06.05.1965
Efri deild: 82. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1907 í B-deild Alþingistíðinda. (1698)

182. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ræða hv. frsm. meiri hl. fjhn. gefur mér ekki tilefni til þess að halda hér langa ræðu, og ég sé ekki heldur beina ástæðu til að fara mörgum fleiri orðum, en ég hef þegar gert, um þær till., sem ég flyt hér á þskj. 586 og ég mun flytja allar aftur við þessa umr., að undanskilinni 3. till. á þessu þskj., þ.e.a.s. a-liðnum, sem ég tek aftur, vegna þess, að hv. fjhn. þóknast að taka þá till. upp í ofurlítið öðru formi og með breytingum, sem ég tel að sjálfsögðu fremur til bóta heldur en hitt, þar sem bætt er við þá grein tekjuskattslaganna, sem skyldar, að frádráttur á tilteknum greiðslum sé tekinn til greina, þ.e.a.s. að mín till. er samþykkt með þeirri breytingu, að þarna koma einnig inn í sjúkrabætur og slysadagpeningar frá Tryggingastofnuninni.

Ég vil auðvitað lýsa ánægju minni yfir þessum örlitla votti þess, að tekið er tillit til þeirra till., sem byggðar eru á óskum verkalýðshreyfingarinnar í sambandi við afgreiðslu þessa máls. En það verð ég að segja, að minna gat það tæplega verið eða ódýrari vottur um einhvern vilja til þess að koma móti óskum og kröfum verkalýðshreyfingarinnar. Og ég verð að segja það, að af hálfu hv. meiri hl. í nefndinni hefur bókstaflega ekki örlað á neinum vilja til þess að koma að öðru leyti á nokkurn hátt til móts við þau sjónarmið, sem verkalýðshreyfingin hefur haft uppi í sambandi við afgreiðslu þessa máls og það jafnvel um till. eins og þá, sem ég flyt varðandi sérstakan frádrátt vegna þeirra, sem vinna í fiskiðnaði og í hafnarvinnu, jafnvel þó að það liggi fyrir, að á framkvæmd þeirrar till. séu engir tæknilegir örðugleikar.

Mér til ánægju lýsti ríkiskattstjóri því yfir á fundinum í dag, að hann sæi enga örðugleika í sambandi við framkvæmd þessarar till. En með ýmsar svona till, sem við þm. Alþb. höfum flutt áður hér á þingi, þá hefur því oft verið borið við, að þetta og þetta væri ekki hægt af tæknilegum ástæðum. Því er þess vegna ekki til að dreifa í þessu tilfelli, og auk þess kemur það til, að ég hafði ástæðu til að ætla, að á þessa till. yrði litið með vinsemd af hálfu ríkisstj. og hafði ríka ástæðu til þess.

En þarna hafa ráðið einhver annarleg sjónarmið hjá hv. meiri hl., því að ég get ekki tekið sem góða og gilda vöru þær afsakanir, sem hv. frsm. nefndarinnar hafði frammi sem mótrök í þessu máli.

Hann taldi, að hér væri verið að taka upp eitthvert tveggja alda gamalt fyrirkomulag, að menn skyldu greiða skatta eftir því, í hvaða stétt þeir væru, en ekki eftir hæð tekna. Ég vil nú benda hv. frsm. meiri hl. á, að hér er ekki um neina breytingu í þessa átt að ræða. Eftir sem áður borgar það fólk, sem hér á hlut að, sinn skatt og útsvör í samræmi við tekjuhæðina, þó að það hins vegar fái þann sérstaka frádrátt, sem er alveg hliðstæður við það, sem annars staðar viðgengst nú. Þetta eru sem sé engin rök í málinu.

Sú röksemd hans, að þetta kæmi að litlu haldi, vegna þess að hér ætti svo fátækt fólk í hlut, að það þyrfti litinn sem engan skatt að greiða, það má vel vera, að þetta hafi nokkuð til síns máls varðandi tekjuskattinn, að það hossi sér ekki hátt í lífsafkomu þessa fólks, hvort það sleppur við tekjuskattinn eða ekki. En ég vil þá benda hv. ræðumanni á það, að þetta hlýtur þá að kosta ríkissjóðinn þeim mun minna sem hér eru meiri fátæklingar á ferðinni og hafa minni greiðslugetu. Og verð ég að segja, að gerð þeirra, sem hafa snúizt gegn þessari till., er þeim mun smásmyglislegri sem þessi röksemd kynni að hafa við meira að styðjast.

