05.05.1965
Neðri deild: 82. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

181. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft til athugunar frv. það, sem hér liggur fyrir um breyt. á l. nr. 51 frá 10. júní 1964, um tekjustofna sveitarfélaga. N. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins, og hafa 1. og 2. minni hl. einnig skilað áliti í málinu.

Breyt. þær, sem n. leggur til að gerðar séu á frv., eru í fyrsta lagi við 31. gr., að þar komi nýr málsl., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Við ákvörðun eigna til útsvars skal miða við gildandi fasteignamat þrefaldað.“ Er þetta í samræmi við það, sem verða mun í sambandi við ákvörðun eigna til eignarskatts til ríkissjóðs.

Þá gerir n. í öðru lagi þá breyt., einnig við 31. gr. þess, að persónufrádráttur einstaklinga hækki úr 32.500 kr. í 35 þús. kr. Er þetta 40% hækkun frá gildandi l., var í frv. 30%, þegar það var lagt fram. N. leggur einnig til, að persónufrádráttur fyrir hjón hækki úr 45550 kr., eins og er í frv. í 50 þús. kr. og er einnig þar um rúmlega 40% hækkun að ræða frá því, sem er í gildandi lögum. Þá gerir n. í þriðja lagi till. um, að frádráttur fyrir hvert barn innan 16 ára aldurs á framfæri gjaldenda verði l0 þús. kr., en er í frv. 6.500 kr., en 5 þús. kr. í gildandi l. og er því þar um 100% hækkun að ræða frá því, sem verið hefur.

Í þriðja lagi leggur n. til, að í kaupstöðum skuli útsvör 1.500 kr. og lægri felld niður.

Þá hefur einnig á þskj. 636 komið fram brtt. frá meiri hl. heilbr.- og félmn., en það er leiðrétting, því að þegar hún skilaði nál. sínu, féll niður úr vélritun síðasta mgr. 31. gr., eins og hún er í gildandi l. og átti að vera áfram, en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Útsvör s.l. árs skulu einnig dregin frá hreinum tekjum, ef þau hafa verið greidd að fullu fyrir áramót næst á undan niðurjöfnun.“

N. gerir ekki till, um frekari breytingar við frv. En í sjálfu frv. er í 3. gr. þess breyting á útsvarsstiganum, þar sem þrepin eru gerð þrjú, en voru tvö áður. Í gildandi l. er það svo, að 20% skulu greiðast af 40 þús. kr., en 30% af tekjum þar yfir. Frv. gerir hins vegar ráð fyrir, að af fyrstu 20 þús. kr. skuli greiðast 10 þús. í útsvar og af næstu 40 þús. kr. 20% og 30% af því, sem þar er fram yfir. Þessi breyting á stiganum ásamt hækkun á persónufrádrætti, frádrætti vegna hjóna og helmingshækkun á frádrætti vegna barna verkar óneitanlega til lækkunar og hlutfallslega mest til lækkunar á hinum lægri tekjuflokkum.

Mér þykir rétt að gera samanburð á nokkrum tekjuflokkum miðað við gildandi lög og miðað við það, sem nú verður, ef frv. ásamt brtt. n. verður samþykkt. Í 100 þús. kr. tekjuflokki áttu einstaklingar árið 1964 að greiða 18.500 kr. í útsvar, en þessi tekjuflokkur lækkar samkv. frv. og brtt. um 7 þús. kr. og verður 11.500 kr. Í 125 þús. kr. tekjuflokki eiga einstaklingar samkv. gildandi l. að greiða 26 þús. kr., en 19 þús. kr., ef frv. ásamt breyt. verður samþ. og lækkar sá tekjuflokkur einnig á hvern gjaldanda um 7 þús. kr. Í 150 þús. kr. tekjuflokki áttu einstaklingar að greiða 33.500 kr., lækka niður í 26.500 kr. samkv. frv. og brtt. og lækka þá einnig um 7 þús. kr. Sama lækkun gengur gegnum útsvarsstigann upp úr, einnig á hæstu tekjum. Fyrir hjón með tvö börn lítur þessi samanburður þannig út, að skv. gildandi lögum eiga hjón með tvö börn í 100 þús. kr. tekjuflokki að greiða 12.500 kr., lækka niður í 3.000 kr. samkv. frv. og brtt. n., og er lækkunin þar í þessum teljuflokki 9.500 kr. Í 125 þús. kr. tekjuflokki eiga hjón með tvö börn að greiða 20 þús. kr. samkv. gildandi l., en samkv. frv. og brtt. n. 9.000 kr. og lækka um 11 þús. kr. Í 150 þús. kr. tekjuflokki eiga hjón með tvö börn að greiða 27.500 kr., lækka niður í 16 þús. kr. eða um 11.500 kr. og er þessi 11.500 kr. lækkun gegnumgangandi einnig í hærri tekjuflokkum allt upp í hæstu tekjur.

