04.05.1965
Neðri deild: 81. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í C-deild Alþingistíðinda. (2536)

130. mál, loðdýrarækt

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég heyrði lesnar einu sinni áðan þær 2 skrifl. brtt., sem hv. 5. þm. Vesturl. hefur nú lagt fram. Ég felli mig vel við síðari brtt. hans um útflutningsgjald á loðdýrum eða loðdýraskinnum og mun greiða henni atkv. Mér finnst það góð till. En ég get ekki fallizt á hans fyrri till. Ég get ekki veitt samþykki tillögum, sem geta haft það í för með sér, að við, sem búum í héruðum, þar sem villiminkurinn hefur verið og er, fáum yfir okkur viðbót af því óféti. Okkur þykir nóg að fást við það, sem fyrir er og því er það, að ég vildi koma málinu öðruvísi fyrir og mín brtt., sem ég mun lýsa hér á eftir, stefnir að því.

Eins og ég gat um við 2. umr. málsins, barst okkur þm. nú fyrir síðustu helgi bréf frá náttúrugripasafninu, dags. 28. apríl s.l. Þetta bréf er skrifað af forstöðumanni safnsins, dr. Finni Guðmundssyni og eins og ég sagði við 2. umr., tel ég, að þm. ættu að kynna sér sem rækilegast efni þess, sem sá fræðimaður hefur um þetta að segja. Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa nokkuð upp úr þessu bréfi frá dr. Finni. Hann segir eftir inngang á þessa leið:

„Ég verð að játa, að það veldur mér nokkrum erfiðleikum að taka afstöðu til umrædds frv., því að þar er þess hvergi getið, hvaða dýr sé fyrirhugað að ala í væntanlegum loðdýrabúum né heldur hvort fyrirhugað sé að flytja til landsins loðdýr í því skyni. Vel getur komið til mála að ala íslenzk dýr, svo sem refi og íslenzka villiminka, í loðdýrabúum og kemur þá auðvitað ekki til innflutnings á loðdýrum. En grunur minn er sá, að flm. frv. geri ráð fyrir innflutningi loðdýra, en um slíkan innflutning eru ströng ákvæði í gildandi l. Í 2. gr. l. nr. 15 1948 er mælt svo fyrir, að innflutningur á hvers konar dýrum sé háður leyfi landbrh. og leyfi megi ekki veita, nema stjórn Búnaðarfélags Íslands mæli með því og yfirdýralæknir samþykki innflutninginn. Þá eru ákvæði í 5. gr. l. nr. 48 1956, um náttúruvernd, um, að leita skuli umsagnar náttúruverndarráðs, áður en leyfi er veitt til innflutnings á lifandi dýrum. Þó að frv. það um loðdýrarækt, sem nú hefur verið lagt fyrir Alþ., verði samþykkt, haggar það ekki á nokkurn hátt við ákvæðum gildandi l. um innflutning dýra: `

Þetta segir dr. Finnur. Og ég vil enn fremur — með leyfi hæstv. forseta — lesa upp niðurlagið á bréfi hans, en það er þannig:

„Að lokum vil ég leyfa mér að benda á, að mér er ekki kunnugt um, að nokkur viðhlítandi athugun hafi farið fram á þjóðhagslegu gildi loðdýraræktar hér. Þess væri þó full þörf, áður en verulegar fjárhæðir væru festar í loðdýrabúum. Því hefur að vísu verið haldið fram, að með loðdýrarækt væri hægt að stórauka verðmæti fiskúrgangs, sem fellur til í verstöðvum hér. Ef ekki verður hægt að sporna við því til fulls, að minkaeldi verði leyft hér á ný, vil ég gera það að varatill. minni, að það verði aðeins leyft í Vestmannaeyjum, svo framarlega sem Vestmanneyingar vilja fallast á að taka við minkum. Í Vestmannaeyjum fellur til meira magn af fiskúrgangi, en í flestum öðrum verstöðvum hér á landi og þar væri hægt að ganga úr skugga um, hvort minkaeldi er eins arðvænlegt og látið er í veðri vaka, án þess að náttúru Íslands í heild sé stefnt í voða .“

Þetta finnst mér skynsamlega mælt hjá dr. Finni Guðmundssyni og því er það, að ég vil leyfa mér að leggja hér fram brtt., sem gengur í þá stefnu.

Í frv. þessu, eins og það upphaflega var lagt fyrir, er ákvæði til bráðabirgða, þannig hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Leyfi til minkaeldis samkv. l. þessum skal næstu 2 árin eigi veitt fleiri en 5 aðilum:“

Þannig var þetta, þegar frv. kom fram. Nú hefur verið gerð breyting á þessu ákvæði eftir till. frá meiri hl. landbn. og nú er bráðabirgðaákvæðið þannig orðað eftir 2. umr. frv.:

„Leyfi skal aðeins veita til ræktunar minka næstu 2 árin frá gildistöku l. og eigi fleiri en 5 minkabúum.“

Samkv. þessu er því slegið föstu. að það megi aðeins veita leyfi til ræktunar minka næstu 2 árin eftir gildistöku l. og ekki fleiri en 5 minkabúum. Nú vil ég samkv. því, sem ég hef þegar sagt, leyfa mér að leggja fram brtt. við frv., með leyfi hæstv. forseta, ætla ég að lesa hana, hún er þannig:

„Við ákvæði til bráðabirgða bætist: Minkabú,sem leyfð kunna að verða,skulu vera í Vestmannaeyjum.“

Þetta er, eins og ég hef þegar gert grein fyrir, alveg í samræmi við till. náttúrufræðingsins, forstöðumanns náttúrugripasafnsins, dr. Finns Guðmundssonar. Ég veit náttúrlega ekkert um það frekar, en dr. Finnur, hvort þeir í Vestmannaeyjum vilja taka við þessu dýri til að ala það þar. En hugsazt gæti það, að þeir mundu reyna þetta, ef þeir hafa einhverjir þar trú á því, sem mjög er haldið á loft, að þetta geti orðið arðvænlegur atvinnurekstur hér, þar sem mikið fellur til af fiskúrgangi frá frystihúsum. Það má náttúrlega gera ráð fyrir, að eitthvað af þessu sleppi út úr búrunum þar eins og annars staðar, og víst getur það valdið tjóni þar, a.m.k. á fuglalífi, en þó er sá skaði hverfandi samanborið við það, ef þessu er sleppt út á meginlandinu til viðbótar því, sem þar er fyrir. Mér finnast því sterk rök mæla með því, að þessi till., sem dr. Finnur hefur hér lagt fram í sínu bréfi, verði samþ. og þetta minkaeldi verði takmarkað við þennan stað á landinu, því að þá ætti það að vera alveg öruggt, að minkar, sem sleppa þar úr haldi, færu þó ekki nema um eyjarnar.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð. Ég vænti þess, að mönnum sé ljóst, hvað fyrir mér vakir með þessari brtt., og vil óska þess, að leitað verði afbrigða fyrir henni.