21.12.1964
Neðri deild: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

106. mál, söluskattur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hvers vegna útvarpsumr. frá Alþingi nú, komið fast að jólum? Já, það er von, að menn spyrji. Slíkt er nýlunda. Astæðan er sú, að núna rétt fyrir jólin lagði hæstv. ríkisstj. fram á Alþingi frv. til l. um hækkun söluskatts úr 5 1/2% í 8%, en í krónum nemur sú hækkun a.m.k. 307.5 millj. kr. og þó áreiðanlega miklu hærri upphæð úr vösum skattþegnanna.

Í byrjun ársins 1964 var söluskatturinn 3%. Þegar skammt var á árið liðið, var söluskatturinn hækkaður í 5 1/2%. Með þessu frv. var ætlunin að hækka hann, áður en árinu lyki, í 8%. Fari þessu fram, svo sem stjórnin ætlast til, væri hinn illræmdi söluskattur hækkaður á einu ári um hvorki meira né minna en 167% eða 652 millj. kr. miðað við eins árs innheimtu. Segi menn svo, að stjórnin láti ekki að sér kveða á neinu sviði. Þetta þýðir, að ríkissjóður ætlar sér að taka með söluskatti nokkuð yfir 900 millj. kr. á ári. En hitt vita allir, að raunveruleg gjaldabyrði á skattgreiðendum verður þó miklu meiri vegna þess stórkostlega skattþjófnaðar, sem á sér stað í viðskiptalífinu í sambandi við skil og innheimtu skattsins. Þessa þróun mála töldu stjórnarandstöðuflokkarnir svo alvarlega, að skylt væri að gera grein fyrir henni í alþjóðar áheyrn, áður en lokaákvörðun væri tekin. Þess vegna eru útvarpsumr. nú, þótt komið sé fast að jólum.

Stjórnarstefnan „viðreisn“ hefur frá öndverðu reynzt hagsmunum launastéttanna óhagstæð og fjandsamleg. Löggjafarvaldi var í fyrstu beitt til að lækka umsamið kaup vinnustéttanna. Gengislækkun var hvað eftir annað beitt til þess að brjóta. niður í einu vetfangi árangur áralangrar kaupgjaldsbaráttu. Þegar svo samkomulag var komið á liðnu sumri um stöðvun verðlags og óbreytt kaup um eins árs skeið, var árás gerð á lífskjörin úr launsátri skattamálanna. Auðvitað jafngilti skattaránið beinni kauplækkun. Söluskatturinn hefur svo jafnan verið eitt af árásarvopnum ríkisvaldsins gegn launastéttunum, en herkostnaður stjórnarstefnunnar við launa- og framleiðslustéttirnar hefur orðið óstjórnleg óðaverðbólga og æðisgengin dýrtíð, sem allir finna til. Tala opinberar tölur þar um skýru máli.

Viðreisnarstjórnin lofaði hátíðlega í upphafi að stöðva verðbólgu og dýrtíð. Þegar kaup var lækkað og vísitala á laun afnumin, var fullyrt, að verðlag mundi aðeins hækka í byrjun um örfá stig, 3—5 stig, en svo kæmi alger stöðvun. En reynslan, hver er hún? Framfærsluvísitalan hækkuð um 64 stig, sem jafngilda

128 stigum eftir fyrri mælikvarða, og vísitala vöru og þjónustu hefur nú hækkað um 100 stig, sem jafngilda 200 stigum samkv. mælikvarða eldri vísitölu. Þetta er sannarlega uggvænleg og raunar þjóðhættuleg þróun.

