19.11.1964
Neðri deild: 18. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í C-deild Alþingistíðinda. (2438)

60. mál, endurálagning útsvars og tekjuskatts

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til, að tekjuskattur álagður s.l. sumar og útsvör álögð um svipað leyti verði tekin til endurálagningar, þ.e.a.s. að gjöld þessi verði endurskoðuð og lögð á að nýju samkv. reglum, sem frv. greinir. Lagt er til, að við endurálagningu verði skattstigi og útsvarsstigar, sem í gildi voru árið 1960, lagðir til grundvallar, þó þannig, að þessir gjaldstigar verði umreiknaðir samkv. breytingum á verðlagsvísitölu á þessu tímabili.

Mér þykir rétt að gera nokkra grein fyrir, hvernig stendur á því, að í frv. er lagt til að miða við þá gjaldstiga, sem í gildi voru árið 1960. Það var einmitt árið 1960, sem hæstv. núv. ríkisstj. gerði mjög umfangsmiklar breytingar á efnahagsmálum landsins. Þá var í ýmsum grundvallaratriðum breytt um skatta- og tollainnheimtu. Söluskattar voru stórhækkaðir frá því, sem áður hafði verið. Tollar voru í rauninni einnig hækkaðir verulega með hinni miklu gengisbreytingu, sem þá var samþykkt, en jafnhliða þessu var gerð allveruleg breyting á beinum sköttum, þ.e.a.s. að tekjuskattstigi var lækkaður verulega. Um þetta sama leyti var einnig gerð sú sama breyting á varðandi tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga, að þau fengu nú hluta af söluskatti, sem þau höfðu ekki haft áður og því var þá haldið fram, að það ætti að verða til þess, að hægt yrði að lækka útsvörin í landinu almennt. Það var því árið 1960, sem nýr grundvöllur var að verulegu leyti lagður í sambandi við tekjuskattsálagningu ríkisins og einnig í sambandi við útsvarsálagningu bæjar- og sveitarfélaga. Og um það hefur ekki verið deilt, að á árinu 1960 urðu allverulegar lækkanir í þessum efnum á tekjuskatti einstaklinga og á útsvörum, líklega í flestum eða öllum sveitarfélögum landsins. Síðan 1960 hafa að vísu verið gerðar nokkrar breytingar, bæði á útsvarslögunum og einnig á tekjuskattslögunum, en því hefur jafnan verið haldið fram, að þær breytingar væru allar til lækkunar. Það hefur aldrei heyrzt á það minnzt, að verið væri að hækka álögurnar frá því, sem hafði verið ákveðið árið 1960. Hins vegar hefur það ekki farið á milli mála, að þeir, sem greiða eiga skatta til ríkisins og til bæjar- og sveitarfélaga, hafi mjög haldið því fram, að þessar álögur væru nú að þyngjast eigi að síður.

Og við vitum öll, hvernig á því stendur, að þannig hefur þessu verið varið í raun og veru, að þessar álögur hafa verið að þyngjast. Það er dýrtíðin, sem hefur í raun og veru verið að hækka þessar álögur. Tekjur manna hafa hækkað í krónum talið, án þess að í mjög mörgum tilfellum væri um hækkaðar raunverulegar tekjur að ræða eða tekjur, sem gæfu meira kaupmáttargildi. Þetta hefur leitt til þess, að hinar almennu launatekjur hafa færzt ofar í skatta- og útsvarsstigana, sem hafa verið stighækkandi og eftir þessari leið dýrtíðarinnar hafa þessi gjöld verið að hækka á landsmönnum yfirleitt á síðustu árum. Það er talið, að þessi hækkun hafi ekki orðið ýkjamikil árið 1961 og ekki heldur árið 1962, en að á árinu 1963 og á yfirstandandi ári 1964, hafi hækkunin af þessum ástæðum orðið allveruleg. Okkur flm. þessa frv. hefur því þótt rétt að leggja til grundvallar við breytingar á álögðum gjöldum á þessu ári, þ.e.a.s. tekjuskatti einstaklinga og útsvörum einstaklinga, að leggja til grundvallar þá gjaldstiga, sem í gildi voru hér árið 1960 og reynt sé að halda sig við það, að þau gjöld, sem menn eiga að greiða á þessu ári, 1964, eigi út af fyrir sig ekki að vera hærri hlutfallslega, þegar tillit er tekið til dýrtíðarbreytinga, heldur en þau voru árið 1960. Auðvitað er hægt að deila um það, hvort gjaldstigarnir, sem í gildi voru árið 1960, hafi í öllum greinum verið sanngjarnir eða ekki, og það er auðvitað enginn vafi á því, að allir alþm. eru þar ekki á einu máli. En eigi að síður eru þetta ákvæði. sem hafa verið samþykkt hér á Alþingi og hafa verið í gildi og eru óumdeilanlega þau hagstæðustu fyrir gjaldþegna í landinu, sem verið hafa um langan tíma og af því sýnist full ástæða til þess að miða við þau ákvæði, sem í gildi voru árið 1960.

