21.12.1964
Sameinað þing: 21. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

1. mál, fjárlög 1965

Frsm. 2. minni hl. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Við atkvgr. við 2. umr. fjárl. tók ég aftur til 3. umr, nokkrar þeirra brtt., sem ég flutti þá. Þær flyt ég aftur nú við 3. umr. ásamt till. um, að framlag til Menningar- og fræðslusjóðs Alþýðusambands Íslands verði hækkað úr 150 þús. kr. í 300 þús. kr. Það hefur staðið óbreytt á fjárl. frá því 1957, en á því tímabili hefur verðlag almennt tvöfaldazt, svo að till. mín er aðeins um það, að framlagið verði hlutfallslega jafnhátt og það var fyrir tæpum áratug.

Við 2. umr. gerði ég grein fyrir afstöðu minni til fjárlagaafgreiðslunnar að þessu sinni og þeirra vinnubragða, sem viðhöfð hafa verið. Í umr. um lagafrv. það um hækkun á söluskatti, sem nú er á lokastigi í hv. Nd. og er ein aðalundirstaðan undir sjálfri fjárlagaafgreiðslunni, hefur afstaða Alþb. verið rækilega skýrð og mun enn verða túlkuð við útvarpsumr. í kvöld. Ég sé því ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þessi mál nú við 3. umr. um fjárlög, en get þó ekki látið hjá líða að geta þeirra nokkuð.

2. umr. um fjárlög fór fram við þær óvenjulegu aðstæður, að hæstv. ríkisstj. hafði þá ekki gert grein fyrir till. sínum um tekjuhlið frv., og vantaði um 210 millj. kr., til þess að endar næðu saman, ef gert væri ráð fyrir sömu niðurgreiðslum vöruverðs allt næsta ár og nú eru framkvæmdar. Ég lagði á það áherzlu við 2. umr. um fjárl:, að hagsmunir allrar þjóðarinnar krefðust þess, að úr þessu misræmi á tekjum og gjöldum yrði bætt á annan hátt en þann að fara hina gömlu, óheillavænlegu leið hæstv. núv. ríkisstj. að leggja nýja skatta á almenning. Einmitt núna gerði þjóðin sérstaka kröfu til þess, að allar aðrar leiðir yrðu þrautkannaðar, áður en til slíks óyndisúrræðis yrði gripið. Þess vegna veitir almenningur því meiri athygli nú en nokkurn tíma áður, hvaða ákvörðun hv. alþm. taka um þessi mál. Það er að vísu rétt, að almenningur er orðinn því svo vanur að fá yfir sig steypiflóð nýrra álagna frá hæstv. núv. ríkisstj. á hverju ári og hefur orðið að lengja vinnutíma sinn jafnt og þétt til að mæta þeim, að það var farið að teljast til náttúrulögmála, sem menn yrðu að beygja sig undir, á meðan hæstv. núv. ríkisstj. héngi við völd. En orsökin til þess, að alþýða manna ætlast til annars nú, jafnvel af hæstv. ríkisstj., er öllum kunn og hefur margsinnis verið rakin að undanförnu. Eftir að ríkisstj. mætti afleiðingum af fyrri skattahækkunum sínum og verðbólgustefnu allri með 300 millj. kr. söluskattshækkun strax eftir síðustu áramót, rétt ofan í nýsett fjárlög, og sýnt var, að hún var að missa öll tök á efnahagsmálunum, þá áttu verkalýðssamtökin frumkvæðið að því, að gerð yrði úrslitatilraun til að stöðva verðbólguna og koma á jákvæðri stefnu. Vegna þess árangurs, sem í þessum samningum náðist til stöðvunar verðbólgunnar, gerir alþýða manna í öllum flokkum mjög ákveðnar kröfur til þess, að hv. Alþingi afgreiði ekki fjárlög ársins 1965 á þann hátt, að þessu samkomulagi sé kollvarpað og árangur þess að engu gerður. Það er því sérstök ábyrgð, sem hvílir á Alþingi nú, að allar leiðir séu þrautreyndar, áður en farin er sú verðbólguleið, sem lagt er til af hálfu ríkisstj. nú við afgreiðslu fjárl.