Gegn þessari rangsnúnu stjórnarstefnu hafa launþegasamtökin jafnan háð látlausa varnarbaráttu í 5 ár og hafa þó ekki haldið fyllilega hlut sínum óskertum. Hörðust var þessi barátta á árinu 1963. Á fyrri hluta þess árs urðu tvennar kaupgjaldsbreytingar. Kjaradómurinn hækkaði svo laun opinberra starfsmanna á miðju árinu um 20—90%. En þá um haustið hugðist ríkisstj. greiða verkalýðshreyfingunni rothöggið. Í október um haustið lagði hún fram frv. til l. um að lögbinda óbreytt allt kaup verkafólks, banna alla kjarasamninga um hækkað kaup og banna öll verkföll, — þvingunarlagafrv. Þetta var eitt fávíslegasta tiltæki, sem íslenzkir valdhafar hafa nokkru sinni gripið til, enda sagði nú sameinað afl verkalýðssamtakanna til sín á eftirminnilegan hátt. Kom þar einnig til öflugur stuðningur almenningsálitsins. Út brutust víðtækustu verkföll íslenzkrar verkalýðssögu. 57 verkalýðsfélög með um 22 þús. félagsmenn hófu verkfall, og nokkru síðar bættust fleiri við, svo að um skeið voru það 60 verkalýðsfélög, sem stóðu saman og háðu verkfallsbaráttuna samtímis. Þetta nálgaðist allsherjarverkfall. Stjórnendur verkfallsins tryggðu Reykvíkingum neyzlumjólk, benzínundanþágur voru veittar lögreglu, slökkviliði, læknum og slíkum aðilum, en að öðru leyti lömuðust allar samgöngur og viðskipti og útgerðin stöðvaðist einnig. Fljótlega gætti áhrifa verkfallsins einnig á þeim stöðum, sem ekki voru í verkfalli, jafnvel í fjarlægum landshlutum. Það var á þessum haustnóttum, sem Ólafur Thors, þáv. forsrh., greip til þess viturlega úrræðis að draga þvingunarlagafrv. til baka og freista þess heldur að leysa deilumálin við samningaborðið. Ekki gengu þeir samningar þrautalaust, það skal játað, en árið endaði þó með friði og sáttagjörð. Samið var um 15% kauphækkun, og hefði það betur verið gert strax þann 15. okt. í stað þess að reyna lögþvingunarleiðina, sem allt setti í bál og brand. Samið var að þessu sinni aðeins til hálfs árs, og þurfti því brátt að búast til leiks á ný.

Alþýðusambandið lét ekki reka á reiðanum. Þann 17. apríl í fyrravor ritaði það ríkisstj. bréf ásamt óhrekjandi greinargerð um þróun verðlags- og kaupgjaldsmála seinustu 5 árin og bauð samstarf um lausn vandamálanna. Og að þessu sinni svaraði ríkisstj. greiðlega, að hún væri reiðubúin til þess að hefja þegar viðræður á þeim grundvelli, sem óskað var. Samningaviðræður hófust, og samningar tókust. Hvorugt verður hér rakið, en þjóðin fagnaði því vopnahléi, sem þá var samið. Enginn getur því efazt um, að það er vilji þjóðarinnar að haldið sé áfram á stöðvunarleiðinni. Og það er öndvert þjóðarvilja að setja verðbólguvélina aftur í gang, en til þess neytir nú hæstv. ríkisstj. hvers þess færis, sem gefst, og þau eru mörg. Og alltaf er það hæstv. fjmrh., sem forustuna hefur í þessum málum. Þetta gerði hann með seinustu skattalagabreytingu, sem menn kynntust í framkvæmd s.l. sumar. Vantaði þó ekki fyrir fram útmálun hans á því, að þar væri á ferðinni stórkostleg skattalækkun, a.m.k. hjá fólki með lægri tekjur og miðlungstekjur. En hver varð reynslan? Það mál verður rakið af öðrum, og sleppi ég því hér.