Ég þarf ekki að fara hér mörgum orðum um það, hvaða orsakir liggja til þess, að þetta frv. er flutt, um endurálagningu útsvars og tekjuskatts einstaklinga árið 1964. Hér í þessari d. hefur annað frv. verið flutt um sama efni og umr. hafa þegar farið fram um það. Frsm. þess máls, hv. 11. þm. Reykv., flutti þá hér mjög ýtarlega og greinargóða ræðu um þær orsakir, sem liggja til þess, að nú eru fluttar till. um það að taka upp endurskoðun eða breytingar á álögðum gjöldum á þessu ári. Ég get tekið undir öll ummæli, sem fram komu í ræðu hans um þetta mál. Ég veit, að allir hv. alþm. muna það fullvel, að á s.l. sumri reis upp mjög almenn og viðtæk óánægja gjaldenda í landinu með álagða skatta á þessu ári. Og viðbrögð manna úr öllum flokkum urðu með nokkuð svipuðum hætti. Meira að segja öll dagblöðin í Reykjavík urðu um það sammála, að álögurnar á þessu ári sýndu, svo að ekki væri um að villast, að óhjákvæmilegt væri að taka gildandi skattalög og útsvarslög til endurskoðunar. Og ég ætla að flestir hafi verið á því máli þá, að það væri einnig óhjákvæmilegt, að gerðar væru einhverjar ráðstafanir til þess að lækka hin álögðu gjöld. Og það fer ekki heldur á milli mála, að nefndir voru skipaðar af ríkisstj. sjálfri til þess að hugleiða þessi mál og satt að segja hugsa ég, að flestir hafi búizt við því, að einhverjar ráðstafanir yrðu gerðar til lækkunar á þessum álögðu gjöldum nú snemma á þessu þingi.

Við Alþb.-menn leggjum fram þetta frv., sem hér er til umr. nú, sem tillögu grundvöll af okkar hálfu um það, hvernig ætti að framkvæma breytingarnar í þetta skipti. Framsóknarmenn hafa lagt fram sitt frv. og talað fyrir sínum till. í þessum efnum. Við Alþb.-menn getum ekki tekið undir þessar till. framsóknarmanna. Við teljum, að á þeim séu verulegir gallar. Í þeim er lagt til í aðalatriðum, að tekjuskattur einstaklinga, sem álagður var á s.l. sumri og er undir 7 þús. kr., verði felldur niður og að tekjuskattur annarra einstaklinga verði lækkaður um 7 þús. kr. Út af fyrir sig, þó að hér sé um nokkuð ónákvæma aðferð að ræða, hefðum við ekki gert aths. við þessa till., því að við því mátti búast, eins og hér hefur komið fram í umr. um þetta mál, að í þeim bráðabirgðaráðstöfunum, sem hér þyrfti að gera, yrði að lúta að því að miða till. við það, sem yrði tiltölulega auðvelt að framkvæma, jafnvel þó að þær næðu ekki hinu fyllsta réttlæti. En annar meginliðurinn í till. framsóknarmanna er um það, að öll álögð útsvör einstaklinga verði lækkuð um 20% og að ríkið greiði síðan bæjar- og sveitarfélögum þann mismun, sem þá kemur fram. Þessa till. teljum við fráleita. Það er ekki um það að villast, að útsvörin í hinum einstöku sveitarfélögum eru mjög mismunandi há. Sum sveitarfélögin hafa veitt mjög mikinn afslátt frá gildandi útsvarsstigum, önnur hafa aftur ekki veitt neinn afslátt, heldur beinlínis orðið að hækka útsvarsstigana, sem við hefur verið miðað. Að gera till. um það, að öll álögð útsvör um allt land skuli lækkuð um sömu prósentutölu hjá öllum, 20%, teljum við því alveg fráleitt.

