18.11.1964
Sameinað þing: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2231 í B-deild Alþingistíðinda. (2041)

Framkvæmd vegáætlunar 1964

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Samkv. vegalögum er ráð fyrir því gert, að grein sé gerð fyrir framkvæmdum í vegamálum fyrir líðandi ár eins fljótt og unnt er, eftir að Alþingi kemur saman. Eins og hv. alþm. er kunnugt, hefur verið lögð fram skýrsla um framkvæmdir í vegamálum á þessu ári. Er í sjálfu sér litlu við þessa skýrslu að bæta. Þó þykir eðlilegt að gera nokkur atriði skýrslunnar að umtalsefni og draga fram nokkur atriði, sem sérstaklega eru athyglisverð.

Vegalögin gera ráð fyrir, að vegáætlun sé gerð til 4 ára í senn. Á síðasta þingi var þó samþ. áætlun til aðeins eins árs, vegna þess að undirbúningur vegamálaskrifstofunnar vegna nýrra vegalaga var ekki nægilega langt kominn, til þess að unnt væri að gera áætlun til 4 ára.

Unnið hefur verið að vegamálum á þessu ári samkv. áætluninni. Tekjuáætlun var, eins og kunnugt er, 242 millj. 100 þús. kr. Var tekjuáætlun rúmlega 100 millj. kr. hærri, en var á fjárl. 1963. Skipting útgjalda samkv. áætlunum var þannig: Stjórn og undirbúningur vegamála 8 millj. 867 þús. kr. Viðhald þjóðvega 80 þús. kr. Vegamerkingar 1 millj. kr. Til nýrra vega, hraðbrauta 10 millj. kr. Til þjóðbrauta 24 millj. 730 þús. kr. Til landsbrauta 27 millj. 160 þús. kr. Til fjallvega 2 millj. 315 þús. kr. Til brúargerða 31 millj. 705 þús. kr. Til sýsluvegasjóða 10 millj. kr. Til vega í kaupstöðum og kauptúnum 30 millj. 262 þús. kr. Til vélakaupa 11 millj. Ýmislegt, orlof o.fl. 5 millj. 60 þús. kr.

Útgjöld hafa að sjálfsögðu verið miðuð við áætlunina, eftir því sem mögulegt hefur verið. Getur það stundum valdið talsverðum erfiðleikum að vera alveg bundinn við ákveðna upphæð, þegar lítið vantar til þess að ljúka vissu verki. Skýrslan ber með sér, hvernig að framkvæmdum hefur verið unnið. Kemur í ljós, að vegagerðin hefur að þessu sinni haft margvísleg verkefni, sem hún hefur ekki haft áður. Vegagerðin hefur annazt nær allar framkvæmdir á vegum sýsluvegasjóða, sem hún gerði ekki áður, nema að litlu leyti. Sýslunefndir hafa verið aðstoðaðar við samningu reglugerða fyrir sýsluvegasjóði og áætlana um framkvæmdir á vegum sjóðanna. Vegagerðin hefur aðstoðað kaupstaði og kauptún við framkvæmdir á þjóðvegum innan þessara staða. Hreppsfélög og sýslufélög hafa um mörg undanfarin ár lagt fram bráðabirgðalán til vegaframkvæmda. Lán þessi hafa oft numið háum fjárhæðum, en urðu hæst á árinu 1963. Í ár hefur þeirri reglu verið fylgt yfirleitt að heimila endurnýjun bráðabirgðalána til einstakra vega að hálfu eða í hæsta lagi að 2/3 hlutum. Mögulegt var að draga þannig úr endurnýjun lána vegna heildarhækkunar á framlagi til vegamála. Ef framlagið hefði ekki hækkað eins og raun ber vitni, eða um rúmlega 100 millj. kr. miðað við næsta ár á undan, hefði ekki verið mögulegt að hækka bráðabirgðalánin, án þess að framkvæmdir hefðu dregizt verulega saman. Bráðabirgðalán voru í árslok 1963 23 millj. 300 þús. kr., en verða í árslok 1964 11 millj. 560 þús. kr. Þannig lækka bráðabirgðalánin um liðlega helming, þar sem nokkur tími er til áramóta, liggur eðlilega ekki fyrir endanlegt uppgjör fyrir allar framkvæmdir, þótt vitað sé í aðalatriðum, hvernig niðurstaðan verður.

Til viðhalds vega er varið á árinu 80 millj. kr. Er það 5 millj. kr. lægri upphæð en lagt var til, þegar till. til vegáætlunar var lögð fram. Með 5 millj. kr. hefði mátt sinna ýmsu í vegaviðhaldinu, sem varð að láta ógert að þessu sinni, vegna þess að fé vantaði. Vegaviðhaldið er enn nauðsynlegra, en nýbygging vega og má því ekki draga um of úr þeirri fjárhæð, sem til viðhaldsins er ætluð. Umferð á fjölfarnari vegum fer stöðugt vaxandi, og endist því malarslitlag mjög illa, eins og reynslan sýnir á mörgum vegum, sérstaklega í nánd við Reykjavík og fleiri stærri kaupstaði.

Til þess að koma í veg fyrir slysahættu hafa verið sett upp vegmerki á ýmsum stöðum. Var varið til þess á árinu 1 millj. kr. Þjóðvegir landsins eru 8.628 km að lengd. Vegmerkingar hafa verið settar upp á 3.224 km vegalengd.

