03.02.1965
Sameinað þing: 24. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í D-deild Alþingistíðinda. (2678)

100. mál, vegáætlun fyrir árin 1965--68

Landbrh. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Ekki vannst tími til þess að ræða till. um vegáætlun fyrir þinghléið eða koma málinu til n. Það tók eðlilega nokkuð langan tíma að undirbúa málið og var það því ekki lagt fram hér í hv. Alþingi fyrr en 10. des. s.l.

Nú er í fyrsta sinn samin áætlun samkv. vegal. til 4 ára. Vegamálaskrifstofan hefur unnið mikið undirbúningsstarf í sambandi við þetta mál. Verður að telja, að till. sú til vegáætlunar, sem hér liggur fyrir og til umr., sé vel samin og tölulega vel undirbúin. Með því að lesa till., geta hv. þm. gert sér grein fyrir staðháttum og því máli, sem hér er um að ræða.

Með vegal. var lagður grundvöllur að bættum vinnubrögðum í vegagerð með því að taka upp skipulega áætlun í framkvæmdum til 4 ára í senn. Með því er mögulegt að draga upp heildarmynd fyrir stærri verk, sem unnin verða eftir fyrir fram gerðri áætlun fram í tímann. Er enginn vafi á því, að oft hefur vegaféð notazt verr vegna þess, að ekki var til heildaráætlun yfir framkvæmdirnar, en unnið á hverjum stað fyrir aðeins litlar upphæðir í einu. Með því móti varð mikill kostnaður við flutning á vinnuvélum og vinnuflokkum, sem ætti að sparast að einhverju leyti með því fyrirkomulagi, sem nú verður upp tekið.

Með vegal. var fjármagn til vegagerðar verulega aukið. Hækkaði framlag til vegamála á árinu 1964 um rúml. 100 millj. kr. miðað við fjárlög 1963. Þrátt fyrir þessa hækkun, sem sýnist vera veruleg, mun vera auðvelt að færa rök fyrir því, að æskilegt væri að hafa enn meira fé til vegamála, heldur en fyrir hendi er, miðað við þá till. til framkvæmdaáætlunar, sem hér er um að ræða. Á árinu 1965 er gert ráð fyrir, að tekjur vegasjóðs nemi 261.9 millj. kr. Á árinu 1968 er gert ráð fyrir, að tekjurnar nemi 278 millj. kr. miðað við sömu tekjustofna. En tekjustofnar vegasjóðs eru benzíngjald 170 millj. kr., tekjur af þungaskatti 42.5 millj. kr., tekjur af gúmmígjaldi 8.9 millj. kr., ríkisframlag 47.1 millj. kr., eftirstöðvar vegna ársins 1964, sem er óendurgreitt benzíngjald og þungaskattur, 14.9 millj. kr. Brúttótekjur árið 1965 verða því 283.4 millj, kr. Endurgreitt benzíngjald af þungaskatti 1965 nemur 21.5 millj. kr. Nettótekjur verða því 261.9 millj. kr., áætlaðar fyrir árið 1965. Tekjuliðirnir breytast lítið á áætlunartímabilinu og eru í samræmi við niðurstöðutölur fyrir árið 1968, sem áður var um getið. Endurgreiðslurnar á þungaskatti og benzíngjaldi eru að nokkru leyti af jeppabifreiðum, en aðallega vegna dráttarvéla og annarra heimilisvéla, sem ekki koma til með að slíta vegunum.

Eins og áður er á minnzt, er auðvelt að benda á nauðsyn þess að hafa meira fé til vegaframkvæmdanna. En það er á valdi Alþingis, hvenær horfið verður að því ráði að auka tekjur vegasjóðs.

