31.03.1965
Sameinað þing: 36. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í D-deild Alþingistíðinda. (3057)

136. mál, Háskóli Íslands

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Á þskj. 286 hef ég ásamt 8 öðrum þm. Framsfl. leyft mér að flytja till. til þál. um eflingu Háskóla Íslands. Till. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta semja í samráði við háskólaráð áætlun um skipulega eflingu Háskóla Íslands á næstu 20 árum. Áætlunin skal síðan lögð fyrir Alþ. til samþykktar.“

Ég býst varla við því, að mörg orð þurfi að hafa um nauðsyn á eflingu háskólans og æðri menntunar í landinu. Þá nauðsyn virðast, sem betur fer, flestir skilja, svo er a.m.k. að heyra á öllum, sem láta til sín heyra um þau mál nú. Er aukinn og almennur skilningur á málefnum og vaxtarþörf háskólans sérstaklega gleðilegur. Mönnum virðist nú almennt orðið ljóst, að geta þjóðarinnar á sviði vísinda og tækni ræður mestu um framfarir og lífskjör. Menn sögðu áður, að bókvitið yrði ekki látið í askana. Fátt er meira öfugmæli á okkar dögum en einmitt það. Við sjáum daglega dæmi þess, hvernig bókvitið og sérfræðiþekkingin er undirstaða efnahagslegra framfara. Það nægir t.d. hér bara að minna á það, hverja þýðingu starfsemi okkar fiskifræðinga hefur haft fyrir afkomu okkar Íslendinga, en slík dæmi eru vissulega mörg og mætti telja mjög mörg upp. Þess vegna er nú almennt viðurkennt, að menntun sé ein öruggasta fjárfesting hverrar þjóðar. Í nútíma þjóðfélagi er sívaxandi þörf fyrir háskólamenntaða menn og hvers konar sérfræðinga. Raunvísindi og tækni og hvers konar vísindalegar rannsóknir verða æ mikilvægari undirstöður framfara og bættra lífskjara.

Það er augljóst mál, að í vændum er mikil fjölgun stúdenta hér á landi á næstu árum. Það sýnir hérlend þróun síðustu ár. Til þess bendir reynsla annarra þjóða. Allar menningarþjóðir reyna að stuðla að því, að sem flestir ljúki stúdentsnámi. Hér eru flutt frv. á Alþ. um nýja menntaskóla. Þörfin fyrir nýja menntaskóla hér er brýn. Það er augljóst, hvert stefnir í þessum efnum. Háskólinn þarf því að vera við því búinn að taka við þeirri miklu fjölgun stúdenta, sem í vændum er og þarf að geta gefið þeim kost á sem fjölbreytilegustu námsgreinavali. Með hliðsjón af þróun síðustu ára og erlendri reynslu má gera sér nokkuð glögga grein fyrir því, hver stúdentafjölgunin muni verða hér næstu árin. Talið er, að nú ljúki um það bil 10 af hverju 100 af 20 ára árgangi stúdentsprófi hér á landi. Í Noregi er hliðstæð tala 17% og í Svíþjóð nálægt 16%. Í Danmörku aftur á móti er hún talsvert lægri. Vafalaust má búast við svipaðri þróun hér á landi og hjá þessum grannþjóðum okkar. Ef viðkoma stúdenta væri orðin um 16% af 20 ára árgangi 1974, yrðu nýir stúdentar um 660–670, en voru s.l. ár nálægt því um 330. Við Háskóla Íslands eru nú innritaðir um 950 stúdentar. Gert er ráð fyrir, að sú tala muni um það bil þrefaldast á næstu 20 árum, enda þótt námsgreinar væru lítið auknar. Ef háskóladeildum væri fjölgað, yrði aukningin hins vegar vafalaust mun meiri, en það er einmitt mesta nauðsyn á því að fjölga kennslugreinum við háskólann, bæði vegna sívaxandi þarfa á akademískt menntuðum mönnum á nýjum og nýjum sviðum og til þess að opna stúdentum nýjar leiðir til sérfræðináms hér heima. Auðvitað verður ekki hjá því komizt, að við Íslendingar sækjum akademíska menntun á ýmsum sviðum til annarra landa. Slíkt er sjálfsagt og eðlilegt. En nú stundar um það bil þriðjungur íslenzkra stúdenta nám við erlenda háskóla. Það er áreiðanlega hærri tala hlutfallslega, en hjá nokkurri grannþjóð okkar. Má vel vera, að það sé óhjákvæmilegt og sjálfsagt er það eðlilegt, að það sé mun hærri tala hjá okkur en þeim þjóðum. En samt sem áður, er það áreiðanlega nokkurt umhugsunarefni, hvort ekki sé hægt að beina fleiri stúdentum að háskólanámi hér heima. En það er því aðeins unnt, að kennslugreinum sé fjölgað, kennslukraftar auknir, húsnæði aukið og aðstaða öll bætt. Við fyrirsjáanlegri stúdentafjölgun við háskólann þarf að búast af víðsýni og fyrirhyggju. Það er jafnan hreint neyðarúrræði,. ef takmarka þarf aðgang að einstökum háskóladeildum eða kennslugreinum. Hér ber því allt að sama brunni, háskólann þarf að efla. Það er ekkert einkamál stúdenta, heldur hagsmunamál þjóðarinnar allrar.

