16.12.1964
Efri deild: 31. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

106. mál, söluskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, felur það í sér, að söluskattur, sem nú er 5 1/2%, verði hækkaður frá og með áramótum upp í 8%. Enn fremur er ákvæði um greiðslur af söluskatti til sveitarfélaganna. Þegar 3% söluskatturinn var lögleiddur 1960, var svo ákveðið, að 20% af honum skyldu renna til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og skipt milli þeirra þaðan eftir íbúatölu. Þegar söluskatturinn var hækkaður í janúarmánuði s.l. um 2 1/2%, var ákveðið, að hann rynni óskiptur til þeirra þarfa, sem janúarlögin fjölluðu um, en ekki skyldi hluti af þessari viðbót renna til sveitarfélaganna. Eins er það um þá hækkun, sem nú er ráðgerð. Það er gert ráð fyrir því, að hún renni óskipt í ríkissjóð. Það þykir því rétt að breyta þessu ákvæði um upphæðina, sem rennur til jöfnunarsjóðs, að forminu til, þannig að ákveða 7 1/2% af þessum væntanlega 3% söluskatti, sem er nákvæmlega sama upphæð og 20% af 3% söluskatti. Þetta frv. hefur þannig enga breytingu í för með sér varðandi hluta jöfnunarsjóðs sveitarfélaga af söluskatti.

Í júnímánuði s.l. náðist samkomulag milli ríkisstj., Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands um kaupgjaldsmál o.fl. Um leið og þessi samningur var gerður í meginatriðum um óbreytt kaup til eins árs, var ákveðið að taka upp verðtryggingu kaups, þannig að ef vísitala hækkaði, skyldi kaup einnig hækka. Til þess að reyna að koma kyrrð á þessi launamál og verðlagsmál, a.m.k. fyrst um sinn, var ákveðið, að vísitölu skyldi með auknum niðurgreiðslum úr ríkissjóði haldið óbreyttri fram á haust, þangað til þing kæmi saman, og enn fremur var því lýst yfir í þeim viðræðum, að reynt yrði að halda vísítölunni óbreyttri fram til áramóta. Þetta hefur verið gert með þeim hætti, að frá og með 1. júlí s.l. var aukin niðurgreiðsla á mjólkurlítra um 40 aura, og 1. sept. var hún enn aukin um 1.30 kr. Í þriðja lagi voru svo niðurgreiðslur auknar verulega í septembermánuði, þegar haustverðlagning landbúnaðarvara kom til, en þá hækkaði verð landbúnaðarvara sem svaraði 4.8 vísitölustigum. Það var ákveðið að greiða þessa verðhækkun landbúnaðarvara að öllu leyti niður með auknum níðurgreiðslum úr ríkissjóði. Þessar auknu niðurgreiðslur frá því í júní nema samtals sem næst 7 1/2 vísitölustigi, og kostnaður við þær niðurgreiðslur er á þessu ári fram til áramóta um 68 millj. kr. Um leið og þessar viðbótarniðurgreiðslur, sem ekki var gert ráð fyrir í fjárl. 1964, voru ákveðnar, var að sjálfsögðu gengið út frá því, að til þeirra yrði að afla tekna, annaðhvort strax þegar Alþingi kæmi saman eða í síðasta lagi um leið og fjárlög fyrir árið 1965 yrðu afgreidd. Í grg. fjárlagafrv. er rætt um þessi niðurgreiðslumál, og segir þar svo í aths. um 19. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Niðurgreiðslur vöruverðs innanlands eru áætlaðar 336 millj. kr. Er þá miðað við niðurgreiðslur eins og þær voru áætlaðar í maí s.l. á ársgrundvelli að viðbættri áætlaðri söluaukningu næsta ár. Á hinn bóginn er hér ekki gerð till. um, hversu skuli á næsta ári fara um þær niðurgreiðslur, sem síðar hafa bætzt við og nauðsynlegar hafa reynzt til þess að halda vísitölunni óbreyttri að sinni, eins og gert var ráð fyrir, þegar samið var milli ríkisstj. og Alþýðusamband Íslands í júní s.l. Verður að telja eðlilegt, að Alþingi marki þá frambúðarstefnu, sem fylgt verður í því máli.“

