30.11.1964
Neðri deild: 22. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í C-deild Alþingistíðinda. (2464)

83. mál, veiting prestakalla

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af menntmn. samkv. beiðni hæstv. ráðh., eins og sagt hefur verið. Það er af kurteisi við ráðh., að orðið hefur verið við þeirri beiðni, alveg eins og ég býst við, að hæstv. ráðh. flytji þetta fyrst og fremst af kurteisi við kirkjuþing, enda var auðheyrt á honum, að hann er ekki meira en svo með þessu frv. og mundi, ef hér ætti að gera breytingar á, vilja gera það á ýmsan annan máta. Það er rétt að athuga þessar till, sem koma enn einu sinni hér til okkar, frá ýmsu sjónarmiði.

Félög þau, sem Lúterstrúarmenn hafa hér á Íslandi, söfnuðirnir, hafa náttúrlega sama rétt og öll önnur félög. Það stendur í stjórnarskránni, 63. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Landsmenn eiga rétt á að stofna félög til að þjóna guði með þeim hætti, sem bezt á við sannfæringu hvers og eins.“ Þegar menn stofna slíka söfnuði, hefur það venjulega þótt til heyra, að þeir réðu því um leið, hvern mann þeir veldu sem milligöngumann milli sín og guðs eða til þess að rækja þau störf, sem rækja á fyrir söfnuðinn. Og slíkan rétt hljóta Lúterstrúarmenn að hafa hér á Íslandi, alveg eins og aðrir söfnuðir. Ég skil ekki, að það geti verið neinn vafi á því, að Lúterstrúarmenn séu jafnréttháir öðrum söfnuðum á Íslandi, þó að svo sé í augnablikinu, að hin evangelíska lúterska kirkja sé þjóðkirkja á Íslandi. Það er ekki mjög fast í stjórnarskránni, það ákvæði, því ákvæði má breyta með l. og sé það samþykkt með allsherjaratkvgr., er það þar með búið, það þarf ekki einu sinni beina stjórnarskrárbreytingu til. Hins vegar þarf stjórnarskrárbreytingu til þess að breyta 63. gr. um, að landsmenn hafi þennan rétt til að mynda slík trúarfélög. Og þar í hefur alltaf falizt og ekki sízt innan kristinnar kirkju rétturinn til þess að ráða sínum starfsmönnum og ég veit ekki betur, en það hafi jafnvel oft og tíðum í kirkjunni verið allhörð barátta fyrir því, að söfnuðir fengju sjálfir að ráða sínum prestum. Ég held þess vegna, að það sé alveg ótvíræður réttur evangelísklútersk hugsandi manna, sem myndað hafa sína söfnuði á Íslandi, að ráða sínum starfsmönnum. Og ég álít alls ekki hægt að taka þennan rétt af þeim frekar en af öðrum félagsskap í landinu, þeir eigi að fá að stjórna sér þannig sjálfir.

Það er eitt atriði, sem menn mundu kannske fara að halda fram í þessu sambandi og það er, að vegna þess að ríkið styður þessa kirkju sem stendur, veitir nokkurt fé til hennar, launar jafnvel presta hennar og slíkt og lætur hana sæta þeirri sérstöku aðstöðu, að hún sé ríkiskirkja og hennar kenningar þess vegna teknar fram yfir ýmsar aðrar kirkjudeildir í sambandi við t.d. háskólann og annað slíkt, þá ættu Lúterstrúarmenn að missa þennan rétt, sem aðrir söfnuðir hafa. Ég veit ekki til þess, að Lúterstrúarsöfnuðir hér á Íslandi hafi gert neinn slíkan samning við ríkið, að þeir hafi selt af höndum sér réttinn til þess að ráða sinum starfsmönnum. Ég held, að Lúterstrúarmenn hljóti að hafa þennan rétt eins og aðrir menn hafa. Íslendingar, sem mynda sér félög um ýmsa hluti, jafnt í trúarlegum efnum sem öðrum. Ég held, að það sé ekki hægt að taka þennan rétt af þeim í krafti þess, að ríkið veiti þeim sérstaklega fjárhagslega aðstoð, m.ö.o. að ríkið vilji segja: Ég kaupi bara þennan rétt af þér. Ég veiti þér fjárhagslega aðstoð og svo missir þú þennan rétt. — Ég held, að það sé algerlega rangt. Það er meira að segja alveg sérstaklega tekið fram í 64. gr., að menn megi ekki missa af neinum borgaralegum réttindum vegna trúarbragða sinna og ég held, að allt þetta kák, sem verið er með af hálfu vissra kirkjuhöfðingja hér á Íslandi nú í sambandi við þessi mál, stangist ekki aðeins við grundvallarreglur kristinnar kirkju, heldur líka við stjórnarskrána og almenn lýðréttindi í landinu.

