24.02.1965
Sameinað þing: 27. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í D-deild Alþingistíðinda. (2763)

69. mál, lýsishersluverksmiðja

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Á þskj. 77 flytur hv. 1. þm. Norðurl. v., Skúli Guðmundsson og sex aðrir hv. þm. till. til þál. um lýsisherzluverksmiðju. Efnislega er till. á þá leið, að ríkisstj. láti kanna sem allra fyrst möguleika á sölu hertrar síldarfeiti á erlendum mörkuðum og ef sú rannsókn leiðir í ljós, að slíkt sé hægt með góðum árangri, verði hafin bygging lýsisherzluverksmiðju í Siglufirði, en liðin eru nú 23 ár, síðan lög voru samþ. þar að lútandi.

Höfuðröksemd fyrir flutningi þessarar till. er í fyrsta lagi, að nauðsynlegt þykir, að ýtarleg rannsókn sé gerð á því, hvort ekki eru möguleikar á að selja það síldarlýsi, sem við framleiðum nú, sem herta feiti í stað fljótandi vöru, eða sem sagt í sama ásigkomulaginu og var gert fyrir hálfri öld, þegar fyrstu síldarverksmiðjur voru byggðar hér á Íslandi. Íslendingar eiga í dag tvímælalaust einar fullkomnustu síldarverksmiðjur í heimi og verður að segjast eins og er, að það er ekki vansalaust, að framleiðsla þeirra sé seld og flutt út á því frumstigi, sem raun ber vitni. Og það virðist svo, að þeir, sem koma nærri þessum málum, láti sér ekki detta annað í hug, en að svona eigi þetta að vera. Önnur höfuðröksemdin fyrir þáltill., sem hér er til umr., er hin knýjandi þörf að auka atvinnu og atvinnuöryggi á Siglufirði til hagsbóta fyrir Siglfirðinga og fyrir þjóðarbúið í heild. Siglufjörður hefur um áratugi haft þýðingarmiklu hlutverki að gegna í þjóðarbúskapnum og hann má engan veginn verða lítils megandi þorp, það gæti orðið dýrkeypt þjóðinni allri síðar meir.

Í grg. fyrir umræddri þáltill. segir m.a. svo: „Sumarið 1942 samþykkti Alþingi lög um að reisa nýjar síldarverksmiðjur. Í niðurlagi 1. gr. þeirra laga er svo hljóðandi ákvæði: „Enn fremur lætur ríkið reisa verksmiðju til herzlu síldarlýsis, þegar rannsóknir sýna, að það sé tímabært.“ Árin liðu, en verksmiðjan var ekki reist. Á Alþingi 1944 flutti Sigurður Kristjánsson, þá 7. þm. Reykv., svo hljóðandi till. til þál. um þetta mál.: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að framkvæma svo fljótt sem auðið er fyrirmæli síðari mgr. 1. gr. l. nr. 93 25. sept. 1942.“ Till. þessi var samþ. í sameinuðu Alþingi 5. jan. 1945. Á næstu árum var keypt eitthvað af vélum til væntanlegrar lýsisherzluverksmiðju, en verksmiðjan var ekki reist. Hinn 18. nóv. 1948 urðu umr. um málið í sameinuðu Alþingi í tilefni af fsp. frá Áka Jakobssyni, þáv. þm. Siglf. Árið 1961 bar Björn Pálsson, 5. þm. Norðurl. v., og þrír aðrir þm. fram till. á Alþingi um málið. Hún var á þessa leið: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta nú þegar fara fram rannsókn á því, hvort tímabært sé að reisa verksmiðju til herzlu síldarlýsis, sbr. 1. gr. l. nr. 93 25. sept. 1942.“ Till. þessari var vísað til þn. til athugunar, en hlaut þar ekki afgreiðslu.

Þessi lestur minnir á það, sem áður var vitað, að nokkuð af vélum lýsisherzlustöðvar voru komnar til Siglufjarðar fyrir tæpum 20 árum í þeim tilgang, að þar yrði byggð lýsisherzluverksmiðja. Og þegar þær voru keyptar, þótti það tiltækilegt. Því miður varð ekkert úr framkvæmdum og því var þá haldið fram af þeim, sem stóðu að því að selja þessar vélar, sem komnar voru norður, að sölumöguleikar á hertri síldarfeiti væru þá ekki fyrir hendi. Síðan þessum þætti lýsisherzluverksmiðjunnar lauk, hefur ekkert gerzt í málinu. Till. efnislega samhljóða þeirri, sem hér er flutt á þskj. 77, fékkst ekki einu sinni afgr. á þingi 1961, heldur var látin daga uppi í nefnd.

E. t. v. kann einhver að spyrja: Eru möguleikar á Siglufirði fyrir stórfyrirtæki sem þessa lýsisherzluverksmiðju? Og þá er haft í huga í sambandi við slíka fsp. aðstaða með rafmagn, vatn og önnur frumskilyrði. Því er til að svara, að nyrzt á Siglufjarðareyri er stór lóð í eigu Síldarverksmiðja ríkisins og Siglufjarðarkaupstaðar og hefur skipulag Siglufjarðarkaupstaðar verið miðað við það, að þarna yrði reist síðar myndarleg og afkastamikil lýsisherzluverksmiðja. Það má fullyrða í sambandi við rafmagn, að það getur verið fyrir hendi. Hvort tveggja er, að það eru möguleikar til að stækka Skeiðsfossvirkjunina og líka tengja hana öðrum virkjunum á Norðurlandi. Í sambandi við vatn má benda á. það, að stór á, Skútuáin, rennur straumþungt í fjörðinn, og hefur hún enn ekki verið virkjuð. Þarna bendi ég á þrjú veigamikil atriði, sem þarna eru fyrir hendi.

Ég tel, að bygging og rekstur lýsisherzluverksmiðju á Siglufirði gæti gerbylt því óhugnanlega ástandi í atvinnumálum, sem þar ríkir nú. Það er gömul og ný kenning, sem segir, að ef hús nágrannans brennur, er mitt í hættu. Eldur aðgerðarleysisins í atvinnumálum Siglfirðinga sækir nú ört á hvert einasta heimili í Siglufirði. Takist þeim ógnvaldi að eyða byggð norður þar, vil ég meina og margir aðrir, að sjálft þjóðarheimilið sé í vissri hættu. Ef stórkostleg framleiðslustöð eins og Siglufjörður lamast alvarlega, stafar ríkisbúskapnum mikil hætta þar af.

Í niðurlagi þeirrar grg., sem ég vitnaði til í upphafi máls míns, segir svo m.a.: „Dagana 19. og 20. sept. 1964 var haldin á Siglufirði ráðstefna um atvinnumál að tilhlutan verkalýðsfélaganna þar. Á ráðstefnunni var gerð eftirfarandi ályktun:

Ráðstefna verkalýðsfélaganna á Siglufirði um atvinnumál Siglufjarðar skorar eindregið á ríkisstj. að undirbúa framkvæmd laga um byggingu lýsisherzluverksmiðju og láta reisa hana á Siglufirði. Leggur ráðstefnan áherzlu á, hve afar mikla þýðingu það hafi jafnt fyrir atvinnuuppbyggingu bæjarins sem efnahagslíf landsins, að slík verksmiðja yrði reist hér.“

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, en legg til, að umr. verði frestað og þáltill. vísað til allshn.