Háskólinn á samkv. lögum að vera hvort tveggja í senn kennslustofnun og rannsóknarstofnun. Af eðlilegum ástæðum hefur hann hingað til fyrst og fremst verið kennslustofnun. En það þarf að breytast. Rannsóknarstarfsemi þarf að sinna í ríkara mæli. Þess er brýn þörf. En til þess þarf að skapa ýmsa aðstöðu, sem nú er ekki fyrir hendi. Það kostar mikið fé. Það þarf líka að mínu viti að tengja háskólanum ýmsar rannsóknarstofnanir, sem hér eru fyrir. Ég nefni í því sambandi t.d. náttúrufræðistofnunina, sem frv. er nú um fyrir hv. Alþ., en í því frv. er ekki gert ráð fyrir sérstökum tengslum náttúrufræðistofnunarinnar og háskólans. Það álít ég miður farið og er raunar sannfærður um að, að því kemur von bráðar, að tengsl verða sköpuð á milli náttúrufræðistofnunarinnar og háskólans og forstöðumenn og starfsmenn náttúrufræðistofnunarinnar verða vafalaust kennarar við háskólann í þeim greinum. En við háskólann þarf einmitt að taka upp kennslu í þeim greinum.

Það er einnig að mínu viti æskilegt, að háskólinn geti með ýmsum öðrum hætti fært út kvíarnar, t.d. tekið upp kvöldnámskeið eða kennslu á kvöldin fyrir fólk, sem að deginum er bundið við ýmis störf og meira en nú er gert. Ýmsar breytingar á kennsluháttum væru og sjálfsagt æskilegar. Það þarf þannig að efla háskólann með ýmsum hætti. Það þarf að efla þær háskóladeildir, sem fyrir eru, fjölga þar kennurum og bæta kennsluskilyrði og rannsóknaraðstöðu. Það þarf að fjölga háskóladeildum, taka upp kennslu í nýjum fræðigreinum, bæði á sviði raunvísinda og hugvísinda, svo sem í ýmsum náttúrufræðum, málvísindum, félagsfræðum, landbúnaðarvísindum, fiskifræði, byggingarverkfræði, húsagerðarlist o.fl., o.fl. Það þarf að efla bókasafn háskólans og rannsóknarstofnanir og koma á fót, nýjum rannsóknarstofum og tengja rannsóknarstöðvar, sem fyrir eru, háskólanum. Um leið þarf með ýmsum hætti að stórbæta aðstöðu og starfsskilyrði stúdenta. Verður að gefa þeim þætti miklu meiri gaum, en gert hefur verið hingað til og í því sambandi þarf m.a. að athuga um upptöku nýs námslauna- og námsstyrkjakerfis og í því sambandi þarf að athuga hið nýja námslánakerfi, sem innleitt er í Svíþjóð frá 1. jan. þetta ár.

Verkefnin eru mörg, þarfirnar eru miklar. Það er hins vegar öllum raunsæjum mönnum ljóst, að hér verður erfitt að fullnægja öllum óskum, hér er ekki hægt að gera allt, sem nauðsyn kallar þó á, í einu. Þar verður að velja og hafna, vega og meta, hvað er mest aðkallandi og hvað getur heldur beðið. Þar má ekkert handahóf ráða. Við verðum sjálfsagt að horfast í augu við þá staðreynd, að það verður erfitt fyrir okkur að halda að öllu leyti til jafns við háskólastofnanir stærri þjóða. Við verðum sjálfsagt í sumum efnum að sníða okkur stakk eftir vexti. En flestir munu sammála um, að háskólann beri að efla, svo sem geta þjóðarinnar framast leyfir. Það þarf því að kanna, hvað framkvæmanlegt er og í hvaða röð verkefnin á að leysa.