Við teljum, að miklu eðlilegra sé að miða breytingarnar við það, sem fram kemur í okkar frv., að láta fram fara endurútreikning á öllum útsvörum og sköttum álögðum á þessu ári eftir alveg tilteknum útsvarsstigum og tekjuskattsstiga. Þar er um grundvöll að ræða, sem Alþingi hefur áður fallizt á og viðkomandi staðir, sveitarfélögin, hafa einnig miðað við og við álítum, að í bráðabirgðaráðstöfunum, sem nú þarf að grípa til, sé ekki hægt að finna annan grundvöll, sem út af fyrir sig sé eðlilegri. Ég býst að vísu við, að því verði borið við, að það muni verða ærið mikið verk að framkvæma þessa endurálagningu á þennan hátt. En við álítum, að það sé fyrirsláttur einn. Þegar gengið er út frá því, að framtöl einstaklinganna liggja þegar fyrir fullafgreidd frá skattayfirvöldum landsins og aðeins væri um það að ræða að endurútreikna skattinn samkv. gefnum skattstiga eða endurútreikna útsvörin samkv. áður ákveðnum útsvarsstigum, þá er slíkur endurútreikningur ekkert ofsaverk. Það er hægt að framkvæma hann á tiltölulega skömmum tíma. Starfið verður fyrst mikið og flókið, ef á að taka upp vinnuna við hin einstöku framtöl. Og þó að það sé okkar skoðun, að þar sé mörgu áfátt og að mörg af framtölunum séu harla langt frá því að vera í réttum búningi, þá gerum við enga till. um það varðandi þessa bráðabirgðalausn að kafa niður í það vandamál að þessu sinni.

Við höfum flutt á síðasta þingi till. um, að breyting yrði gerð á eftirliti með framtölum og teljum, að slíka till. ætti að framkvæma. En slík athugun hefur fyrst og fremst gildi, ef hún hefur verið samþ. á Alþingi, áður en framtöl eru afhent til skattayfirvaldanna, því að slík till. mundi fyrst og fremst veita mjög mikið aðhald við framtölin, auk þess sem auðvitað athugunin samkv. till. sjálfri mundi hafa sitt að segja.

Það er skoðun mín, að það sé vel unnt að framkvæma þá endurálagningu á útsvörum og tekjuskatti einstaklinga árið 1964, sem lögð er til með þessu frv. En spurningin er um það, hvort hægt er að fá samkomulag um að vinna þetta verk með nýrri lagasetningu hér á Alþingi. Ég tel engan vafa á því, að ef þetta frv. yrði samþ. og unnið yrði að framkvæmdum samkv. því, mundu álögð gjöld á þessu ári lækka allverulega. Lækkunin mundi að sjálfsögðu verða mjög misjöfn, t.d. hvað viðkemur útsvarslækkunum, eftir því, á hvaða stað það er, því að þar hafa verið lagðir til grundvallar mjög mismunandi útsvarsstigar, eins og menn vita. Ég get að vísu ekki gert grein fyrir því, hvað búast má við mikilli lækkun þessara gjalda samkv. frv., en ég tel, að það sé enginn vafi á því, að lækkunin yrði talsvert veruleg. Í grg. frv. eru birt nokkur dæmi um það, um hvers konar breytingu hér er að ræða og þau dæmi sýna, að um talsvert verulega lækkun yrði að ræða í flestum tilfellum. Sem dæmi vil ég nefna, að samkv. þeim tekjuskattslögum, sem í gildi eru enn og þeim útsvarsreglum, sem giltu nú á þessu ári hér í Reykjavík, mundu t.d. hjón með tvö börn, sem hafa haft 180 þús. kr. tekjur, hafa greitt í útsvar 33.215 kr., en í tekjuskatt 11.009 kr. Slík fjölskylda með jafnháar tekjur, 180 þús. kr. tekjur, mundi samkv. þessu frv. greiða í útsvar 29.049 kr. í staðinn fyrir 33.215 kr. og í tekjuskatt 3.570 kr. í staðinn fyrir 11.009 kr. Hér er því augljóslega um allverulega lækkun að ræða frá þeim gjöldum, sem álögð voru nú á þessu sumri. En þessi mismunur, sem kemur fram í þessu dæmi, er um leið vísbending um það, hvernig þessi gjöld hafa hækkað umfram þann grundvöll, sem lagður var árið 1960 með lögum hér frá Alþingi, um það, hvernig verðbólgan hefur verið látin hækka gjöldin á sambærilegum tekjum. Og það kemur í ljós m.a. í þessu dæmi, að tekjuskatturinn hefur hækkað miklum mun meira samkv. leið dýrtíðarinnar, en útsvarið. Tekjuskattur, sem hefði átt að vera 3.570 kr., eins og ég sagði, hefur nú orðið 11.009 kr. Dýrtíðin hefur séð um þessa hækkun. En um nokkra hækkun hefur líka beint af völdum dýrtíðarinnar verið að ræða á útsvarinu, en engan veginn eins mikla.

