26.10.1964
Neðri deild: 6. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í C-deild Alþingistíðinda. (2283)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er allmikill lagabálkur og mjög þýðingarmikið, að þingið fjalli vandlega um heildarlöggjöf eins og þessa og samkv. starfsaðferðum þingsins mundi það fyrst og fremst leggjast á nefndirnar, sem fá málið til meðferðar, að athuga það gaumgæfilega.

Það er aðeins eitt atriði og kannske tvö, sem ég vildi aðeins fjalla um og þá fyrst og fremst til leiðbeiningar fyrir n., sem fær málið til meðferðar. Eins og menntmrh. vék að, eru ákvæði um vegabréf í þessu frv. Það er í 39. gr. a. Það eru tvær 39. gr., 39. gr. og 39. gr. a. Í sambandi við ákvæðið um vegabréf, sem hér er, ef þetta yrði samþ. og mundi þá taka til ungmenna á aldursskeiðinu 12–18 ára, vil ég segja það, að eins og menn minnast frá síðasta þingi, urðu nokkrar umr. um vegabréfaskyldu ungmenna í sambandi við frv. til breytinga á áfengislöggjöfinni, sem þá var til meðferðar. En það frv. var ekki afgr. frá þingínu. Hins vegar var afgr. till. í Sþ., þar sem skipuð var nefnd til þess að taka löggjöf og breytingar á löggjöf um áfengismálin til meðferðar. Af þessu tilefni hef ég skrifað nefnd þeirri, sem kosin var í lok þingsins og tjáð henni, að ég mundi ekki hafa frumkvæði um að flytja að nýju frv. um breytingar á áfengisl., sem dómsmrh. flutti í fyrra, þar sem ég teldi, að Alþingi hefði raunverulega fengið frumkvæði í þessum málum í hendur þessarar n. Hún hefur skrifað mér eitt bréf, þar sem hún víkur að vegabréfaskyldunni og segir eitthvað á þá leið, að áður en lengra sé haldið í hennar störfum, sé hún þó sammála um, að það beri nú þegar að taka ákvarðanir um það að láta ungmenni hafa vegabréf, sem hægt sé að nota til þess að fylgjast með aðsókn þeirra að skemmtistöðum, þar sem selt er og veitt er áfengi og einnig í sambandi við áfengiskaup. Þetta yrði annaðhvort gert með nýrri löggjöf eða, eins og n. segir, byggt á gamalli löggjöf frá stríðsárunum, sem ég teldi nú ekki hæfa til að byggja slíka vegabréfanotkun á nú. En þá kemur annað aldursmark til greina, en hér er, þ.e. 12– 18 ára, og ég tel þess vegna, að það þurfi að athugast betur, hvort það sé ekki eðlilegra, að í öðrum lögum, en þessum, séu þessi ákvæði um vegabréfaskylduna, enda kannske gert ráð fyrir því af n., þar sem greinin er merkt 39 a., að svo kynni að fara, að hentara þætti að fella hana niður. Hins vegar af tilefni þessa bréfs áfengisnefndarinnar er nú verið að athuga og verður bráðlega lokið til hlítar, hvort réttara væri að hverfa að því að gefa út almenn vegabréf til manna, að menn hefðu persónuskilríki á öllum aldri, frá 12—14 ára aldri eftir atvikum og upp úr og einnig ef sýndist í of mikið ráðizt og ekki nógu mikil rök fyrir því, þá yrðu gefin út sérstök lög um vegabréfaskyldu eða skyldu ungmenna til að bera á sér persónuskilríki og þá væntanlega til hærri aldurs, allt upp að 26 ára aldri, í sambandi við skyldusparnaðinn upp að þeim aldri og svo aftur í sambandi við bæði aðgang að veitingahúsum og mætti þá vera lægra markið með hliðsjón af t.d. því, sem fram kemur hér í þessu frv., vegna nauðsynjar á eftirliti með börnum. Þetta bið ég n. að taka til athugunar og ég býst við, að innan tíðar liggi fyrir hjá dómsmrh. nánari álitsgerð um vegabréfaskylduna, almenna eða takmarkaða og n. mundi þá hafa samráð við mig, áður en gengið er endanlega frá þessu.

Það er einnig ákvæði hér um fóstur í þessu frv., sem væri ástæða til að óska eftir sambandi við n. um. Það komu tilmæli til dómsmrh. frá kvennasamtökum í landinu um þau mál og nýja löggjöf varðandi fóstur barna. Það mál hef ég sent, eins og nú standa sakir, til sifjalaganefndar, sem hefur það og önnur mál til athugunar og býst við innan tíðar að fá álitsgerð frá henni.

Það er í raun og veru aðeins þetta, sem ég vildi á þessu stigi málsins hafa vakið athygli á og þá sérstaklega þeirrar n., sem málið fær til meðferðar.