Nú er aftur gengið í berhögg við anda júnísamkomulagsins með hækkun söluskattsins. Verði þetta frv. samþ., er aftur hrundið af stað nýrri verðbólguöldu. Hér er nefnilega á ferðinni lagasetning til verðbólguaukningar. En er ekki stjórnin í miklum vanda stödd, á hún nokkurra annarra kosta völ en að leggja á nýja skatta? kunna menn að spyrja. Ég fullyrði í fyrsta lagi, að þessi fjármálavandi stjórnarinnar er smávægilegur og auðleystur. Í annan stað fullyrði ég, að margra annarra betri kosta er völ. Með söluskattshækkuninni er versti kosturinn valinn. Skal nú hvort tveggja rökstutt nánar.

Stjórnin segist þurfa 55 millj. kr. vegna hækkunar á fjárl. í meðförum Alþingis. Þá sagðist stjórnin þurfa 68 millj. kr. til að standast niðurgreiðslur á þessu ári vegna júnísamkomulagsins. En þessu var strax mótmælt af forustumönnum verkalýðssamtakanna. Þeir töldu sig hafa fengið um það skýrar yfirlýsingar í samningunum í vor, að engar álögur yrðu á lagðar vegna aukinna niðurgreiðslna á þessu ári. Ekki var þessi skilningur okkar að fullu viðurkenndur, en samt beitti hæstv. forsrh. sér fyrir því, að skattheimtan af þessum sökum yrði niður felld og söluskatturinn lækkaður úr 8% í 7 1/2% eða um röskar 60 millj. kr. Þetta ber að þakka, og er sá þáttur þessarar alóþörfu skattheimtu þannig úr sögunni. Þá kveðst ríkisstj. í þriðja lagi þurfa um 207 millj. kr. umfram það, sem áætlað er í fjárlagafrv., til þess að geta haldið óbreyttum niðurgreiðslum áfram fyrst um sinn. Í fjórða lagi segist ríkisstj. þurfa 42 millj. vegna þeirrar hækkunar á launagreiðslum ríkisins og hækkunar almannatrygginga, sem af hækkun söluskattsins og dýrtíðaraukningar af hans völdum leiðir. Takið eftir, hlustendur: 42 millj. þarf ríkisstj. vegna söluskattsinnheimtunnar sjálfrar. Það er ekki öll vitleysan eins.

Af þessu er ljóst, að miðað við fjárlagafrv. fyrir 1965 getur hin raunverulega aukna tekjuþörf ríkissjóðs ekki verið meiri en 197 millj. Er þá auðvitað við það miðað, að skattinnheimtuaðferðin sjálf leiði ekki af sér nýja skatta. Þetta eru nú öll ósköpin, og er þá byggt á talnauppsetningu sjálfs fjmrh. Dettur nú nokkrum í hug, að ekki sé unnt að mæta þessari smávægilegu tekjuþörf öðruvísi en með nýrri skattlagningu? Ég skal benda á 4—5 leiðir.

Það er þá fyrst sparnaðarleiðin. Það, sem fjmrh. átti auðvitað að gera strax eftir júnísamkomulagið, var að draga úr öllum lítt nauðsynlegum útgjöldum og umframgreiðslum. Ætli hann hafi ekki gert það? Nei, hann lét út gjöldin vaða á súðum meira en nokkru sinni. Er nú t.d. upplýst, að rekstrarútgjöld ríkisins fram til nóvemberloka í ár hafa orðið 530 millj. kr. meiri en á sama tíma í fyrra. Ef hann aðeins hefði látið sér nægja 330 millj. kr. umframgreiðslur, hafði allur vandinn verið leystur og söluskattsfrv. verið óþarft með öllu.

Önnur leið: Á tveimur seinustu árum hafa um eða yfir 600 millj. kr. verið teknar af skattþegnunum umfram nauðsyn. Af þessu skattránsfé er nú upplýst, að 220 þús. kr. sé enn þá óráðstafað. Þetta fé nægir fyllilega til að mæta þeirri fjárþörf, sem flutningur söluskattsfrv. er nú rökstuddur með. Er vandséð, að hægt væri að verja því fé betur á annan hátt en einmitt til stöðvunar verðbólgu og dýrtíðar.