Eftir er þá að merkja 5.407 km. Þess má geta, að meiri vegalengd verður á milli merkjanna á þeim vegum, sem ólokið er að merkja, heldur en á þeim vegköflum, sem merktir hafa verið, þar sem vegamerki hafa verið sett upp á hinum hættulegu vegaköflum í fjalllendi, þar sem brattar brekkur eru og slæmar beygjur.

Til hraðbrauta hefur verið varið á árinu samkv. áætluninni 10 millj. kr., þar af 6 millj. 788 þús. kr. af fjárveitingunni til Reykjanesbrautar, en auk þess hefur verið unnið að Reykjanesbraut fyrir um 40 millj. kr. lánsfé. Markmiðið er að ljúka við Reykjanesbrautina á árinu 1965, eins og áður hefur verið boðað. Verður þá væntanlega mögulegt að hefjist handa við Austurveg eða Vesturlandsveg á árinu 1966.

Fjárfesting til Þrengslavegar á árinu 1964 er 3 millj. 222 þús. kr. Nokkuð af þessari upphæð fór til þess að greiða lán, sem á veginum hvíldi og einnig til þess að endurbyggja nokkurn kafla vegarins.

Eins og skýrslan ber með sér, sem hv. alþm. hafa fengið, hefur verið unnið í þjóðbrautum og landsbrautum samkv. vegáætlun. Sama máli gegnir um fjallvegi.

Brúargerðir hafa verið með mesta móti á árinu. Byggðar hafa verið 48 brýr, þar af 6 stórbrýr. 26 brýr hafa verið 10 m og lengri, en 23 brýr 4–9 m. Lengd nýrra brúa samanlagt er 1.064 m. Varið var til brúa á árinu um 32 millj. kr. auk nokkurra framlaga frá sýslufélögunum til brúa á sýsluvegum.

Á hraðbrautum hafa verið undirbyggðir 15 km. Á þjóðbrautum hefur gerð nýrra vega numið 60,2 km og á landsbrautum 128,6 km. Nýir vegir í þjóðvegaflokknum hafa því orðið samtals á árinu 203,8 km. Auk þess hefur verið unnið að nýbyggingu sýsluvega, en endanleg skýrsla um þær framkvæmdir liggur enn ekki fyrir.

Til vega í kauptúnum og kaupstöðum hefur verið varið samkv. vegáætlun 30.262.500 kr. Hefur þegar komið í ljós, að kaupstaðir og kauptún hafa á fyrsta ári vegal. notfært sér þetta framlag og malbikað og bætt vegakerfið verulega.

Til vélakaupa var fjárveiting 11 millj. kr. Auk þess var tekið nokkurt erlent lán til kaupa á vegavinnuvélum, og hefur nú síðustu 3 árin verið varið talsverðu fé til vélakaupa, en þess gerist mikil þörf, þar sem vegagerðin hefur ekki fengið nýjar vélar um margra ára skeið. Venjan var lengi sú að kaupa notaðar vélar af varnarliðinu, og hefur vélakostur vegagerðarinnar því verið úreitur og allt of dýr í rekstri. Það verður að halda áfram að endurnýja vélakostinn með því að kaupa nýjar og vandaðar vélar, eins og þegar er byrjað á. Með því fást aukin afköst í vegagerðinni og meiri möguleikar til þess, að vegunum verði vel við haldið og nýbygging vega geti aukizt tiltölulega miklu meira, en fjárveitingarnar.

Nokkru fé hefur verið varið til þess að gera tilraunir við vega- og gatnagerð með það fyrir augum að fá betra efni og meiri afköst í framkvæmdum.

Það yfirlit, sem hér hefur verið dregið saman, ætti að nægja til þess að gefa heildarmynd af framkvæmdum í vegamálum á þessu ári, ekki sízt vegna þess, að hv. alþm. hafa fengið ýtarlega skýrslu um þessi mál, þar sem hver framkvæmd fyrir sig, er tilgreind í samræmi við gildandi vegáætlun.

Vegaframkvæmdir hafa aukizt á árinu þrátt fyrir endurgreiðslu bráðabirgðalána og nokkra hækkun á framkvæmdakostnaði. Ljóst er, að framkvæmdir hefðu dregizt mjög saman á árinu, ef nýju vegalögin hefðu ekki tekið gildi með því aukna framlagi, sem áður hefur verið nefnt. Á árinu hafa verið greidd bráðabirgðalán, sem tekin voru á s.l. ári, en greiðsla bráðabirgðalánanna hefði ekki verið framkvæmanleg án aukningar fjárframlaga á árinu. Það er oft talað um nauðsyn þess að auka fjárframlög til vegamála. Það er vissulega auðvelt að færa sterk rök fyrir því, að betri vegir eru nauðsynlegir og auknar framkvæmdir, ekki aðeins fyrir þá, sem í dreifbýlinu búa, heldur einnig fyrir þá, sem eru í kauptúnum og kaupstöðum. Það er vitanlega Alþingi, sem kveður á um það hverju sinni, hversu miklu skuli varið til þessara mála og hvenær nauðsyn þykir bera til að auka þá tekjustofna, sem vegamálin nú hafa samkv. vegalögunum.

Innan fárra daga verður lögð fram vegáætlun fyrir næstu 4 ár. Hefur vegamálaskrifstofan unnið að samningu áætlunarinnar frá því snemma í sumar. Er það mikið verk og vandasamt að undirbúa og semja áætlun um framkvæmdir í vegamálum til svo langs tíma. Þegar vegáætlunin verður lögð fram og tekin til umræðu, gefst tækifæri til að ræða nánar um vegamálin í heild og framkvæmdir fyrir næstu framtíð.