29.10.1964
Efri deild: 8. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í C-deild Alþingistíðinda. (2601)

38. mál, samvinnubúskapur

Flm. (Páll Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ræða hv. 6. þm. Norðurl. e. gefur í rauninni ekki tilefni til þess, að ég flytji langt mál, því að hann virtist, a.m.k. öðrum þræði, viðurkenna þá stefnu, sem kemur fram í frv. og lagði á það nokkra áherzlu, að lausn á vandamálum bænda yrði að byggjast á aukinni samvinnu þeirra. Samt sem áður sló nú nokkuð úr og í fyrir hv. ræðumanni, að því er mér virtist, því að þótt þetta væri meginatriði í máli hans, að það þyrfti að auka samvinnu meðal bænda, tók hann það fram, að hann teldi mjög hæpið að veita sérstaka styrki til stofnunar samvinnubúskapar umfram það, sem einstaklingar njóta. Ég ætla því aðeins með örfáum orðum að árétta sumt af því, sem ég sagði í fyrri ræðu minni, til þess að það geti ekki valdið neinum misskilningi, hvað fyrir okkur flm. vakir í sambandi við þetta frv.

Ég vil þá sérstaklega taka það fram enn að nýju og leggja á það áherzlu, að þetta frv. — hvorki orðalag þess né andi — er þannig, að með því sé stefnt að þvingun eða valdboði, heldur er það meginstefna frv. að leggja lagalegan grundvöll til þess, að þeir í bændastétt, sem hafa hug á að stofna til samvinnubúskapar, hafi sem greiðastan aðgang til þess og geti staðið á þeim grundvelli við slíkar framkvæmdir, sem löggjafinn hefur lagt. Og ég vil endurtaka það, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, að við stefnum ekki að því og gerum alls ekki ráð fyrir því, að þó að þetta frv. verði að lögum og komi til framkvæmda, verði með því útrýmt einstaklingsbúskap í landinu, heldur hljóti þau búskaparform að geta þróazt hlið við hlið, eftir því sem aðstaða er á hverjum stað og hugur fólksins sjálfs stendur til.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. taldi þetta frv. vera merkilegt að því leyti, að hér væri stungið upp á að gera gagngerar breytingar á skipulagi búskapar í landinu. Og hann lét þau orð falla í ræðu sinni, að ýmsir hefðu fram að þessu talið það fjandskaparmál við bændastéttina, ef talað hefði verið um, að það þyrfti að gera miklar breytingar á búskaparháttum og aðstöðu bænda. Mér er ekki kunnugt um, að þetta sé rétt álít hjá hv. ræðumanni. Ég held, að það séu yfirleitt ekki talin nein fjandskaparmál, þó að stungið sé upp á allgagngerum breytingum, bæði á sviði landbúnaðar og öðrum sviðum þjóðlífsins, enda er það sannast mála, að stórfelldar breytingar hafa átt sér stað og eru sífellt að gerast, bæði í sveitum sem annars staðar og ekki sízt nú á okkar tímum, þegar hraðinn er meiri, en áður var.

Þá fór hv. þm. að tala um nýbýlastefnuna, það hefði sýnt sig, að hún hefði verið röng með stofnun kotbýla, eins og hann kallaði. Það liggur alveg utan við efni þessa frv. að ræða það, og skal ég ekki fara langt út í það mál. En ég vil þó aðeins benda á það eða minna á það, sem allir hv. þm. vita, að nýbýlastjórn hefur jöfnum höndum unnið að því að koma upp byggðahverfum og einstökum nýbýlum. Og byggðahverfin hefur a.m.k. nýbýlastjórn haft í hendi sinni að sníða — (MJ: Hv. þm., má ég skjóta inn í einni setningu til skýringar, svo að það valdi ekki misskilningi, um það, að reynslan hefði sýnt, að hún hefði verið röng, en það merkir ekki, að hún hefði verið röng, þegar þetta var gert á sínum tíma, miðað við þær aðstæður, sem voru.) Já, ég tek þessa leiðréttingu til greina, en vil aðeins benda á það, sem ég var að koma orðum að, að nýbýlastjórn hefur haft það í hendi sinni að sníða byggðahverfunum stakk við framtíðarhæfi. Og í þessu frv. er m.a. gert ráð fyrir starfsemi á þeim grundvelli.

Ég tel ekki heldur ástæðu til í sambandi við þetta mál að fara að ræða það sérstaklega, hvað eigi að ganga langt í því að viðhalda byggðinni í landinu. Hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði, að það væri fásinna að halda við afdalajörðum, því að það ætti að miða búskapinn við, að hann skilaði þjóðarbúinu sem mestum afrakstri. Þetta liggur í raun og veru utan við efni þessa frv., en á það vil ég samt benda, að jarðir, sem liggja fjarri þjóðbraut, eru ekki alltaf þær, sem skila minnstum afrakstri, ef þær eru nytjaðar, svo að í þessu efni þarf að taka ýmislegt með í reikninginn, þegar á að gera þetta dæmi upp. En ég er ekki að gerast og hef aldrei gerzt talsmaður þess, að það megi ekki færa til neitt byggt býli í landinu og mun ekki heldur gerast talsmaður þess.

Ég held, að það sé ekki ástæða til þess að fjölyrða svo meira um málið, en ég get fagnað því að vissu leyti, að hv. síðasti ræðumaður talaði um það a.m.k. öðrum þræði vingjarnlega og að það stefndi í rétta átt, þar sem aukin samvinna meðal bænda væri það, sem koma skyldi. En mér fannst þó draga nokkuð úr því undir lok ræðu hans, þegar hann taldi ekki ráðlegt, að þetta frv. yrði lögfest nú á þessu þingi, eins og ég hafði lagt nokkra áherzlu á. Þar greinir okkur á. Ég tel sjálfsagt, að málið verði athugað, og til þess á að gefast nægur tími, meðan þetta þinghald stendur, en ég vil leggja á það áherzlu, að þetta frv. verði lögfest svo fljótt sem tök eru á.