Það, að ég geri þetta sérstaklega að umtalsefni, stafar af því, að mér er illa við þessa áráttu embættismanna að vilja sölsa undir sig þau lýðréttindi, sem fólk hefur. Þetta er tilhneiging manna, sem eru komnir í embætti og jafnvel há embætti, að vilja svipta þá, sem þeir eiga að vera fulltrúar fyrir, þeim rétti, sem þeir hafa til þess að ráða. Það er eins og þessi tilhneiging fylgi oft og tíðum sérstaklega háum embættum. Og ég held, að það sé nauðsynlegt, að menn fái að vita, að það verður staðið á móti slíkum tilhneigingum. Það er nauðsynlegt og ekki sízt hér á Íslandi, með alla okkar erfð í þeim efnum, að standa þarna á verði gagnvart því, að ríkisvaldið fari að sölsa undir sig þann rétt, sem almenningur á að hafa.

Þau félög, sem Lúterstrúarmenn hafa myndað hér á Íslandi, þeir söfnuðir, sem þeir starfa í, eiga að hafa sinn rétt eins og annar félagsskapur landsmanna. Og það á engu að breyta þar í, hvort þeirra kirkja sem stendur er viðurkennd sem ríkiskirkja á Íslandi eða ekki.

Ef ég man rétt, ég er nú kannske eitthvað farinn að ryðga í kirkjusögunni, en ég held, að upphaflega hafi það verið alveg sjálfsagt mál í kristnum söfnuðum, að þeir kysu sína starfsmenn. Ég held, að það hafi einmitt verið, þegar var verið að reyna að innlíma kirkjuna í ríkið, að voldugir keisarar tóku upp á því að reyna að fara að skipa alla starfsmennina. Það hefur áður verið gerð tilraun til þess, eins og hér hefur þegar verið getið um, að leggja niður þessar prestskosningar eða svipta þessa lútersku söfnuði þessum rétti og þær tilraunir hafa fram að þessu mistekizt og ég vil vona, að þær mistakist enn.

Það hefur verið talað hér nokkuð um það, að þessar prestskosningar væru hvimleiðar, það hefur verið sagt hér, að það væri þolraun og hæstv. dómsmrh. nefndi hér áðan, hvers konar leiðindi máske gætu hlotizt af slíkum kosningum. Ég veit ósköp vel, að það hefur margt komið fyrir, sem er leiðinlegt, í þessum kosningum, ýmiss konar ærumeiðing og ósannindi og ýmsir ljótir hlutir hafa verið hafðir um hönd. Kristnir söfnuðir verða að fá sama rétt og aðrir til að haga sínum málum eins og þeim þóknast. Ef það er eitthvað ókristilegt stundum, þá reyna þeir vafalaust að bæta úr því sjálfir og ég sé ekki rétt til þess að svipta þá þess vegna þeim réttindum, sem þeir eiga að hafa. Það getur verið alveg rétt, að þessar kosningar séu ósköp leiðinlegar. En það eru söfnuðirnir sjálfir, sem verða að dæma um það. Þeir verða sjálfir að segja til um slíkt. Ég býst við, að ef einhver söfnuður kemur saman og samþykkir þar einróma, að hann óski eftir því, að honum sé skipaður prestur, þá sé það gert. Ef hins vegar hann bara gerir það með því að mæta ekki á kjörfundi, þá gerist það sama, ef það er ekki nægileg þátttaka í kosningum, ef menn hafa ekki meiri áhuga en það, þá er presturinn skipaður, þannig að það er á margan máta hægt að láta þetta í ljós. Ef færa á þau rök fyrir að svipta Lúterstrúarmenn þessum réttindum, sem þeir eiga að hafa, að kosningarnar hjá þeim séu illkynjaðar, þá eru það náttúrlega engin rök frekar en að segja, að kosningar séu yfirleitt ósköp leiðinlegar og það séu óttalegar ærumeiðingar og jafnvel ósannindi, sem menn segja í kosningum. Ég veit ekki betur, en við þm. ættum að þekkja þetta bezt, þetta geti komið fyrir og sé jafnvel nokkuð algengt og jafnvel, að sumir þm. beri það hverjir á aðra, að þeir hafi ósannindi um hönd í kosningum, svo að ég tali nú ekki um ærumeiðingar og annað slíkt. En hverjum dettur í hug að fara að svipta okkur þess vegna þeim réttindum að mega kjósa? Ég held, að þeir hákristilegu söfnuðir í landinu verði þó að halda sínum réttindum rétt eins og þeir, sem utan við þá standa, þannig að þó að þeirra kosningar kynnu að verða eitthvað leiðinlegar og annað slíkt, þá er það eins og hvert annað böl, sem frelsinu fylgir. Það verður nú einu sinni að vera svo.