Þriðja leið: Allt bendir til þess, að forsvaranlegt væri að hækka tekjuáætlun fjárl. um þá upphæð, sem hér um ræðir. Reynsla undanfarinna ára hefur sýnt það, að tekjuáætlunin hefur verið rammvitlaus, nefnilega allt of lág. Árið 1962 reyndist hún t.d. 28% eða fast að þriðjungi of lág. Hafði fjmrh. þá samt fullyrt eins og alltaf og eins og hann raunar gerir nú, að hún væri þanin til hins ýtrasta og þyldi enga hækkun. Mætti undarlegt heita, ef meira væri nú en áður að marka þann barlómssöng, sem reynslan hefur árlega afsannað. Og það er nú einu sinni svo, að sjaldan bregður mær vana sínum.

Fjórða leið: Ef á annað borð væri þörf nokkurrar nýrrar skattheimtu, liggur í augum uppi, að þá skatta hefði nú átt að leggja á hin breiðu bök þjóðfélagsins, sem létt hefur verið á sköttum frá ári til árs, síðan núv. stjórn komst til valda.

Og að síðustu bendi ég á sem fimmtu hugsanlega leið, að ef ríkisstj. féllist á að setja bara reglur, sem tryggðu, að þær söluskattsfúlgur, sem þjóðin nú greiðir að óbreyttum lögum, kæmust svikalaust til skila í ríkissjóð, væri óheillafrv. það, sem við erum að ræða um í dag, um hækkaðan söluskatt, óþarft með öllu.

Með þessu þykist ég rækilega hafa sannað, að skattheimta sú, sem í söluskattsfrv. felst, er þarflaus og óverjandi með öllu.

Þá kem ég að því að rökstyðja þá fullyrðingu mína, að hin versta leið hafi verið valin, og skal ég í því efni leita nokkurra ekki ómerkra vitnisburða. Allra manna rækilegast hefur fyrrv. formaður Alþfl., Haraldur Guðmundsson, fordæmt söluskatt sem ranglátan skatt gagnvart þeim, sem greiða hann, og þar að auki óskynsamlegan frá sjónarmiði þjóðfélagsins. Haraldur sagði:

„Ég álít, og Alþfl. er sömu skoðunar, að af mér liggur við að segja öllum tollum, sem á eru lagðir hjá okkur, sé söluskatturinn ranglátastur og óskynsamlegastur. Hann er ranglátastur af því, að hann lendir langþyngst á þeim, sem minnsta getu hafa til að greiða til opinberra þarfa. Hann fellur langþyngst á barnmargar fjölskyldur og stór heimili, og þarf ekki að eyða orðum að því, hversu ranglátt slíkt fyrirkomulag er á innheimtu opinberra gjalda.

Í öðru lagi liggur í augum uppi, að söluskattur hlýtur að hækka verðlag í landinu og þar með dýrtíðina, a.m.k. sem skattinum nemur og þeirri álagningu, sem óhjákvæmilega hlýtur að koma á hann í öllum viðskiptum. Sú aukna dýrtíð, sem af þessu stafar, kemur svo fram í hækkuðum framleiðslukostnaði. Af því leiðir aftur, að útflutningsvörur okkar, sem framleiddar eru með þessum háa framleiðslukostnaði, verða torseldari og standa þess vegna lakar að vígi í samkeppni við hliðstæðar vörur á heimsmarkaðinum. Tollur þessi og skattur er því hvort tveggja í senn ranglátur gagnvart þeim, sem greiða hann, og mjög óskynsamlegur frá sjónarmiði þjóðfélagsheildarinnar.“

Þetta var skoðun Haralds Guðmundssonar á eðli söluskattsins, og er hún eins og töluð væri út úr mínu hjarta. En máske fá slíkar skoðanir ekki rúm lengur undir merkjum hinnar nýju jafnaðarstefnu Alþfl. Og þó, Alþingistíðindin geyma einnig vitnisburð annars Alþfl.-leiðtoga um söluskattinn sem tekjustofn. Sá vitnisburður er orðrétt á þessa leið:

„Við þetta allt saman bætist svo, að söluskatturinn er í eðli sínu ranglátur. Þetta er einhver ranglátasti akattur, sem lagður hefur verið á af íslenzka löggjafanum. Og það er ekki nóg með, að hann sé ranglátur í eðli sínu, framkvæmdin á söluskattsinnheimtunni hefur og verið þannig, að á því er enginn vafi, að enginn skattur hefur verið svikinn jafnstórkostlega og söluskatturinn. Það er ekki aðeins ríkissjóður, sem tekur inn mikið fé í skjóli þessara lagaákvæða, heldur taka ýmiss konar atvinnurekendur einnig inn stórfé í skjóli þessara ákvæða. Það er auðvelt að svíkja tekjuskatt fyrir þá, sem hafa stórfelldan atvinnurekstur með höndum. Það er þó margfalt auðveldara að svíkja söluskatt. Það er jafnopinbert leyndarmál og skattsvikin í tekjuskattinum, að þau eru alveg gífurleg í söluskattinum.“

Þarna er ekki hálfvelgjan í afstöðunni gegn söluskatti, ranglæti hans og gífurlegum skattsvikum, sem séu fylgifiskar hans. Og hver haldið þið svo, að sé höfundur þessara snjöllu, tilvitnuðu orða? Það er enginn annar en núv. hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, einn af flytjendum söluskattsfrv., sem hér er til umr. Furðulegt! Eitilharður móti söluskatti og þó flm. að söluskattsfrv.

Og enn er ekki góðra vitna vant gegn söluskatti. Að þessu sinni verður vitnað til hæstv. félmrh., Emils Jónssonar, formanns Alþfl. Eftir honum hafa Alþingistíðindin þessi ummæli:

„Og hann (þ.e. Alþfl., segir hann) vill allra sízt, að versti skatturinn úr dýrtíðarlögunum sé framlengdur; því að ég fullyrði, að sá af sköttum dýrtíðarlaganna, sem almenningi er tilfinnanlegastur, er söluskatturinn, og hann kemur allra verst við, en það er einmitt hann, sem ríkisstj. gerir nú ráð fyrir að framlengja.“

Já, versta skattinn og almenningi tilfinnanlegasta ætlar ríkisstj. þá að framlengja, sagði Emil Jónsson. En það var nú þá. En nú er Emil Jónsson sjálfur ráðh. í ríkisstj., sem ekki aðeins framlengir, heldur líka stórhækkar söluskattinn, svo að nemur hundruðum millj. kr., og það að þarflausu.

Tímarnir breytast og mennirnir með. Það má nú segja. En við skulum muna það, að án stuðnings og atfylgis þessara tveggja ráðh. Alþfl. getur söluskattsfrv. nú ekki orðið að lögum.

Alþýðublaðið ljóstrar því upp í forustugrein nú fyrir nokkrum dögum, að stjórnarflokkarnir hafi komið auga á þrjár leiðir til þess að fylla með það gat, eins og ritstjórinn segir, sem söluskattinum er nú ætlað að fylla. Þessar leiðir segir Alþýðublaðið vera.: Fyrst: að skera niður ríkisútgjöld og lækka gjaldahlið fjárlaga. Annað: að afnema niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum, smjörlíki og nýjum fiski. Já, var það ekki anzi freistandi aðferð frá sjónarmiði Alþfl.? Og þriðja leiðin var svo sú að hækka söluskattinn. Þetta er sú leið, sem ríkisstj. valdi, segir ritstjóri Alþýðublaðsins, og það er ekki á honum að sjá, að neinnar tregðu hafi gætt af hendi Alþfl. við það val. Æ, mér finnst afstaða Alþfl. vera eiginlega brjóstumkennanleg í þessu máli.