Síðan fjárlagafrv. var lagt fram, hefur þetta mál allt verið kannað mjög gaumgæfilega af ríkisstj., til þess að hún gæti undirbúið og lagt sínar till. fyrir Alþingi um þetta efni. Ef hefði átt að halda óbreyttri þeirri fjárhæð til niðurgreiðslna, sem fjárlagafrv. felur í sér, m.ö.o. að fella niður þessar þrjár viðbótarniðurgreiðslur, sem ég nefndi, þá þýddi það, að vísitalan hefði nú um áramót hækkað af þessum ástæðum vegna minnkaðrar niðurgreiðslu um 7 1/2 stig, en það mundi þýða sem næst 5% kauphækkun í landinu. Að athuguðu máli þótti ekki fært að fara þessa leið. Það má enn fremur geta þess til viðbótar, að hagstofan gerir ráð fyrir því, að hækkun vísitölu skömmu eftir áramót af ýmsum ástæðum óviðkomandi niðurgreiðslum muni nema tæplega 1 1/2 stigi. Ef hvort tveggja kæmi þannig til, sú vísitölu- og kaupgjaldshækkun og enn fremur 5% kauphækkun vegna minnkaðra niðurgreiðslna, telur ríkisstj. ekki fært að láta af þessum ástæðum almennt kaupgjald í landinu hækka sem því nemur. Niðurstaðan hefur orðið í stuttu máli sú, sem nánari grein er gerð fyrir í aths. þessa frv., en hún er á þá leið að halda áfram þeim niðurgreiðslum, sem hafa verið síðustu mánuði, en til þess að svo megi verða, þarf um 207 millj. kr. á næsta ári.

Til þess að afla tekna til að standa undir þessum niðurgreiðslum, bæði þeim, sem ákveðnar hafa verið og koma til framkvæmda á þessu ári og ekki var ætlað fé til á fjárl. þessa árs, og til þess að halda áfram niðurgreiðslum óbreyttum á næsta ári, er gert ráð fyrir í fyrsta lagi að hækka hinn almenna söluskatt um 2 1/2%, úr 5 1/2% upp í 8%. Þessi söluskattshækkun mun hækka vísitöluna um 3 stig, og þegar til viðbótar kemur það tæplega 1 1/2 stig, sem ég gat um áðan, af ýmsum ástæðum, þá er gert ráð fyrir því, að þrátt fyrir þessar óbreyttu niðurgreiðslur áfram muni vísitalan hækka skjótlega um um það bil 4 1/2 stig, sem svarar til 3% kauphækkunar.

Til viðbótar þessum tveim fjárhæðum, sem ég hef nefnt, 68 millj. og 207 millj. vegna niðurgreiðslna, þarf að afla fjár vegna þeirra hækkana, sem fjárl. taka í meðförum Alþingis, og er gert ráð fyrir, að þær till., sem annars vegar fjhn. hefur flutt og hafa verið samþykktar á þingi í gær, og þær, sem eftir urðu við 3. umr., muni nema í kringum 55 millj. kr.

Þá er í fjórða lagi, að þessi 3% kauphækkun, sem gert er ráð fyrir að komi snemma á næsta ári, mun valda ríkissjóði auknum útgjöldum, sem nema um það bil 42 millj. kr. Þar eru aðallega tveir liðir, annars vegar sú hækkun, sem verður á launagreiðslum til opinberra starfsmanna, og hins vegar hækkun á hinni almennu kauphækkun í landinu.

