26.11.1964
Efri deild: 23. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í C-deild Alþingistíðinda. (2612)

82. mál, landskiptalög

Flm. (Karl Kristjánsson) :

Herra forseti. Þetta frv. um breytingu á 17. gr. landskiptal. frá 1941 er flutt til að gera hana ljósari, en hún er nú og koma í veg fyrir þrætur, sem stafa af því, að hún tekur ekki sem skyldi fram, hvað í henni á að felast, a.m.k. ekki miðað við ný viðhorf. Greinin hljóðar svo í gildandi lögum, með leyfi hæstv. forseta:

„Meðan skógarhögg og mótak er í sameign í óskiptu landi, má enginn eigenda án samþykkis allra hinna nota skóg eða mótak nema til heimilisnota fyrir sjálfan sig.“

Fyrrum var skógur til eldiviðar og sem raftviður og girðingarefni og mór til eldsneytis aðalatriðin, sem til greina komu sem söluvörur á sameignarnytjum í þessu sambandi. Því var að sjálfsögðu skógarhögg og mótak tilgreint í l. þá fyrst og fremst, en aðrar sameignarnytjar hlutu þar með auðvitað samkv. l. einnig að vera sömu reglum háðar eftir eðli málsins, þótt ekki sé fram talið. Nú er skógarhögg að mestu úr sögunni í sama mæli og áður var og mótak ekki teljandi notað. En aftur á móti er farið að hagnýta möl, sand og grjót, þannig að víða eru þetta söluvörur, ekki sízt í nágrenni kaupstaða, kauptúna og annarra þéttbýlisstaða, þar sem mikið er byggt. Sameigendur lands lenda nú stundum í deilum um réttinn til hagnýtingar á þessum jarðefnum, af því að þeim finnst ekki 17. gr. l. ná til þessara jarðefna eða þeirra jarðefna, sem nú eru mest söluvara. Ég þekki vel dæmi um þetta í mínu héraði. Við flm. teljum rétt að gera löggjöfina svo ljósa, að hún komi í veg fyrir þess konar árekstra milli manna og samhæfa hana skilmerkilega nútímanum. Till. okkar um orðun 17. gr. er á þessa leið:

„Meðan skógarhögg, mótak, möl, sandur eða annað verðmætt jarðefni er í sameign í óskiptu landi, má enginn eigenda án samþykkis allra hinna hagnýta þessi verðmæti nema til heimilisnota fyrir sjálfan sig.“

Eru þá inn í greinina tekin möl, sandur og grjót og auk þess ótilgreind önnur verðmæt jarðefni, eins og þar segir, til þess að taka af öll tvímæli og koma í veg fyrir þrætur og misskilning. Orðalagi er breytt til samræmis við þetta, en í sjálfu sér er efnislega engin breyting upp tekin. Mál þetta er svo einfalt og flækjulaust, að ég tel ekki ástæðu til að hafa um það fleiri orð.

Leyfi ég mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.