Á það hefur verið bent, m.a. í stuðningsblöðum ríkisstj., að till. okkar Alþb.-manna samkv. þessu frv. miði að því að lækka meir gjöldin á hátekjumönnum, en á almennum launþegum og dæmi hafa síðan verið tekin um það, hve mikið gjöldin mundu lækka t.d. á fjölskyldu, hjónum með tvö börn, sem hafa 220 þús. kr. í tekjur og svo aftur í hinu tilfellinu hjónum, sem hafa aðeins 90 eða 120 þús. kr. tekjur. Ég tel, að þessar athugasemdir, sem fram hafa komið bæði í Alþýðublaðinu og Vísi, séu út af fyrir sig alveg fráleitar. Í fyrsta lagi er þess ekki gætt, að hinar almennu launatekjur eru, sem betur fer, ekki orðnar 90 þús. kr. á ári. Þær eru orðnar allmiklu meiri og það eru einmitt þeir launþegar, sem nú hafa 150 og upp í 200 þús. kr. og verða beinlínis að hafa þær tekjur til þess að geta staðið undir meðalstórri fjölskyldu. Og menn afla sér þeirra tekna með því að leggja mjög mikið að sér. Það eru orðnar tekjur fjölda launþega í landinu.

Það er rétt, að fyrir allmörgum árum mátti tala um það, að 180–220 þús. kr. tekjur væru tekjur hátekjumanna. En það er auðvitað fjarstæða að tala um það, eins og verðgildi peninganna er orðið nú. Það er út af fyrir sig rétt, að gjöld á lægstu tekjum, eins og t.d. 90 þús. kr. tekjum fjölskyldu, eru ekki mikil núna. Eftir þeim reglum, sem eru í gildi í dag, þá er ekki greiddur neinn tekjuskattur til ríkisins af slíkum árstekjum og útsvar á slíkar tekjur, sem að vísu er nokkuð, er ekki verulega hátt. Þær breytingar, sem gerðar hafa verið á útsvars- og skattalögunum á síðustu árum, hafa fremur miðað í þá átt að vernda hag hinna allra tekjulægstu, því verður ekki neitað. En almennar launatekjur áttu að verða skattfrjálsar samkv. því, sem ríkisstj. lofaði með till. sínum árið 1960. Þá var ekkert úr því dregið í málflutningi ríkisstj., að stefnt væri að því, að almennar launatekjur ættu að verða skattfrjálsar.

Með till. 1960 var skýrt frá því, m.a. í fjárlagafrv. fyrir árið 1960, að tekju- og eignarskattur, sem mundi verða þá eftir gildandi lögum um 180 millj. kr., yrði með þeim breytingum, sem þá voru gerðar á lögunum, lækkaður niður í 80 millj. kr. eða um meir en helming. Og á því var auðvitað enginn vafi, að þá var framkvæmd veruleg lækkun á beinum sköttum til ríkisins, á sama tíma sem verið var að stórlækka söluskatt og tolla. En eins og ég hef gert nokkra grein fyrir, hefur þróunin orðið sú, að þessi gjöld hafa hækkað á nýjan leik eftir leiðum verðbólgunnar.

