24.02.1965
Sameinað þing: 27. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í D-deild Alþingistíðinda. (2936)

59. mál, dreifing framkvæmdavalds og efling á sjálfsstjórn héraða

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt tveimur öðrum hv. þm. þáltill. á þskj. 66 um dreifingu framkvæmdavalds og eflingu á sjálfstjórn héraða. Till. þessi er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa 7 manna mþn., sem hafi það verkefni að athuga, með hvaða hætti helzt verði unnið að dreifingu framkvæmdavalds til fleiri staða en nú er og til eflingar á sjálfstjórn í landsfjórðungunum eða öðrum stórum landssvæðum. N. athugi sérstaklega um möguleika á að flytja að meira eða minna leyti ýmsar ríkisstofnanir eða mikilvægar þjónustustofnanir frá höfuðborginni til staða úti á landi í þeim tilgangi að auðvelda afgreiðslu mála og skapa meira jafnvægi í landinu. Þá verði einnig athugað gaumgæfilega um möguleika á að veita héraðsstjórnum rétt til fjármálalegrar yfirstjórnar og ráðstöfunar á tilteknum fjárveitingum, sem varða viðkomandi hérað eða umdæmi. Till. n. skulu við það miðast, að dregið verði úr því mikla miðstöðvarvaldi, sem orðið er í Reykjavík og komið í veg fyrir áframhaldandi ofvöxt þess. N. skal skila till. sínum og álitsgerð til Alþ. fyrir 1. jan. 1966. Allur kostnaður af störfum n. greiðist úr ríkissjóði.“

Eins og hv. alþm. er kunnugt, hefur mikið verið rætt og ritað á undanförnum árum um jafnvægi í byggð landsins og þau vandamál, sem eru því samfara, þegar byggðin í landinu raskast verulega. N. hafa verið skipaðar til þess að athuga þessi mál og jafnvel sérstakur sjóður settur á laggirnar til þess að hafa, áhrif til úrbóta í þessum málum. En þær umr., sem fram hafa farið varðandi þessi mál. hafa að langmestu leyti snúizt um aðstöðuna í atvinnumálum. Það hefur verið um það ræt að gera ráðstafanir í hinum einstöku landshlutum til þess að auka þar atvinnu og til þess að skapa þar meira atvinnuöryggi, en verið hefur og bæta þannig nokkuð aðstöðu manna til þess að lifa á þessum stöðum. En um þá þætti þessara mála, sem þessi till. fjallar, hefur hins vegar miklu minna verið rætt.

Það er skoðun okkar flm. þessarar till., að að sjálfsögðu beri að leggja mikla áherzlu á það að reyna að sjá svo um, að atvinnuöryggi og næg atvinna sé alls staðar fyrir hendi, því að auðvitað er grundvöllur hverrar lífvænlegrar byggðar einmitt næg atvinna og fullt atvinnuöryggi. Það er auðvitað enginn vafi á því, að það ber að leggja mikla áherzlu á þessa meginþætti. En það er okkar skoðun, að það séu miklu fleiri atriði, sem grípa inn í þetta vandamál, heldur en aðeins varðandi atvinnumálin ein, það séu mörg önnur mál, sem geti haft hér mikið um að segja, hvernig til tekst með þróun byggðarinnar í landinu. Þar til koma t.d. samgöngumál. Á því er enginn vafi, að góðar og öruggar samgöngur geta ráðið miklu um það, hvernig til tekst með þróun byggðarinnar. Hið sama er að segja um aðstöðu í menningar- og menntamálum, hvernig aðstaða er til þess, að menn geti komið börnum sínum til náms og haft aðstöðu til þess að sinna menningarmálum og hvernig aðstaðan er yfirleitt til þess, að menn geti unnið að sínum áhugamálum og komið fram sínum hugðarefnum.

