13.11.1964
Efri deild: 15. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

58. mál, innlent lán

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og nál. meiri hl. á þskj. 82 ber með sér, mælum við framsóknarmennirnir í hv. fjhn. með samþykkt þessa frv., en áskiljum okkur þó rétt til að fylgja brtt., er fram kynnu að koma og við teldum æskilegar. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að rétt sé að gera tilraun til að taka innlent lán, eins og frv. gerir ráð fyrir, og er nauðsyn á því vegna þess, hve mikilsvert er að hraða framkvæmdum ýmsum, sem eru á vegum ríkisins. Ekki er það að vísu að mínu áliti ánægjulegt að þurfa að taka lán með svo háum vöxtum og óaðgengilegum lánakjörum að öðru leyti sem hér er gert ráð fyrir, samhliða þeirri ofsalegu tekjuöflun, sem á sér stað af hálfu ríkisins, tekjuöflun, sem er með miklum árangri vegna hins sérstaklega mikla aflagóðæris og þeirrar afkastamiklu tækni nýja tímans, sem komin er nú til sögunnar á seinustu árum. En það er staðreynd, að þessar tekjur og þessi aðstaða nýtist ekki í höndum núv. hæstv. ríkisstj. betur en svo, að full þörf virðist vera fyrir umrædda lántöku. Þetta er ekki góð staðreynd, en staðreynd eigi að síður, og taka verður hvern hlut eins og hann er, aka seglum eftir vindi, þótt óhagstæður sé. Þó að ég mæli þess vegna með því, að þessi fjáröflunarleið verði reynd, tel ég þetta ekkert ánægjuefni, tel hana ekkert æskilega leið til að fara hana, sé hins vegar ekki, að hjá því verði komizt. Ef sala á umræddum skuldabréfum á að takast, tel ég fyrir mitt leyti, að veita verði kaupendum þau fríðindi, sem frv. gerir ráð fyrir, önnur en að skuldabréfin verði undanskilin erfðafjárskatti. Ég álít, að skuldabréfin verði að vera skattfrjáls eins og sparifé og ekki framtalsskyld frekar en spariféð. Þessum réttindum vilja þeir, sem eiga sparifé, ekki sleppa, og til þess að með útboðinu á bréfunum verði hægt að keppa við innlánsstofnanir um sparifé, þá þarf að verðtryggja bréfin, og um það er raunar enginn ágreiningur. Hins vegar teldi ég of langt gengið í samkeppninni við bankana að undanþiggja bréfin erfðafjárskatti, og um það var gott samkomulag í n. og einnig við hæstv. fjmrh. að leggja til að fella það ákvæði úr frv., og brtt. um það er flutt af fjhn. í heild.

Um vextina, sem fyrirhugaðir eru og mér skilst að ætlað sé að verði um 7.2% til jafnaðar í 10 ár, vil ég segja, að þeir eru að vísu háir á slíku láni, en ég er þeirrar skoðunar, að ekki sé til neins að tala um lægri vexti, úr því að þessa tilraun á að gera.

Í samræmi við það, sem ég hef nú sagt, mun ég ekki nota fyrirvara minn í nál. til að greiða atkv. með 1. og 2. brtt. hv. 4. þm. Norðurl. e. Vexti og lánstíma hefði getað verið æskilegt að taka fram í frv., hverjir yrðu, en gerð hefur nú verið grein fyrir því, hver lánstíminn muni verða og hverjir vextirnir muni verða, og eftir atvikum get ég sætt mig við það, að þeir séu ekki fram teknir í frv., af því að hér er verið að gera tilraun og ætlunin er að þreifa sig áfram með söluverð bréfanna, a.m.k. í tveimur áföngum, og kann að vera, að þurfi að leita lags með breytingu á kjörum, ef reynslan sýnir í fyrsta áfanga, að árangur verður ekki sem skyldi.

Um 3. brtt., sem hv. 4. þm. Norðurl. e. flytur, gegnir öðru máli. Hún er við 4. gr. frv. Sú grein gerir ráð fyrir því, að ríkisstj. ráðstafi andvirði bréfanna í samráði við fjvn. .Ég tel heppilegra og þingræðislegra, að Alþingi skipti sjálft þessu fé. Um þetta var rætt í n., og setti ég þar fram þessa skoðun mína, en lét þó við vera í þessu tilfelli, af því að hæstv. ráðh. gerði allýtarlega grein fyrir, til hvaða framkvæmda fénu yrði varið, eins og meiri hl. n. líka sagði frá í nál. En að sjálfsögðu tel ég þó réttara, að Alþingi ráðstafi fénu sérstaklega, tel það ekki spilla fyrir málinu á nokkurn hátt eða framkvæmd þess og ætla mér þess vegna að greiða atkv. með 3. till. hv. 4. þm. Norðurl. e. Annars styð ég frv., eins og ég hef áður sagt.