13.04.1965
Neðri deild: 68. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1817 í B-deild Alþingistíðinda. (1633)

181. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það væri freistandi í sambandi við þetta frv. að ræða nokkuð almennt um skattamálastefnu og skatta hæstv. ríkisstj., en þar sem þetta er hins vegar seinasti þingdagurinn fyrir páska fríið og ætlunin er að afgreiða nokkur mál hér á eftir, skal ég sleppa því að sinni, en minnast aðeins nokkrum orðum á það frv., sem hér liggur fyrir.

Ég held, að það megi óhætt segja það um það frv., sem hér er til umr. og svipað frv., sem var rétt áðan til umr. í Ed. um tekjuskattinn, — ég hygg, að það sé óhætt að segja það um þessi frv. bæði, að þau valda verulegum vonbrigðum. Menn munu minnast þess, að þegar kunnugt var um hinar miklu skattaálögur á s.l. sumri, voru gefin mjög hátíðleg loforð um það, bæði af hálfu hæstv. ríkisstj. og stuðningsmanna hennar, að nú skyldu skatta- og útsvarsl. tekin til mjög rækilegrar endurskoðunar og tekjuskattur og útsvör lækkuð verulega frá því, sem verið hafði á s.l. ári. Nú blasir það hins vegar við, hverjar efndirnar verða á þessum loforðum, a.m.k. eins og hæstv. ríkisstj. hugsar sér þær og efndirnar eru þá í stuttu máli þær, að tekjuskattur og sérstaklega útsvar munu hækka í krónutölu frá því, sem var á s.l. ári, þó að tekjurnar hafi varla hækkað meira, en sem nemur dýrtíðaraukningunni. Þetta þýðir það, að á þessu ári mega menn búast við því að greiða talsvert hærri útsvör í krónutölu, en þeir gerðu á s.l. ári, án þess að nokkuð liggi fyrir um það, að gjaldgeta manna verði meiri í ár, en hún var í fyrra. Þvert á móti bendir ýmislegt til þess að óbreyttum ástæðum a.m.k., að gjaldgetan sé heldur þrengri nú, en var jafnvel á s.l. ári, sem stafar m.a. af hinum þungu skattabyrðum, sem menn urðu að greiða s.l. ár og sumir að safna skuldum þess vegna, einnig vegna þess, að ýmsir aðrir skattar hafa verið hækkaðir, sem leggjast á almenning og minni ég þar m.a. á, að fasteignagjöldin hafa hækkað, a.m.k. tvöfaldazt, í mjög mörgum bæjarfélögum og því fylgja að sjálfsögðu auknar álögur fyrir fjölmarga skattgreiðendur. En það, sem kemur til með að liggja hér fyrir, er það, að efndirnar á þessum hátíðlegu loforðum um skatta- og útsvarslækkun, sem gefin voru af hálfu stjórnarflokkanna á s.l. sumri, verða þær, að skattarnir eða a.m.k. útsvörin koma í velflestum tilfellum til þess að hækka í krónutölu, án þess að nokkrar sannanir liggi fyrir um það, að gjaldgeta viðkomandi skattþegna hafi nokkuð aukizt. Ég held, að það sé ekki sterkt til orða tekið, að þessar efndir á þessum loforðum ríkisstj. komi til með að valda verulegum vonbrigðum. Ekki sízt held ég, að þessi vonbrigði verði almenn í sambandi við útsvörin, vegna þess að þau eru þær álögur, sem leggjast hvað tilfinnanlegast á skattgreiðendur með lægri tekjur og miðlungstekjur, einmitt þá skattgreiðendur, sem helzt hefðu haft þörf fyrir það að fá verulega lækkun. Ég skal hins vegar viðurkenna það, sem verður haldið fram sem rökstuðningi fyrir því, að þessar álögur eru hafðar svona háar áfram, að sveitarfélögin þurfa að sjálfsögðu á verulegum tekjum að halda. Og í sambandi við útsvörin er það orðin brýn nauðsyn, að tekjustofnar og raunar líka verkefni sveitarfélaganna verði tekin til nýrrar og ýtarlegrar endurskoðunar. Ef það er ætlun manna að láta halda sveitarfélögunum áfram í því horfi, sem nú er og jafnvel frekar efla þau og styrkja, eins og ég persónulega álít, að sé rétt, verður það að sjálfsögðu ekki gert á annan veg, en sjá þeim fyrir sæmilegum tekjustofni, svo að þau geti risið undir þeim verkefnum, sem þeim er ætlað að sinna. Og þess vegna held ég, að menn hljóti að vera sammála um það, að útsvarið í núverandi mynd sinni er ekki lengur fullnægjandi tekjustofn til þess að rísa undir þörfum sveitarfélaganna að þessu leyti, og þess vegna verði að leita eftir nýjum leiðum til þess að tryggja þeim sæmilega afkomu og til þess að þau geti rækt þau verkefni, sem þeim eru sérstaklega ætluð. Í því sambandi hygg ég, að það komi mjög til athugunar, sem oft hefur verið minnzt á, að sameina tekjuskattinn og útsvörin í einn skatt og láta sveitarfélögin hafa þann skatt til umráða. Það gæti einnig komið til athugunar að auka hlutdeild þeirra í söluskatti frá því, sem nú er og svo jafnvel í þriðja lagi að létta af þeim ýmsum gjöldum, sem þau hafa nú og er kannske eins eðlilegt, að ríkið standi að öllu leyti undir, eins og t.d. ýmsum kostnaði við almannatryggingarnar. En þessi mál er orðið brýnt að taka til mjög rækilegrar athugunar, því að sveitarfélögin geta ekki til frambúðar búið við þennan tekjustofn, sem þeim er nú ætlaður, útsvörin, sem eru fyrst og fremst lögð á lágtekjufólk og miðlungstekjufólk, eftir að ríkið er áður búið að taka sinn hluta af launum þess með tekjuskattinum. Það er hins vegar rétt, að eins og nú er komið verður ekki hægt að leysa vanda sveitarfélaganna með slíkri endurskoðun á þessu ári. Til þess er ekki tími, og þess vegna verður að fara einhverja bráðabirgðaleið til þess að tryggja þeim tekjur, ef það á að vera auðið að lækka útsvörin nokkuð að ráði frá því, sem ætlazt er til í þessu frv. Og ég hygg, að sá vandi sé ekki eins erfiður og ýmsir kunna að halda, vegna þess að það liggur ljóslega fyrir, að fjárl., eins og þau voru afgreidd frá þinginu, eru með verulegum greiðsluafgangi og þess vegna er ekki óeðillegt, þó að ríkið láti eitthvað meira fé af hendi rakna til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna, en það gerir nú með þeim hluta af söluskattinum, sem sjóðurinn fær. Ég vil í þessu sambandi minna á það, að þegar söluskattshækkunin var til meðferðar hér á þingi í vetur, lögðum við framsóknarmenn til, að talsvert meiri hluta hans yrði varið til sveitarfélaganna en gert er og ef á þá tillögu hefði verið fallizt, hefði verið auðið að lækka útsvörin verulega frá því, sem gert er ráð fyrir í þessu frv.