Vegamálaskrifstofan hefur gert till. um skiptingu á því fé, sem til umráða er og er þá fyrst að geta þess, að stjórn og undirbúningur vegamála nemur á árinu 1965 9 millj. 970 þús. kr., en á árinu 1968 10 millj. 870 þús. kr. Sú breyting hefur verið gerð að áætla í einu lagi kostnað við verkfræðilegan undirbúning framkvæmda, 2.5 millj. kr. á ári. Áður var verkfræðilegur undirbúningur færður eftir á, á hvert verk, sem unnið var. Það fyrirkomulag, sem nú hefur verið upp tekið, er heppilegra að dómi vegamálastjóra og sýnist ekki vera ástæða til annars, en að fallast á hans sjónarmið í þessu efni. En af þessu virðist í fljótu bragði, að liðurinn stjórn og undirbúningur vegamála hafi hækkað meira, en eðlilegt er. En eins og áður segir, er hér aðeins um bókhaldsatriði að ræða.

Viðhald þjóðvega var á árinu 1964 80 millj. kr. Gert er ráð fyrir, að til vegaviðhaldsins á árinu 1965 verði varið 90 millj. kr. og hækki um 5 millj. kr. árlega á áætlunartímabilinu. Enginn vafi er á því, að nauðsyn ber til að ætla ríflega til viðhalds vega. Gera má ráð fyrir, að viðhaldsféð geti orðið nokkru drýgra, en stundum áður, með endurnýjun á vélakosti vegagerðarinnar, sem nýtist mun betur en gömlu tækin.

Til vegmerkinga er gert ráð fyrir að verja 1 millj. kr. á ári. Það er mikil þörf á að setja upp vegmerki á ýmsum stöðum, sem eru hættulegir vegna umferðarinnar. Hefur mikið áunnizt í því efni síðari árin.

Til hraðbrauta er gert ráð fyrir að verja aðeins 10 millj. kr. á ári af fé vegasjóðs. En þess er rétt að geta, að unnið verður á næsta ári að því að ljúka við Keflavíkurveg, en að byggingu hans hefur verið unnið að mestu leyti fyrir lánsfé. Þegar Keflavíkurvegi er lokið, verður að hefjast handa með lagningu Vesturlandsvegar að Álafossi og Austurvegar með varanlegu slitlagi. Sama máli gegnir um vegakafla út frá Akureyri, sem mest umferð er á. Umferð er orðin það mikil á þessum vegum, að þeim verður trauðla við haldið með því að bera í þá sand og möl, sem rýkur burt og heldur ekki uppi hinum mörgu og þungu farartækjum. Að sjálfsögðu verður að afla fjár til þeirra framkvæmda með lántöku eða með því að auka tekjur vegasjóðs.

Til nýbyggingar þjóðbrauta er gert ráð fyrir að verja úr vegasjóði á árinu 1965 24.8 millj. kr. og á árinu 1968 24 millj. kr. Auk þess er gert ráð fyrir að vinna við Strákaveg og Múlaveg á árinu 1965 fyrir allt að 20 millj. kr., sem afla verður með sérstökum hætti. Er gert ráð fyrir, að lokið verði við Múlaveg á árinu, og er þá kominn góður vegur milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur. Mun það gerbreyta allri aðstöðu Ólafsfirðinga, sem hafa beðið eftir þessari vegagerð mjög lengi. Gert er ráð fyrir, að Strákavegi verði lokið á árinu 1966. Um þær framkvæmdir hefur verið mikið ritað og rætt og því ekki ástæða til að fara mörgum orðum um það að sinni. Það vita allir, að tæknilegum undirbúningi við lagningu Strákavegar var ekki lokið, fyrr en á þessu ári og því ekki möguleiki á að hraða verkinu meira, en gert hefur verið, þótt fé hefði verið fyrir hendi. Framkvæmdir við Keflavíkurveg, Strákaveg og Múlaveg geta því aðeins orðið, að aflað verði fjár til framkvæmdanna á þessu ári. Standa vonir til, að það megi takast.

Til landsbrauta er gert ráð fyrir að verja á árinu 1965 27.1 millj. kr., á árinu 1968 26.5 millj. kr. Ekki er gert ráð fyrir, að unnið verði að neinu ráði fyrir lánsfé við landsbrautir. Er að því stefnt, að greidd verði upp bráðabirgðalán, sem tekin hafa verið til vegaframkvæmda að undanförnu. Bráðabirgðalán lækkuðu á árinu 1964 um nærri helming frá því, sem var í árslok 1963. Eftirsókn eftir bráðabirgðalánum á vegum hreppsfélaga og sýslufélaga var mjög mikil af eðlilegum ástæðum, áður en vegalögin voru samþykkt og fjármagn aukið til vegamála.

