við þarfir þeirra einna. Það er vitanlega fjarri öllum sanni, að við Íslendingar getum ekki virkjað fallvötnin okkar til okkar eigin þarfa nú og í framtíðinni, alveg eins og við höfum áður gert á undanförnum áratugum stig af stigi, eftir því sem þörfin óx. Að vísu þurfum við að beizla raforku í sívaxandi mæli og þess vegna verðum við að leggja í stórvirkjanir og það vafalaust fyrr en síðar. En það er efalaust, að þjóðinni hefur vaxið svo fiskur um hrygg og við trúum, að svo verði áfram, að hún er fær um að leysa þennan vanda, þó að engir annarlegir hlutir komi til. Og þó að stundum sé látið í veðri vaka, að við séum nú allt í einu ekki orðnir færir um þetta og þess vegna sé nauðsynin svo brýn að fá erlenda stóriðju inn í landið til þess að hjálpa okkur að virkja, þá er það nú svo, að jafnvel í því frv., sem hér liggur fyrir, kemur nú a.m.k. á einum stað það fram, að hæstv. ríkisstj. er ekki, sem betur fer, svo vantrúuð á möguleika okkar sem maður skyldi halda af öllum þeim miklu blaðaskrifum stjórnarflokkanna um þessi virkjana- og alúmínmál, sem við höfum lesið undanfarin missiri, en í aths. við lagafrv. segir svo á einum stað: „Að hefja virkjun í stórám landsins er að vísu mikið átak, en þó tæplega meira nú, en fyrsta virkjun í Sogi var á sínum tíma.“ Ég endurtek: „En þó tæplega meira nú en fyrsta virkjun í Sogi var á sínum tíma.“ Að mínum dómi er þetta alveg rétt og í rauninni má það teljast fullgilt svar við þeirri staðhæfingu, sem maður hefur oft heyrt sér til sárrar raunar, að við séum ekki lengur um það færir að leysa okkar eigin virkjunarmál sjálfir án þess að tengja þá lausn við vægast sagt hæpna draumóra um blessun þess að fá hingað alúmínverksmiðju erlends auðfélags.

Frá mínu sjónarmiði er spurningin ekki sú, hvort við íslendingar eigum að virkja, hún er ekki heldur sú, fyrir hverja við eigum að virkja. Hún er einfaldlega þessi: Hvaða kostur er beztur í virkjunarmálum með tilliti til þarfa okkar Íslendinga einna? Eru þeir kostir, sem fyrir hendi eru, einhverjar af þeim hagfelldustu smærri virkjunum í fyrsta áfanga, sem kannaðar hafa verið og undirbúnar allverulega, í fyrsta áfanga, segi ég, meðan verið er að vinna tíma til að ganga frá fullnaðarrannsóknum á virkjun Búrfells og leysa þau tæknilegu vandamál, sem þeirri virkjun eru samfara? Eða er það fyrsti áfangi Búrfellsvirkjunar með orkuþörf okkar íslendinga einna fyrir augum? Ef svo er, sem ég skal ekki út af fyrir sig véfengja, að þetta sé bezti kosturinn og ódýrasta virkjunin, þá væri um að ræða 70 þús. kw virkjun, sem tekin yrði fyrir sem fyrsti áfangi í þarfir okkar Íslendinga sjálfra.

Ég hygg, að sérfróðir menn um virkjunarmál og þá sérstaklega um þau ísvandamál, sem ég hef rætt nokkuð um, séu mjög sammála um það, að þetta ísvandamál sé ekki mjög alvarlegt á fyrsta áfanga virkjunar, en það fari vaxandi við stærri áfanga þessarar virkjunar. Ég hygg, að það sé rétt og almennt viðurkennt, að svo sé. Og m.a. þess vegna dettur mér ekki í hug að neita þeim möguleika, að Búrfeilsvirkjun fyrir okkur sjálfa og eina geti verið hagkvæmasti og sé hagkvæmasti möguleikinn, sem við eigum í virkjunarmálum. En jafnvel þótt Búrfell yrði fyrir valinu og allt annað væri útilokað og ekki talin þörf á að bíða frekari rannsókna, þá tel ég ástæðulaust með öllu að veita að svo komnu máli virkjunarheimild fyrir stærri virkjun, en þeirri, sem við teldum eðlilegt og hagkvæmt að ráðast í nú á þessu stigi til þess að fullnægja eigin orkuþörfum nokkur næstu árin.

