17.03.1965
Sameinað þing: 32. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í D-deild Alþingistíðinda. (2970)

86. mál, raforkumál

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hér er til umr. þáltill. á þskj. 117 um raforkumál. Flytjendur málsins eru 8 þm. Framsfl. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa tillgr. Hún er þannig:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að fela raforkumálastjóra og raforkuráði að ljúka hið allra fyrsta framkvæmdaáætlun um rafvæðingu allra sveitaheimila, sem ekki hafa nú þegar rafmagn frá samveitum eða sérstökum vatnsaflsstöðvum og sé áætlunin við það miðuð, að rafvæðingunni verði að fullu lokið á árinu 1968. Í áætluninni sé stefnt að því, að raforkuþörf heimilanna verði fullnægt með línum frá samveitum, að svo miklu leyti sem fært þykir, en fyrir þau heimili, sem eru svo mjög afskekkt, að ekki þykir fært að leggja til þeirra raflínur frá samveitum og ekki hafa hagstæð skilyrði til vatnsaflsvirkjunar, setji rafmagnsveitur ríkisins upp dísilstöðvar, er leigðar séu með þeim kjörum, að notendur þeirra njóti a.m.k. ekki minni stuðnings af opinberri hálfu heldur en þeir, sem fá rafmagn frá samveitum. Einnig verði þeim, sem koma upp vatnsaflsstöðvum til heimilisnota utan samveitusvæðanna, veitt sambærileg aðstoð, t.d. með auknum og hagstæðum lánum.“

Þannig hljóðar okkar till.

Samkv. nýjum upplýsingum, sem ég hef fengið frá raforkumálaskrifstofu ríkisins, telur hún, að um næstliðin áramót, þ.e. í árslok 1964, hafi 2.911 sveitabýli haft rafmagn frá almenningsrafveitum hér á landi. Flest hafa þau rafmagn frá héraðarafmagnsveitum ríkisins, en nokkuð á þriðja hundrað frá öðrum almenningsveitum. Raforkumálaskrifstofan telur einnig, að um síðustu áramót hafi um 480–490 býli haft raforku frá sérstökum vatnsaflsstöðvum. Það eru þannig um það bil 3.400 sveitabýli samtals, sem nú hafa rafmagn frá samveitum eða sérstökum vatnsaflsstöðvum. Byggðar jarðir hér á landi eru nokkuð yfir 5.000: Raforkumálaskrifstofan mun áætla þær tæplega 5.200, en Landnám ríkisins telur, að í fardögum 1964 hafi þær verið 5.382, þar af 129 býli, þar sem aðallega sé stunduð garð- og gróðurhúsarækt, alifugla- og svínarækt. Mér er ekki fyllilega ljóst, hvernig stendur á þessum mismun, sem þarna kemur fram hjá þessum tveim stofnunum. En af þessum tölum kemur þó fram, að býlin, sem eru án rafmagns, eru enn hátt á annað þúsund.

Ríkið hefur lagt fram fé á fjárlögum til nýrra raforkuframkvæmda allt síðan rafvæðing dreifbýlisins hófst fyrir rúmum 10 árum. Þessi framlög hafa gengið til héraðsrafmagnsveitna ríkisins og til ársloka 1963 námu þau alls 97.7 millj. kr. Hæst voru þessi framlög á árunum 1957 og 1958, um 12 millj. hvort árið. Svo kom erfitt ár eitt fyrir rafveiturnar. Það var 1959. Þá var ekkert lagt til héraðsrafmagnsveitnanna úr ríkissjóði, en síðan var aftur tekin upp fjárveiting til þeirra og á árunum 1960–1963 hafa farið 10 millj. ár hvert til héraðsrafmagnsveitnanna úr ríkissjóði. Það er því nokkru minna en árin fyrir 1959, þrátt fyrir verðfall peninganna. Hins vegar var upphæðin hækkuð nokkuð á árinu 1964 eða við afgreiðslu fjárlaga fyrir það ár. Þá var hún færð upp í 27 millj. og það var greitt úr ríkissjóði á því ári, það er `mér kunnugt. En hins vegar er mér sagt á raforkumálaskrifstofunni, að það sé ekki enn fullákveðið, hvort þessi upphæð gangi öll til héraðsrafmagnsveitnanna, eins og áður var um þessar fjárveitingar til nýrra raforkuframkvæmda. Á fjárlögum ársins 1965 er einnig sama upphæð til nýrra raforkuframkvæmda og árið áður 27 millj., en nú berast okkur slæmar fréttir frá hinu háa Alþingi, mjög slæmar fréttir. Þær eru um það, að hæstv. ríkisstj. hafi í hyggju að lækka framlög á fjárlögum til verklegra framkvæmda um 20%. Þetta er mjög slæmt, því að framlög til margra nauðsynjaframkvæmda af þessu tagi voru svo takmörkuð við afgreiðslu síðustu fjárlaga, miðað við þá miklu heildarfjárhæð, sem er á fjárlögunum, að þetta mátti ekki minna vera og það er slæmt, ef þetta lækkar. Það kemur sér mjög illa fyrir rafmagnsveiturnar, ef þessi lækkun verður látin ná til þeirra.