Ég vil mjög undirstrika, að þessi samanburður er byggður á gildandi útsvarsstiga, sem nú er í l. og miðað við útsvarsstigann, eins og hann yrði, ef frv. ásamt brtt. verður samþ., með því að stiginn yrði óbreyttur við niðurjöfnun, hvorki gefinn afsláttur frá honum né álagi bætt á hann.

Ég tel einnig rétt að gera nokkurn samanburð á, hvað hverjum tekjuflokki ber að greiða hlutfallslega af útsvarsskyldum tekjum eins og nú er í gildandi l. og einnig hvernig það verður, ef frv. ásamt brtt. verður samþ., en það lítur þannig út, að einstaklingi í 100 þús. kr. tekjuflokki bar að greiða 18.5% af útsvarsskyldum tekjum, lækkar niður í 11.5% . Í 150 þús. kr. tekjuflokki bar einstaklingi að greiða 22.3%, lækkar niður í 17.7%. Í 200 þús. kr. tekjuflokki ber einstaklingi að greiða 24.3% samkv. gildandi l., lækkar niður í 20.8%. Í 250 þús. kr. tekjuflokki ber einstaklingi að greiða 25.4%, en lækkar niður í 22.8%. Og í 300 þús. kr. tekjuflokki ber einstaklingi að greiða samkv. gildandi l. 26.2%, lækkar niður í 23.3% samkv. frv. og þeim brtt., sem fram eru komnar frá meiri hl. n., ef það verður að lögum.

Fyrir hjón með tvö börn lítur þessi samanburður þannig út, að í 100 þús. kr. tekjuflokki ber þessum aðilum að greiða samkv. gildandi l. 12.5%, lækka niður í 3% samkv. frv. og brtt., ef samþ. verða. Í 150 þús. kr. tekjuflokki ber þeim að greiða 18.3%, lækka niður í 10.7%. Í 200 þús. kr. tekjuflokki ber þeim að greiða 21.3%, lækka niður í 15.5%. Í 250 þús. kr. tekjuflokki 23% rétt, lækka niður í 18.4%. Og í 300 þús. kr. tekjuflokki ber hjónum með tvö börn að greiða 24.3%, en lækka samkv. frv. og brtt., ef samþ. verða, niður í 20.3%. Ég vil enn undirstrika, að þessi samanburður er því aðeins raunhæfur, að útsvarsstiginn sé notaður eins og hann liggur fyrir, en hvorki með álagi á hann né afsláttur sé gefinn.