Eins og ég sagði áðan, þá hefur hæstv. ríkisstj. einblínt nokkuð fast við allan undirbúning þessa máls á þann möguleika að fá hingað erlendan auðhring til þess að setja upp alúmínverksmiðju, svo að hægt yrði að selja honum raforku, og ég hygg, að vegna þessarar áráttu hæstv. ríkisstj. hafi hún ekki sinnt því verkefni, a.m.k. ekki að neinu ráði, svo að fram hafi komið, sem ég hefði nú talið eðlilegt og sjálfsagt, sem einu af undanförum nýs áfanga í virkjunarmálum og ekki sízt stórs áfanga á okkar mælikvarða, en það er að kanna og láta kanna sem bezt alla þá möguleika, sem kynnu að finnast til aukinnar orkusölu handa íslenzkum aðilum, möguleika sem, m.a. af því að þeir eru ókannaðir, er ekki hægt að fullyrða neitt um nema kynnu a.m.k. að vera okkur eins hagkvæmir eða jafnvel hagkvæmari, en sú orkusala til alúmínverksmiðju, sem mest hefur verið talað um. Hefur til að mynda farið fram nokkur viðhlítandi rannsókn á því, hvort ekki sé hagkvæmt frá þjóðhagslegu sjónarmiði og frá sjónarmiði þeirra einstaklinga, sem það mál snertir, að nota rafmagn í miklu stærri stíl, í stórum stíl vil ég segja, til þess að hita upp hús? Hve mikið, hefur verið rannsakað, hve mikið raforka til hitunar má kosta, til þess að hún geti þó með árangri keppt við olíu og verið hagkvæmari en olía? Ég veit, að ýmsir líta svo á, að raforka til upphitunar mætti kosta þó nokkuð miklu meira, en það orkuverð er, sem rætt er um til alúmínbræðslu, og yrði hún þó ódýrari en olía. Hafa farið fram nokkrar verulegar rannsóknir á því, hvaða iðnfyrirtæki það eru, þ. á m. ef til vill einhver efnaiðnaður, sem Íslendingar sjálfir gætu komið upp og mundi þurfa á að halda raforku í nokkuð ríkum mæli? Ég er hræddur um, að það hafi ekki verið gert mjög mikið til að kanna þessa hlið málanna til neinnar hlítar a.m.k.

Ég ætla nú ekki á þessu stigi málsins að fara langt út í þá sálma að ræða um hugsanleg skipti þessarar fyrirhuguðu Landsvirkjunar við alúmínverksmiðju. En þar sem þetta frv. og þó sérstaklega grg. þess og sum fskj. bera þess öll merki, að það er stefnt af hálfu hæstv. ríkisstj. að slíkum viðskiptum og fyrirhugað, að stórvirkjun verði að verulegu leyti byggð í hennar þágu, þykist ég ekki geta látið hjá líða að gera við það efni örfáar aths.

Það er vitað og upplýst, að í ráði er að semja við þetta fyrirtæki, ef af verður, um fast raforkuverð til langs tíma og það hefur verið rætt í því sambandi um raforkuverð, sem er miklu lægra, en til greina getur komið, að raforka verði seld íslenzkum aðilum. því er haldið fram, að það raforkuverð, sem um hefur verið rætt í sambandi við alúmínverksmiðju, sé eitthvað hærra, en beint kostnaðarverð þess hluta virkjunarinnar, sem samsvaraði orkukaupum fyrirtækisins, en sú útkoma er fengin — mér liggur við að segja með dálítið óvenjulegum og jafnvel undarlegum hætti.