Þrátt fyrir þá lækkun, sem varð á framlagi ríkisins til héraðsrafmagnsveitnanna á árunum 1959–1963, frá því, sem áður var, þá hefur býlafjöldinn, sem tengdur hefur verið árlega við samveiturnar frá upphafi verið nokkuð svipaður, ýmist á öðru eða þriðja hundraðinu ár hvert. En meira hefur verið unnið fyrir lánsfé á árunum 1959–1963, en áður vegna lægri ríkisframlaga og hækkandi framkvæmdakostnaðar og hefur það orðið til að auka rekstrarhalla rafveitnanna. Ég fékk í morgun upplýsingar hjá raforkumálastjóra, Jakob Gíslasyni, um það, hve mörg sveitabýli hefðu verið tengd við héraðsrafmagnsveitur ríkisins árið 1964, þau voru 188. Ég fékk einnig upplýst hjá honum, að um áramótin 1964–1965 hafi verið í byggingu allmargar veitur, misjafnlega langt á veg komnar, en tölu þeirra býla, sem þar um ræðir, getur raforkumálaskrifstofan ekki gefið upp. Hins vegar segir skrifstofan, að það séu um það bil 15 millj. kr., sem ráðgert sé að kosti að ljúka þeim veitum, sem átti að gera 1964 eða voru áætluð það ár, en ólokið var í árslokin og þetta á að vinna 1965.

Héraðsrafmagnsveitur ríkisins eru sérstök deild hjá raforkumálastofnuninni með sérstakt reikningshald fyrir sig. Reikningum fyrir 1964 er enn ekki lokið, en í árslok 1963 var samanlagður rekstrarhalli hjá héraðsrafmagnsveitunum fyrir liðinn tíma. þ.e.a.s. öll árin, sem þær hafa starfað, orðinn um 25.8 millj. kr. Þá voru taldar afskriftir af eignum skuldamegin á efnahagsreikningi um 23.4 millj. kr., svo að telja má, að lítill munur hafi verið á þessu tvennu. Ég tel, að segja megi, að þrátt fyrir rekstrarhallann, sem ég nefndi, hafi efnahagur héraðsrafmagnsveitna ríkisins mátt teljast allgóður í árslok 1868, þ.e. seinasta árið, sem reikningsuppgjör er fyrir. Bókfærðar eignir þeirra þá voru um 339 millj. kr., en lán, sem á þeim hvíldu, ca. 184 millj. kr., svo að hrein eign á efnahagsreikningi þeirra er þá um 155 millj. kr.

Við fluttum till. um sama mál á síðasta þingi. Efni þeirrar till., eins og þeirrar, er hér liggur fyrir, var að skora á ríkisstj. að fela raforkumálastjóra og raforkuráði að ljúka áætlun um framhaldsframkvæmdir við rafvæðingu sveitanna, sem síðan yrði unnið að, þegar lokið væri framkvæmdum samkv. 10 ára áætluninni. Var lagt til í till. okkar í fyrra, að áætlunum þessum skyldi lokið fyrir 31. marz 1964. Þessi till., er við fluttum á síðasta þingi, kom til umræðu í Sþ. 5. febr. 1964. Í umr. um till. sagði hæstv. raforkumrh., að það mætti vænta þess, að á þessum vetri, þ.e.a.s. fyrir vorið 1964, gæti framhaldsáætlun legið fyrir og ákvörðun væri tekin um það, hvernig unnið verður eftir þeirri áætlun samkv. till. raforkuráðs og nánari athugun á þessu máli.

