10.05.1965
Neðri deild: 87. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1761 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

201. mál, Landsvirkjun

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég hygg, að engum muni blandast hugur um það, að ekki geti verið annað en samkomulag um, að nauðsynlegt sé nú að ráða fram úr virkjunarmálum, a.m.k. hér á Suðvesturlandi, til alllangrar frambúðar og að um nauðsyn þess að virkja nú verði ekki deilt. Raforkuþörfin vex mjög óðfluga og yfirlit síðustu tíu ára sýnir, að raforkunotkunin hefur á því tímabili fyllilega tvöfaldazt. Sérfræðingarnir segja okkur, að þessi þróun muni halda áfram, þannig að á næstu tíu árum þurfi jafnmikla orku til viðbótar eins og alla þá orku, sem fyrir er í landinu nú virkjuð, svo að hér er um sýnilegt stórmál að ræða, sem nauðsynlegt er að ráða bót á, eins og ég sagði, og alls ekki vonum fyrr, að hæstv. ríkisstj. leggi fram tillögur sínar til úrlausnar því.

Sogið er nú fullvirkjað, eins og hæstv. ráðh. nefndi og raforkuskortur í Reykjavík á næsta leiti. Ég hygg, að sú raforka, sem fyrir hendi er, muni aðeins duga fram á árið 1967 og þó er hún raunar þegar orðin of lítil, ef haft er í huga, að Áburðarverksmiðjan mun ekki hafa fengið allt það afl, sem hún hefur óskað og gæti tekið við.

Ég veit, að þessi mál hafa verið til athugunar nokkuð langan tíma og margir staðir hafa komið til greina við fyrstu sýn. Hæstv. ráðh. gerði grein fyrir því hér áðan og við höfum fengið aðgang að því í fskj. með frv. um Landsvirkjun, svo að ég sé ekki ástæðu til þess að fara að tala langt mál um það, hverjir þeir séu, en þeir sérfræðingar, sem starfað hafa að þessum málum, hafa lagt í það mikið verk og tekið þá alla til athugunar og öll þau vandamál, sem þar koma fyrir, hvert á sínum stað.

Nú er upplýst, að til athugunar á Búrfelli í Þjórsá eða virkjun þar hafi þegar verið varið 35–40 millj. kr., þannig að augljóst er, að hér er ekki um órannsakað mál að ræða. Það hefur verið mikið rannsakað og það hafa að vísu komið fram talsverðir örðugleikar á virkjun þarna, en þó alls ekki meiri en svo, að þeir sérfræðingar, sem álit gefa og prentað er með frv., og þeir, sem komið hafa til viðtals við fjhn. beggja d., þegar sameiginlegur fundur var haldinn um málið, þeir telja þá ekki óyfirstíganlega og samhljóða álit þeirra er það, að Búrfellsvirkjun, þrátt fyrir þau vandkvæði, sem játað er, að séu þar fyrir hendi, sé hagkvæmasta virkjun, sem völ er á hér á Suðvesturlandi a.m.k., jafnvel á öllu landinu.

Þessi skoðun kemur glögglega fram, t.d. af álíti raforkumálastjóra, sem prentað er sem fskj. 2 og niðurstöðuna er að finna á bls. 19, þar sem segir, með leyfi forseta, að „niðurstaðan er, að Búrfellsvirkjun án alúminíumbræðslu sé erfið fyrstu árin samanborið við smávirkjanir, en ólíkt betri, þegar fram í sækir, eða sem svarar 360 millj. kr. á sextán árum. Að sjálfsögðu má fara millileið og reikna með t.d. tveimur smávirkjunum í stað þriggja, áður en ráðizt er í Búrfellsvirkjun og bætir það smávirkjanaleiðina. Á hinn bóginn mundi sú millileið ekki létta byrjunarörðugleika Búrfellsvirkjunar það mikið, að ekki sé réttara að ráðast í hana strax, ef nægileg lán eru fáanleg.“