Að þessum atriðum öllum, er nokkuð vikið einmitt í þessari till. og þeirri grg., sem fylgir með till. Reynslan hefur sýnt okkur, að ýmsir staðir úti á landsbyggðinni hafa nú um allmörg ár verið fyllilega samkeppnisfærir varðandi atvinnuafkomu alla við það, sem bezt gerist á landinu, en þrátt fyrir það hefur þeim stöðum ekki tekizt að halda í við aðra staði, hvað uppbyggingu snertir eða fólksfjölda. Það hefur sem sagt borið á því, að þrátt fyrir mikla atvinnu, þrátt fyrir háar atvinnutekjur árum saman, hefur þar orðið um samdrátt að ræða í byggðinni. Það er alveg augljóst mál, að hér eru miklu fleiri þættir en atvinnumálaþátturinn, sem hafa mjög mikil áhrif.

Nú hefur þannig til tekizt, að skipun mála í landinu hefur orðið sú, að svo að segja allt framkvæmdavald í landinu hefur verið staðsett í Reykjavík og í næsta nágrenni Reykjavíkur, þ.e.a.s. flestar þær stofnanir, sem hafa með að gera fyrir hönd ríkisvaldsins sjálfs, framkvæmdir í mikilvægum efnum. Ég vil víkja að þessu nokkru nánar til þess að skýra mál mitt.

Hér í Reykjavík er yfirstjórn fræðslu- og menntamála. Hér eru miðstöðvar þeirra mála, en það þýðir, að allir þeir, sem óska eftir því að stofnsetja nýja skóla, byggja ný skólahús, gera meiri háttar breytingar í þeim málum, verða eðlilega að leggja leið sína hingað suður til Reykjavíkur og fjalla um öll þau mál við yfirstjórn fræðslumálanna, sem situr hér með sérfræðinga sína og er síðan séð um það, að allir nýir skólar skuli teiknast hér, gerðar áætlanir um þá hér og í rauninni séð að meira og minna leyti varðandi framkvæmdir og síðan byggingar þessara skóla héðan frá þessu miðstöðvar valdi í Reykjavík. Nú vaknar auðvitað sú spurning, hvort nokkur nauðsyn sé á því lengur en orðið er að einbeita þessu miðstöðvarafli öllu á þennan hátt hér í Reykjavík. Það má vel vera, að það hafi verið eðlilegt á tímabili að reikna með því, að allt þetta miðstöðvarvald yrði sett hér. En það hlýtur vitanlega að koma að því, að þetta vald verði svo umsvifamikið, það safni svo utan á sig, eins og er lögmálið í nútímaþjóðfélagi að slíkt vald geri að það komi til mála að skipta þessu upp að meira eða minna leyti til hagræðis fyrir þá, sem langt eiga að sækja, til þessa valds.

Það er t.d. skoðun mín, að það kæmi fyllilega til greina varðandi yfirstjórn menntamálanna, sem ég hef hér minnzt á, að landinu yrði skipt í nokkur aðalumdæmi varðandi framkvæmdir í þessum efnum, að t.d. eitt umdæmi gæti verið Austur- og Norðurland, og á sama hátt væri hægt að ákveða önnur umdæmi. Og þá yrði að sjálfsögðu gert út, svo að segja um öll þessi mál, sem nú þykir nauðsynlegt að gera út um hér hjá miðstöðvarvaldinu í Reykjavík, hjá þessari yfirstjórn í umdæminu, sem þarna yrði sett upp. Á þeim stöðum mundu þá aftur rísa upp stofnanir, sem hefðu með að gera að skipuleggja skólamálin á þessu sérstaka svæði og hafa með að gera að meira eða minna leyti, eftirlit og með framkvæmdir að gera varðandi það, sem er verið að gera í þessum málum í viðkomandi umdæmi. Væri staðið að málinu á þennan hátt, væri skipulega unnið að því að dreifa þessu mikla miðstöðvarvaldi, sem sífellt fer vaxandi hér í Reykjavík, þá væri unnið að því að dreifa því til nokkurra staða, víðs vegar á landinu, með vitanlega tilheyrandi áhrifum.

Svipað er að segja um ýmsar aðrar mjög þýðingarmiklar framkvæmdastofnanir á vegum ríkisins. Tökum t.d. vegamálastjórn ríkisins. Öll yfirstjórn vegamála hefur aðsetur hér í Reykjavík. Nú er þannig unnið að framkvæmdum í þessum efnum, að engin brú er svo byggð á landinu, teiknuð og efni til hennar keypt, að hún verði ekki að teiknast í ákveðnu húsi hér suður í Reykjavík. Hér skulu allir þeir menn vera búsettir í rauninni, sem eiga að vinna að undirbúningi og framkvæmdum þessara mála. Þeir, sem eiga að sjá um það að gera innkaup til þessara framkvæmda, verða í rauninni að vera hér. Og hver og einn í landsbyggðinni, sem þarf um þessi mál að leita til framkvæmdavaldsins, verður að leggja leið sína alla leið hingað.

