27.10.1964
Neðri deild: 7. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1950 í B-deild Alþingistíðinda. (1741)

29. mál, stýrimannaskóli í Vestmannaeyjum

Sverrir Júlíusson:

Herra forseti. Það er vissulega virðingarverður áhugi, sem 3. þm. Sunnl. hefur sýnt með flutningi frv. á þskj. 30 ásamt 2 öðrum hv. þm. Og það sæti sízt á mér að slá á þann áhuga, sem kemur fram í þessu frv. til aukinnar menntunar sjómanna og skipstjórnarmanna. En mig langar þó við þetta tækifæri, við þessa 1. umr., að gera stutta aths., áður en það fer til nefndar.

Í byrjun árs 1964 skipaði samgmrh. nefnd manna til að endurskoða lög um stýrimannaskólann í Reykjavík. Það var eftir þáltill., sem samþykkt var á þinginu 1962-63 og Pétur Sigurðsson og Eggert G. Þorsteinsson fluttu í sameinuðu þingi. Þessi endurskoðun stendur yfir og ég get skýrt frá, að mjög bráðlega er von á til rn. niðurstöðu varðandi stýrimannaskólann í Reykjavík. Það voru fleiri verkefni, er þeirri nefnd voru falin samkv. nefndri þáltill., er ég minntist á. Það er mjög mikilvægt verkefni og grípur jafnvel inn í aðra þáltill., sem samþ. var á síðasta þingi um fiskiðnskóla. Ég segi þetta vegna þess, að mér er kunnugt um, að í till., sem þessi nefnd mun gera, mun koma m.a. sú breyting á eða till. um breytingu á stýrimannaskólanum í Reykjavík, að þau námskeið, sem haldin hafa verið á fjórum stöðum í landinu, þ.e.a.s. á Ísafirði, Akureyri, Neskaupstað og Vestmannaeyjum, þau verði lengd og veiti meiri réttindi en þau hafa gert fram að þessu. Þau hafa staðið yfir í 4 mánuði, en það er lagt til, að þau verði látin standa 6 mánuði og veita skipstjórnarmönnum sama rétt og þeim, sem hafa farið gegnum 1. bekk stýrimannaskólans í Reykjavík. Þetta mun þýða það, að þeir aðilar, sem gengju á þessi námskeið, gætu gengið hindrunarlaust upp í 2. bekk stýrimannaskólans til þess að ljúka fiskimannaprófi.

Þetta vildi ég segja vegna þess, að það er einmitt undir stjórn skólastjóra stýrimannaskólans, sem þessi námskeið hafa verið haldin á tveimur stöðum á landinu, annað hvert ár, á þeim stöðum, er ég nefndi áðan. Ef sú breyting, sem ég var að lýsa, nær fram að ganga, þá er það mikið í áttina, hvað þetta atriði snertir. En nú er það, að skipastóll íslendinga hefur stækkað verulega og það þarf sannarlega að auka og hvetja menn til þessa náms, og vissulega er hægt að líta þannig á þetta frv., að það stefni að þessu. En hvað er þá maðurinn að segja? Það, sem hreyfir sér í mínum huga, þegar þetta frv. kemur fram, er þetta: Þótt Vestmanneyingar séu alls góðs maklegir og sjálfsagt að taka fyllsta tillit til þeirra, þá get ég ekki varizt þeirri hugsun, að það hljóti að koma óskir frá fleiri stöðum, frá Ísafirði, frá Akureyri, frá Neskaupstað, um slíkt hið sama. Og þá kemur spurningin: Er ekki hætt við því, að þá muni það verða ofvaxið ríkissjóði að reka jafnvel fimm stýrimannaskóla á landinu? Nú er ekki hægt að segja það samkv. þessu frv., sem hér er lagt fram, að það eigi að auka útgjöld ríkissjóðs. En okkur má vera það ljóst, að þótt Vestmanneyingar eða bæjarstjórn Vestmannaeyja hafi ákveðið að greiða þennan kostnað, hlýtur af því að leiða og það verða ekki mörg ár liðin, þegar einmitt óskir hljóti að koma fram um það, enda er þess skammt að minnast, þegar einn þingmanna, hv. 4. þm. Sunnl., einmitt drap á þetta atriði við þessa umr. nú rétt áðan í hv. þingdeild.

Hv. 3. þm. Sunnl. skýrði frá því, að stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum hefði verið settur, enda segir í grg., að skólinn hafi byrjað 3. okt. Nú væri fróðlegt að vita um það, hversu margir nýliðar væru í skólanum. Okkur er kunnugt um það, að vegna stækkandi skipa í íslenzka skipastólnum hafa margir, er hafa verið mjög duglegir og miklir fiskimenn, ekki haft réttindi nema upp að 120 tonnum og verða þess vegna að setjast á skólabekk, eins og ykkur er öllum kunnugt um. En nú er samkv. l. um stýrimannaskólann í Reykjavík þetta allt saman heimilt. Það er heimilt að taka próf utanskóla og hvort sem þetta frv. verður samþ. eða ekki, munu þeir aðilar, 21, sem nú eru á skólabekk í Vestmannaeyjum, geta gengið undir utanskólapróf í vor. Það getur vel svo farið, að það væri þess vert, að bæjarstjórnir Vestmannaeyja og annarra staða styddu ýmsa unga menn til þess að ljúka námi með því að létta þeim dvölina hér í Reykjavík.

Það er vissulega hætta, ef farið verður að setja upp marga skóla í þessari grein. Megum við gera okkur grein fyrir, að óskir um það hljóti að koma annars staðar frá og þá verði hvorki völ á nógu rösklegum og góðum kennurum og það þurfi mikið átak til að samræma kennslu margra skóla. Í þessu sambandi dettur mér einmitt í hug, að Vestmannaeyjar eru ákjósanlegur staður einmitt fyrir fiskiðnskóla. Á síðasta þingi var samþ. þáltill. um að skipa 7 manna nefnd til þess að gera tillögur um fiskiðnskóla. Ég veit ekkert um, hversu því starfi miðar áfram, en það væri ákjósanlegur staður fyrir slíkan skóla, einmitt Vestmannaeyjar, með þeim mörgu fiskiðjuverum, sem þar eru. Sýnikennsla og verkleg kennsla er mjög nauðsynleg og gæti farið þar fram í ríkari mæli, en víða annars staðar.

Ég vildi koma þessari aths. að, áður en málið fer til n., svo að fleiri en eitt sjónarmið komi fram.