Til rannsókna á virkjunarmöguleikum hefur enn fremur verið leitað til erlends fyrirtækis. Það er bandaríska fyrirtækið Harza, sem starfað hefur að þessum rannsóknum hér allmörg undanfarin ár. Niðurstöðu þess er að finna á bls. 41 í aths. með frv. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á grundvelli verkfræðilegra athugana og áætlana vorra um virkjun vatnsafls á Íslandi undanfarin sjö ár höfum við komizt að þeirri niðurstöðu, að eðlilegt sé og rökrétt að velja Búrfell sem næsta virkjunarstað til að fullnægja orkuþörf Suðurvesturlands.“

Á áliti þessara sérfræðinga, sem unnið hafa að rannsóknum virkjunaraðstöðunnar hér, byggjum við framsóknarmenn hér á Alþingi þá afstöðu okkar að vera því fylgjandi, að nú sé ráðizt í virkjun Búrfells. Við teljum, eða a.m.k. tel ég fyrir mitt leyti, að við höfum ekki aðstöðu til þess að rengja það álit, sem þessir sérfræðingar eftir miklar og víðtækar rannsóknir hafa látið frá sér fara. Aðrir sérfræðingar hafa bent á, að þarna væri við erfiðleika að etja. Það er játað, en um leið upplýst af raforkumálastjóra, að þeir séu ekki meiri en svo, að þrátt fyrir þá sé hann fullviss um það, að Búrfellsvirkjunin sé hagstæðasta leiðin.

Um það frv., sem hér hefur verið lagt fyrir hv. Alþingi, er sitthvað að segja. Ég tel, að á því mætti gera og þyrfti að gera ýmsar lagfæringar til þess að það kæmi að fullu gagni í því atriði, sem því er ætlað að leysa og það er að verða landsvirkjun. Frv. er kallað: „Frv. til l. um Landsvirkjun,“ og það leiðir vitanlega hugann að því, að það sé rafmagnsþörf landsins alls, sem þessu fyrirtæki er ætlað að sinna og leysa.

Í 3. gr. frv. er fjallað um hlutverk Landsvirkjunar. Við meðferð málsins í hv. Ed. var gerð sú breyting á 3. gr., að í stað þess, að áður sagði: „Sýni áætlanir fyrirtækisins, að fjárhagslega sé hagkvæmt að leggja aðalorkuveitur frá orkuverum Landsvirkjunar“ o.s.frv., hljóðar greinin nú þannig: „Sýni áætlanir, að hagkvæmt sé að leggja aðalorkuveitur“ o.s.frv. Hæstv. raforkumálaráðh. minntist á þessa breytingu hér og taldi hana smávægilega orðalagsbreytingu. Þar er ég ekki á sama máli. Ég tel, að þetta sé mikilsverð efnisbreyting, eigi að vera það og sé það eftir orðanna hljóðan. Með þessari breytingu, með því að fella það niður, að það þurfi að vera fjárhagslega hagkvæmt að dómi fyrirtækisins að ráðast í þau verkefni, sem þar eru nánar skilgreind, þá er nú horfið frá því gróðasjónarmiði, sem einkenndi þetta frv. í upphafi og að því, að frv. og fyrirtækinu sé ætlað að leysa raforkuþörf landsins alls til frambúðar. Að vísu teldi ég, að þessa grein þyrfti að orða öðruvísi og enn þá ákveðnar og ég geri ráð fyrir því að flytja um það brtt., ef ekki verður gengið að því í n., en ég tel þó, að hér hafi orðið mikilsverð og góð breyting á frv. í meðferð þess á Alþingi og það ber að geta þess, sem vel er gert. En Landsvirkjun ætti að stefna að því að fullnægja raforkuþörf allra landsmanna og að reisa í því skyni aflstöðvar og aðalorkuveitur eftir nánari ákvörðun Alþingis.

