29.03.1965
Efri deild: 59. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1985 í B-deild Alþingistíðinda. (1869)

160. mál, atvinna við siglingar á íslenskum skipum

Flm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Á þskj. 359 hef ég ásamt hv. 1. þm. Vesturl. leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á lögum nr. 66 17. júlí 1946, um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum.

1. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„49. gr. laganna orðist svo:

Skip, sem notuð eru til styttri siglinga, aðallega innan fjarða og flóa, skulu vera undanþegin ákvæðum þessara laga um fjölda skipstjórnarmanna, þ.e. stýrimanna og vélstjóra.

Ráðh. skal heimilt, í samráði við skipaskoðunarstjóra, að ákveða fjölda skipstjórnarmanna á skipum þessum.

Dráttarbátar, sem aðallega eru notaðir á höfnum inni, svo og grafvélar og aðrar fleytur, sem hafa vélar innanborðs, en eru ekki knúnar áfram með vélarafli, skulu og vera undanþegnar ákvæðum laga þessara um fjölda skipstjórnarmanna.

Ráðh. skal og heimilt, í samráði við skipaskoðunarstjóra, að ákveða fjölda skipstjórnarmanna á fleytum þessum:

Eins og fram kemur í grg. fyrir frv., er það flutt að beiðni h/f Skallagríms, en það rekur, eins og kunnugt er, farþegaskipið Akraborg á læeiðinni milli Reykjavíkur, Borgarness og Akraness.

Á s.l. ári var siglingum skipsins breytt þannig, að það fer nær eingöngu á milli Reykjavikur og Akraness og er samanlagður siglingatími skipsins daglega nú 7 klst., miðað við þrjár ferðir, en 9 klst. og 15 mín., séu fjórar ferðir farnar á milli Reykjavíkur og Akraness. Að öðru leyti liggur skipið í Reykjavíkurhöfn.

En þegar það er athugað, að Akraborg siglir nær eingöngu að degi til og burt vera úr Reykjavíkurhöfn er í einu 2 klst. og 15 mín. til 2 klst. og 30 mín., má ljóst vera, að venjuleg vaktaskipti eru eigi framkvæmanleg, þó að öll skipshöfnin sé um borð, en án verkefnis, nema sá hluti hennar, sem annast siglinguna í hvert sinn.

14 manna skipshöfn og 4 afleysingarmenn eru þess vegna í engu samræmi við afkastaþörfina og þar með rekstrinum algerlega ofviða fjárhagslega. Enda þótt skipaskoðunarstjóri hafi talið sig reiðubúinn að veita meðmæli sín með því, að skipstjórnarmönnum verði fækkað á m/s Akraborg þrátt fyrir stærð skipsins og þá sérstaklega með tilliti til þeirra siglinga, sem skipið hefur, þá koma þau meðmæli ekki að haldi, þar sem heimild í lögum skortir til þess að veita umrædda undanþágu.

Eins og hv. alþm. er kunnugt í sambandi við afgreiðslu fjárl., þá er fjárhagsleg afkoma flóabátanna yfirleitt mjög efið og sá bátur, sem fær hæstan styrk til síns rekstrar, er einmitt Akraborgin, þrátt fyrir það að þetta skip veiti langmesta þjónustu, því að ekkert skip, sem er í flutningum, hefur annan eins farþegafjölda og þetta skip, eða um 38 þús. farþega á ári. Samt sem áður er afkoma skipsins svona erfið, ekki vegna þess, að farþegum sé neitt ívilnað, því að ég ætla, að það fargjald, sem innheimt er, 100 kr. fyrir klukkutíma siglingu, sé það hæsta, sem talið er, að það megi vera, með hliðsjón af þeirri stuttu siglingu, sem hér er annars um að ræða.

Nú hefur þetta skip verið í klössun og er gert ráð fyrir, að það hefji innan tíðar, þegar klössun er lokið, sínar ferðir að nýju. Það hefur mjög verið rætt að undanförnu hjá ráðamönnum skipsins, hvort yfirleitt, þrátt fyrir þær miklu fjárveitingar, sem skipið nýtur, muni vera hægt að halda því gangandi áfram, af því að tilkostnaður er geysilega mikill með þeim mikla mannfjölda, sem á skipunum er samkvæmt lögum.

Það er von stjórnar Skallagríms, að ef fáist eðlileg breyting og lagfæring á þessum málum, eins og þetta frv. getur falið í sér, ef það verður samþ., megi á skynsamlegan hátt, en samt ekki á þann veg, að neitt öryggisleysi skapist í sambandi við siglinguna, koma á heilbrigðum grundvelli fyrir rekstur skipsins í framtíðinni.

Varðandi önnur atriði, sem þetta frv. felur í sér um dráttarbáta og aðrar fleytur, er talið nauðsynlegt að koma því í gegn um leið. Okkur er kunnugt um t.d. hafnarbátinn í Vestmannaeyjum, sem veitir þjónustu fiskiskipaflotanum á vertíðinni, að ef hann á að vera með löglegri eða fullri áhöfn, þegar hann fer út úr höfninni til þess að veita fiskibátunum aðstoð og draga þá að landi, yrðu t.d. bundnir við það skip miklu fleiri menn, en nauðsynlegt er á öllum öðrum tímum.

Ég vil því vona, að hv. alþm. verði á einu máli um að greiða fyrir þessu máli. Ég legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.