Til fjallvega, reiðvega og ferjuhalds er gert ráð fyrir að verja 2 millj. kr. Er þá um það að ræða að ryðja ýmsa fjallvegi og gera þá greiðfæra yfir sumarmánuðina. Geta verið af því hagnýt not, m.a. við smalamennsku á afréttum, auk þess sem það gerir mönnum mögulegt að ferðast á bifreiðum víða um öræfi landsins.

Til brúargerða er gert ráð fyrir að verja á árinu 1965 31 millj. kr. og aðeins rúmlega 31 millj. kr. árið 1968. Á árunum 1966 og 1967 er nokkru lægri upphæð áætluð til brúargerða. Brúaféð skiptist þannig á árinu 1965 og með svipuðum hætti hin árin: Til stórbrúa 13.2 millj. kr., til brúa 10 m og lengri 11.8 millj. kr., til smábrúa 4–9 m 6 millj. kr. Þótt mikið hafi verið gert undanfarin ár að því að brúa vatnsföllin, er þó eftir mikið verkefni á því sviði. Verður þó að viðurkenna, að verstu torfærurnar hafa verið yfirunnar.

Til sýsluvega er gert ráð fyrir að verja úr vegasjóði á árinu 1965 10 millj. kr. og 12 millj. kr. á árinu 1968. Við breytingu á vegal. hefur rekstur sýsluvegasjóða batnað mikið, enda gerðist þess þörf, þar sem sýsluvegir voru víðast hvar í mjög slæmu ástandi.

Til vega í kaupstöðum og kauptúnum er gert ráð fyrir að verja á árinu 1965 32 millj. 720 þús. kr. og á árinu 1968 34 millj. 750 þús. kr. Með því að veita fé til gatna- og vegagerðar í kaupstöðum og kauptúnum, eins og vegal. mæla fyrir, var tekið upp mikilsvert nýmæli, sem þegar á fyrsta ári eftir samþykkt vegal. hefur gert sýnilegt gagn um land allt, eins og sjá má merki í gatnagerð kaupstaða og kauptúna. Til véla- og áhaldakaupa er gert ráð fyrir að verja úr vegasjóði á árinu 1965 11 millj. kr. og á árinu 1968 13 millj. kr. Auk þess verður varið úr fyrningasjóði vegagerðarinnar talsverðum upphæðum til kaupa á vegagerðarvélum og einnig má reikna með, að einhver lán verði tekin í því skyni, þannig að endurnýjun vegavinnuvéla verður allrífleg að þessu sinni. Er mjög nauðsynlegt að verja verulegu fjármagni til véla- og tækjakaupa og vinna þannig upp margra ára vanrækslu.

Til tilrauna í vega- og gatnagerð er gert ráð fyrir að verja nokkuð á 2. millj. kr. árlega á áætlunartímabilinu.

Eins og sjá má af fskj., sem prentuð eru með till. til vegáætlunar, eru allir þjóðvegir sérstaklega taldir upp eftir kjördæmum. Einnig eru taldir upp hinir ýmsu hliðarvegir vegna undanþáguákvæða 12. gr. vegal. um kirkjustaði, félagsheimili, opinbera skóla, heilsuhæli og fullgerð raforkuver. Uppsetning og upptalning veganna er glögg og þarf því ekki nánari skýringu. Um skiptingu fjár til einstakra framkvæmda, svo sem vega og brúa, eru engar till. gerðar nú, fremur en í till. til síðustu vegáætlunar.