Á frv., þegar það var til meðferðar í Ed., hefur enn fremur verið gerð sú breyt. við 2. gr., að þar er samráði við raforkumálastjórn bætt við. Ég tel einnig, að það sé til mjög mikilla bóta, að það eigi ekki að vera stjórn Landsvirkjunar ein, sem hefur úrslitavald um það, hvaða virkjanir verði ráðizt í og hvaða veitur verði tengdar, en ég tel þó, að lengra beri að ganga í þessu og undirstrika það, að það sé Alþingi, sem hér eftir eins og hingað til ráði stefnunni í raforkumálum. Hæstv. ráðh. sagði, og ég tel það mikils virði, að það væri meining sín og þeirra, sem að frv. stæðu, að sú tilhögun yrði áfram, eins og verið hefur, að Alþingi marki stefnuna, en mér finnst, að úr því að það er allra skilningur, þá sé rétt að orða það þannig, að það geti ekki farið á milli mála, hver tilgangurinn með frv. er.

Í sambandi við þetta mál er enn fremur ástæða til þess að minna á, að í mörg ár hefur það verið stefnuskráratriði og baráttumál Framsfl. hér á hv. Alþingi, að skipun raforkumálanna yrði með þeim hætti, að verð á raforku væri hið sama um allt land. Þetta mál hlýtur að vakna til nýrrar endurskoðunar nú, þegar stórt átak, stærsta átak, sem nokkru sinni hefur verið gert í virkjunarmálum landsins, er til umr. á hv. Alþingi.

Ég tel, að hér sé um sanngirnismál að ræða, og ef menn meina eitthvað með því, sem þeir tala um, að það beri að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, þá er hér einstakt tækifæri fyrir þá, sem ráða, til þess að hrinda í framkvæmd einhverjum hluta af þeirri hugsjón sinni, því að það er og hlýtur að hafa áhrif, stórkostleg áhrif, eins og hæstv. raforkumrh. sagði, á tilkostnaðinn við að lifa, hvert raforkuverðið er. Enn fremur getur það í mörgum tilfellum algerlega haft úrslitaáhrif um það, hvort fólk helzt við í sínu byggðarlagi, hvort það hefur aðgang að ljósi og hita frá rafmagni eða það þarf áfram að búa við frumstæðari hætti í þessum efnum.

Talað er um, að það sé ekki hægt að tengja þetta mál, sama verð á raforku um allt land, við frv. um landsvirkjun og það þurfi nánari athugunar við. Það má vel vera, að það kosti einhverja athugun, en ég á ekki von á, að sú athugun verði látin fara fram nú, frekar en verið hefur undanfarin öll þessi ár, nema það komi yfirlýsing frá Alþingi um, að það vilji, að þessi mál séu tekin til athugunar og það vilji, að stefnt sé að því, að sama raforkuverð gildi um allt land, svo að ef menn eru ekki tilbúnir til þess að orða þau fyrirmæli eða reglur, þá er þó a.m.k. hægt að setja inn í þetta mál, að stefnt skuli að þessu lokamarki og ég tel, að það væri rétt fyrir hv. Alþingi að gera það nú við meðferð málsins hér.

Mönnum hefur ekki alveg komið saman um það, hversu stórt bæri að virkja nú í Búrfelli, og hafa komið fram brtt. á hv. Alþ. í Ed. um að takmarka heimildina nú við minni virkjun, t.d. 70 þús. kw. Það er skoðun mín hins vegar, að raforkuþörfin aukist svo ört hér, að við verðum, áður en mjög langt um líður, þurfandi fyrir alla þá orku, sem hægt er að fá úr Búrfelli og þess vegna sé ekki rétt að takmarka stærðina nú á þessu stigi. Það er líka augljóst, að við verðum að stefna að því að fullvirkja Búrfell, frekar en að fara í aðrar virkjanir jafnframt því, vegna þess að verulegur hluti af ávinningnum við að virkja þennan stað umfram aðra liggur einmitt í því, hvað stærri virkjun þar er miklu hagkvæmari þannig að það viðbótarafl, sem fæst, eftir að byrjað er að virkja, það er svo tiltölulega miklu ódýrara og miklu hagkvæmara að virkja það. Þess vegna tel ég, að með hliðsjón af þessu tvennu sé ekki ástæða til þess að takmarka heimildina í lögum. Vitaskuld verður ekki notað meira af þeirri heimild en þörf er fyrir hverju sinni, og þess vegna sé ég ekki ástæðu til þess að vera að flytja brtt. um það.

