21.10.1964
Sameinað þing: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í D-deild Alþingistíðinda. (3122)

15. mál, iðnrekstur í kauptúnum og kaupstöðum

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er ekki tækifæri til þess að ræða þessi mál eins ýtarlega og nauðsyn krefði. Það er aðeins eitt atriði, sem borið hefur á góma í þessum umr., sem ég vildi gera hér sérstaklega að umtalsefni og það eru síldarflutningarnir. Eins og kunnugt er, eru nú þegar til staðar síldarverksmiðjur á Norðurlandi og Austurlandi, sem bræða allt að því 70 þús. mál á sólarhring. Í metaflaári hvað bræðslusíldarafla snertir, eins og nú á s.l. sumri, hefðu allar þessar verksmiðjur getað brætt allan síldaraflann á einum mánuði eða rúmlega það, en síldarvertíðin hefur að þessu sinni, eins og kunnugt er, aðalsíldarvertíðin, staðið yfir í u. þ. b. þrjá mánuði. Það liggur þess vegna alveg ljóst fyrir, að það eru til nú þegar meira, en nægar síldarverksmiðjur á Norður- og Austurlandi til þess að bræða allan þann síldarafla, sem líklegt er, að berist á land á næstu árum. Það hefur komið fram, að það er mikill áhugi á því að auka síldarflutningana og það er líklegt, að unnt verði á næstunni að taka upp nýja tækni í þeim efnum, þannig að aflinn verði jafnvel tekinn úti á miðunum. Og þá skiptir auðvitað minna máli, hversu langt flutningaskipið þarf að fara til hafnar.

Með stórauknum síldarflutningum væri hægt að gera mikið til þess að bæta úr atvinnuástandinu á Norðurlandi. Ég tek sem dæmi staði eins og Siglufjörð, Skagaströnd og Eyjafjarðarhafnirnar, þar sem stórar síldarverksmiðjur eru. En ég held, að það sé ekki hægt hvort tveggja í senn að gera kröfu til þess, að síldarflutningarnir verði auknir og jafnframt því verði ráðizt í byggingar stórra og dýrra verksmiðja, eins og nú hafa heyrzt raddir um. Það hafa komið fram óskir um það að byggja stórar verksmiðjur bæði á Raufarhöfn og á Seyðisfirði og jafnvel á fleiri stöðum. Ég held þess vegna, að ef Norðurland á að geta treyst á bjargræði gegnum verulega aukna síldarflutninga, verði það fyrst og fremst gert með því, að ekki verði ráðizt í auknar verksmiðjubyggingar annars staðar. Auðvitað gæti þetta snúizt við. Það veit enginn, hvort síldin verður árum saman fyrir Austurlandi, eins og hún hefur verið síðustu árin. Það gæti snúizt við og síldin yrði fyrir norðan og þá þyrfti að flytja hana austur. Ég held þess vegna, að það væri hægt að aðstoða þessa staði á Norðurlandi eystra og vestra, sérstaklega Eyjafjarðarhafnirnar og þar fyrir vestan, með því einmitt að fresta nú um sinn fyrirhuguðum verksmiðjubyggingum fyrir austan, a.m.k. bíða og sjá, hvað hægt er að afkasta með síldarflutningum og með nýrri tækni og það sé í raun og veru, meðan þannig standa sakir, alls ekki skynsamlegt að ráðast í nýjar verksmiðjubyggingar. Ég vil t.d. í þessu sambandi minna á samþykkt, sem nýlega var gerð á fundi Sjómannasambands Íslands, þar sem mótmælt var nýjum verksmiðjubyggingum, m.a. á þeim grundvelli, að dýrari rekstur síldarverksmiðja og síldarbræðslna mundi leiða til þess, að það yrði, þegar frá liði, lægra bræðslusíldarverð til sjómanna og útgerðarmanna.

Það var aðeins þetta atriði, sem ég vildi sérstaklega benda hér á og þegar ég er að ræða um það, að það sé ekki skynsamlegt, eins og sakir standa, að ráðast í nýjar og stórar verksmiðjubyggingar, heldur bíða eftir því og sjá, hvað síldarflutningarnir geta gert, þá er ég ekki eingöngu þar að hugsa um hagsmuni þeirra staða, sem í sumar hefur vantað síldarhráefni, heldur tel ég, að það sé þjóðhagslega og efnahagalega alls ekki skynsamlegt að hafa stórkostlegan verksmiðjukost ónotaðan á hverju sumri.