Það er þá í fyrsta lagi, eins og fram hefur komið hér í þessum umr. og frv. ber með sér, að allar áætlanir um stofnkostnað Búrfellsvirkjunar eru byggðar á því, að felld verði niður öll innflutningsgjöld á vélum og efnivörum til þessarar virkjunar. Ef þetta væri ekki gert, mundi mega reikna stofnkostnað virkjunarinnar um 20% hærri, en nú er áætlað. Hins vegar er hér um að ræða algert nýmæli í virkjunarmálum okkar. Það hefur ekki gerzt áður, að felld hafi verið niður innflutningsgjöld vegna virkjana og óneitanlega vekur það athygli, vil ég segja, að það skuli fyrst gert nú, þegar í ráði er eða a.m.k. mjög er um það rætt, að selja erlendu auðfélagi raforku í mjög stórum stíl. Það er þá fyrst sem uppi eru till. um það að reikna ekki með innflutningsgjöldum, þegar raforkan er verðlögð. Nú skal ég út af fyrir sig ekki mæla því í gegn, að horfið verði að þessu ráði, ef ríkið sjálft og Íslendingar einir ættu hér í hlut. Það er út af fyrir sig ekki óskynsamlegt, þegar um slíkar stórframkvæmdir í almannaþágu er að ræða og látum þá vera, þó að Reykjavíkurborg fengi í sinn hlut sem eigandi Landsvirkjunar að hálfu þessa eftirgjöf tolla af hálfu ríkisvaldsins. En þegar selja á erlendu auðfyrirtæki verulegan hluta raforkunnar, skiptir vitanlega miklu máli, hvort í sambandi við útreikninga á raforkuverði, kostnaðarverði raforku, er heldur sleppt eða reiknað með um 20 hundraðshlutum raunverulegs kostnaðarverðs.

Í öðru lagi vil ég vekja athygli á því, að í þessu frv. er farið fram á heimild, eins og þar segir, til að gera nauðsynlegar ráðstafanir á vatnasvæði Þjórsár ofan virkjunarinnar til þess að tryggja rekstur hennar. Ég held, að í þessum orðum sé það beinlínis viðurkennt, að sú gagnrýni, sem höfð hefur verið uppi um hættu á ísmyndunum þarna á þessu svæði, sé eða geti a.m.k. verið rétt. Enginn veit nú, hverjar ráðstafanir reynast nauðsynlegar eða kynnu að reynast nauðsynlegar í þessu sambandi, né hvað þær koma til með að kosta,og það er óneitanlega hætt við, að svo geti farið, að þær raski eitthvað og jafnvel meira en lítið þeim kostnaðaráætlunum, sem nú liggja fyrir, og þeim kostnaðaráætlunum, sem verðtilboðið til hins erlenda alúminhrings yrði byggt á, eins og nú horfa málin.

