31.03.1965
Sameinað þing: 36. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í D-deild Alþingistíðinda. (3290)

217. mál, bótagreiðslu Aflatryggingasjóðs

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvmrh. fyrir mjög góð og ýtarleg svör, og bætir það nokkuð upp þann drátt, sem orðið hefur á því, að svörin kæmu. Ég er því nokkurn veginn sáttur við hæstv. ráðherra að lokum.

Þetta var mikill talnalestur, eins og vænta mátti og þó að ég hefði mig allan við að rita tölurnar niður, þá henti ég ekki reiður á þeim, svo að ég geti í einstökum atriðum fótað mig á þeim tölulegu upplýsingum. Þó virtist mér vera algerlega ljóst, að fjárhagsgetu sjóðsins hefur verið drepið mjög á dreif og hjálp hans við útgerðina að langminnstu leyti komið þar niður, sem þörfin var mest. Og þetta var það, sem ég óttaðist.

Það virðist benda til þess, að óánægjuraddirnar um þá aðstoð, sem sjóðurinn hefur veitt í þrengingum útgerðarinnar, þegar aflabrest hefur borið að höndum, séu á rökum reistar, og það styður auðvitað fast að því, að úthlutunarreglum sjóðsins þurfi að breyta, lögin verði að endurskoða, enda liggur nú fyrir till. um, að svo verði gert. Og þá ríður auðvitað á, að byggt verði á þeirri 15 ára reynslu hlutatryggingasjóðs og síðan aflatryggingasjóðs, á þann veg, að kröftum sjóðsins í framtíðinni, þ.e.a.s. því fjármagni, sem honum er fengið til umráða til aðstoðar við útgerðina, þegar aflabrest ber að höndum, verði í framtíðinni varið þannig, að þeim sé hjálpað, sem hjálpar eru þurfi, en ekki bætt ofan á kúf þeirra, sem bezta aðstöðu hafa, eins og mér virðist í mörgum tilfellum hafa gerzt að undanförnu. Það eru upphæðir upp á tugi millj. til Vestmannaeyja og Faxaflóasvæðisins, sem hafa haft langbezt aflaárferði að undanförnu og virðist því, að þær upphæðir hefðu getað komið að meira gagni til þess að hjálpa aðþrengdri útgerð, ef reglur sjóðsins hefðu heimilað að veita þeim á annan veg, en gert hefur verið.

Hins vegar er ég alveg sannfærður um það, að hér er ekki um að sakast við stjórn aflatryggingasjóðs og áður hlutatryggingasjóðs, að hún hafi gert rangt, að hún hafi brotið ákvæði laganna eða reglugerð, sem sett var á grundvelli þeirra. Ég hygg, að það sé rétt, sem mér hefur verið tjáð, að sjóðsstjórnin hafi, — þótt hún hafi auðvitað orðið að halda sér við lagabókstaf og reglugerð, — þó verið mjög samtaka í því að reyna að túlka lagaákvæði og reglugerð þannig, að sjóðurinn veitti þar hjálp, sem mest væri þörfin, svo að ég hef ekki neina átyllu til þess að ætla, að hægt sé að saka sjóðsstjórnina um það, að hún hafi gert rangt, þó að tölurnar komi þannig út.

Ég held, að meginbreytingin á grundvelli laganna verði að vera þessi, að því fjármagni, sem sjóðurinn hefur til umráða á hverjum tíma, verði fyrst og fremst beint að þeim útgerðarstöðum og útgerðarsvæðum, sem orðið hafa fyrir barðinu á tilfinnanlegum aflabresti. Það er markmið sjóðsins. Hitt er ekki ætlunarverk hans, að veita hlutaruppbót og auka fjárveitingar til þeirra aflasvæða, sem bezta útgerðaraðstöðu hafa hverju sinni og til þess á ekki að þurfa að reka hjálparstarfsemi á vegum ríkissjóðs og skattleggja útgerðina í landinu til þess. Það hefur engan tilgang í sjálfu sér.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta. Ég hef rætt endurskoðunarþörfina á lögunum rækilega við fulltrúa Alþýðusambands Íslands í sjóðsstjórninni og þegar aflað mér grundvallaðra tili. hans um þær breytingar, sem hann telur mest aðkallandi og fara mjög í þá átt, sem ég hef hér gert grein fyrir, sem sé þá, að l. og reglugerð verði breytt þannig, að hjálp sjóðsins verði beint til þeirra verstöðva og þeirra veiðisvæða, sem verða harðast úti sökum almenns aflabrests.