Enn meiri furðu vekur þó þessi söluskattsleið nú, þegar það er upplýst, að efnahagsmálaráðunautar ríkisstj., bæði Jónas Haralz og Jóhannes Nordal, munu hafa verið henni andvígir og ráðlagt miklu fremur lækkunarleið. Í júlíhefti Fjármálatíðinda skrifar Jóhannes Nordal grein, sem hann nefnir: „Um skattamál“. Varar hann þar ákaft við aðsteðjandi hættum af ofsköttun, segir, að öll undanbrögð fari að borga sig því betur sem skattarnir verði hærri. Hann segir það almennt álít, að þær skattareglur, sem nú gildi, hafi bæði leitt til hærri skattabyrðar á launþegum en þeir vilji sætta sig við og jafnframt því hafi stórfellt ranglæti átt sér stað vegna útbreiddra skattsvika. Hann telur augljóst, að úr þessu verði ekki bætt nema með verulegri lækkun beinna skatta. En um söluskattinn sjálfan segir Jóhannes Nordal þetta í nefndri ritgerð:

„Á hinn bóginn er það viðurkennt í öllum löndum, sem reynslu hafa í þessu efni, að mikil hætta sé á undanbrögðum frá söluskattsgreiðslu, ef skatturinn hækkar nokkuð verulega. Mikið af söluskattskyldri starfsemi er þess eðlis, að nákvæmt opinbert eftirlit er vandkvæðum bundið, svo að freistingin til skattsvika er þar af leiðandi veruleg. Eftir að söluskatturinn hér á landi hefur verið hækkaður í 5.5%, er full ástæða til að fara varlega, svo að ekki skapist einnig á þessu sviði sama vandamálið og nú er við að glíma varðandi innheimtu hina beinu tekjuskatta. Niðurstaða þessara hugleiðinga er því sú,“ segir Jóhannes Nordal, „að hækkun tolla og söluskatts sé ekki heppileg leið.“

Þetta voru aðvaranir Jóhannesar Nordals í Fjármálatíðindum s.l. sumar. En samt rýkur ríkisstj. einmitt nú til þess að hækka söluskattinn í 7 1/2%. Verður ekki annað séð en hún sé öllum heillum horfin, þegar hún traðkar á leiðbeiningum efnahagsráðunauta sinna, þá loksins er þeir gáfu henni góð ráð og heil.

Nú vill enn fremur svo til, að í þessu efni gat ríkisstj. stuðzt við reynslu yfirstandandi árs. Söluskatturinn hafði verið hækkaður í ársbyrjun. Samt blasa þessar tölur við: Í nóv. 1963 voru inn komnar af söluskatti 329 millj., en í nóv. 1964 aðeins 215 millj. Hann hafði þannig eftir hækkunina skilað ríkissjóði 114 millj. kr. lægri upphæð en árið áður. Og athyglisvert er, að söluskatturinn var einasti tekjustofninn, sem náði ekki áætlun. Allir aðrir tekjustofnar fjárlaga fóru fram úr áætlun. Þarna virðist því sem skattsvikararnir hafi ekki kunnað sér hóf. Og hvað mundi þá, þegar freistingin eykst og hann verður hækkaður enn um 2%? Hér ber því allt að sama brunni. Söluskattsleiðin var ekki aðeins óþörf, heldur og versta skattheimtuleið, sem fundizt gat að allra dómi, andstæðust hagsmunum hinna verst settu í þjóðfélaginu, óhagstæðust heilbrigðum atvinnurekstri og hættulegust efnshagsþróuninni í landinu.