Því samkomulagi, sem samtök verkalýðsfélaganna og ríkisvaldið gerðu í júní s.l. sumar, hefur verið marglýst í umr. hér á hv. Alþingi, og sé ég því ekki ástæðu til að fara orðum um einstök atriði þess, að öðru leyti en því, að nú, þegar hæstv. ríkisstj. ætlar að beita naumum þingmeirihluta sínum til þess að gera það samkomulag að engu og snúa nú þegar út af þeirri leið, sem almenningur í landinu gerði sér í sumar vonir um að hún mundi fást til þess að fara í stað hinnar óheillavænlegu skatthækkunar- og verðbólguleiðar, þá er ástæða til þess að gera sér grein fyrir því, hvers almenningur vænti að yrði afleiðingin af samkomulaginu, sem gert var. Trúði alþýða manna því, að af hálfu ríkisstj. væri þessu samkomulagi, sem hún gerði við verkalýðsfélögin um stöðvun verðbólgunnar, aðeins ætlað að standa til þeirra áramóta, sem nú eru á næsta leyti, en þá yrði hin gamla óheillastefna hæstv. núv. ríkisstj., skattahækkunar og verðbólgustefnan, tekin upp að nýju, eins og nú blasir við? Gáfu yfirlýsingar forustumannanna ástæðu til þess s.l. sumar? Alls ekki. Það er sérstök ástæða til þess að bera vinnubrögðin s.l. sumar, þegar verið var að vinna að þeirri lausn, sem þá fékkst og þjóðin fagnaði, saman við vinnubrögðin nú, þegar ríkisstj. er vísvitandi að eyðileggja þann árangur. Það er ólíku saman að jafna, hvernig unnið var s.l. sumar og svo nú við afgreiðslu fjárlaga, sem eru þannig úr garði gerð, að hækkanakapphlaupið hefst að nýju, — fjárlaga, sem munu valda því, að ekki gengur á öðru en nýjum sköttum, hækkun krónutölu kaups til að mæta einhverju af skattahækkunum, og síðan enn þá nýjum skattahækkunum, hvenær sem vera skal á árinu.

Það er sérstök ástæða til þess að gefa gaum að þeim anda, sem ríkti s.l. sumar, einmitt núna, þegar þau vinnubrögð eru viðhöfð við afgreiðslu fjárl., að áður en fjvn. fær svo mikið sem að sjá skýrslur yfir tekjur og gjöld ríkissjóðs á þessu ári og áætlun um næsta ár, hendir hæstv. ríkisstj. fram fyrir þingið sinni óheillastefnu, sinni óskaaðferð við að jafna tekju- og gjaldahlið fjárl. með stórfelldri hækkun óréttlátasta skattsins, sem á var lagður í þjóðfélaginu. Það kom fram á fundi í fjvn. milli 2. og 3. umr., að efnahagsmálasérfræðingur ríkisstj., forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar, hélt því fram sem sinni skoðun, að við afgreiðslu þessara fjárl. hefði þurft að lækka útgjöld ríkisins og við skattlagningu hefði þurft að velja skatt, sem minna kæmi við almenning en söluskatturinn gerir, og öruggara væri, að skilaði sér í ríkissjóð. Vildi hann halda því fram, að sú leið hefði ekki verið farin, vegna þess að um hann hefði ekki orðið samkomulag í fjvn. eða á hv. Alþingi. Ég benti á, að á það hefði alls ekki reynt, hvort samkomulag gæti orðið um leið til lausnar á þeim vanda, sem við er að etja, til þess hefði alls engin tilraun verið gerð. Og ég vil undirstrika þetta hér. Ég get þess, að ég hafði einmitt við 2. umr. um fjárl. gert það að till. minni, að afgreiðslu fjárl. yrði frestað og gerð yrði sérstök tilraun til samstöðu um niðurskurð á útgjöldum ríkisins og um aðrar ráðstafanir, ráðstafanir, sem miðuðust við að tryggja, en ekki eyðileggja árangurinn af samningum verkalýðsfélaganna og ríkisstj. s.l. sumar. Ég vil enn við 3. umr. leggja áherzlu á, að sú leið hefur ekki verið farin, heldur vann hæstv. ríkisstj. það óhappaverk milli umr. að kasta fram frv. um stórhækkun söluskatts, að því er virðist beinlínis til þess að koma í veg fyrir, að reynt yrði á það, hvort samkomulag gæti orðið um aðrar lausnir.