Nú kunna ýmsir að segja, að síðan fjárl. voru afgreidd hafi ýmsum nýjum útgjöldum verið bætt á ríkissjóðinn, eins og launahækkun til opinberra starfsmanna, ýmsum uppbótum og öðru þess háttar. En þessu er því að svara, að ríkisstj. hefur mætt þessum auknu útgjöldum með því að skera niður framlög til verklegra framkvæmda um 20%, svo að þrátt fyrir þessi auknu útgjöld stendur það eftir sem áður að, að óbreyttum ástæðum, ef ekki neitt ógurlegt kemur fyrir, muni verða mjög verulegur greiðsluafgangur hjá ríkinu á þessu ári, eins og verið hefur flest undanfarin ár. Og það er miklu eðlilegra, en ríkið fari að safna þannig í sjóði með óeðlilegum skattaálögum, að þessu fé verði varið þannig, að sveitarfélögunum verði gert auðvelt að lækka útsvörin verulega frá því, sem gert er ráð fyrir í þessu frv.

Ég vil rétt aðeins nefna það sem dæmi um þá skattamálastefnu, sem hæstv. ríkisstj, hefur fylgt á undanförnum árum, að t.d. árið 1962 nam greiðsluafgangurinn hjá ríkissjóði mun meiri upphæð, en öll útsvör, sem einstaklingar greiddu í landinu á því ári og svipuð mun einnig hafa verið niðurstaðan á árinu 1963. Greiðsluafgangur umfram tekjur ríkisins á þessum 2 árum varð það mikill, að það svaraði hærri upphæð, en þeirri sem einstaklingar greiddu í útsvar í öllu landinu. Og þar sem fjárl. í ár eru tvímælalaust afgr. í sama anda og fjárl. fyrir þessi 2 ár, hefur ríkið tvímælalaust möguleika til að hlaupa hér undir bagga með sveitarfélögunum, greiða sérstaka fjárhæð í jöfnunarsjóðinn og gera þeim þar með auðvelt að lækka útsvörin verulega frá því, sem lagt er til í þessu frv. En það hygg ég, að sé alveg óhætt fyrir menn að gera sér ljóst, að ef svo fer, sem að er stefnt í þessu frv., að útsvör hækka í krónutölu til viðbótar við ýmsa aðra skatta, sem hafa hækkað, eins og fasteignagjöldin og án þess að greiðslugeta skattþegnanna verði nokkuð ríflegri á þessu ári en hefur verið á síðasta ári, hlýtur það að leiða til þess, að þær kröfur, sem stéttarfélögin verða að gera um kauphækkun í sambandi við hið svokallaða júnísamkomulag, hljóta að verða mun hærri en ella. Þess vegna vil ég skora á hæstv. ríkisstj. að taka þetta mál að nýju til athugunar og með það fyrir augum að lækka útsvörin verulega frá því, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., m.a. með því að hækka frádráttinn og fjölga þrepunum og koma þannig til móts við launþegana og þær kröfur, sem þeir bera nú fram. En ég held, að það sé yfirleitt öllum ljóst, sem nokkuð þekkja til afkomu almennings í landinu, að þrátt fyrir það, þótt kaupgjald hafi nokkuð hækkað í krónutölu, er gjaldgetan eða greiðslugetan sízt meiri á þessu ári, en var á s.l. ári, heldur áreiðanlega í mörgum tilfellum minni. Og ef það á svo að bætast við, að menn eiga að greiða hærri útsvör í krónutali en á s.l. ári til viðbótar öðrum sköttum, hlýtur það óhjákvæmilega að leiða til þess, að menn verða að krefjast meiri kauphækkana ,en ella.

Til þess að koma í veg fyrir það vil ég þess vegna enn skora á hæstv. ríkisstj. að taka þetta mál til nýrrar athugunar hér í þinginu með það fyrir augum að lækka útsvörin verulega og það á vel að vera hægt, ef vilji er fyrir hendi hjá hæstv. ríkisstj., vegna þess að fjárl. eru afgreidd raunverulega með verulegum greiðsluafgangi og ríkið getur þess vegna komið hér nokkuð til móts við sveitarfélögin.