Um það verður auðvitað spurt, hvernig eigi að bregðast við þeim vanda, sem upp kemur, ef frv. eins og þetta yrði samþ. um lækkun skatta og útsvara, að því leyti til, hver eigi að borga lækkunina. Í frv. er gert ráð fyrir því, að bæjar- og sveitarfélög eigi að halda áfram þeim tekjustofnum, sem þau hafa haft samkv. álagningunni á s.l. sumri, en að ríkissjóður eigi að bæta þeim upp að því leyti til, sem gjöld þeirra verði lækkuð og að ríkissjóður eigi síðan að taka á sig lækkunina, sem verður á tekjuskatti einstaklinga. Samkv. fjárlögum fyrir yfirstandandi ár var gert ráð fyrir því, að tekjur ríkisins af tekju- og eignarskatti yrðu 255 millj. kr. En nú er upplýst. að álagður tekju- og eignarskattur á þessu ári nemur 301 millj. kr. eða hefur farið fram úr áætlun um 46 millj. kr. (Gripið fram í.) Þetta er tekið beint upp úr fjárlögunum í ár og upp úr gögnum frá þeirri n., sem hefur verið að athuga þessi mál. (Gripið fram í.) Samkvæmt áætluninni á fjárlagafrv. voru þessi gjöld áætluð 255 millj., ekki rétt? Það er rétt. Og samkv. upplýsingum skattstjóra eða skattstofu ríkisins eru álögð gjöld á árinu 1964 301 millj. kr. (Gripið fram í: Það er líka rétt.) Það var þetta, sem ég var að segja. (Gripið fram í.) Tölurnar eru sambærilegar að því leyti til, að það hefur verið gert ráð fyrir því, að ríkið fengi tekjur af þessum tekjustofnum upp á 255 millj. kr., en álögð eru

þessi gjöld upp á 301 millj. kr. Þær eru algerlega sambærilegar að öðru leyti en því, að hugsanlegt er, að tilflutningur á milli ára geti orðið eitthvað breytilegur. Að öllu öðru leyti eru þær auðvitað sambærilegar. Og það er engin ástæða til að búast við því, að hér þurfi að verða um flutning á milli ára að ræða til verulegra breytinga frá því, sem áður var. Hér er því alveg tvímælalaust um það að ræða, að allt bendir til þess, að þessi tekjustofn gefi tekjur í ríkissjóð, upp á 46 millj. kr. hærri fjárhæð, en áætlað var. Þessari fjárhæð er sanngjarnt að ríkissjóður verji til leiðréttingar á gjöldunum, sem álögð voru á þessu ári. Enda liggur það fyrir staðfest bæði af skattayfirvöldum og af ríkisstj. líka, að tekjur reyndust á árinu 1964 mun hærri, en áætlað hafði verið og þar af leiðandi varð tekjuskatturinn miklum mun hærri, en búizt hafði verið við. Ég álít því, að réttmætt sé að verja fjárhæð svipaðri þessari, 46 millj. kr., til leiðréttingar á álögðum gjöldum á þessu ári. Auk þess tel ég svo, að fjárhagur ríkissjóðs sé með þeim hætti og hafi verið nú síðustu árin, að hann leyfi það, að ríkissjóður hlaupi hér nokkuð undir bagga, ef á þarf að halda, með beinu framlagi til þess að lækka gjöldin.

Ég álít, að það, sem hér er um að ræða, sé fyrst og fremst þetta: Vill hæstv. ríkisstj. viðurkenna þann skattagrundvöll, sem lagður var árið 1960 og sem hún hældi sér þá mjög mikið fyrir að setja? Vill hún halda sér við þann grundvöll og fallast á það, að honum verði ekki raskað með breyttu verðlagi, samsvarandi tekjur nú og þá eigi að bera samsvarandi gjöld? Um það er spurningin. Fáist ríkisstj. ekki til að viðurkenna þetta, er hún að slá hinu föstu um leið, að hún hafi ætlað sér og vilji standa á því að hækka álögurnar frá því, sem var 1960, með leið dýrtíðarinnar.

Eins og fram kemur í grg. þessa frv., eru þær till., sem í frv. felast, hugsaðar sem bráðabirgðalausn á því vandamáli, sem upp kom á þessu ári í skatta- og útsvarsmálum. Hitt liggur alveg Ijóst fyrir, að það er skoðun okkar Alþýðubandalagsmanna, að það þurfi að gera í grundvallaratriðum breytingar á gildandi skatta- og útsvarslögum. Um till. í þeim efnum fjallar þetta frv. ekki. Það er skoðun okkar, að það þurfi að hækka í lögunum reglur um persónufrádrátt og það eigi í l. að tryggja umreikning á gjaldstigum, þannig að gjöldin séu aldrei hækkuð á mönnum eingöngu vegna þess, að verðlag hafi breytzt í landinu. Það er einnig álit okkar, að það þurfi að breyta skattstiganum í ýmsum efnum. En það, sem við teljum þó þýðingarmest af öllu að gera til breyt. á skattalögunum, er að tryggja, að eftirlitið með skattframtölum, sérstaklega þeirra, sem hafa með höndum rekstur eða einhvers konar fésýslu, sé annað og betra, en það er nú og það hefur verið um langan tíma.