Sú von ráðh. rættist, að framhaldsáætlun raforkumálastjóra um rafvæðingu sveitanna var gefin út 31. marz 1964. Á þeirri áætlun var yfirlit yfir 483 býli, þar sem meðalvegalengd milli bæja var 1–1½ km. og 416 býli, þar sem meðallínulengdin var 1½–2 km milli býla. Þetta eru alls 879 býli, en lengra náði áætlunin ekki. En þó að vonir ráðh. í fyrra um það, hvenær þessu yfirliti yrði lokið, rættust, þá hefur því miður enn ekki verið gert það, sem ráðh. sagði 5. febr. í fyrra í framhaldi af þessu, að ákvörðun væri tekin um það, hvernig unnið verður eftir þeirri áætlun samkv. till. raforkuráðs og nánari athugun í þessum málum.

Næst gerist það í málinu, svo að mér sé kunnugt, að 30. júní 1964 gefur raforkumálaskrifstofan út framkvæmdaáætlun héraðsrafmagnsveitna ríkisins, sem manni skilst að sé byggð á yfirlitinu frá marz á því ári. Þessi áætlun mun aðeins hafa verið afhent raforkuráðsmönnum og að sjálfsögðu ráðh. til athugunar, en ekki birt að öðru leyti. Ég átti þess kost að sjá þessa áætlun hjá einum af raforkuráðsmönnum. Þar er gert ráð fyrir, að veitur verði lagðar til samtals 895 sveitabýla á árunum 1965–1970, að báðum meðtöldum, þ.e.a.s. á 6 árum, en síðan mun því miður ekkert hafa verið gert til ákvörðunar í málinu.

Mér er sagt, að fundur hafi verið haldinn í raforkuráði í okt. s.l., án þess að nokkuð hafi verið afráðið í þessu máli og síðan hafi enginn fundur verið haldinn í ráðinu, fyrr en nú í marzmánuði 1965, þá var heldur engin ákvörðun tekin um þetta mál og þetta eru alveg óvenjuleg vinnubrögð í raforkuráði. Þar hafa ætíð áður verið haldnir fundir seint á ári hverju, þar sem m.a. hafa verið gerðar samþykktir um framkvæmdir héraðsrafmagnsveitnanna. Hvað getur valdið þessum óvenjulega drætti á að ganga frá áætlunum, sem gerðar voru á miðju ári 1964? Ekki er óeðlilegt, að þetta valdi ótta hjá mönnum um það, að einhver breyting sé að gerast hjá stjórnarvöldunum, eitthvert hik hjá þeim að halda áfram við rafvæðinguna, eins og ætíð hefur þó verið rætt um og menn hafa gert sér vonir um að gert yrði.

Ég vil þó fastlega vænta þess, að svo sé ekki, en mér finnst drátturinn á málinu óeðlilegur og afleitur fyrir alla þá, sem hér eiga hlut að máli. Eins og kunnugt er, á hæstv. raforkumálaráðherra sjálfur sæti í raforkuráði og hefur því enn sterkari aðstöðu, en ella að beita sér í þessu máli og þessi dráttur, sem hér hefur á orðið, er í ósamræmi við ummæli hæstv. ráðh. í ræðu um þetta mál 5. febr. 1964. Þá sagði hann svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það hefur verið gert ráð fyrir, að 10 ára áætlun yrði lokið á þessu ári og þá má segja, að það sé tímabært og það sé nauðsynlegt, að framhaldsáætlunin liggi fyrir á þessu ári, til þess að unnt verði að vinna samkvæmt henni strax á árinu 1965.“

Þetta sagði hæstv. ráðh. snemma í febr. í fyrra.

Þó að samþ. verði að tengja þau býli, sem eru á áætluninni frá 30. júní 1964, við samveitur, verða enn mörg heimili rafmagnslaus. Í grg. með till. okkar er farið fram á, að gerðar verði áætlanir um, hvað kosta mundi að leggja raflínur til býla, þar sem meðalvegalengd milli bæja er í fyrsta lagi allt að 2 km og í öðru lagi allt að 3 km. Þetta var einnig í till. okkar frá í fyrra, og var því þá vel tekið af hæstv. ráðh. Hann sagði þá, 5. febr., að hann vonaðist eftir því, að á þessum vetri, eins og hann orðaði það, verði tilbúið kort hjá raforkumálaskrifstofunni, sem sýni þau býli í hverju héraði, sem hugsanlega koma ekki á samveitusvæði í framhaldsáætlun og í framhaldi af þessu sagði hann svo um okkar till. eða þennan þátt í henni: „Hins vegar ætti að vera fljótlegt og það er sjálfsagt að verða við þeirri ósk að gera sér grein fyrir því, hvað það kostaði að miða fjarlægðina við 2½–3 km. Það ætti ekki að vera svo mjög seinlegt og sízt af öllu þegar það kort, sem ég áðan nefndi, er til og bæirnir taldir þar upp.“ Ég vil því fara fram á við hæstv. ráðh., að hann láti nú gera þessa áætlun, ef það hefur ekki þegar verið gert.