En í sambandi við þetta er rétt að koma að því, að ýmsir aðilar hafa endilega viljað tengja rafvirkjunarmálið við annað mál, við stóriðju á Íslandi og þá alveg sérstaklega stóriðju sem framkvæmd er fyrir erlent fjármagn. Ég vil taka það skýrt fram og undirstrika það, að ég tel, að hér sé um tvö óskyld mál að ræða. Ef samningsviðræður við útlenda aðila leiða til jákvæðs árangurs, þá verður vitanlega að virkja stærra, en annars mundi. En þá fyrst, þegar sýnt er, að hagstæðir samningar náist og samningar, sem Alþ. hefur fallizt á, þá fyrst verður virkjað með hliðsjón af alúminíumvinnslu erlendra aðila. Ég tel, að það sé svo augljóst mál, að ekki þurfi að fara um það mörgum orðum, að allir samningar þess eðlis séu ógildir og markleysa, fyrr en Alþ. hefur fyrir fram gefið heimild til þess að gera þá. Ég hefði talið rétt, að Alþ. undirstrikaði þennan skilning sinn með því að breyta 11. gr. frv. um Landsvirkjun í þá átt, að þar sé þetta skýrum stöfum sagt, t.d. einhvern veginn svona: Til orkusölusamninga til langs tíma við iðjufyrirtæki, sem nota meir en 100 millj. kwst. á ári, þarf Landsvirkjun samþykki Alþ. — Og ég geri ráð fyrir því að flytja brtt. í þá átt, ef ekki fæst samstaða um það í fjhn. við stjórnarmeirihl. að taka þessa brtt. þar inn.

Í 11. gr. frv. er enn fremur fjallað um raforkuverðið og fyrirmæli um það, hvernig raforkuverð skuli ákveðið. Þar segir, að raforkuverðið skuli við það miðað, að eðlilegur afrakstur fáist af því fjármagni, sem á hverjum tíma er bundið í rekstri fyrirtækisins og einnig að stefnt skuli að því, að fyrirtækið skili nægilegum greiðsluafgöngum til þess að það geti með eigin fjármagni, eins og þar stendur, og hæfilegum lántökum tryggt notendum sínum nægilega raforku.

Hér er brugðið nokkuð á annað ráð, en hingað til hefur tíðkazt um verðlagningu frá raforkuverum ríkisins og Reykjavíkurborgar, þar sem um sameign hefur verið að ræða, svo sem verið hefur um Sogsvirkjunina. Í gildandi l. er raforkuverðið þaðan ákveðið framleiðslukostnaðarverð að viðbættum 5%. Sú stefnubreyting, sem hér er boðuð, er rökstudd með því, að þau 5%, sem Sogsvirkjunin hafi haft umfram framleiðslukostnað, hafi ekki nægt henni til að mynda neina sjóði til áframhaldandi virkjunar, þannig að hún sé nú fjárvana og allt fjármagn, sem þurfi til virkjunar, verði að fá að láni og það sé skynsamlegt að breyta þessu og leyfa virkjununum að safna sjóðum.

Það getur út af fyrir sig verið skynsamleg afstaða að selja raforku með einhverju því verði, að nokkur sjóðsmyndun geti orðið. Það má vel vera, að 5% álag sé of lítið. Ég hef ekki aðstöðu til að dæma um það. En augljóslega hlýtur að vera hægt að tiltaka prósentuna eitthvað hærri, þannig að tryggt væri, að sjóðsmyndun gæti átt sér stað, án þess að raforkuverðið væri algerlega ótakmarkað af hendi Alþ. eða laganna.

