01.03.1965
Neðri deild: 48. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (2350)

131. mál, eignaréttur og afnotaréttur fasteigna

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Áður en málið fer til n., vil ég vekja athygli á einu atriði alveg sérstaklega.

Eins og fram kemur í grg. frv., eru þau ákvæði í íslenzkum l. um vissar fasteignir og vissan atvinnurekstur, að útlendingum er með öllu bannað að eiga fasteignir eða annast þennan atvinnurekstur, þannig að það er áskilið í íslenzkum lögum, að það séu íslenzkir ríkisborgarar einir, sem eigi að eiga umræddar fasteignir og annast umræddan atvinnurekstur. Eins og kemur fram í grg., gildir þetta í fyrsta lagi um raforkuver, sem eru stærri en 100 hestöfl. Það þarf samþykki Alþingis til hverju sinni, ef útlendingum á að vera leyfilegt að eiga slíkar fasteignir og reka þær. Samkv. l. um rétt til fiskveiðilandhelgi frá 1922 eru það einnig íslenzkir ríkisborgarar einir, sem mega stunda fiskveiðar í landhelgi og mega annast fiskvinnslu í landhelgi. Hins vegar hefur það verið nokkuð umdeilt atriði, hvort samkv. þeim l. mættu útlendingar hafa rétt til að annast fiskvinnslu í landi. Ég hef verið einn þeirra, sem hafa litið þannig á, að þetta væri mjög mikið vafaatriði og þess vegna flutti ég um það frv. fyrir tveimur árum, að ákvæði l. um rétt til fiskveiða í landhelgi frá 1922 yrðu gerð skýr um þetta atriði, þannig að það næði einnig til fiskvinnslu í landi eins og í landhelgi, þ.e. hana mættu Íslendingar einir annast. Frv. mínu var m.a. andmælt hér á Alþingi með þeirri röksemd, að þetta væri óþarft, vegna þess að ákvæði l. frá 1922 giltu jafnt um fiskvinnslu í landhelgi og fiskvinnslu í landi. Nú sé ég hins vegar í grg. þessa frv., að þar er staðfest sú skoðun, sem ég hef haldið fram. Þar segir, með leyfi hæstv. foseta:

„Samkv. l. um fiskveiðilandhelgi mega íslenzkir ríkisborgarar einir reka fiskveiðar í landhelgi og landa afla sinum hér á landi til verkunar eða vinnslu. Hlutafélög mega reka fiskveiðar í landhelgi, enda sé meira en helmingur hlutafjárins í eigu íslenzkra ríkisborgara. Hins vegar mega þau því aðeins stunda fiskverkun í landhelgi, að hlutafé sé allt í eigu íslenzkra ríkisborgara.“ Og svo segir: „Samkv. túlkun hlutaðeigandi íslenzkra stjórnarvalda gildir þetta ákvæði ekki um fiskiðnað í landi, heldur fellur slíkur atvinnurekstur undir ákvæði l. um iðju og iðnað, nr. 18 31. maí 1927.“

Sem sagt, það liggur hér fyrir sem skýlaus túlkun viðkomandi íslenzkra stjórnarvalda, að l. um fiskveiðar í landhelgi frá 1922 nái ekki til fiskiðnaðar í landi. Það er skoðun mín, sem ég rakti mjög greinilega fyrir tveimur árum, þegar frv. mitt var til meðferðar, að það væri jafnmikil nauðsyn að banna útlendingum með öllu að reka fiskiðnað í landi og banna þeim að annast fiskveiðar og fiskvinnslu í landhelgi. Ég álít það mikla nauðsyn, fyrst þessu máli er hreyft á annað borð um rétt útlendinga til að eiga hér fasteignir og afnotarétt á fyrirtækjum, að þá verði þetta mál gert alveg skýrt og sett í það lagafrv., sem hér liggur fyrir, skýr ákvæði um það, að ákvæði l. frá 1922 um rétt til fiskveiða í landhelgi nái einnig til fiskiðnaðar í landi, hvað því viðkemur, að það séu íslenzkir ríkisborgarar einir, sem mega annast þennan rekstur.

Ég held, að það sé að verulegu leyti rétt, sem kom fram hjá hæstv. dómsmrh., að útlendingar muni ekki sækjast sérstaklega mikið eftir því að annast hér atvinnurekstur eða eiga hér atvinnufyrirtæki í velflestum atvinnugreinum, sem eru stundaðar hér á landi. Þó held ég, að fiskiðnaðurinn sé alger undantekning í þeim efnum, það sé sú atvinnugrein, sem þeir muni helzt sækjast eftir að komast inn í og þess vegna eigum við að láta nákvæmlega sömu lagaákvæði gilda um fiskiðnaðinn og nú gildir um eign og rekstur raforkuvera og eign og rekstur fiskiskipa, sem mega stunda veiðar í landhelgi. Ég vil beina því til þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún taki upp breytingar við þetta frv. á þá leið, að það verði gert alveg skýrt og ákveðið, að sömu ákvæði komi til með að gilda hér um fiskvinnslu í landi og fiskvinnslu í landhelgi.