Nú sýnist mér, að það komi alveg eins til mála að skipta landinu í þessum efnum niður í nokkur framkvæmdasvæði og það yrði til verulegs hagræðis ásamt með öðrum vinningi, sem af því hlytist, ef stjórn vegamálanna í þessum efnum væri deilt nokkuð upp frá því, sem nú er. Ekkert væri hins vegar á móti því, að hér í Reykjavík, hér í höfuðborginni, væri eftir sem áður staðsettur vegamálastjóri sjálfur með nokkrar skrifstofur og í miðju af einu af þessum framkvæmdaumdæmum og hann gæti haft sína ákveðnu yfirstjórn yfir hinum umdæmunum, án þess þó að hrifsa hér til sín og staðsetja hér í Reykjavík allar þessar framkvæmdir, sem þessum málum tilheyra og fara vitanlega sífellt vaxandi og draga til sín bæði fólk og fjármagn og eru þess eðlis, að það verður stórum miklu erfiðara fyrir þá, sem eiga heima langt frá þessu miðstöðvarvaldi, að þurfa að leita til þess í öllum einstökum tilfellum.

Nákvæmlega sama er að segja í þessum efnum að mínum dómi varðandi t.d. hafna- og vitamálin. Sama uppbyggingin hefur þar átt sér stað varðandi þann stóra málaflokk, og skal ég ekki frekar fara út í það. En ég sé enga ástæðu til þess að einbeita þessu framkvæmdavaldi öllu hér á einn stað í landinu.

Svipað hefur farið í þessum efnum með hið mikla bákn, sem tengt er við Tryggingastofnun ríkisins. Það hefur risið upp einmitt hér í Reykjavík gífurlega stór stofnun, sem dregið hefur til sín framkvæmdavald, sem með góðu móti ætti að geta farið fram á fleiri stöðum á landinu og væri alveg tvímælalaust til hagræðis fyrir íbúana annars staðar á landinu. En við höfum séð, hvað hefur verið að gerast í þessum efnum á undanförnum árum og ég efast ekki um, að alþm. geta gert sér í hugarlund, hvað muni gerast í þessum efnum, ef þróunin verður svo sem hún hefur verið að undanförnu, hvað muni gerast í þessum efnum á næsta áratug t.d. að taka.

En það eru ekki aðeins þessir stóru framkvæmdaþættir, sem ég hef minnzt á nú, heldur er svo málum háttað hjá okkur, að svo að segja allir meiri háttar lánveitingasjóðir hafa bækistöð sína hér í höfuðborginni, draga fjármagnið hingað til sín og hér skal það geymt, og héðan er síðan öllum þessum lánum úthlutað til sérhverra framkvæmda, sem ráðizt er í, í landinu. Einn af þessum stóru lánasjóðum er nú orðið byggingarsjóður ríkisins, sem húsnæðismálastjórn hefur með að gera. En við vitum, að þar er skipulagið þannig, að í rauninni er það nú orðið svo, að enginn maður getur byggt sér íbúðarhús úti á landi, án þess að hann þurfi að senda sínar umsóknir og venjulega skrifa mörg bréf og senda mikið af alls konar skjölum til ákveðinnar stofnunar hér suður í Reykjavík, sem um þetta fjallar og deilir út sínum lánum eftir sínum reglum, ekki aðeins til þeirra, sem hér eiga helma, heldur til margra manna, hvar sem þeir búa á landinu. Þetta er mjög umhendis og ómögulegt að draga saman allt þetta mikla framkvæmdavald hér á einn stað og engin ástæða í rauninni til þess að byggja upp kerfið á þennan hátt. Hér væri vitanlega alveg eins hægt, ef menn vilja hafa eina yfirstjórn yfir þessu, að haga málunum þannig, að hún deildi út því fjármagni eftir ákveðnum reglum í ákveðin umdæmi í landinu, út í fjórðunga eða á annan hátt, en þar væru aftur á móti stofnanir, sem sæju um dreifinguna á fjármagninu eða úthlutunina á lánum í sínum umdæmum. En ég veit, að svo til allir alþm. hafa haft talsvert af þessu að segja og vita, hvers konar vandræðaástand þetta er í rauninni í framkvæmd, eins og það er nú og hve mikið óhagræði er fyrir fólk úti á landi að þurfa að búa við skipulag sem þetta. En það er einmitt það, sem ég gat um í upphafi míns máls, sem hefur ótrúlega mikil áhrif á það, hvernig tekst til með búsetu manna í landinu, ef þeir finna það í gegnum eitt og annað, í gegnum stórt og smátt, að það er erfiðara að flestöllu leyti að eiga heima úti á landsbyggðinni en t.d. í Reykjavík.