Það hefur æði oft komið fram hér í umr. á Alþingi, að alþm. hafa gert sér grein fyrir því, að skattalögin eru í raun og veru þannig í framkvæmd, að þeir, sem hafa með höndum rekstur eða einhvers konar fésýslu, geti í raun og veru ákveðið sína skattgreiðslu sjálfir. Eftirlitið er ekki meira en svo, að þeir, sem kunna sæmilega til verka að setja upp framtöl sín og skila þeim á réttum tíma til skattyfirvaldanna, komast upp með það, sem þeir vilja, í þessum efnum.

Þessi galli hefur leitt til þess á undanförnum árum, að beinu skattarnir hafa verið að færast í síauknum mæli yfir á herðar almennra launamanna í landinu. En reglur um það að tryggja, að rétt framtöl væru hjá launamönnum, hafa verið, óhætt að segja, sæmilegar. Þar hefur ekki verið um raunveruleg undanskot að ræða.

Það er skoðun okkar Alþýðubandalagsmanna, að mikilvægasta breytingin á skattalögunum, sem þurfi að gera, sé einmitt fólgin í þessu, að reyna að tryggja, að framtöl þeirra, sem hafa með höndum atvinnurekstur eða einhvers konar fésýslu, verði réttari, en þau eru nú. Það er vitanlega hægt með ýmsum ákvæðum að tryggja, að þessi framtöl séu betri en þau eru, en til þess þarf auðvitað vilja.

Eins og ég sagði áður, fluttum við á síðasta þingi till., sem miðaði í þessa átt. Og ég er ekki í neinum vafa um það, að samþykkt slíkrar till. mundi verða mjög til gagns. En þar var gert ráð fyrir því, að samkv. sérstökum útdrætti, sem Hagstofa Íslands stæði fyrir, yrði tiltekinn hluti af framtölum allra bókhaldsskyldra fyrirtækja tekinn til nákvæmrar athugunar, bókhald viðkomandi fyrirtækja skoðað og jafnvel skoðað nokkur ár aftur í tímann. Ef öll framtalsskyld fyrirtæki í landinu vissu, að þau ættu það á hættu, að þeirra hlutur kæmi upp í þessum efnum og slík athugun færi fram á rekstri þeirra öllum, þá efast ég ekki um, að það mundu margir telja öðruvísi fram fyrir þessi fyrirtæki, heldur en þeir gera nú.

Sjálfsagt er einnig að láta fara fram nákvæma athugun einnig á framtölum einstaklinga, þó að þeir hafi engan beinan rekstur með höndum, líka samkv. sérstökum útdrætti og ráð var fyrir því gert einnig í till. okkar.

Við teljum líka þeim mun meiri nauðsyn vera á því, að tryggilega og vel sé um þessa hnúta búið, sem lengra er gengið í þá átt, eins og hefur verið nú á síðustu árum, að leggja á söluskatta og fela atvinnurekstrinum í landinu eða ýmsum fésýslumönnum aðstöðu til þess að innheimta skattana fyrir ríkið. Það gefur vitanlega auga leið, að ef framtal t.d. kaupmanns er rangt, vegna þess að hann vill skjóta undan tekjum sínum, þá eru allar líkur til þess, að svo fari í framkvæmdinni, að í hans einkavasa renni nokkuð af álögðum söluskatti, sem hann hefur innheimt af viðskiptavinum sínum, auðvitað að forminu til fyrir hönd ríkisins, en skilar ríkinu því aldrei.

Það er því orðin aðkallandi nauðsyn, þegar söluskattarnir eru orðnir jafnháir og nú er, að tryggja betur rétt framtöl, en gert hefur verið hjá þessum aðilum.

Um þessi atriði, sem ég hef hér aðeins gert að umtalsefni, um breyt. á skattalögunum, fjallar þetta frv. í sjálfu sér ekki. Það fjallar aðeins um bráðabirgðabreytingu á gildandi l. varðandi álagningu þessara gjalda nú á þessu ári. Ég skal svo ekki eyða hér lengri tíma í umr. um þessi mál að svo komnu, en vil leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og fjhn.