Hitt held ég aftur á móti, að sé alveg greinilegt í sambandi við rökin, sem færð eru fyrir þessu frv., að það eru fyrst og fremst embættismennirnir sjálfir, prestarnir, sem þarna eru að ýta á. Það er ekki frá söfnuðunum, sem þetta kemur. Prestarnir eru að kvarta yfir, að það sé erfitt fyrir þá að færa sig til. Hvað mættu þá sumir þm. segja, sem sitja í sömu kjördæmunum alla ævina. Það væri kannske eitthvað þægilegra að láta t.d. forseta Íslands útnefna þá og skiptast dálítið á um að vera í þessum kjördæmum. Nei, ég er hræddur um, að það sé orðin nokkur rík tilhneigingin í embættismennskunni hjá kirkjuhöfðingjunum í sambandi við þetta frv.

Ég held þess vegna, að það sé vafalaust alveg rétt hjá hæstv. dómsrh., að lýðræðið hafi verið misnotað í kirkjunni. En hvar er það ekki misnotað, lýðræðið? Ég er hræddur um, að það komi nokkuð víða fyrir. Ætli það hafi ekki einhvern tíma komið fyrir á Íslandi, að t.d. einhver flokkur hafi lofað einhverju fögru fyrir kosningar og ekki staðið við það eftir þær? Ég er hræddur um, að lýðræðið sé misnotað af mjög mörgum, þannig að við björgum þessu ekki með því.

Ég held þess vegna, að bókstaflega út frá þeim mannréttindum, sem helguð eru í stjórnarskránni, sé ekki rétt að samþ. þetta frv. Ég held, að það sé ekki hægt að svipta þá, sem tilheyra þeim evangelísku lútersku söfnuðum, frekar en aðra, þó að þeir sem stendur njóti þeirra sérréttinda að vera ríkiskirkja, þeim réttindum, sem þeir hafa til að kjósa sína starfsmenn. Þess vegna held ég, að það sé fráleitt að flytja slík frv. eins og flutt hafa verið undanfarið í þessum efnum og það eigi að reyna að koma embættismönnum kirkjunnar í eitt skipti fyrir öll í skilning um, að það þýði ekki. Við vitum þar að auki, að það eru mjög skiptar skoðanir um þetta meðal meira að segja sjálfra embættismanna kirkjunnar, sjálfra prestanna og það er venjulega með 2/3 atkv. eða einhverju slíku, sem svona samþykktir eru gerðar af hálfu kirkjunnar. En aftur á móti söfnuðirnir hafa yfirleitt ekki óskað eftir þessu.

Ég tek undir það, sem hæstv. ráðh. lagði til, að menntmn. athugi þetta mál. Ég geng út frá því, þó að hún formlega hafi orðið við þeirri beiðni, sem sjálfsagt er, að flytja það, þá hafi hún allan venjulegan hátt á, hún geti klofnað um þetta mál, gefið út mismunandi nál. og annað slíkt, þannig að þetta mál komi þá aftur til kasta þingsins, þegar hv. menntmn. sé búin að athuga það og móta sina skoðun um það.