Af öllu því, sem ég hef nú stuttlega drepið á, er ljóst, að það er brýn nauðsyn, að unnið sé að málum þessum með skipulegum hætti. Það eru því sjálfsögð og nauðsynleg vinnubrögð, að gerð sé áætlun til allmargra ára um eflingu og uppbyggingu háskólans. Það þarf í því sambandi líka að gera áætlun fram í tímann um þörf okkar á sérfræðingum á hinum ýmsu sviðum. Hér er lagt til, að gerð sé slík heildaráætlun um eflingu, háskólans um tvo næstu áratugi. Það er eðlilegt, að slík áætlanagerð, sem m.a. verður að taka til kennarafjölgunar, nýrra kennslugreina, aukins húsnæðis, eflingar bókasafns, stofnunar rannsóknarstöðva, aðbúnaðar stúdenta o.fl., o.fl., sé fyrst og fremst í höndum háskólaráðs. Áætlunargerð háskólaráðs án samvinnu við menntmrn. gæti þó orðið gagnslítil. Rn. þarf að segja til, hvað er framkvæmanlegt, hvað getan leyfir. Hér er því lagt til, að þessir aðilar vinni saman að þessari áætlunargerð. Þegar þessir aðilar hafa gengið frá áætluninni, er lagt til, að hún sé staðfest með alþingissamþykkt, eftir atvikum með þál. eða lögum. Það er verulegt atriði að mínum dómi, að sá háttur sé hafður á. Þá fyrst er orðið verulegt hald í áætluninni. Með þeim hætti er tryggt svo vel sem unnt er, að eftir áætluninni verði raunverulega farið í framkvæmdinni.

Þess má geta í þessu sambandi að síðasta fullveldisdag, 1. des., völdu háskólastúdentar einmitt að umræðu- og umhugsunarefni mál það, sem þessi þáltill. fjallar um, eflingu æðri menntunar og Háskóla Íslands og var háskólarektor þá aðalræðumaðurinn. Gerði hann rækilega grein fyrir þessum málum og komst hann þar mjög að sömu niðurstöðu og farið er fram á í þessari þáltill., þ.e.a.s. að gera þyrfti heildaráætlun til margra ára um þróun og uppbyggingu háskólans.

Það er kunnugt, að háskólaráð nefur þegar gert áætlun um nauðsynlega fjölgun fastra kennara við núverandi háskóladeildir næstu 10 ár. Sú áætlun var send ríkisstj. all snemma á s.l. ári, að ég ætla. En það er enn ekkert vitað um það, að hve miklu leyti sú áætlun, sem háskólaráð sendi frá sér til hæstv. ríkisstj., verður lögð til grundvallar um það efni, sem hún fjallar um. Það mun hafa verið talin í þessari áætlun þörf á 17 nýjum prófessorsembættum í allt, mismunandi eftir deildum. Það mun hafa verið t.d. gert ráð fyrir því í till. háskólaráðs, að á s.l. ári yrðu stofnuð 2–3 prófessorsembætti, en aðeins eitt var stofnað, prófessorsembætti við læknadeildina í lífeðlisfræði. En það er ekkert vitað um það enn, hvað ríkisstj. hæstvirt hyggst fyrir um þessi efni. Hún hefur enn ekki séð ástæðu til þess að gefa út neina opinbera skýrslu um þessi mál. Og ég sé nú því miður, að hæstv. menntmrh. er ekki við hér í sameinuðu þingi, þegar þetta mál er rætt og er það vafalaust af því, að hann hefur öðrum störfum að sinna utan þingsins. En vissulega hefði verið æskilegt, að hann hefði verið viðstaddur, þegar þessi mál eru rædd og hefði þá m.a. getað gefið upplýsingar um það, hver muni verða afdrif þessarar áætlunar, sem á sinni tíð var send frá háskólaráði til hæstv. ríkisstj. En þess ber auðvitað vel að gæta, að sú áætlun, sem þar var send frá háskólaráði, náði aðeins til eins þáttar í uppbyggingu háskólans. En hér er gert ráð fyrir alhliða athugun á þessu málefni, ekki aðeins að því er varðar kennarafjölgunina, heldur og á mörgum öðrum efnum, eins og ég hef þegar drepið á. Það er því vissulega tímabært að mínum dómi, að unnið sé að fullkominni og víðtækri áætlun um þessi mál, eflingu háskólans, er lögð verði fyrir Alþ. svo fljótt sem tök eru á.

