11.05.1965
Sameinað þing: 52. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2132 í B-deild Alþingistíðinda. (2025)

Almennar stjórnmálaumræður

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég þakka hæstv, forseta og mínum ágæta fyrirrennara, hæstv, fyrrv. fjmrh., fyrir heillaóskir og traust, sem mér er mikils virði í því vandasama starfi, sem ég hef ráðizt í að taka að mér. Jafnframt óska ég Gunnari Thoroddsen gæfu og gengis í því virðulega embætti, er hann nú tekur við. Getum við Íslendingar naumast sýnt bræðraþjóð okkar, Dönum, betur vinarhug okkar, en með því að senda þangað sem ambassador jafnglæsilegan fulltrúa og Gunnar Thoroddsen.

Ég býst ekki við, að neinn ætlist til þess, að ég gefi hér í þessum umr. nokkrar stefnuyfirlýsingar varðandi fjármálastjórn ríkisins. Fyrirrennari minn gerði í ræðu sinni í gærkvöld ýmsum veigamiklum atriðum fjármálanna svo glögg skil, að ég hef á þessu stigi engu þar við að bæta. Ráðherrarnir hafa að öðru leyti í ræðum sínum málefnalega gert grein fyrir þeim vandamálum, sem við er að fást, í einstökum atriðum. Mun ég því nota þessar fáu mínútur til þess að ræða eðli vandamálanna að nokkru frá annarri hlið.

Því miður hafa stælur og kapp oftast einkennt um of útvarpsumræður frá Alþingi. Hefur það hvorki orðið til að auka veg Alþingis né gefa þá réttu mynd af þróun þjóðmálanna, sem borgarar í lýðræðisþjóðfélagi verða að fá, ef þeir eiga að geta myndað sér raunsæjar skoðanir. Með þessu er ekki sagt, að þm. eigi að hafa sömu skoðanir, því að menn skiptast í mismunandi flokka einmitt vegna mismunandi viðhorfa til heildarstefnu í þjóðmálum, heldur hitt, að menn viðurkenni staðreyndir, reyni ekki að villa um fyrir fólki um eðli vandamálanna og leyfi sér ekki tillögugerð og málflutning, sem þeim mundi ekki koma til hugar, ef þeir ættu sjálfir að fara með völd. Með þessum orðum er ég ekki að ákæra neinn sérstakan og sýkna annan, heldur benda á meinsemd, sem er þjóðfélagsleg nauðsyn að stjórnmálaflokkarnir allir leitist við að uppræta.

Það er menningarvottur, að dagblöðin hafa síðustu árin bætt mjög fréttaflutning frá umr. á Alþingi, því að áður var venja að segja frá ræðum samherja og afgreiða síðan andstæðingana á þann veg, að þeir hafi farið með tómt bull. Íslendingar hafa jafnan þótt þrætugjarnir og þeir hafa naumast slitið barnsskónum í stjórnmálalegu uppeldi. Við stærum okkur gjarnan af að eiga elzta þjóðþing veraldar, en því miður nýtur Alþingi eigi þeirrar virðingar hjá þjóðinni, sem nauðsynlegt væri. Orsakirnar eru ýmsar, en óneitanlega eiga þm. fyrr og síðar eigi minnstan þátt í þeim virðingarskorti. Það er áreiðanlega ein veigamesta forsenda heillavænlegrar þróunar þjóðmála í lýðræðisþjóðfélagi, að borgararnir geti litið á þjóðþing sitt með stolti og virðingu og það munu menn ósjálfrátt gera, þótt skoðanir verði ætíð skiptar um ýmsar aðgerðir þings og stjórnar, ef flokkar og þm. leggja sig fram um að skýra sjónarmið sín á þann veg, að almenningi verði smám saman ljóst, að staðreyndir séu virtar og hvorki stjórn né stjórnarandstaða reyni að fela vanmátt sinn í lýðskrumi og blekkingum.