Við flm. till., sem hér liggur fyrir, teljum skylt að fullnægja raforkuþörf landsmanna með línum frá samveitum, að svo miklu leyti sem frekast verður talið fært kostnaðar vegna, því að á þann hátt fá þeir langbeztu og öruggustu þjónustuna, sem unnt er að veita á þessu sviði. Þó má ljóst vera, að samveitur geta ekki náð til allra. Þá kemur næst til athugunar, hvar mögulegt er að koma upp sérstökum vatnsaflsstöðvum fyrir einstök heimili eða fleiri saman. Þær framkvæmdir er réttmætt að styðja af opinberri hálfu betur en gert hefur verið, enda ákvæði í till. okkar um það. En þar sem þessi skilyrði eru ekki fyrir hendi, verður að notast við önnur ófullkomnari úrræði og koma þá til greina dísilstöðvar. Við leggjum til, að þeir, sem þurfa að bjargast við það, njóti a.m.k. ekki minni stuðnings af opinberri hálfu en hinir, sem fá rafmagn frá samveitum. Það er uppástunga okkar, að rafmagnsveitur ríkisins setji upp slíkar dísilstöðvar og leigi þær. Við teljum, að það sé heimild í raforkulögunum frá 1946 til að gera þetta, en þar segir svo í II. kafla, með leyfi hæstv. forseta:

„Rafmagnsveitum ríkisins er heimilt að selja raforku beint til neytenda á þeim stöðum, þar sem héraðsveitur eru ekki fyrir hendi eða annars staðar með samþykki héraðsveitunnar.“

Þetta má telja hliðstætt því, að ríkisstofnun leigir fiskibátum talstöðvar. En hér geta auðvitað aðrar aðferðir komið til álita, ef heppilegra þætti, enda verði þær notendum rafmagnsins ekki óhagkvæmari. Hæstv. raforkumrh. minntist á þetta mál í fyrra í umr. sínum um raforkumálin þá og sagði: „Nú eru veitt lán úr raforkusjóði út á dísilstöðvar til bænda með hagkvæmum kjörum. En ég get tekið undir það með hv. frsm., að það er út af fyrir sig ekki nóg til að jafna aðstöðumuninn við þá, sem fá rafmagn frá samveitum og það þarf að ganga lengra, en gert hefur verið í jöfnunarátt hvað þetta snertir.“ Þetta sýndi, að hæstv. ráðh. var okkur sammála um þetta atriði. a.m.k. að vissu marki.

Skýrslur liggja ekki fyrir um fjölda fólks á þeim býlum, sem enn eru án raforkunnar. En ég hygg óhætt að áætla, að það sé ekki meira en 5% af heildartölu landsmanna. Það er ekki sæmilegt af okkur hinum mörgu, sem njótum nú rafmagnsins, að láta þessi 5% landsmanna verða lengi enn utan við ljósið og ylinn, sem raforkan veitir. Við eigum að veita þeim þessi mikilsverðu hlunnindi á allra næstu árum og þetta er mjög vel framkvæmanlegt, ef nægur vilji er fyrir hendi til þess. Þetta er lítið fjárhagslegt átak fyrir þjóðina, þegar litið er á hina gífurlegu fjármunaveltu, sem nú er í þjóðfélaginu. Og ég vil leggja höfuðáherzlu á það, sem er aðalefni okkar till., að ekki verði látið dragast lengur, en orðið er, að taka fullnaðarákvörðun um þessa framkvæmd, ganga frá áætlun, sem síðan verði auglýst og farið eftir. Fólkið þarf að fá að vita, hvers það má vænta í þessu lífshagsmunamáli. Fái það vitneskju um það án óþarfrar tafar, að þörfum þess fyrir rafmagnið verði áreiðanlega fullnægt á allra næstu árum og nákvæma vissu um það, hvenær þetta verði á hverju svæði, getur það forðað því, að mörg vel nothæf býli og jafnvel heil byggðarlög leggist í auðn.

Ég tel, að þetta mál, sem hér er hreyft, sé eitt af okkar stærstu málum. Ég ætla þó ekki, herra forseti, að hafa um það fleiri orð, nema sérstakt tilefni gefist. Ég sé, að það er ákveðin ein umr. um till., og samkv. venju legg ég til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn. og ég vil fastlega mælast til þess við hv. n., að hún afgreiði málið frá sér, þannig að það geti hlotið fullnaðarafgreiðslu, áður en þingi lýkur.