Í þriðja lagi vil ég benda á það, að kostnaður við það að virkja 105 þús. kw er í dag áætlaður rúmlega 1.200 millj. kr., eftir að innflutningstollar hafa þó verið felldir niður. Hér er vitanlega og eðlilega miðað við verðlag í landinu í dag eða nú um þessar mundir. En það er vitað, að framkvæmdum við þessa stórvirkjun verður ekki lokið fyrr en í árslok 1968 í fyrsta lagi og ef stærra er virkjað en 70 þús. kw. þá sennilega ekki fyrr en á miðju ári eða eftir mitt ár 1969, þ.e.a.s. tæpum 4 eða 41/2 ári eftir að sú áætlun er gerð, sem hér er miðað við og hér liggur fyrir. Hins vegar held ég, að engum detti það í hug, þegar miðað er við fengna reynslu og við ástandið eins og það er í dag, að byggingarkostnaður standi í stað hér á landi næstu 4–5 árin. Að undanförnu hefur byggingarkostnaður hækkað um 10% á ári eða því sem næst. Nú er að vísu ekki nema hluti af þeim virkjunarkostnaði, sem hér um ræðir, byggingarkostnaður, sem byggingarvísitala og kaupgjaldsvísitala hefði áhrif á, því að um það bil helmingur kostnaðarins mun vera innfluttar vélar. En væri nú svo afskaplega fjarri lagi samt, miðað við reynsluna og miðað við ástandið eins og það er í dag, að reikna með svo sem 15–20% heildarhækkun byggingarkostnaðar á því tímabili, sem hér er um að ræða, heildarhækkun kostnaðar við að reisa þetta mikla raforkuver? Ég held, að þetta þurfi að taka með í reikninginn og það þurfi í rauninni engan spámann til þess að sjá það, að með samningum, sem væru eitthvað líkir því, sem um hefur verið rætt í sambandi við sölu á raforku til alúmínverksmiðju, færi svo, að sú sala færi fram langt undir framleiðslukostnaðarverði, þegar allt væri tekið með í reikninginn og öll kurl kæmu til grafar.

Það eru örfá atriði önnur, sem ég vildi gera lítils háttar að umtalsefni. Ég vil þá víkja að því, að í sambandi við ákvörðun á orkuverði er ætlunin samkv. þessu frv. að fara inn á algerlega nýjar brautir. Allt fram til þessa hefur rafmagnsverð til almannaþarfa hér verið framleiðslukostnaðarverð að viðbættu mjög litlu álagi, jafnvel aðeins 5% álagi, ef ég man rétt. Það má sjálfsagt til sanns vegar færa, að þetta kunni að vera í lægsta lagi og ekki ástæða til að hafa álagið svo lágt, að raforkuverin geti ekki safnað einhverjum sjóðum. En nú virðist fyrirhugað að gera á þessu gerbreytingu. Í 11. gr. frv. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Landsvirkjunar ákveður að fengnum till. Efnahagsstofnunarinnar heildsöluverð Landsvirkjunar á raforku. Skal raforkuverðið við það miðað, að eðlilegur afrakstur fáist af því fjármagni, sem á hverjum tíma er bundið í rekstri fyrirtækisins. Einnig skal að því stefnt, að fyrirtækið skili nægilegum greiðsluafgangi, til þess að það geti jafnan með eigin fjármagni og hæfilegum lántökum tryggt notendum sínum næga raforku.“

Þetta eru að vísu dálítið rúm ákvæði og fer mjög eftir því, hvernig þeim er beitt, hversu til tekst um ákvörðun rafmagnsverðsins. En það er þó lögð á það allrík áherzla, að nú sé ætlunin að fara að safna í allgilda sjóði til þess að standa að einhverju eða töluverðu leyti straum af síðari virkjunum. Ég teldi vafasamt að gera þarna á mjög mikla og stórvægilega breytingu og ég held, að það mundi ekki vera heppilegt og verða mörgum örðugt, ef þessi stefnuyfirlýsing, sem ég vil svo orða, væri framkvæmd mjög bókstaflega og ákveðið að safna í stóra sjóði þegar eftir 1. áfanga, eftir að náð hefur verið 1. áfanga stórvirkjunar, því að ég fæ þá ekki betur séð, en að rafmagnsverð hlyti við það að hækka mjög verulega og íslenzkum rafmagnskaupendum yrði þá á næstu árum, eftir að slík virkjun væri komin á, ekki einungis gert að standa undir kostnaði af virkjuninni sjálfri, heldur einnig að svo og svo miklu leyti af væntanlegum kostnaði við næstu virkjun eða virkjanir þar á eftir. Verði svo raforkan til erlendrar alúmínverksmiðju jafnhliða seld jafnvel undir framleiðslukostnaðarverði, mundi sú spegilmynd, sem af þessu fengist, ekki vera sérstaklega glæsileg.

