19.10.1964
Neðri deild: 3. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

3. mál, launaskattur

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð út af því, sem hæstv. ráðh. hafa sagt.

Hæstv. félmrh. sagði, að ég hefði sagt, að stjórnin hefði talið ósvinnu að semja við launþegasamtökin. Það sagði ég ekki. Hitt sagði ég, að forusta Sjálfstfl. hefði deilt á fyrri stjórnir fyrir að semja um löggjafaratriði eða viljað. semja um löggjafaratriði við almannasamtök. Hitt veit líka hæstv. ráðh. mjög vel, að það var stefna hæstv. ríkisstj. að skipta sér ekki af kjarasamningum. Það er skilmerkilega tekið fram í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar, en það er annað atriði. Annað er að skipta sér af kjarasamningum til þess að reyna að ganga á milli, hitt er að semja um löggjafaratriði við almannasamtök. Það var það, sem ég gerði að umtalsefni áðan.

Hæstv. ráðh. segir, að kaupgjaldsbindingin hafi átt að vera til skamms tíma og því ekki verið eins þýðingarmikið prinsipmál og ég taldi. Ég er algerlega ósammála um þetta, en skal ekki innleiða umr. um það nánar hér nú. Ég tel, að það hafi verið stóratburður, þegar bindingarfrv. var dregið til baka, og sú viðureign hafi leitt til þess, að samningastaða náðist þó um síðir við stjórnina, a.m.k. í bili.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði sagt, að ekkert hefði verið gert í húsnæðismálum á síðasta þingi. Það er ekki rétt, það sagði ég ekki. En ég sagði, að því hefði ekki verið anzað, sem við héldum fram um vextina í sambandi við húsnæðismálin og lánsfjárhæðirnar á síðasta þingi, og er laukrétt, það, sem ég sagði um það.

Það, sem hæstv. landbrh. tók fram, urðu mér nokkur vonbrigði. Ég var að gera mér vonir um, að afstaðan væri líka breytt varðandi lánamál bændanna, en nú heyri ég, að svo er ekki, og þykir mér það slæmt. Ég gerði þau mál að umtalsefni til þess að sýna mismuninn í því, hvernig búið væri að bændum og öðrum. Hæstv. ráðherra hnekkti engu af því, sem ég sagði, því að málið er svo einfalt, að það þarf ekki að vefja það í neinar umbúðir. Lánaskatturinn er tekinn af launum bænda. Það er óhugsandi að mótmæla því. Það er staðreynd. Hann er skerðing á því, sem bændur fá sér ætlað í laun. Það er bannað að setja hann inn í verðið. En þessi skattur er sem betur fer ekki dreginn frá launum manna, heldur er það fyrirtækið, sem borgar skattinn. Þetta er eins einfalt og það getur verið.

Ég hef aldrei hrósað þeirri aðferð að skattleggja kjöt og mjólk til þess að fá tekjur í lánasjóðina. Það var aldrei gert, á meðan ég hafði möguleika til að hafa úrslitaáhrif á þessi mál. Lánasjóðum landbúnaðarins var þá aflað fjár með öðru en því að skattleggja kjöt og mjólk eða launatekjur bænda, og voru vextir þó lægri en nú og lánskjör öll miklu betri.

En fyrst hæstv. ráðh. er að ræða þetta atriði, vil ég benda á, að núna eftir þá breytingu, sem orðið hefur á kjaramálunum við það, að stjórnin neyddist til að breyta um stefnu varðandi vísitöluna, fá neytendur annaðhvort kauphækkun, sem svarar álögum á mjólkina og kjötið, eða pá að niðurgreiðslur koma til greina.

Ég hef aldrei stutt þá leið að afla tekna í lánasjóðina með því að leggja skatt á mjólk og kjöt. Mér þótti slæmt að heyra, að afstaða stjórnarinnar hefur ekki breytzt í þessu máli. En ég vil nú samt, þrátt fyrir það, sem hæstv. ráðherra sagði áðan um lánamál landbúnaðarins, leyfa mér að vona, að það eigi ekki langt í land, að þar verði breytt um til bóta.

Vegna þess, sem hæstv. ráðherra sagði um vísitölulán og annað þvílíkt og fór að gera mér upp skoðanir í því sambandi, þá vil ég segja þetta til þess að fyrirbyggja allan misskilning: Ég get ekki skilið, að það eigi að vísitölubinda íbúðalán umfram það, sem lífsnauðsyn er vegna vísitölufjár, sem íbúðalánakerfið hefur, eins og gert var í B-lánunum vegna skyldusparnaðarins. B-lánin voru vísitölubundin. Það var vegna þess, að nokkur hluti af því fé, sem íbúðalánakerfið hafði, var vísitölufé. En það er ofar mínum skilningi, hvers vegna á að lögbinda menn til að taka öll íbúðalán sín sem vísitölulán. Því vil ég, að þetta verði endurskoðað og vísitöluklásúlan í íbúðalöggjöfinni nái eingöngu til íbúðalánanna að því leyti sem kerfið þarf á vísitölufé að halda til lánastarfsins.

En viðvíkjandi lánum til landbúnaðarins er ég alveg sömu skoðunar og ég hef verið á undanförnum þingum. Það á að lækka vextina af landbúnaðarlánum í það, sem þeir voru. Annað er ekki sæmilegt, þ.e.a.s. í 3 1/2% og 4%, án þess að þar komi nokkur vísitölubinding til greina. Og það á að afla fjár í landbúnaðarsjóðina á þann hátt, að ekki þurfi til að koma að setja vísitölubindingu á landbúnaðarlánin.

Sannleikurinn er einnig sá, að eins og háttað er verðlagi á jarðeignum og þeim framkvæmdum, sem menn ,gera í sveitum, verða menn þar að sökkva peningum að verulegu leyti. Það fæst aldrei út úr eignunum allt það, sem í þær fer. Og þegar á þetta er litið varðandi landbúnaðarframkvæmdirnar, þá skil ég ekki, að það geti komið til mála frá sjónarmiði hæstv. landbrh. að setja vísitöluklásúlu á lán, sem ganga til landbúnaðarins. Ég á erfitt með að skilja; að það geti komið til greina: Og ég vil ekki skilja ráðh. þannig enn sem komið er, að það sé hans stefna.