Ég tel rétt að vekja athygli hv. þm. á, að þó að við séum hér á hv. Alþ. að lögfesta ákveðinn útsvarsstiga, erum við ekki endanlega að ákveða, hve mikinn hluta af launum sínum hver og einn greiði í útsvar til sveitarfélags síns. Við erum aðeins að ákveða reglur um skiptingu á heildarupphæð útsvara í hverju sveitarfélagi innbyrðis eftir tekjuflokkum og um leið er í lögin sett hámark í útsvarsstigann, sem gildandi hefur verið áður. Það, sem endanlega ræður um, hve mikinn hluta af tekjum sínum hver og einn greiðir, er aðallega tvennt: Í fyrsta lagi ákvörðun sveitarstjórnar um heildarupphæð útsvara í sveitarfélögum og í öðru lagi heildarupphæð tekna í sveitarfélögum og tel ég, að það ráði mestu um útsvarsupphæð í hverjum tekjuflokki í hverju sveitarfélagi. Þetta eru tvö meginsjónarmið, sem höfð hafa verið í huga í útsvarsmálinu í heild, því að ef sveitarstjórn ákveður hækkun heildarútsvara meiri, en heildartekjur reynast við niðurjöfnun að hafa hækkað, fer ekki hjá því, að hlutfallslega hærra útsvar kemur á hvern tekjuflokk, en árið áður. Nákvæmlega sama gildir, ef sveitarstjórn ákveður hækkun heildarupphæðar útsvara minni, en hækkun heildartekna reynist við niðurjöfnun, að þá hlýtur útsvar í hverjum tekjuflokki að lækka, annaðhvort vegna minna álags á útsvarsstigann eða vegna meiri afsláttar frá honum, en árið áður. Þá vil ég á það benda, að ef menn færast til milli tekjuflokka til hækkunar, sem sé hækka í tekjum frá því árið áður, hlýtur að fara svo, ef um verulega tekjuhækkun er að ræða, þrátt fyrir mikla lækkun á útsvarsstiganum, að þeir hljóti að hækka í krónutölu í útsvari, þó að þeir hins vegar greiði minni hundraðshluta af tekjum sínum, en árið áður. Á þetta þó sérstaklega við um einstaklinga. Þetta kemur nokkru hagkvæmar út fyrir hjón með tvö börn eða fleiri, ef það frv., sem hér liggur fyrir og þær breytingar, sem meiri hl. heilbr.- og félmn. hefur lagt fram, verða samþykkt. Hjón með tvö börn greiddu hér í Reykjavik árið 1964 11.400 kr. í útsvar af 100 þús. kr. útsvarsskyldum tekjum og er þá tekið tillit til 9% afsláttar, sem gefinn var af útsvörum hér í Reykjavík það ár. Ef frv. það, sem hér liggur fyrir, verður samþ. með þeim breyt., sem n. hefur lagt til að gerðar verði á því, mundu sömu aðilar greiða 10 þús. kr. í útsvar af 130 þús. kr. tekjum eða 30% hærri tekjum en árið áður. Er þá ekki reiknað með neinum afslætti frá útsvarsstiganum og ekki heldur neinu álagi á hann. Í 125 þús. kr. tekjuflokki kemur þetta þannig út, að ef hjón með tvö börn hefðu hækkað á s.l. ári um 30% í tekjum eða úr 125 þús. kr. í 162.500 kr., mundu þau nú í ár greiða 19.800 kr. af þessari tekjuupphæð, 162.500, en greiddu árið 1964 18 þús. kr. af 125 þús. kr. tekjum og er þá reiknað með 9% afslætti, sem gefinn var af útsvörum hér í Reykjavík það ár, en í þessu tilfelli er reiknað með stiganum óbreyttum, hvorki með álagi né afslætti. Það sýnir sig, að það vegur nokkuð salt, að þótt tekjuhækkun verði um allt að 30% í 125 þús. kr. tekjuflokki, ætti ekki að greiðast hærri upphæð af því, en áður var af 125 þús. kr. tekjum.

Ég tel rétt að geta þess í þessu sambandi, að samkv. bráðabirgðaúrtaki, sem gert var hér í Reykjavik á framtölum 190 verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna, reyndust meðaltekjur þessara aðila rúmar 158 þús. kr. og er þá átt við brúttótekjur, en ekki útsvarsskyldar tekjur. Ættu útsvör aðila í þessum starfsgreinum, sem meðaltekjur hafa, ekki að hækka í krónutölu, þó að úrtakið sýni, að tekjur þeirra hafi hækkað um 28.1% árið 1964 miðað við árið 1963, ef frv. það, sem hér liggur fyrir, verður lögleitt með þeim breytingum, sem meiri hl. heilbr.- og félmn. hefur gert við það.

