10.03.1965
Sameinað þing: 31. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í D-deild Alþingistíðinda. (3025)

125. mál, garðyrkjuskóli á Akureyri

Flm. (Karl Kristjánsson) :

Herra forseti. Við höfum allir þm. úr Norðurlandskjördæmi e. leyft okkur að leggja fram á þskj. 251 till. um stofnun garðyrkjuskóla á Akureyri eða í grennd Akureyrar. Till. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta semja lagafrv. og leggja það fyrir næsta reglulegt Alþingi um garðyrkjuskóla ríkisins, er stofnaður verði á Akureyri eða í grennd hennar og undirbúa jafnframt framkvæmdir að stofnun hans að öðru leyti, eftir því sem við getur átt, áður en löggjöf um hann er sett.“

Einn garðyrkjuskóli er í landinu, það er garðyrkjuskólinn í Hveragerði. Ríkið rekur hann samkvæmt sérstökum lögum, sem eru miðuð við hann og þann stað, sem hann er settur á. Þessi skóli hefur starfað síðan 1939. Ekkert er á þann skóla deilt, þótt sagt sé, að nú orðið geti hann alls ekki fullnægt öllu landinu, því að það er mjög eðlilegt. Garðrækt hefur á seinni árum aukizt mjög hérlendis og orðið fjölbreyttari. Enn þarf að auka hana stórlega, til þess að vel sé. Kunnátta er nauðsynleg við þau störf ekki síður en önnur. Undirstaða kunnáttu í garðyrkju er bæði bókleg og verkleg fræðsla. Á margt er lögð stund í landi okkar á þessum sviðum, svo sem ylræktun blóma, ylræktun matjurta og ávaxta, ræktun matjurta í reitum og á opnu landi, uppeldi á trjáplöntum og öðrum garðagróðri, skrúðgarðabyggingar og hirðing skrúðgarða o.s.frv. Sérhæfingar þarf með, vegna þess að sumar greinar garðyrkju eru í svo mörgu frábrugðnar hver annarri, að þar er lítið skylt annað en nafnið. Verkaskipting á milli tveggja skóla gæti því verið að mörgu leyti hagkvæm. Slík verkaskipting milli garðyrkjuskóla tíðkast mjög erlendis.

Á Norðurlandi er mikill áhugi á garðyrkju og hefur lengi verið, enda sér þess þar ljósan vott, t.d. á Akureyri. Flm. till. telja líka rétt að staðsetja skólann á Akureyri eða í nágrenni hennar, af því að á Akureyri eða í námunda við hana mundi hann njóta sín bezt. Jarðvegsskilyrði eru þar góð og veðurfarsskilyrði einnig heppileg, með tilliti til þess, sem rækta þarf við slíkan skóla. Garðmenning á Akureyri er eldri og rótgrónari, en almennt gerist í landinu. Þar eru margir garðar einstakir í sinni röð, fjölbreyttir og vænlegir til kynningar við kennslu. Þar er grasgarður, sem veitt gæti góð skilyrði til náms með kynningu á plöntugróðri og mætti hugsa sér, að þar færi fram einhver hluti verknáms við skrúðgarðyrkju. Þar eða í nánd við Akureyri er hægt að fá jarðhita til ylræktar. Á Akureyri eru skilyrði til að fá sérmenntaða kennara, sem starfa við aðra skóla, til kennslu í ýmsum undirbúningsgreinum við garðyrkjuskóla, og hefur það mikla þýðingu.

Snemma á þessari öld hafði Ræktunarfélag Norðurlands árum saman garðyrkjunámskeið á vorin í gróðrarstöð sinni á Akureyri. Voru þau að vísu ekki margbrotin, en þóttu samt gefa góða raun og hafa menningarleg áhrif. Fólk, sem þau sótti, fitjaði upp á garðyrkju heima hjá sér á eftir og vakti áhuga annarra til að reyna það sama. En búnaðarsamtökin í landinu breyttu skipulagi sínu og Ræktunarfélag Norðurlands dró saman seglin og þessi starfsemi féll niður. Hins vegar virðist orðið fullkomlega tímabært, að ríkið, sem búið er að reka garðyrkjuskóla sunnanlanda í aldarfjórðung, reisi nú annan skóla á Norðurlandi.

Kvenfélagasamtökin á Norðurlandi hafa samþykkt áskorun um stofnun garðyrkjuskóla norðanlands. Samband norðlenzkra kvenna hélt t.d. fund á Akureyri 9. og 10. júní s.l. ár og samþykkti áskorun til stjórnar sinnar að hlutast til um, að hlutaðeigandi stjórnarvöld ríkisins komi upp garðyrkjuskóla á Norðurlandi hið allra fyrsta til að bæta úr brýnni þörf fyrir leiðbeiningar í garðrækt, eins og komizt er að orði í ályktuninni. Benti fundurinn á, að Gróðrarstöðin á Akureyri væri nú orðin ríkiseign og mundi geta veitt aðstöðu í þessum efnum. Í Sambandi norðlenzkra kvenna, eru 7 héraðasambönd kvenfélaga, svo að það er víðtækt samband.

Kvenfélagasamband Suður-Þingeyjarsýslu samþykkti sams konar ályktun út af fyrir sig.

Konurnar finna, hvar skórinn kreppir í þessum efnum. Þær hafa yfirleitt enn næmari skilning, en við karlmennirnir á garðyrkjumálum eða a.m.k. ýmsum greinum þeirra. Efnislega er það tillaga og óskir kvenfélagasamtakanna fyrir norðan, sem við þm. úr Norðurlandskjördæmi eystra berum hér fram á hv. Alþ. á þskj. 251.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að umr. þessari verði frestað og málinu vísað til hv. fjvn.