Mér finnst, að fyrirtæki, sem hleypt er inn á jafnstóran markað og hér er um að ræða, allan raforkumarkað Suðvesturlands og víðar, þegar frá liða stundir, það sé ekki rétt stefna að veita því einkaaðstöðu til þess sjálft að verðleggja framleiðslu sína, að það eigi að koma til einhver annar aðili, sem hafi um það að segja, hvað raforkuverðið skuli vera. Og ég hefði viljað gera það að tillögu minni sem lágmarkstryggingu, lágmarkshemil í þessu sambandi, að gjaldskrá þessarar nýju Landsvirkjunar yrði eins og aðrar gjaldskrár að hljóta staðfestingu raforkumrh. Það tel ég algert lágmark og með því að nokkru leyti tryggt, að það verði fjallað um það mál annars staðar, en í stjórn fyrirtækisins og þannig verði tryggt, að það gróðasjónarmið, sem ef að líkum lætur verður nokkuð ráðandi í stjórn svona fyrirtækis, hafi ekki eitt úrslitavaldið um það, hvað fólk þarf að borga fyrir rafmagnið á því svæði, sem Landsvirkjun tekur yfir. Það hlýtur að vera hægt, eins og ég sagði áðan, að gera sér grein fyrir, hvaða álagsprósentu slíkt fyrirtæki þyrfti að fá til þess að safna tilteknum sjóðum á tilteknu tímabili. Ég er viss um það, að áætlun um þetta hefur verið gerð, en þrátt fyrir tilmæli fjhn.- manna á sameiginlegum fundum deildanna hefur þessi áætlun ekki enn þá verið sýnd okkur. Ég tel það miður farið. Ég tel, að það sé ekki rétt af hæstv. ríkisstj. og einstökum ráðh. að halda fyrir alþm., þeim sem sérstaklega eru til þess kjörnir að fjalla um tiltekin mál, upplýsingum, sem skipta máli um það, sem er til meðferðar.

Ég minnist þess sérstaklega, að fyrir örfáum dögum var verið að afgreiða hér frv. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að taka innlent lán, sem átti að ganga til þess að framkvæma framkvæmdaáætlun hæstv. ríkisstj. fyrir árið, sem nú er að líða og nokkrir þm. báru fram, að því er mér finnst, þá sjálfsögðu ósk, að þeir fengju nokkru nánari skilgreiningu á því, til hvers ætti að nota það fjármagn, sem hér var um að tefla og báðu um það í n. og eins hér á hv. Alþ. að fá að sjá þessa framkvæmdaáætlun. Þessu var neitað, og við urðum að taka afstöðu til málsins án þess að hafa séð hana. En nokkrum dögum síðar var þessari sömu áætlun útbýtt hér á hv. Alþ. Þá kom það berlega í ljós, að hún var til, eins og vitanlega lá í augum uppi, því að það er ekki hægt að fara fram á lánsheimild til tiltekinnar framkvæmdar, án þess að hafa sjálfur gert sér grein fyrir, hvað á að gera. Svona stirfni finnst mér ástæðulaus og ég vildi óska þess, að það yrði þá á næsta þingi, það verður tæplega á þessu, tekin upp önnur vinnubrögð í þessu efni og þm. gefinn kostur á að kynna sér þær áætlanir, sem fyrir hendi eru og frv. byggjast að nokkru leyti á og skipta máli um afgreiðslu þeirra.

Í 13. gr. frv. er það nýmæli, að við virkjun Landsvirkjunarinnar við Búrfell skuli fella niður aðflutningsgjald og söluskatt af efni, tækjum og vélum til virkjunarinnar og til eldsneytisaflstöðva Landsvirkjunarinnar. Hér er einnig farið inn á nýja braut. Hér á að fella niður þau aðflutningsgjöld, sem allar aðrar virkjanir hafa fram að þessu orðið að greiða.