Hér kemur svo til álíta enn eitt atriði, sem e.t.v. er þó verst af öllu við söluskattsleiðina. Skal nú að því vikið. Með sjálfu söluskattsfrv. og ráðstöfunum, sem standa í beinu sambandi við það, svo og afgreiðslu fjárlaga að þessu sinni verður hagur útgerðar og fiskiðnaðar stórlega skertur. Útgerðin fær ekki aðeins á sig 3% launahækkun, fiskiðnaðurinn er nú einnig sviptur 95.5 millj. kr. aðstoð, sem hann naut á þessu ári, og skal nú sú upphæð á næsta ári renna í hinn gíruga og alltaf óseðjandi ríkissjóð til almennrar eyðslu. Hefur verið reiknað út, að þessi breyting jafngildi því, að kaup við fiskiðnaðinn hefði verið hækkað um 22%. Auk þess hlýtur hann svo að verða að taka á sig eðlilega hækkun fiskverðs. Það liggur í augum uppi. Það verður því hvorki meira né minna en jafngildi 25—28% kauphækkunar, sem hæstv. ríkisstj. ætlar útgerðinni og fiskiðnaðinum að bera. Vita þó allir, að einmitt þessi atvinnuvegur er þannig settur, að hann getur ekki hrundið byrðunum af sér, eins og milliliðirnir gera.

Nú spyr ég hæstv. ríkisstj., og ég tel mig eiga heimtingu á skýru svari, svo mikið sem hér er í húfi! Telur ríkisstj., að útgerðin rísi undir þessu af eigin rammleik? Ágætt, ef svo er. Eða er hitt kannske ætlunin, að leggja á enn nýja skatta til hjálpar útgerðinni, þegar við komum saman eftir áramótin? Þessu hlýtur hæstv. ríkisstj. að svara. Hitt er augljóst, að með svo þungum búsifjum verða möguleikar útgerðar og fiskiðnaðar til að standa undir eðlilegum og óhjákvæmilegum kjarabótum og launahækkunum stórlega rýrðir. Þetta er því að öllu leyti hið versta frv. Það er til þess fallið að hindra eðlilega samningagerð milli atvinnurekenda og verkalýðssamtaka á vori komanda. Og sú mikla verðlagshækkun, sem það veldur, hlýtur að reisa verðbólguölduna á ný. Á því ber hæstv. ríkisstj. ein ábyrgð og engir aðrir.

Herra forseti. Ég lýk senn máli mínu, en vil að lokum segja þetta: Launþegasamtökin í landinu, Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, standa einhuga gegn söluskattsfrv. og mótmæltu því harðlega, strax þegar það kom fram, Í mótmælum BSBR segir m.a.:

„Bandalagsstjórin telur það mjög miður, að frv. þetta skyldi lagt fram, án þess að fyrst væri haft samráð um þessi mál við launþegasamtökin. Skorar stjórn BSRB þess vegna á Alþingi að samþykkja ekki frv. um hækkun á söluskatti, heldur leita í þess stað úrræða til stöðvunar verðbólgu og hafa um það fullt samráð við launþegasamtökin.“

Í mótmælaályktun miðstjórnar Alþýðusambandsins sagði hins vegar m. a.:

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir harðlega frv. því, sem nú liggur fyrir Alþingi um hækkun söluskatts, er mun hafa í för með sér nýjar álögur, sem nema 300—400 millj. kr. á ári. Miðstjórnin telur, að með frv. þessu sé ýtt af stað nýrri verðbólguöldu, sem stefni hagsmunum launþega og eðlilegri þróun efnahagsmála þjóðarinnar í mikinn háska og torveldi stórlega alla möguleika á friðsamlegum samningum um eðlilegar kjara og launabætur til handa vinnustéttunum. Miðstjórnin telur, að með slíkum aðgerðum til stórfelldra nýrra verðhækkana sé rift þeim grundvelli, sem lagður var með samkomulagi ríkisstj., verkalýðssamtaka og atvinnurekenda hinn 5. júní s.l.“

Að lokum sagði í ályktun Alþýðusambandsins:

„Miðstjórnin telur, að skatthækkun nú ofan á skattarán sumarsins verki sem eitur í ógróin sár og brjóti niður trú manna á, að ríkisstj. vilji heils hugar vinna að stöðvun verðbólgu og vaxandi dýrtíðar. Þess vegna varar miðstjórnin alvarlega við því, að söluskattsfrv. verði samþ., og heitir á ríkisstj. að hverfa frá því óráði að gera það að lögum, en freista heldur að draga úr óhófseyðslu í rekstri ríkisins og leita sérhverra ráða til að hamla gegn verðbólgu og dýrtíð.“

Slík er afstaða almannasamtakanna í landinu til þessa óheillafrv. Í henni felast alvarlegar aðvaranir og eindregin tilmæli til hæstv. ríkisstj. Verkalýðssamtökin buðu samstarf til viðnáms gegn verðbólgu og dýrtíð. Þau fórnuðu réttmætum kröfum s.l. vor um beina kauphækkun, meðan stöðvun væri að nást. En þetta gerðu þau í fullu trausti þess, að verðstöðvunarstefnu yrði trúlega framfylgt áfram af ríkisstj. og að í kjölfar hennar gætu síðan fengizt fram eðlilegar og raunhæfar kjarabætur. En nú hefur þróunin orðið slík, að nauðsyn beinna kauphækkana er orðin enn brýnni en s.l. vor. Þá sýnir og rannsókn, sem gerð hefur verið á vinnutíma ýmissa starfsstétta og starfshópa, að vinnutíminn heldur enn þá áfram að lengjast óhugnanlega. Meðaltalstölur um vinnutíma hafnarverkamanna eru t.d. þessar: 1962 var vinnutími þeirra að meðaltali 2918 stundir. Það þýðir, að yfirvinna þessara manna er 2 1/2 mánuður á ári. 1963 var vinnutíminn 3017 stundir. Yfirvinnan var orðin 3 mánuðir. 1964, það var reiknað með hálfu árinu og margfölduð sú tala með 2, var vinnutíminn orðinn 3150 stundir eða yfirvinnan tæpir 4 mánuðir. Aðgætið, að þetta er meðaltalsvinnutími heillar starfsgreinar, sem þýðir auðvitað, að margir hafa unnið enn þá lengri vinnutíma. Það óhugnanlega er sem sagt, að vinnutíminn er alltaf að lengjast frá ári til árs. Einstakir starfshópar fara jafnvel upp í 3804 stundir samkv. þessari rannsókn. Það þýðir rúmlega 7 mánaða yfirvinnu á ári. Ég get bætt við, að samkv. þessari rannsókn á vinnutímanum er til, að meðaltal heillar starfsgreinar fari upp í 3678 stundir og menn hafi þannig fullra 6 mánaða aukavinnu á ári. Hér er slíkt vandamál á ferðinni, að fyllsta þörf er góðs samstarfs við að leysa það. En nú virðist stefnt í aðra átt. Samstarfs hefur ekkí verið leitað í þessu máli. Góðum úrræðum hefur verið hafnað. En sú eina leiðin, sem stefnir þráðbeint til ófarnaðar í efnahagsmálum, hefur verið valin. Slíkt er gæfuleysi hæstv. fjmrh. í þessu máli.

Að lokum skorar Alþb. enn einu sinni á hv. þm. stjórnarflokkanna að hugleiða nú vandlega, hvílíkum framtíðarmöguleikum er spillt með samþykkt þessa skaðlega og alóþarfa frv., og til hæstv. ríkisstj. beinir Alþb. þeim eindregnu tilmælum enn á ný að bregða nú á hið viturlegasta ráð og draga frv. um söluskatt til baka, eins og gert var með þvingunarlagafrv. fyrir ári og allir, sem að þeirri athöfn stóðu, höfðu sóma af, en ekki vansa. Verði frv. mót vonum ekki tekið aftur og samkomulags leitað og komi það því til atkv., leggur Alþb. til, að frv. verði fellt.

Góðir hlustendur. Ég býð góða nótt og leyfi mér að óska hlustendum nær og fjær gleðilegra jóla og góðs komandi árs.