Hæstv. ríkisstj. virðist vilja stríð, og hún fær það efalaust. Hún hikar ekki við að spenna svo upp fjárl., að skattar og tollar eru nú áætlaðir um 900 millj. kr. hærri en á núgildandi fjárl., á sama tíma og efnahagsmálaráðunautur hennar telur þó heillavænlegra að lækka útgjöld ríkisins. Og hún hikar ekki við að stórhækka hinn illræmda söluskatt, þegar efnahagsmálaráðunauturinn telur þó, að fremur ætti að afla fjár með skatti; sem kæmi minna við almenning og skilaði sér betur í ríkissjóð.

Alla þessa stórfelldu söluskattshækkun þykist ríkisstj. svo í upphafi styðja með tölulegum rökum um nauðsyn nýrra tekna fyrir nákvæmlega tilgreinda upphæð, sem í engu gæti skeikað og væri algerlaga óhjákvæmileg, en reynist ekki nákvæmari en svo, að þegar tekur að herða að ríkisstj., getur hún þó sleppt 68 millj: kr., án þess að nokkuð raskist. Hvaða mark skyldi almenningur þá geta tekið á staðhæfingum stjórnarflokkanna um þörfina á þeim hluta skattahækkunarinnar, sem þeir ætla að halda til streitu?

Þau vinnubrögð við afgreiðslu fjárl. að reyna alls ekki samkomulag, en henda till. um óheillaráðstafanir inn í þingið, er sérstök ástæða til að fordæma og harma. Þau eru ólík þeim, sem viðhöfð voru, þegar sótzt var eftir jákvæðum lausnum s.l. sumar, og verður með hliðsjón af þeim samanburði að telja, að þessar aðfarir séu viðhafðar til þess, að alls ekki geti farið milli mála, að það sé sérstakur ásetningur hæstv. ríkisstj., að það samkomulag, sem þá var gert um stöðvun verðbólgunnar, sé úr sögunni og sá andi, sem þá ríkti milli áhrifamestu aðilanna í þjóðfélaginu, verkalýðssamtakanna og ríkisvaldsins, sé algerlega brottrækur ger. Það kemur vel fram í skrifum Morgunblaðsins s.l. sumar, hve vinnubrögðin við samningana, sem þá voru gerðir um leiðir til lausnar í verðlags- og kaupgjaldsmálunum, voru gerólík þeim, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú valið, þegar hún forðast að gefa nokkurn kost á því að athuga málin til hlítar, áður en afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar, en kastar sínum óheillalausnum fyrir þingið sem gerðum hlut. Morgunblaðið sagði í leiðara þann 6. júní s.l., daginn eftir að samkomulagið náðist, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú var unnið að málunum löngu áður en til átaka gat komið. Ýtarlegra upplýsinga var aflað um þróun efnahagsmálanna, og menn reyndu fyrir fram að gera sér grein fyrir því, hverjar yrðu afleiðingar hverrar einstakrar breytingar á kjarasamningum. Hér hafa því verið tekin upp ný og heilbrigð vinnubrögð.“

Já, þá var reynt að gera sér grein fyrir afleiðingunum, og þá var ýtarlegra upplýsinga aflað og lagðar fyrir alla aðila, áður en ákvarðanir voru teknar. Það er nokkuð annað en það, sem nú á sér stað, þegar ákvarðanir um fjáröflun til ríkissjóðs með þeim hætti að hrinda verðbólguskriðunni af stað aftur eru lagðar fyrir Alþingi, áður en fjvn. hefur svo mikið sem séð skýrslur um hag ríkissjóðs á árinu eða áætlun fyrir næsta ár, áður en nokkur tilraun hefur vexið gerð til þess að reyna á, hvort lækka mætti útgjöld ríkisins, áður en nokkur tilraun hefur verið gerð til þess að ná samkomulagi þeirra aðila, sem samningana gerðu s.l. sumar, um áframhaldandi aðgerðir til að stöðva verðbólguna.