Allar menningarþjóðir kappkosta nú að efla háskóla sína og vísindalega menntun. Er t.d. mikil hreyfing í þá átt á Norðurlöndum. Eru mál þessi öll í athugun þar um þessar mundir og í ýmsum þeirra a.m.k. hafa verið sett niður áætlunarráð eða nefndir til svipaðrar áætlunargerðar og hér er höfð í huga.

Ég er ekki við því búinn hér að gefa yfirlit um það, hvernig mál þessi standa á Norðurlöndum, en vafalaust getur hæstv. menntmrh. gefið upplýsingar um það og ég sé mér til mikillar ánægju, að hann er nú kominn í salinn. En ég skal aðeins nefna það, að t.d. í Danmörku hefur verið ákveðið að stofna nýjan háskóla í Óðinsvéum og er jafnvel gert ráð fyrir því, að hann geti að einhverju leyti tekið til starfa á næsta ári. Þá hefur verið ákveðið þar, að setja á stofn arkitektaháskóla í Árósum. Enn fremur er gert ráð fyrir, að á næsta hausti taki þar til starfa í Álaborg deild frá „Ingeniör-akademíunni.“ Áætlun hefur verið gerð um það, að fram til næstu aldamóta þurfi að stofnsetja þrjá nýja háskóla í Danmörku. Sett hefur verið á stofn í Danmörku svo kallað áætlunarráð æðri menntunar eða akademískrar menntunar. Gerð hefur verið þar í landi mjög mikil og víðtæk áætlun um mjög miklar byggingar stúdentaheimila. Í Finnlandi hefur t.d. tala nýstúdenta þrefaldazt frá því árið 1950. Á árinu 1963 var sett á fót n. þar í landi til þess að gera áætlun um eflingu háskólanna. Sú nefnd mun ekki hafa skilað fullnaðaráliti, en samkv. till. hennar hefur þó þegar nýjum eða nýrri háskóladeildum verið bætt þar við einn tiltekinn háskóla, háskólann í Tammerfors. Í Noregi hefur verið ákveðinn og er í undirbúningi nýr háskóli í Norður-Noregi, í Tromsö. Og í Þrándheimi hefur verið ákveðið að steypa hinum æðri skólum, þ.e.a.s. verkfræðingaháskólanum og öðrum akademískum stofnunum, saman og mynda nýja háskólastofnun þar. Margt fleira er þar á döfinni í skólamálum og rannsóknarmálum, þó að hér verði ekki rakið. Í Svíþjóð hefur stúdentatalan þrefaldazt á síðasta áratug. Aðsókn að háskólanum vex þar mjög ört. Þar er áframhaldandi uppbygging og efling háskólanna í athugun í n., sem sett var á laggirnar 1963. Þar hafa verið stofnsettar nú upp á síðkastið sérstakar háskóladeildir í þjóðfélagsvísindum.

Það er áreiðanlega lærdómsríkt fyrir okkur Íslendinga að fylgjast sem bezt með því, sem gerist á Norðurlöndum í þessum efnum. Við verðum að hafa í huga, að hvarvetna í menningarlöndum er lögð hin mesta áherzla á akademíska menntun og eflingu háskólanna. Þar virðist nú ekkert sparað. Þróunin í þeim efnum er ákaflega ör. Auðvitað er það undirskilið, að almenn menntun verður að fylgjast með og verður að vera sú undirstaða, sem verður að vera fyrir hendi, til þess að um akademíska menntun geti verið að tefla. Við verðum áreiðanlega að gá alvarlega að okkur að dragast ekki aftur úr í þessum efnum. Ef við fylgjumst ekki með í þessari þróun, getur það haft hinar alvarlegustu afleiðingar fyrir menningu, framfarir og lífskjör þjóðarinnar á komandi árum. Auðvitað er geta okkar takmörkuð. Fyrir þeirri staðreynd þýðir ekki að loka augum. Við getum sjálfsagt ekki keppt við stórþjóðir, en of mikill sparnaður á þessum sviðum getur verið hin óskynsamlegasta fjármeðferð að mínum dómi. Og við verðum að hafa í huga, að stofnun með háskólanafni verður mæld á alþjóðamælikvarða, hvað sem okkar smæð annars líður.

Ég vænti þess, að hv. þm. verði okkur flm. sammála um, að þáltill. þessi sé næsta tímabær og ég vænti þess, að hún fái skjóta og góða afgreiðslu á hv. Alþ. Ég legg svo til, herra forseti, að till. þessari verði vísað til allshn. til athugunar og að umr. verði að sjálfsögðu frestað, meðan sú athugun fer fram.