05.02.1965
Sameinað þing: 25. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2308 í B-deild Alþingistíðinda. (2068)

Stóriðjunefnd

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af fullyrðingum hv. 3. þm. Reykv. Hv. þm. talar um Búrfellsvirkjunina og vitnar í orð norskra sérfræðinga, að þeir hafi fullyrt, að þetta yrði dýrasta virkjunin og Búrfellsvirkjunin væri hrein vitleysa. Nú hefur hv. 3. þm. Reykv. eins og aðrir hv. þm. fengið greinargerð og skýrslur um virkjunarrannsóknir ekki aðeins í Búrfelli, heldur um marga staði, sem til greina gæti komið að virkja hér á landi og þessar skýrslur hafa hv. þm. vitanlega lesið og kynnt sér rækilega, þar sem þær voru afhentar nokkru fyrir áramótin. Og það kemur fram í þessum skýrslum, að fjórir tæknimenntaðir menn hafa sérstaklega athugað þessi mál og gefið út sameiginlegt álit, — er óþarfi að nefna þá, þar sem það liggur fyrir, — og auk þess hafa verkfræðingar frá alþjóðlegu firma, sem einnig er kunnugt um, lagt blessun sína yfir þessar athuganir. En ég ætla ekki að fara að ræða virkjunarmálin á þessu stigi, en vil lýsa því yfir, að til viðbótar því, sem fyrir liggur og hv. þm. hafa fengið, er alveg sjálfsagt að leggja fram frekari greinargerð um ísrekið, sem ég hygg, að hv. 3. þm. Reykv. hafi mesta ótrú á. En það liggur nú fyrir, að ísrek er í öllum íslenzkum jökulám og það hefur engum dottið í hug að afskrifa möguleikann til virkjunar í þessum ám, þótt það sé fyrir hendi. Og í áætlun um Búrfellsvirkjun eins og aðrar virkjanir, sem hefur verið gerð áætlun um, er reiknað með ísrekinu. Það er reiknað með þeim viðbótarkostnaði, sem af því leiðir að tryggja nægilegt varaafl, — varaafl, sem verður að vera fyrir hendi, þótt ekki væri um ísrek að ræða, vegna þess að bilanir geta komið á línum og öðru og til þess að skapa fyllsta öryggi og útiloka truflanir þurfa varastöðvar að vera til. Veit ég, að allir hv. alþm. gera sér fulla grein fyrir þessu. En mér finnst sérstök ástæða til þess að mótmæla þessum fullyrðingum og einnig því, að hér er sveigt mikið að okkar sérfræðingum og alþjóðlegum sérfræðingum, sem unnið hafa að þessu máli, að fullyrða þrátt fyrir þeirra niðurstöður, þrátt fyrir þeirra sameiginlegt álít, að hér sé um hreina vitleysu að ræða.

Ég veit, að hv. 3. þm. Reykv. er á móti alúminíumverksmiðju, hann hefur sagt það. Hann er á móti því að fá erlent fjármagn inn í landið, í hvaða mynd sem það er og undir hvaða kringumstæðum sem það er og hv. þm. veit, að alúminíumverksmiðja hér á landi kemur því aðeins til greina, að virkjað verði í einu meira, en fyrir almenna notkun í landinu, að það verði ráðizt í stórvirkjun, sem getur látið af hendi rafmagn til þessarar verksmiðju. Það er ótrúlegt, að afstaða hv. þm. til Búrfellsvirkjunar mótist af þessu, að hún skapi möguleika fyrir alúminíumverksmiðju, en smáu virkjanirnar, sem hv. þm. hefur gerzt talsmaður fyrir, þær geri ekki mögulegt að setja upp slíka verksmiðju, sem flytur inn í landið erlent fjármagn. Ég held, að það sé sjálfsagt, að við höfum alla varúð á að hleypa erlendu fjármagni inn í landið. En við verðum að athuga það hverju sinni, undir hvaða kringumstæðum þetta erlenda fjármagn gæti komið, hvort við setjum okkar sjálfstæði eða atvinnuöryggi í hættu með því eða ekki eða hvort við erum að tryggja efnahagslegt og pólitískt sjálfstæði okkar með því. Norðmenn eru meðal smáþjóða, en þeir hafa ekki óttazt það að fá erlent fjármagn til sín. Þeir hafa talið, að þeir gætu tryggt réttindi sín öll með samningum, og vissulega hafa þeir gert það. Þeir hafa tryggt sitt efnahagslega öryggi með því að flytja erlent fjármagn inn í landið með þeim hætti, sem kunnugt er.

Það er fáránleg fullyrðing, að ef að því ráði yrði horfið að byggja hér verksmiðju fyrir erlent fjármagn, þá væri verið að kasta hanzkanum á verkalýðinn, eins og hv. 3. þm. orðaði það hér áðan. Ég segi, að þar sem hv. þm. talaði um það hér áðan, eins og augljóst var, að honum væri sérstaklega heitt í hamsi, þá verði réttast að skoða fullyrðingar hans í því ljósi, að hann hafi sagt ýmislegt í fljótræði, því að ég er sannfærður um það, að íslenzkur verkalýður geti ekki litið svo á, að það sé verið að vinna gegn honum með því að auka fjölbreytni atvinnulífsins og skapa víðtækari möguleika til atvinnuöryggis, en hingað til.

En ég sem sagt ætla ekki að fjölyrða meira um þetta. Ég vildi aðeins segja, að það, sem gert hefur verið í virkjunarmálunum, er gert fyrir opnum tjöldum. Þær upplýsingar, sem menn óska frekar eftir í sambandi við það, er sjálfsagt að láta af hendi, alveg sjálfsagt, og ákvörðun um það, hvar verður virkjað, verður vitanlega tekin að vel athuguðu máli. Það verður auðvitað stuðzt við álit sérfræðinganna í því efni og þar verður ekki nein tilfinningasemi látin ráða, heldur rökhyggja og skynsemi, sem byggð er á sérfræðilegum athugunum.