Ég vil að lokum fara fáeinum orðum um landsvirkjunarhugmyndina, eins og hún kemur fram og er mótuð í þessu frv. Ég tel það alveg vafalaust, að það hafi mikið til síns máls og sé að mörgu leyti, líklega flestu leyti, hagkvæmt að tengja sem mest orkuveitur, með því næst vafalaust bætt nýting orkunnar í flestum tilfellum og aukið öryggi og afleiðing slíkra samveitna er því eðlilega sú, að einn aðili eða fáir og helzt þegar fram í sækti einn aðili eigi og reki raforkuverin. Og samkv. því frv., sem hér liggur fyrir, skal það vera virkjunarfyrirtækið Landsvirkjun, eign ríkisins og Reykjavikurborgar, sem annast þetta hlutverk á mjög þýðingarmiklu svæði landsins nú þegar og möguleikar eru á því, að það nái síðar víðar um land og jafnvel um land allt. Þetta tel ég, að sé í sjálfu sér rétt og eðlileg stefna, að koma á smám saman og með eðlilegum hætti slíkri samveitu eða landsveitu. Hins vegar tel ég það allt hæpnara, hvort hér eigi að gilda einhver helmingaskiptaregla frá upphafi milli ríkisins og Reykjavíkurborgar, en fyrir því er gert ráð í frv., eins og þegar hefur verið rakið. Þessi helmingaskipti taka jafnt til eignarhluta í Landsvirkjun og svo til stjórnar hennar og svo hnífjöfn eiga þessi skipti að vera, að hlutlaus aðili á að skipa oddamann í stjórn fyrirtækisins, ef ekki næst um hann samkomulag. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta fyrirkomulag sé ekki eins heppilegt og hitt að stefna að því, að ríkið sjálft og eitt eigi og reki landsveituna og landsvirkjunina fyrirhuguðu. Ríkið tekur hvort eð er á sínar herðar allar ábyrgðir vegna fyrirtækisins. Það veitir því mikilvæg tollfríðindi o.s.frv. Og það er stefnt að því, að landsveitan geti orðið og verði þjónustufyrirtæki fyrir verulegan hluta landsins eða jafnvel landið allt og með tilliti til alls þessa virðist mér, að flest mæli með því, að hin fyrirhugaða landsveita verði ríkiseign eingöngu, en ekki sameign ríkisins og Reykjavíkurbæjar.

Að síðustu vildi ég aðeins vekja athygli á því, að þrátt fyrir ýmsar fróðlegar skýrslur og grg., sem fylgja þessu frv., virðist mér sitthvað óljósara, en skyldi og eitt mikilvægt atriði sé ég ekki betur, en skorti algerlega og það er rekstrarkostnaðaráætlun yfir allt þetta mannvirki til nokkurs tíma, t.d. fyrstu 10 árin, sem það kynni að starfa eða kæmi til með að starfa. Hér er vissulega ekki um neitt smáfyrirtæki að ræða, og það væri vitanlega full ástæða til þess, að slík rekstrarkostnaðaráætlun lægi fyrir og það enda þótt hafa yrði um hana alla eðlilega fyrirvara í sambandi við verðlagsbreytingar. Þetta frv. þarf vissulega að athugast vel. Það er margþætt. Það hefur að geyma ýmis nýmæli og sum eru þess eðlis, að þau orka tvímælis. Þess vegna er það miður en skyldi, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki hafa séð sér fært að leggja málið fyrir Alþ. nokkru fyrr, en raun hefur á orðið. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. hafi einhverjar afsakanir í þeim efnum, en þó býst ég nú við, að meginástæðan sé sú að hún hefur verið að eltast við draumóra sína um alúmínverksmiðju helzt til lengi.