21.04.1965
Sameinað þing: 42. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í D-deild Alþingistíðinda. (3307)

170. mál, starfsfræðsla

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Ég tel mig ekki komast hjá að segja nokkur orð í tilefni af ummælum hv. síðasta ræðumanns og raunar líka þeim ummælum hv. fyrsta fyrirspyrjanda, að hann væri ósammála niðurstöðu fundarins, sem haldinn var á sínum tíma í menntmrn., um það, að ekki væri ástæða til þess að efna til sérstakrar stofnunar eða ráða fastan ríkisembættismann til þess að hafa með starfsfræðslu í landinu að gera, jafnvel þótt um samráð eða samstarf við Reykjavíkurborg væri að ræða. Taldi hv. fyrirspyrjandi, að þessari niðurstöðu mundi að einhverju leyti hafa verið beint gegn Ólafi Gunnarssyni sálfræðingi og lík skoðun kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni.

Ég vil taka það skýrt fram, að í menntmrn. og hjá ríkisstj. í heild er fullur skilningur á mikilli gagnsemi og nauðsyn starfsfræðslu í landinu. En það er skoðun mín og hún er studd af öllum þeim embættismönnum, sem um kennslumál og fræðslumál í landinu fjalla, að starfsfræðsla sé bezt komin í Kennaraskóla Íslands, Þar sé eðlilegast að veita kennaraefnum fræðslu um starfsfræðslu, þ.e. um kennsluaðferðir til starfsfræðslu og síðan berist starfsfræðslan inn í skólana, fyrst og fremst gagnfræðaskólana og jafnvel einnig barnaskóla, frá kennurum, sem hlotið hafa sérmenntun í starfsfræðslu í Kennaraskóla landsins. Þetta er einnig sú skipan, sem unnið hefur verið að, að koma á undanfarin ár og er þegar vel á veg komin. Mér er einnig kunnugt um, að hjá Reykjavíkurborg er ríkjandi áhugi á því, að slíkri starfsfræðslu verði haldið uppi og sú stefna, sem menntmrn. hefur markað í starfsfræðslumálum, þ.e. að halda uppi starfsfræðslu fyrir kennaraefni í kennaraskólanum og ætla síðan starfsfræðslu rúm í sjálfri námsskrá skólanna, hefur fullan stuðning fræðsluyfirvalda Reykjavíkurborgar.

En sérstaklega vegna ummæla hv. síðasta ræðumanns tel ég mig ekki komast hjá að segja eftirfarandi: Veturna 1955–57 heimsótti Ólafur Gunnarsson sálfræðingur nokkra skóla til starfsfræðslu á vegum menntmrn. Stjórnendur sumra þessara skóla óskuðu síðar eftir því, að hann kæmi ekki framar í skólana þessara erinda. Enginn þeirra aðila, sem gera mætti ráð fyrir að hefðu áhuga á starfsfræðslu í skólum landsins, þ.e. fræðslumálastjóri, skólastjóri kennaraskólans, kennarasamtök, sálfræðingafélag eða iðnfræðsluráð, svo að nokkrir aðilar séu nefndir, hefur nokkru sinni óskað eftir því við menntmrn., að Ólafi Gunnarssyni sálfræðingi yrði falin starfsfræðsla í skólum.