Önnur röksemdin, sem hann beitti svo gegn þessari till., var sú, að svo hart væri gengið að sveitarfélögunum, að það væri ekki hægt að ganga lengra í þá átt, heldur en gengið hefði verið þegar með brtt. þeim, sem samþ. hafa verið í hv. Nd. varðandi tekjustofna sveitarfélaganna. Við þessa röksemd er það að athuga, að jafnvel þó að mín till. yrði samþ., er eftir sem áður algerlega á valdi hvers sveitarfélags að meta það, hvort fært þyki að veita þennan frádrátt eða ekki og telji eitthvert sveitarfélag það ekki fært, notar það sér vitanlega ekki heimildina. Málið er svona einfalt. Hins vegar er ég sannfærður um það, að mjög víða væri vel fært að nota þessa heimild og þó hvergi auðveldara, en hér í höfuðborginni. En það er kannske ekki hvað sízt hér, sem úrbætur almennt varðandi kjör þeirra, sem vinna í fiskiðnaði og við hafnarvinnu, eru nauðsynlegar. Ég held, að það væri t.d. ákaflega fróðlegt og nauðsynlegt fyrir þennan hv. meiri hl., sem synjar þessari till., að gera sér ferð hérna niður að höfninni einhvern daginn, ef þeir hefðu ekki allt of mikið að starfa, og kynna sér það, hvernig ástandið er hérna hjá hafnarverkamönnunum. En því ástandi er fljótlýst á þann veg, að hver dagurinn getur orðið sá síðasti, sem skipin hérna hafa afgreiðslu. Kjör þeirra, sem vinna hér við Reykjavíkurhöfn, eru orðin slík samanborið við aðrar starfsgreinar, að þó að kjarasamningar hafi ekki runnið út og ekki verið endurnýjaðir, er alger óvissa um það, hvort yfirleitt vinnan fæst framkvæmd við þau skilyrði, sem hún býður nú þeim, sem við hana vinna. Ég vil þess vegna aðvara hv. meiri hl. fjhn. og aðra, sem kynnu að vilja hafa tilheigingu til þess að styðja hann í því að synja um þessa, — ég vil segja sjálfsögðu og nauðsynlegu, leiðréttingu við afleiðingum þess. Hér er um það að ræða að veita þeim, sem vinna lengstan vinnutíma við lægsta kaupgjald, sem þekkist í landinu og að mörgu leyti erfiðustu skilyrði. Það getur vel verið, að það sé rétt hjá hv. frsm. meiri hl., að þetta fólk geti ekki komið með á pappír, að það hafi kostað meira til þessarar vinnu heldur en menn geri í annarri vinnu. En ég vil þá segja það, að það hefur kostað því til, sem kannske er meira virði en það, þó að það hefði þurft að leggja út einhverja peningaupphæð í sambandi við öflun þessara tekna. Það hefur verið að leggja vinnuþrek sitt að veði og leggja á sig meira erfiði og meiri yfirvinnu heldur en yfirleitt þekkist nokkurs staðar á byggðu bóli. Hafnarverkamennirnir hér í Reykjavík vinna hvern einasta dag, jafnt sunnudaga sem virka daga, a.m.k. til kl. 8 á kvöldin og oft og tíðum í næturvinnu einnig. Ég teldi það þess vegna vera alveg fullkomið sanngirnismál, að í þessu tilviki a.m.k. yrði tekið eitthvert tillit til þess, hvernig tekna er aflað. Ég segi: það er ekki sama og á ekki að þurfa að verða sama, hvort t.d. 200 þús. kr. tekna er aflað við beztu skilyrði inni í hlýju húsi við stuttan vinnutíma eða hvort það er lögð nótt við dag árið um kring alla helgidaga og jafnvel næturnar líka.