10.02.1965
Sameinað þing: 26. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í D-deild Alþingistíðinda. (3246)

114. mál, hlustunarskilyrði útvarps á Norður- og Austurlandi

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka þeim hv. þm., sem standa að fsp. á þskj. 234, fyrir að hafa átt þátt í því, að þetta mál er nú komið hér á dagskrá og að skýrsla hefur verið um það gefin af hæstv. ráðh.

Ég vil segja það í byrjun, að það er ekki einungis, eins og hæstv. ráðh. komst að orði hér áðan, að það sé á dimmum vetrarkvöldum, sem menn hafa ekki not af útvarpstækjum sínum á Norður- og Norðausturlandi, heldur er það um lengri árstíma. Það var þegar í ágústmánuði á s.l. sumri, sem ég fór að verða þess var í mínu viðtæki, þar sem ég á heima, ekki fjarri Þórshöfn á Langanesi, að útlendar stöðvar trufluðu svo mjög, að ekki urðu not af viðtækinu. Nú hefur hæstv. ráðh. gefið upplýsingar um ýmsar aðferðir, — og hefur reyndar heyrzt áður um sumar þeirra, sem til þess séu að bæta úr þessu. Og mér skilst á honum, eins og mér hefur raunar áður skilizt á útvarpsmönnum, að ein helzta aðferðin og kannske sú eina, sem dugir í þessu sambandi, sé að koma upp svokölluðum últrastuttbylgjustöðvum eða FM-stöðvum sem víðast í dreifbýlinu. En eins og hæstv. ráðh. tók fram, eru á þessu þeir meinbugir, að það þarf sérstök tæki til þess að hafa not af þessum stöðvum. En ef þetta er eina ráðið, sem óbrigðult er, þá er ekki um annað að ræða, en taka því og mér sýnist, að þann aukakostnað, sem notendur á þessum svæðum þyrftu að hafa við að afla sér nýrra viðtækja, yrði þá að einhverju leyti að taka með í kostnaði við að bæta hlustunarskilyrði, sem um er rætt. Og það er auðvitað svo um þessa umbót eins og aðrar, að þær verða ekki framkvæmdar nema með einhverjum fjármunum.

Nú er á fjárl. heimilað að verja allt að einni millj. kr. af tekjum útvarpsins í þessu skyni. Ef einhverjar verulegar umbætur á að gera, er hér sjálfsagt um allt of litla fjárhæð að ræða. Ég vil leyfa mér að minna á það hér, að fyrr í vetur, við umr. um fjárl., fluttum við hv. 2. þm. Austf. brtt. þess efnis, að hér yrði veitt meira fé til. Í fyrsta lagi yrði heimilað að verja meira en 1 millj. kr. af útvarpstekjunum til umbóta á þessu sviði og í öðru lagi yrði veitt sérstök fjárupphæð úr ríkissjóði í sama skyni. Þessi brtt. okkar var þá felld á hinu háa Alþingi. Og í tilefni af því og því, sem hér hefur verið sagt, vildi ég nú spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ráðh., hvort í ráði sé að gera einhverjar ráðstafanir til þess, að fé sé fyrir hendi, til þess að hægt sé að framkvæma þær umbætur, sem nauðsynlegar eru til að ráða hér bót á, því að þrátt fyrir það, þó að menn finni ráð og gerðar séu áætlanir um framkvæmdir, verður ekki úr framkvæmdunum, nema einhverjir fjármunir séu fyrir hendi.

Ég vil taka undir það, sem mér virtist felast í fsp. hv. þm., að áður en ráðizt er í að koma hér upp dýru sjónvarpi fyrir suðvesturhluta landsins, eigi og sé skylt að ráða bót á hlustunarörðugleikunum í dreifbýlinu á Norðaustur- og Austurlandi.