Nú vitum við það, að hin algengasta leið í þessum efnum, sem þeir verða að fara, sem eiga heima úti á landi, er að reyna að tala sínu máli við þm. sinn, sem er eins og umboðsmaður héraðsins í þessum efnum hér í Reykjavík, vegna þess að aðilarnir, þeir sem sjálfir standa í húsbyggingum, hafa ekki sömu aðstöðu og hinir, sem hér eiga heima, að tala beint við þá aðila, sem hafa allt þetta mikla vald í sínum höndum, að úthluta þessum lánum.

Hér er staðsettur hinn gífurlega stóri og voldugi atvinnuleysistryggingasjóður með nú orðið yfir sína 800 millj. kr. eign. Allir þeir, sem til hans þurfa að leita, óska eftir lánum til framkvæmda og annars slíks, þeir verða vitanlega að leggja leið sína hingað suður til miðstöðva sjóðsins, ræða þar við stjórnarmenn og þurfa iðulega vitanlega að fara hingað margar ferðir, áður en þeir hafa fengið málin afgreidd til fullnustu.

Ég veit, að í einstaka tilfelli kann það svo að verða, að það sé nokkrum vandkvæðum bundið að dreifa þessu valdi, sem ég er hér um að ræða, frá einu miðstöðvarvaldi hér í Reykjavík, en ég efast þó ekkert um, að þetta er á okkar færi hér á Íslandi eins og í öðrum löndum, þar sem þessi mál eru nú mjög ofarlega á dagskrá, að við getum gert stóra hluti í þessum efnum til mikils hagræðis fyrir fólkið úti á landi, þó að vitanlega allt vinnist það ekki í einu. Stundum er á það bent, að ef sumum af þessum framkvæmdastofnunum yrði skipt niður í nokkrar minni stofnanir, sem væru dreifðar um landið og það kæmu jafnvel upp þrjár eða fjórar í staðinn fyrir eina, þá kunni rekstrarkostnaður þessara stofnana að verða eitthvað hærri við það. Ég fyrir mitt leyti geri lítið úr því og bendi á þar á móti, að þá er líka rétt að taka þar með í reikninginn, ef kostnaðurinn kynni á pappírnum að verða eitthvað svolítið hærri í slíkum tilfellum, að það kostar ekki lítið fé fyrir allt það fólk, sem nú verður að vinna að framkvæmd þessara mála, að leita til þessara stofnana með því að ferðast til Reykjavíkur eða hafa sína umboðsmenn í Reykjavík til þess að ná þar fram sínum hlut í þessum efnum. Og ég er hræddur um það, að sá kostnaðarauki, sem kynni að verða af beinum rekstrarkostnaði fleiri svona framkvæmdastofnana, ef settar yrðu upp, sá kostnaðarauki, sem þar kæmi fram hjá þeim, væri lítill í samanburði við þann kostnað, sem fólkið úti á landi verður nú að leggja á sig, vegna þess að þessar stofnanir eru allar á einum stað í landinu.