Það er alveg nauðsynlegt, að þjóðin viti það nú, að þegar hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið að hækka söluskatt um 245 millj. kr. á ári, á sama tíma og hún fellir niður innheimtu stóreignaskatts, og hrinda verðbólguskriðunni þar með af stað aftur, hefur engin minnsta tilraun verið gerð til þess að kanna aðrar leiðir, engin minnsta tilraun verið gerð til þess að leita samkomulags um aðrar og farsælli lausnir. Það er ekki að ástæðulausu, að alþýða landsins stendur höggdofa frammi fyrir þessum vinnubrögðum hæstv. ríkisstj. Hvers vegna? Vegna þess að hún taldi samningana í júní s.l. veita fyrirheit um, að nú væri nýtt tímabil að renna upp, forustumenn þjóðarinnar hefðu á elleftu stundu áttað sig á, að hverju stefndi, og hefðu reynzt menn til að leggja ýmsan ágreining til hliðar og leysa málin sameiginlega, hefðu reynzt menn til að rannsaka málin til hlítar, áður en þeir tækju afdrifaríkar ákvarðanir, hefðu sýnt þá ábyrgðartilfinningu að hugsa fyrir afleiðingunum af ákvörðunum sínum og niðurstaðan orðið sú, að tekizt hefði að fá fram samstöðu áhrifamestu aðilanna í þjóðfélaginu um, að snúið yrði við á verðbólgubrautinni og stefnt inn á heillavænlegri leiðir í efnahagsmálum.

Voru þessar vonir almennings ástæðulausar? Misskildi hann gildi samninganna í sumar? Gerðu menn sér of háar hugmyndir um vilja hæstv. ríkisstj. til þess að breyta um stefnu? Hafi svo verið, eiga forustumenn ríkisstj. sök á því, vegna þess að með skrifum sínum gáfu þeir þjóðinni fulla ástæðu til þess að meta samningana á þann hátt, sem hún gerði og gerir enn. Hæstv. forsrh. sagði í Reykjavíkurbréfi í Morgunblaðinu hinn 7. júní s.l., tveimur dögum eftir samningana, með leyfi hæstv. forseta:

„Ýmsir töldu vonlaust, að slíkum samningi yrði náð, og því væri unnið fyrir gýg með því að leggja á sig erfiði og fyrirhöfn í þessu skyni. Árangurinn er nú öllum ljós. Að samningagerðinni unnu menn úr öllum flokkum, og vafalaust hafa einhverjir orðið varir misjafns áhuga hjá sumum sinna skoðanabræðra um happasælan árangur. En allir héldu áfram að leita viðhlítandi lausnar. Árangurinn er sá, að nú eru horfur á vinnufriði um a.m.k. eins árs skeið, og öllum, sem hlut áttu að máli, kemur saman um, að haldist sá andi, sem nú réð, og takist þessi tilraun, lofi það góðu fyrir lengri framtíð.“

Og þegar hæstv. forsrh. hefur, eins og ég las, m.a. lýst þeim vinnubrögðum, sem viðhöfð voru og eru svo gerólík þeim, sem ríkisstj. viðhefur við afgreiðslu fjárl., og hefur þannig lagt áherzlu á nauðsyn þess, að sá andi haldist, sem þá ríkti um sameiginlegar tilraunir til að finna lausnir á vandanum, segir hann:

„Almenningur í öllum flokkum ætlast nú til þess, að verðbólgan sé stöðvuð og menn fái starfsfrið í þjóðfélaginu.“ Ég endurtek: „Almenningur í öllum flokkum ætlast nú til, að verðbólgan sé stöðvuð og menn fái starfsfrið í þjóðfélaginu.“

Já, þetta voru orð að sönnu, og þau eru jafnsönn í dag og þau voru, þegar þau voru sögð í tilefni af samningum ríkisstj. og verkalýðssamtakanna 5. júní s.l. Þessi er enn krafa þjóðarinnar, og hún ætlast til þess af hv. alþm., að við hinar mikilvægu ákvarðanir nú ríki sá andi, sem ríkti við samningana s.l. sumar, en ekki sá andi óbilgirni, sundrungar og stríðshyggju, sem ríkisstj. hefur nú sýnt, þegar hún er að rifta þessum samningum með stórfelldum nýjum skattaálögum og nýrri verðbólguskriðu.

Hæstv. forsrh. sagði 7. júní s.l.: „Haldist sá andi, sem nú réð, og takist þessi tilraun, lofar það góðu fyrir lengri framtíð.“ Það hefur ekki skort á, að verkalýðssamtökin sýndu ávallt síðan af sinni hálfu þennan samkomulagsanda. Þær horfur, sem voru á vinnufriði í eitt ár frá samkomulaginu og hæstv. forsrh. talaði um, tryggðu þau, og þau hafa á sama hátt og s.l. sumar boðið fram lið sitt, til þess að unnt væri að leysa vandamálin með samkomulagi og í samræmi við þá samninga, sem við fögnuð þjóðarinnar voru þá gerðir um stöðvun verðbólgunnar. En eftir að liðið er aðeins hálft ár frá því, að þeir samningar voru gerðir, sem öll þjóðin fagnaði, virðist hæstv. forsrh. ekki meta það neins, að sá andi ráði, sem þá var grundvöllur farsælla ákvarðana. Hann virðist nú ekki telja það á neinn hátt skyldu sína að gefa fulltrúum þjóðarinnar á hv. Alþingi svo mikið sem kost á því að leggja á sig það, sem hann nefndi erfiði og fyrirhöfn, í því skyni að tryggja um næstu framtið þann árangur, sem náðist s.l. sumar um stöðvun verðbólgunnar, heldur hendir inn í þingið til samþykktar með naumum þingmeirihluta frv. um skattahækkun, sem kollvarpar öllum árangrinum frá því í sumar, enda þótt það sé enn í fullu gildi, sem hann ritaði í Morgunblaðið 7. júní s.l., „að almenningur í öllum flokkum ætlast nú til þess, að verðbólgan sé stöðvuð og menn fái starfsfrið í þjóðfélaginu, en allir héldu áfram að leita viðhlítandi lausnar,“ sagði hæstv. forsrh. eftir samningana s.l. sumar. Og ég get fullvissað hann um það, að þjóðin öll, menn í öllum flokkum, ætlast til þess, að hv. alþm. geri það ekki síður nú um lausn þeirra vandamála, sem við er að glíma. En ríkisstj. hefur einhliða og af fullkomnum þjösnaskap ákveðið að snúast við með þeim hætti að sleppa dýrtíðarófreskjunni lausri á þjóðina. Á sama hátt og öll þjóðin fagnaði þeim vinnubrögðum, sem viðhöfð voru í þjóðmálum fyrir hálfu ári og leiddu til samkomulags verkalýðssamtakanna og ríkisvaldsins, harmar hún og er furðu lostin yfir þeim ábyrgðarlausu vinnubrögðum, sem hæstv. ríkisstj. viðhefur nú við afgreiðslu fjárlaganna.

Það eru mín síðustu orð í þessu máli að skora enn á ríkisstj. að fresta ákvörðunum um hækkun söluskatts og fresta afgreiðslu fjárl. og hefja þess í stað samninga milli fulltrúa allra þingflokka og forustu verkalýðssamtakanna um leiðir til þess að forða þjóðinni frá nýrri verðbólguskriðu.