Fjöldi manna í okkar litla þjóðfélagi lítur stjórnmálastarfsemi hornauga og þykir litill sæmdarauki í því að skipta sér af stjórnmálum. Þetta lýsir alvarlegum misskilningi á eðli stjórnmálanna, sem nauðsynlegt er að uppræta. Stjórnmál eru í víðustu merkingu þess orðs þau úrræði, sem menn hafa til þess að treysta þjóðfélagið og búa borgurum þess þau menningarleg og efnahagsleg lífsskilyrði, sem hinar mismunandi stjórnmálastefnur telja þjóðinni farsælust. Í einræðisþjóðfélögum telja valdhafarnir það mestu varða, að borgararnir hugsi sem minnst og feli valdhöfunum allt sitt ráð. Í lýðræðisþjóðfélagi er það þjóðfélagslegt uppeldi hvers einstaklings, sem er forsenda heillavænlegrar þróunar. Það verður að fá almenning, sem við kosningar er hinn æðsti valdhafi í landinu, til þess að hugsa um eðli vandamálanna og mynda sér skoðanir um þau. En til þess að svo megi verða með eðlilegum hætti, verða umboðsmenn fólksins á þingi og í ríkisstj. að skýra málin rétt og blöðunum er skylt að gæta hins sama í skrifum sínum.

Því nefni ég þetta í ræðu minni hér í kvöld, að ég tel framvindu mála okkar á næstu árum geta mjög á því oltið, að afstaða bæði stjórnmálamanna og þjóðarinnar almennt þróist í þessa átt. Það er ekki ólíklegt að heimurinn standi nú andspænis meiri byltingu bæði í veraldlegum og andlegum efnum en nokkurn jafnvel órar fyrir í dag og við Íslendingar eigum þegar fram undan ýmis veigamikil úrlausnarefni, sem á miklu getur oltið fyrir allan okkar hag í framtíðinni að mætt verði með raunsæi og réttu mati staðreynda, en ekki von um stundarávinning af því að rangfæra málin. Einmitt hin öra framþróun gerir það enn nauðsynlegra, að hinir pólitísku forustumenn bregðist ekki þeirri skyldu sinni að túlka málin á réttan hátt fyrir almenningi, sem á erfiðara um vik að átta sig á nýjum viðhorfum.

Velgengni undanfarandi ára hefur valdið því, að við Íslendingar gerum nú orðið svo miklar kröfur um margvísleg lífsþægindi, að leggja verður mikla rækt við verðmætasköpun í landinu til þess að tryggja þau lífsskilyrði. Fólkið vinnur almennt mikið. En kröfurnar á hendur þjóðfélaginu eru líka miklar og því miður vill það um of brenna við, að við gerum okkur ekki grein fyrir því, að ríki og sveitarfélög eru ekki neinir ópersónulegir aðilar, sem ekki eru of góðir til þess að veita okkur ein eða önnur þægindi, heldur er hér um aðila að ræða, sem hafa það eitt fé til ráðstöfunar, sem þeir taka úr vasa okkar sjálfra, skattborgaranna. Því miður eigum við enga töfrakistu, sem allir geti mokað úr, en enginn þarf að láta í. En sú þjóðsaga virðist óhugnanlega útbreidd, eigi aðeins meðal almennings, heldur eigi síður hér innan veggja hins háa Alþingis. Þetta er þó staðreynd, sem ætti að vera auðskilin, en því miður ein þeirra veigamestu staðreynda, sem mönnum þykir oft hagkvæmt í hinni pólitísku baráttu að þykjast eigi skilja.

En til þess að hægt sé að tryggja lífskjörin og bæta þau, er frumnauðsyn, að eigi aðeins ráðamenn, heldur þjóðin öll geri sér grein fyrir vissum staðreyndum efnahagslífsins, sem tilgangslaust er að komast fram hjá, hverja stjórnmálaskoðun sem menn hafa að öðru leyti. Við höfum haft ríkisstj. allra flokka síðustu áratugi og það er hinn rauði þráður í örlagasögu þessara ríkisstj., að hin svokölluðu efnahagsmál hafa orðið þeim öllum að falli. Ótal úrræða hefur verið leitað og allar hafa þessar ríkisstj. auðvitað unnið af góðum hug, en því miður hafa þær flestar reynt að leysa vandann með því að brjóta gegn eðlilegum lögmálum efnahagslífsins, fyrst og fremst vegna þess, að almennur skilningur hefur ekki verið fyrir hendi á gildi þessara lögmála.

