30.11.1964
Efri deild: 24. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1940 í B-deild Alþingistíðinda. (1726)

45. mál, ferðamál

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Samgmn, hefur tekið þetta frv. til nokkurrar yfirvegunar á milli 2. og 3. umr. og niðurstaðan af þeirri athugun var sú, að n. afturkallar brtt. sína við frv. á þskj. 89, en í staðinn flytur n. nýjar brtt. á þskj. 122, sem eru þar í tveimur liðum.

Fyrri liðurinn er á þá leið, að aftan við 1. gr. frv. komi ný mgr., er hljóði þannig: „Ráðning starfsliðs er háð samþykki ráðh.“

Það er ljóst, að ferðamálaráð mun þurfa á starfskröftum að halda og ráðningu starfskrafta og því taldi n. rétt að setja inn í lögin ákvæði um það, að ráðning starfsliðs væri háð samþykki ráðh.

2. liður brtt. er í fyrsta lagi, að orðið „framfærslukostnaður“ í niðurlagi 2. gr. falli niður. Með því er miðað að þeirri breytingu, að greiðslur afborgana og vaxta af lánum frá ferðamálasjóði þurfi ekki endilega að vera bundnar vísitölu framfærslukostnaðar, heldur sé það á valdi ferðamálasjóðs og ráðh., við hvaða vísitölu verði miðað. En þar kæmi auðvitað fyrst og fremst til greina annars vegar framfærsluvísitala og svo að hinu leytinu byggingarvísitala. En n. taldi rétt að slá þessu ekki föstu, það mætti bíða og sjá, hverju fram yndi, með það, við hvaða vísitölu yrði miðað í hliðstæðum tilfellum annars vegar, hafa þetta þess vegna frjálst, þannig að hægt væri að miða við hvort heldur framfærsluvísitölu, byggingarvísitölu eða einhverja aðra vísitölu, sem kynni að þykja heppileg.

Þá er það b-liðurinn undir 2. lið, þar sem segir, að aftan við gr. bætist ný mgr., svo hljóðandi:

Nú tekur ferðamálasjóður erlent lán og skal það þá endurlánað með gengistryggingu, en eigi vera vísitölubundið.“

Þessi brtt. kemur beinlínis í staðinn fyrir þá brtt., sem var afturkölluð. N. þótti þetta skýrara orðalag, því að eftir fyrri till. mátti líta svo á, að ferðamálasjóður þyrfti ekki endilega að endurlána erlent lánsfé með gengistryggingu, heldur gæti valið um gengistryggingu eða vísitölukjör. En hér er alveg skilmálalaust tekið fram, að það skuli endurlána með gengistryggingu, en eigi vera vísitölubundið.

Meiri hl. n. hefur hins vegar ekki getað fallizt á þá brtt., sem fram kemur á þskj. 121 frá hv. 4. þm. Austf. og hv. 1. þm. Vesturl., en í þeirri brtt. er gert ráð fyrir, að lán úr ferðamálasjóði skuli því aðeins vísitölutryggð, að fé það, sem sjóðurinn hefur til umráða, hafi verið fengið með vísitölukjörum. Þetta hefði fyrst og fremst þá þýðingu, að framlag ríkissjóðs til ferðamálasjóðs yrði þá ekki endurlánað með vísitölukjörum. En meiri hl. n. lítur svo á, að það sé eðlilegt, að sjóðurinn, ferðamálasjóður, vilji tryggja sig fyrir verðrýrnun peninga einnig að því leyti, er snertir það fé, sem hann hefur fengið með beinu framlagi frá ríkissjóði, þannig að það rýrni ekki í höndum sjóðsins. Þá telur meiri hl. n. einnig, að með þessu máti verði þetta orðið of flókið kerfi, ef ætti að fara að lána úr ferðamálasjóði eiginlega með þrenns konar kjörum, þ.e.a.s. fyrst með venjulegum vaxtakjörum án nokkurra sérákvæða, í öðru lagi með vísitöluákvæði og svo í þriðja lagi með gengisákvæði. Og þá er meiri hl. því einnig mótfallinn að hafa vextina bundna og sízt svona lága eins og þeir eru í þessari brtt.