Þessi ríka tilhneiging að þjappa hér öllum stofnunum og öllu valdi saman í Reykjavík, sem yfir hefur gengið nú um langan tíma, hefur í ýmsum efnum alveg gengið út í öngþveiti, og það er alveg sýnilega búið að taka upp svo einhliða sjónarmið þeirra, sem með þessi mál hafa að gera hér í höfuðborginni, að það er verið að auka mönnum erfiði langt fram yfir það, sem nokkur þörf er á, einnig miðað við þetta skipulag, því að það er vitanlega alveg hóflaust, að aðili, sem heima á úti á landi og hefur fengið tilkynningu um, að það sé búið að veita honum húsnæðismálalán, skuli með engu móti hafa möguleika til þess að fá að undirskrifa lánsskjölin sjálfur og taka við láninu greiddu á sínum heimastað, þar sem ef til vill er starfandi banki, en nú er fyrirkomulagið þannig, að það er sett sem alveg ófrávíkjanlegt skilyrði, til þess að menn geti fengið þessi lán, að þeir verði að útvega sér einhvern umboðsmann í Reykjavík, sem gengur inn í ákveðið hús hér í borginni, leggur fram öll gögn og skrifar undir lánsskjölin, tekur þar út peningana og verður að sjá um að senda þá. Ég hygg, að þetta fyrirkomulag sé svona enn varðandi stofnlán til landbúnaðarins, að enn verði að ganga frá öllum lánsskjölum viðvíkjandi stofnlánum til landbúnaðarins í höfuðbankanum hér í Reykjavík, en það sé með öllu útilokað, að bændur geti fengið að ganga frá lánsskjölum sínum eða undirskrifa þau sjálfir, þó að um útibú frá bankanum sé að ræða í þeirra heimabyggðarlagi. Þetta vitanlega nær engri átt, þegar þetta framkvæmdavald, svo mikið sem það er orðið í höfuðborginni, verður svona einstrengingslegt í sínum vinnuaðferðum og það veldur auðvitað mönnum úti á landi stórum og miklum erfiðleikum í mörgum efnum.

Í þessari tillögu er sem sagt lagt til, að sett verði sérstök milliþn., sem athugi þessi mál og að hvaða leyti hægt sé að dreifa þessu mikla framkvæmdavaldi frá aðalstöðvunum hér í Reykjavík til staða úti um landið og þá fyrst og fremst til að auka á hagræði fyrir fólkið á hinum ýmsu stöðum utan höfuðborgarinnar, og svo auðvitað til þess að hafa þau áhrif, um leið og það verður auðveldara fyrir þá, sem búa utan Reykjavíkur, að komast í gegnum þessar stofnanir og fá afgreiðslu sinna mála, verði þetta einnig til þess, að sá fjölmenni hópur manna, sem alltaf verður fjölmennari og fjölmennari, sem annast þjónustustörfin í þjóðfélaginu, hin margvíslegustu þjónustustörf, þessi hópur geti átt heima á fleiri, en einum stað í landinu. Ég held, að það mundi koma í ljós hjá okkur eins og öðrum, að ef myndarlega yrði tekið til hendinni í þessum efnum, að draga nokkuð úr þessu mikla samþjöppunarvaldi hér í Reykjavík, þar sem öllu þessu valdi hefur verið saman þjappað, — ef það yrði dregið nokkuð úr því og ýmsar stofnanir. sem vel gætu verið staðsettar úti á landi, væru fluttar þangað, þá held ég, að það mundi hafa verulega mikil áhrif til góðs í sambandi við þetta stóra vandamál, sem er misvægið í byggð landsins.