Það er fyrst nú á allra síðustu árum, þegar farið er að leggja hér rækt við hagfræðilegar rannsóknir á þróun efnahagsmála, að skilningur er að verða á því, að ný vinnubrögð verði að hafa, ef vel eigi að fara. Við stöndum sem sé frammi fyrir þeirri nöpru staðreynd, að þrátt fyrir gilda sjóði í stríðslok, sem notaðir voru til margvíslegrar uppbyggingar í landinu, hefur hagvöxtur á Íslandi verið minni frá stríðslokum, en hjá mörgum þeim þjóðum, sem urðu að reisa lönd sín úr rústum styrjalda. Það mun vera mat flestra hagfræðinga í dag, að hér um valdi fyrst og fremst ógætileg kröfugerð og óheppileg viðbrögð til þess að mæta þeirri kröfugerð með haftastefnu, sem í senn hindraði nauðsynlegt framtak til uppbyggingar og leiddi framleiðslustarfsemi í ýmsum greinum inn á óæskilegar brautir. Og hér er einmitt um að ræða þann þátt þjóðfélagsmála, þar sem hinn almenni skilningur á eðli vandans er frumskilyrði happasælla úrræða. Framleiðslan er undirstaða lífskjaranna. Verkföll geta verið óhjákvæmilegt neyðarúrræði fátækra verkamanna í þjóðfélögum, þar sem verkalýðurinn er að vinna sér viðurkenningu. En slík átök leiða oft til svo mikils tjóns framleiðsluverðmæta, er eigi lendi síður á launþeganum, en vinnuveitandanum, að því alvarlega vopni verður að beita af sérstakri varúð í þjóðfélagi, þar sem verkalýðssamtökin hafa hlotið almenna viðurkenningu og eru sterkustu almannasamtökin, svo sem hér á landi. Þá veltur á miklu, að mat verkalýðsforingjanna sé rétt og jafnframt skilningur af hendi ríkisvalds og vinnuveitenda til þess að leggja sig fram um að finna leiðir til lífskjarabóta innan þess ramma, sem efnahagskerfið þolir. Það getur naumast dulizt lengur nokkrum hugsandi manni, að þau vinnubrögð ein geta tryggt raunhæfar lífskjarabætur og allir ábyrgir aðilar verða að starfa í þessum anda, ef við eigum að geta sótt með sama hraða og aðrar menningarþjóðir fram til betra lífs.

Sú saga er sögð, að nokkrum árum fyrir heimsstyrjöldina síðari hafi ungur franskur blaðamaður heimsótt Churchill, sem þá var ekki sérlega hátt skrifaður í hinu friðsama Englandi og spurt hann, hvernig hann gæti bezt gagnað þjóð sinni með skrifum sinum. Churchill svaraði: „Með því að skrifa á hverjum einasta degi þessi varnaðarorð í blað þitt: Þýzkaland er að vígbúast.“ Við eigum þess ekki kost að leita ráða hins framsýna stjórnmálasnillings, Churchills. En það ætti ekki að þurfa sérstaka framsýni til þess að gera okkur grein fyrir því, er við lítum á reynslu síðustu áratuga, að hvorki stjórnmálamenn, verkalýðsforingjar, hlaðamenn né framleiðendur geta gert þjóð sinni meira gagn um sinn, en hamra þá staðreynd bæði inn í sjálfa sig og allar þjóðfélagsstéttir, að óhjákvæmileg forsenda heilbrigðrar efnahagsþróunar og nýrra átaka til eflingar íslenzkum atvinnuvegum sé að sameina kraftana til þess að sætta fjármagn og vinnu, finna grundvöll kjaraákvörðunar án verkfalla og stuðla að gagnkvæmum

skilningi milli stétta og starfshópa, en ekki ala á úlfúð og tortryggni.