Ég get vel látið mér detta það í hug, að þetta sé ekki óskynsamleg leið til þess að halda niðri raforkuverði í landinu og ef hæstv. ríkisstj. hefur hugsað sér að gera það með þessu móti, þá er það vitanlega ekkert síður hægt, en með einhverju öðru móti, sem mundi kannske verða fyrirhafnarmeira í framkvæmd. En jafnsjálfsagt er þá auðvitað hitt, að allar virkjanir, sem virkjaðar verða hér eftir, njóti þessara sömu réttinda, og í frv. um Laxárvirkjun, sem lagt hefur verið fyrir samtímis frv. um Landsvirkjun, þá er þetta líka svo, þar er gert ráð fyrir því, að Laxárvirkjun þurfi ekki að greiða þessi aðflutningsgjöld. En þetta styður vitanlega enn þá frekar þá kröfu, sem ég lýsti hér áðan, að raforkuverðið um allt land verði jafnt, vegna þess að með þessu, með niðurfellingu aðflutningsgjalda á stórri virkjun á Suðvesturlandi er vitanlega tekið úr sameiginlegum sjóðum allra landsmanna fjármagn til þess að lækka raforkuverðið hér. Þess vegna er það beinlínis hluti af því máli, sem hér er til meðferðar, að jafna raforkuverðið einmitt nú og allt tal um það, að slík ákvæði eigi ekki heima í þessu frv., er hreinn fyrirsláttur. Það á einmitt heima hér. Það er einmitt verið að lækka aðflutningsgjöldin á tiltekinni virkjun fyrir stórt landssvæði á kostnað allra landsmanna, og ég tel það sanngirnismál, að móti því verði þeim, sem ekki búa við þessi kjör, hjálpað til þess að fá raforku við því sama verði og við hér sunnanlands eigum kost á. Og ég tel, að þetta eigi ríkissjóður að gera og honum beri skylda til þess og ég tel, að hann geti það alveg eins vel, eins og að sjá af þeim tekjum, sem ríkissjóður mundi annars fá af aðflutningsgjöldum þessara véla og tækja. Og hér er um miklu minni fjárhæð að ræða, en þessa niðurfellingu. Ég þori ekki að fullyrða, af því að ég hef ekki reiknað, svo að öruggt sé, hversu miklu það mundi nema, hvað það mundi kosta ríkissjóð mikið að greiða þann mismun, sem yrði við það, að allir fengju raforkuna við sama verði og við Reykvíkingar fáum hana eða komum til með að fá hana frá Landsvirkjuninni. En ég fullyrði, að það er aðeins brot af þeim aðflutningsgjöldum, sem samkv. 13. gr. frv. er ráðgert að fella niður.

Ég skal ekki, herra forseti, vera að lengja þessar umr. Málið er, eins og hæstv. ráðh. sagði, nokkuð rætt, bæði hér á hv. Alþ. og eins manna á meðal og í blöðum og skal ég því láta þessi orð nægja nú við 1. umr. Ég vil aðeins draga saman það, sem ég sagði, að ég tel, að á grundvelli þeirra rannsókna, sem farið hafa fram, sé tryggt, að Búrfellsvirkjun sé hagkvæmasta leiðin, sem völ er á og þess vegna beri að virkja við Búrfell og ég vil undirstrika það, að með því er engin afstaða tekin til annarra mála og ekki nein afstaða til svokallaðs stóriðjumáls með erlendu fjármagni, því að áður en slíkur samningur er gerður, hlýtur samþykki Alþ. að liggja fyrir, enda segir svo berum orðum í skýrslu ríkisstj. um það mál á bls. 12, að ríkisstj. muni gefa þm. kost á að fylgjast með framvindu málsins, en leiði samningar til árangurs, má vænta þess, að samningur um raforkusölu til hins erlenda fyrirtækis og aðstöðu þess að öðru leyti hér á landi verði lagður fyrir Alþ. seint á þessu ári. Það er því hafið yfir allan vafa, að hér er um tvö mál að ræða, og ég mæli fyrir mitt leyti með því, að við Búrfell sé virkjað, en tek ekki þar með neina afstöðu til stóriðjumálsins.