Í nánu sambandi við þetta er svo annað mál, sem hér hefur nokkuð verið rætt á þessu þingi undir öðrum dagskrárliðum, en það er staðsetning skóla í landinu. Það er enginn vafi á því, að það hefur verið gengið allt of langt í þá átt á undanförnum árum að setja niður ýmsa framhaldsskóla hér í höfuðborg landsins. Hún hefur að sjálfsögðu haft margt til að bera og það svo, að það er ekkert óeðlilegt kannske, að mönnum hafi fundizt það á sínum tíma eðlilegast að setja þessar skólastofnanir niður í Reykjavík. En tímarnir eru að breytast í þessum efnum. Við sjáum, að það er ekki æskilegt að draga þannig alla hluti hingað til Reykjavíkur. Það hefur mikið þjóðhagslegt gildi að efla fleiri staði í landinu og það er enginn vinningur, hvorki fyrir Reykjavík sem slíka né þjóðfélagið í heild, að það hlaupi í hana sérstakur ofvöxtur. Ég leyni því t.d. ekki, að það er mín skoðun, að það hefði verið miklu betur og eðlilegar fyrir komið, að sá mikli og myndarlegi sjómannaskóli, sem byggður var hér í Reykjavík og er staðsettur hér, hefði á sínum tíma verið staðsettur annars staðar. Það var satt að segja ekkert, sem mælti sérstaklega með því. Ég kom að vísu ekki auga á það, þegar verið var að byrja á framkvæmdum í þessum efnum. En ég þykist sjá það nú, að það hefði verið miklum mun réttara að staðsetja þá stofnun annars staðar en hér í höfuðborginni. Og það er mín skoðun, að það hefði einnig átt að taka á svipaðan hátt á staðsetningu kennaraskólans. Ég minnist þess, ég held ég fari ekki rangt með það, að upplýsingar hafi þá verið gefnar um það, að um alllangan tíma muni um 2/3 hlutar allra þeirra nemenda, sem sóttu kennaraskólann, hafa átt heima utan Reykjavíkur, en eigi að síður þótti sjálfsagt að setja hann niður hér og hvergi annars staðar, en hér.

Ég nefni þetta aðeins sem dæmi um það, að við þurfum að huga miklu betur að því eftirleiðis, en hingað til, hvar þýðingarmiklar skólastofnanir eru settar niður í landinu, því að þær geta haft mikið að segja upp á byggðaþróunina í landinu og það jafnvægi í byggð landsins, sem svo mjög er talað um. Ég held, að það beri að vinna að því alveg markvisst að staðsetja ýmsar framhaldsmenntastofnanir úti á landsbyggðinni, einmitt með þetta í huga, að láta þá staðsetningu hafa sín miklu og almennu áhrif á það, hvernig til tekst með þróun byggðarinnar. Þegar rætt er t.d. um það nú að ákveða, að það skuli vera staðsettur menntaskóli á Austurlandi, þá veit ég mæta vel, að það er alveg eins hægt að leysa þann vanda að mennta þá unglinga undir stúdentspróf, sem upp alast á Austurlandi, t.d. í skóla hér í Reykjavík, með því að byggja góða heimavist við menntaskóla hér í Reykjavík. Það er vitanlega hægt að framkvæma það á þann hátt, þannig að unglingarnir, sem þar alast upp, geti allir náð þessari menntun. En það er ekki fyrst og fremst það, sem er verið að leita eftir í þessum efnum. Það er verið að leita eftir því jöfnum höndum að geta haldið unglingunum þetta miklu lengur á sínum heimaslóðum og draga inn í nýtt umdæmi það kennaralið, sem má prýða einn góðan menntaskóla, með öllum þeim áhrifum, sem slík menntastofnun og slíkir menntamenn hafa á hina almennu þróun mála í viðkomandi umdæmi. Hér er því að mjög verulegu leyti um að ræða hið almenna byggðasjónarmið. Teljum við, flm. þessarar till., að það sé einmitt eitt af því, sem athuga eigi sérstaklega varðandi þessi mál með skipun þessarar mþn., sem lagt er til að kosin verði. Það er einmitt um, hvað hægt sé að gera varðandi staðsetningu skóla og annarra menningarstöðva til þess að bæta nokkuð hag dreifbýlisins frá því, sem verið hefur.

Ég skal svo ekki eyða hér lengri tíma að sinni í að ræða þetta mál. Ég vona aðeins, að það megi takast að fá þessa nefnd kosna, sem lagt er til að kosin verði samkv. þessu frv. og að hún taki hér til óspilltra mála og athugi, hvað hægt er að gera í þessu veigamikla máli, sem hér er fjallað um. Ég er fyrir mitt leyti ekki í neinum vafa um, að það er ekki síður þýðingarmikið fyrir okkur varðandi það að leysa hið mikla vandamál um misvægið í byggð landsins að grípa á þessum vandamálum, sem hreyft er í þessari till., heldur en hinum, sem snúa beint að hinum almennu atvinnumálum.

Herra forseti. Ég legg svo til, að að lokinni þessari umr. verði þessari till. vísað til hv. fjvn.