Við höfum heyrt í kvöld og gærkvöld núv. stjórnarstefnu margt til foráttu fundið, en því miður minna um raunhæf úrræði til þess að leysa hin ýmsu vandamál og undirbyggja þær fjölþættu framfarir, sem vinna verður að á næstu árum til þess að tryggja hraðvaxandi þjóð viðunandi lífsskilyrði.

Þótt vandalítið sé að svara ásökunum stjórnarandstæðinga, læt ég það liggja á milli hluta. Fimm ár eru nú liðin, síðan núverandi stjórnarstefna var mörkuð, svo að þjóðin þekkir hana í reynd. Þótt því miður hafi ekki tekizt að stöðva verðbólguna, þá dylst naumast nokkrum, hverju hið frjálsa efnahagskerfi hefur fengið áorkað í þá átt að treysta efnahagslega undirstöðu þjóðfélagsins og örva framtak í landinu að því marki, að það er meira vandamál að hafa hemil á framkvæmdum, en tryggja fulla atvinnu.

Því heldur enginn stjórnarsinni fram, að ekki megi margt betur fara í þjóðfélaginu og við höfum alls ekki það oftraust á stjórnarstefnunni, sem stjórnarandstæðingar hafa, að nú geti þjóðfélagið gert ótalmargt, sem engum datt í hug að flytja till. um í tíð annarra ríkisstj. Við byggjum efnahagsstefnu okkar í senn á eigin reynslu og reynslu annarra vestrænna þ;jóða, sem flestar eða allar telja nú frjálst viðskiptakerfi öruggustu leiðina til þess að tryggja traust efnahagslíf. Það er grundvallarstefna okkar að freista allra úrræða til þess að efla atvinnulíf þjóðarinnar með það fyrir augum að bæta eftir föngum kjör allra vinnandi manna og tryggja jafnframt lífsafkomu þeirra, sem geta ekki sjálfir séð sér farborða. Það er skoðun okkar sjálfstæðismanna, að hugvit og framtak einstaklingsins sé styrkasti aflvaki framfaranna og því þurfi að örva einkaframtak og frjálst félagsframtak til forustu í framfarasókninni, en ríki og sveitarfélög verði þó að koma til, ef getu eða vilja bresti hjá öðrum til að hrinda í framkvæmd nauðsynlegum atvinnurekstri.

Við lifum á öld vísinda og tækni og framfarir á mörgum sviðum eru svo örar, að við megum hafa okkur öll við til að dragast ekki aftur úr. Við verðum því að leggja sérstaka rækt við að veita æskufólki þá menntun, að það geti leyst af hendi þau margþættu sérfræðistörf, sem hin nýja tækniöld gerir kröfu til. Við verðum að sjálfsögðu á þessu sviði sem öðrum að sniða okkur stakk eftir vexti. En við verðum að gera okkur rækilega ljósa þá staðreynd, að vísindi og æðri menntun hafa grundvallarþýðingu í framfarasókn þjóðarinnar. Vegna auðs og annarrar aðstöðu munu stórveldin í flestum greinum verða leiðandi. En við þurfum að eiga vísindamenn og tæknimenntað fólk á sem flestum sviðum, sem geta visað okkur veginn og valið það, sem okkur hentar. Hinar vinnandi hendur má ekki vanta, og þessar hendur má ekki skorta jákvæð verkefni en það er þó þekkingin og hugvitið, sem er lykillinn að betra lífi fyrir okkur öll. Það er skylda okkar, sem við stjórnmál fáumst, að greiða framförum leið og skapa nauðsynlegan skilning á nýjungum og breyttum viðhorfum með því að túlka þau rétt og veita þjóðinni réttar upplýsingar til raunsærrar skoðanamyndunar.

Ef okkur tekst öllum að vinna að úrlausn vandamálanna með jákvæðu hugarfari og vera jafnan reiðubúin til þess að láta þröngsýn flokks- og stéttarsjónarmið víkja fyrir þjóðarhag, þá þarf ekki að kvíða framtiðinni. Góða nótt.