Til þess að mæta þessum útgjöldum, sem ég hef rakið og nema 372 millj. kr., er gert ráð fyrir þeirri söluskattshækkun, sem frv. felur í sér og er gert ráð fyrir að skili um 307 millj. kr. á ári. Þá er gengið út frá sömu áætlun og fjárlagafrv. sjálft byggir á, en þar er hvert prósent söluskatts áætlað á 123 millj. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að hækka gjöld af innfluttum bifreiðum og bifhjólum um 25% og svo loks að hnika til áætlun fjárl. um aðflutningsgjöld um 34 millj. til hækkunar og hluta umboðsþóknunar af gengismismun gjaldeyrisbankanna um 3 millj.

Í sambandi við þetta frv. kemur sú spurning að sjálfsögðu upp í huga manns, hvort ekki sé hægt að sleppa þessum hækkunum tekna með því móti að áætla tekjur ríkissjóðs árið 1965 hærra en gert er í fjárl. Það hefur verið gerð rækileg athugun á því, og niðurstaðan er sú, að ekki þykir fært að hækka tekjuáætlunina að öðru leyti en ég hef áður greint um þessar 37 millj. Menn munu e.t.v. vitna í það, að bæði árin 1962 og 1963 hafi tekjur orðið verulega hærri en fjárlög áætluðu. Þau ár bæði er skýringin sú fyrst og fremst, að innflutningurinn jókst mjög mikið þessi ár bæði frá því, sem verið hafði árið áður. En eins og kunnugt er, eru aðflutningsgjöldin um það bil helmingur af tekjum ríkissjóðs og skipta því hér mestu máli. Þegar tekjuáætlunin var samin fyrir fjárl. bæði 1962 og 1963, var innflutningsáætlunin og þar með tollaáætlunin byggð á þeim upplýsingum, sem lágu þá fyrir, og áætlunum frá Seðlabanka Íslands og Efnahagsstofnuninni. Bæði árin reyndist aukning innflutningsverðmætis miklu meiri en gert hafði verið ráð fyrir, þannig að 1962 varð þessi aukning nærri 28% frá því á árinu á undan og árið 1963 nærri 23% frá því á árinu á undan. Þessi þróun innflutnings hefur hins vegar ekki haldið áfram á árinu 1964, og það liggur nú fyrir í megindráttum, hversu mikill innflutningurinn verði á þessu ári, og bendir það til þess, að aukningin frá fyrra ári verði miklu minni en 2 undanfarin ár og svipuð eða ekki meiri en gert var ráð fyrir í fjárl. 1963. Þetta þýðir það, að tekjur ríkissjóðs af aðflutningsgjöldum í ár verða, eftir því sem nánast liggur fyrir nú, sáralitlu hærri en áætlað var í fjárl. Það er ekki heldur talið varlegt að gera ráð fyrir því, að á næsta ári taki innflutningurinn stökk og aukist svo stórlega eins og árin 1962 og 1963.

Varðandi afkomu ríkissjóðs á árinu 1964 og þá spurningu, hvort mætti taka t.d. þessar 68 millj. vegna niðurgreiðslna í ár umfram áætlun fjárl. á ríkissjóð án þess að afla tekna til þess, þá er því til að svara, að ef það ætti að gera, þá mundi ríkissjóður vafalaust koma með tekjuhalla á þessu ári, og stafar það fyrst og fremst af því, að tekjur ríkissjóðs í heild munu verða mjög nálægt áætlun fjárlaga í ár, væntanlega fara sáralítið fram úr, en hins vegar vitað um nokkra útgjaldaliði, sem verða töluvert hærri á þessu ári en áætlað er í fjárl. Má þar einkum nefna útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir, sem talið er nú að fari marga milljónatugi fram úr því, sem fjárlög gerðu ráð fyrir.

Að öllu þessu athuguðu hefur það orðið niðurstaðan hjá ríkisstj., að sú hækkun gjalda, sem hér er gert ráð fyrir í frv., sé óhjákvæmileg, því að ríkisstj. telur ekki koma til mála að afgreiða fjárlög fyrir næsta ár með greiðsluhalla.

Ég legg til, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.