Ég tel rétt í þessu sambandi að gera nokkra grein fyrir, hvernig sveitarfélögin árið 1964 öfluðu sér tekna í beinum sköttum. Samkv. skýrslum félmrn. og ríkisskattstjóra, sem fyrir liggja, öfluðu sveitarfélögin sér tekna í beinum sköttum árið 1964 samtals að upphæð 1.121 millj. 754 þús. kr., sem skiptast innbyrðis þannig: Tekjuútsvör einstaklinga og félaga 795.5 millj. kr., eignarútsvör einstaklinga og félaga 27.5 millj. kr., fasteignagjöld 37.31 millj., aðstöðugjöld einstaklinga og félaga 161.5 millj. kr. Tala útsvarsgreiðenda var á árinu 1964 samtals 64.519, tala aðstöðugjaldsgreiðenda 11.481 og eru þeir án efa einnig flestir útsvarsgreiðendur. Þessar upplýsingar eru samkv. skýrslu félmrn. Samkv. skýrslu ríkisskattstjóra greiddu alls 41.959 einstaklingar tekjuútsvar á árinu 1964 að upphæð 565.9 millj. kr., og eru félög þá ekki reiknuð með. Tekjuútsvör árið 1964 skiptast í flokka sem hér segir: 8.000 kr. útsvör og lægri greiddu alls 15.484 aðilar eða 36.9% útsvarsgreiðenda. Samtals greiddu þessir aðilar 67.2 millj. kr., eða 11.9% af heildarupphæð tekjuútsvara einstaklinga í öllum sveitarfélögum. Í 8–10 þús. kr. flokki greiddu samtals 3.439 aðilar þessa útsvarsupphæð eða 8.2% af útsvarsgreiðendum. Alls nam útsvar aðila í þessum tekjuflokki 31 millj., eða 5.5% af heildarupphæð tekjuútsvara einstaklinga. Í 10–12 þús. kr. flokki greiddu samtals 3.026 aðilar eða 7.9% útsvarsgreiðenda þessa útsvarsupphæð, 10–12 þús. kr. Heildarupphæð í þessum útsvarsflokki var 36.7 millj., eða 6.5% af heildarupphæð tekjuútsvara einstaklinga árið 1964 í öllum sveitarfélögum landsins. 12 þús. kr. og þar yfir greiddu hins vegar samtals 19.710 einstaklingar í útsvar, eða 47% útsvarsgreiðenda í öllum sveitarfélögum landsins og samtals greiddu þessir aðilar í þessum útsvarsflokki, 12 þús. kr. og hærra, 4.031 millj. kr. eða 76.1% af heildarupphæð tekjuútsvara einstaklinga árið 1964. Ég skal játa, að fleiri einstaklingar voru á árinu 1964 í lægri tekjuflokkum og lægri útsvarsflokkum, en ég hafði áður gert mér grein fyrir. En það verður þó að hafa í huga og ber að hafa í huga, að þeir munu vera hlutfallslega fleiri utan þéttbýlisins, í sveitahreppunum, heldur en í kaupstöðunum, þeir einstaklingar, sem eru í lægri tekjuflokkunum.

Þegar á það er litið, að breyting sú, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., bæði hækkun persónufrádráttar, hækkun frádráttar vegna barna innan 16 ára, breikkun á bili sjálfra útsvarsstiganna og niðurfelling útsvara í kaupstöðum 1.500 kr. og lægri, verkar fyrst og fremst til lækkunar í hinum lægri tekjuflokkum, þ.e. í tekjuflokkunum 100 þús. kr., 125 þús. og 150 þús., tel ég ástæðu til að ætla, að sú breyting, sem hér er verið að gera með frv. og þeim breytingum, sem meiri hl. heilbr.- og félmn. hefur lagt til, nái þeim tilgangi, sem að hefur verið stefnt, en það er, að hinir lægri útsvarsgreiðendur í hinum ýmsu sveitarfélögum komi til með að greiða hlutfallslega lægra útsvar af tekjum sínum, en þeir hafa gert fram að þessu og yrðu að gera, ef l. um tekjustofna sveitarfélaga væru óbreytt.