Eins og vegal. gera ráð fyrir, eru vegirnir flokkaðir, fyrst í hraðbrautir A og B. Hraðbrautir A eru vegir, sem innan 20 ára má búast við að 10 þús. bifreiðar eða meira fari daglega um yfir sumarmánuðina. Stefna ber að því að gera fjórfalda akbraut með varanlegu slitlagi á þeim vegum. Hraðbrautir B eru vegir, þar sem innan 10 ára má búast við 1–10 þús. bifreiðum á dag yfir sumarmánuðina. Stefna ber að því að gera tvöfalda akbraut með varanlegu slitlagi á þeim vegum. Þjóðbrautir eru vegir, sem ná til 1.000 íbúa svæðis og ber að gera tvöfalda akbraut á þeim vegum með malarofaníburði. Landsbrautir eru minnst 2 km á lengd frá vegamótum og ná til 3 býla. Um landsbrautir eru undanþáguákvæði, eins og áður var vitnað til. Aðalfjallvegir eru aðeins fjórir: Kaldadalsvegur, Kjalvegur, Fjallabaksvegur nyrðri og Sprengisandsleið.

Áður hefur verið á það minnzt, hvaða tekjustofna vegasjóður hefur. Benzíngjald er stærsti liðurinn. Margir höfðu búizt við, að benzínnotkun mundi aukast mikið miðað við þá miklu bifreiðafjölgun, sem orðið hefur síðustu árin. Reynslan sýnir, að benzínsalan eykst ekki í réttu hlutfalli við bifreiðafjölgunina. Má færa fram margar ástæður fyrir því. Hækkun benzínverðs getur dregið nokkuð úr benzínnotkun. Nýjar bifreiðar eyða minna benzíni, en gamlar og slitnar bifreiðar. Meira er nú flutt inn af litlum bifreiðum og sparneytnum, heldur en oft áður. Gömlu bifreiðunum með stóru vélunum eyðslufreku er lagt, vegna þess að ekki borgar sig lengur að halda þeim við. Árið 1964 voru 335 fólksbifreiðar teknar úr umferð og 542 vörubifreiðar.

Þess ber einnig að geta, að mikið er flutt inn af bifreiðum með dísilvélum, en gjöld af þeim eru tekin með þungaskatti. Benzínsalan árið 1962 reyndist vera 57.7 millj. lítrar, 1963 60.8 millj. l. og árið 1964 61.5 millj. l. áætlað, aukning á árinu aðeins 1.2%. Er það vissulega lítið, miðað við þann gífurlega innflutning bifreiða, sem verið hefur. En skýringin er að talsverðu leyti í því fólgin, að litlar evrópskar bifreiðar eyða aðeins 1/3 eða helming af því, sem hinar stærri og eyðslufrekari bifreiðar gera. Af því, sem hér er sagt, má reikna með því, að tekjur vegasjóðs vegna benzínsölu vaxi hægfara og í mesta lagi um 2% á árinu 1965 og er gert ráð fyrir, að aukningin verði nokkru meiri á árunum 1966–1968. Tekjur af þungaskatti ættu að vaxa í hlutfalli við aukinn bifreiðafjölda og er reiknað með, að tekjur af þeim lið aukist um 9% á ári. Tekjur af gúmmígjaldi ættu að aukast eftirleiðis í hlutfalli við fjölgun bifreiða. Vegna mikils innflutnings á hjólbörðum á árunum 1962 og 1963, en þá var innflutningur hjólbarða gefinn frjáls, hefur innflutningur á árinu 1964 verið minni en áætlað var. Orsökin getur einnig legið í því, að birgðir séu nú minni í verzlunum, eftir að tollvörugeymslan var tekin í notkun, en sú ástæða ætti ekki að hafa áhrif nema á þessu eina ári. En þrátt fyrir það, þótt tekjur af gúmmígjaldi hafi verið nokkru minni, en áætlað var, hafa tekjur vegasjóðs í heild verið í samræmi við tekjuáætlun fyrir árið 1964. Hefur þungaskatturinn bætt upp það, sem vantaði á gúmmígjaldið.

Tekjuáætlun fyrir árin 1965–1968 er byggð á reynslu liðins tíma og raunhæfu mati á því, hvernig málin munu þróast á áætlunartímabilinu. Með till. þeim, sem hér um ræðir, er tekjum vegasjóðs skipt eftir því, sem sanngjarnast þykir. Hv. fjvn. fær málið til meðferðar og afgreiðslu. Hv. alþm. hafa tækifæri til þess að koma till. á framfæri, eins og vera ber. Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um málið að svo komnu.

Herra forseti. Ég legg til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og hv. fjvn.