01.03.1965
Efri deild: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

3. mál, launaskattur

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður og skal ekki lengja þessar umr., úr því sem orðið er.

Hv. 4. þm. Vestf. kvartaði yfir því, að ég hefði kallað ræðu hans skrumræðu, og fannst það ekki nógu veglegt heiti á henni. Ástæðan til þess, að ég gaf henni þetta heiti, var sú, að hann í framsöguræðu fór að ræða húsnæðismálin almennt, en gerði það þó ákaflega einhliða, taldi aðeins fram þau auknu eða hækkuðu lán, sem hefðu fengizt á þessum tíma, en ræddi hins vegar ekki um það stórkostlega vandamál í þessum efnum, sem við er að glíma, sem auðvitað hefði átt að gera og ætti að gera, ef almennar umr. færu fram um húsnæðismálin. En þar er auðvitað stærsta vandamálið byggingarkostnaðurinn, hversu hann er gífurlegur og hversu hann hefur aukizt gífurlega. Um það hefði hann átt að ræða og sömuleiðis það, að nú er nauðsynlegt að leggja á skatta, nú er nauðsynlegt að stórhækka skyldusparnað, nú er nauðsynlegt að lögbjóða líftryggingarfélögum o.s.frv. að leggja fram fé til þessa íbúðarlánakerfis, í stað þess, sem áður var, að fjár til þessara lána var að langmestu leyti aflað af sparifé, og auðvitað segir þetta sína sögu. Það er auðvitað ekkert lag á húsnæðismálunum, ef það er ekki hægt að afla fjár til bygginga húsa af því almenna umráðafé, sem þjóðin hefur á hverjum tíma, ef það þarf að skattleggja sérstaklega í því skyni. Það er ekki í lagi. En þar með er ég ekki að andæfa þessum skatti, sem við erum þó, úr því sem komið er, allir sammála um. En ég bara bendi á það, að ástandið í þessum efnum er langt frá því að vera viðunandi og það á sér svo margar hliðar og margar dökkar hliðar, og ég vil kalla það skrum, ef það á að tala um það í þeim tón, eins og hv. 4. þm. Vestf. gerði á sínum tíma, aðeins að halda hástemmda ræðu um það, hvað hæstv. ríkisstj. hefði verið dugleg við að auka lánin á þessum tíma.

Hv. þm. var að kalla á staðreyndir, sagði, að ég hefði ekki bent á neinar staðreyndir, hv. 1. þm. Norðurl. e. hefði að vísu bent á staðreyndir, en þær hefðu allar verið hraktar. Ég vil segja þetta: Þetta er alveg rangt. Hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur bent á alveg ljósar og óhrekjandi staðreyndir. Ég hef vísað til þeirra staðreynda. Hv. 4. þm. Vestf. hefur ekki getað hrakið í einu einasta atriði þessar staðreyndir. Það, sem á milli ber, það, sem við deilum um og getum deilt um, er, hvaða ályktanir við drögum af þessum staðreyndum. Staðreyndirnar eru alveg ljósar og óhrekjandi og óumdeildar, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur bent á. En svo geta menn bara deilt um, hvaða ályktanir á að draga af þeim staðreyndum, og það er það, sem okkur ber á milli.

Ég skal svo, herra forseti, ekki lengja þetta meira, úr því að tíminn er búinn, þó að þessi mál séu náttúrlega þess eðlis, að það hefði verið æskilegra, að það hefði verið stofnað til almennra umr, um þau í öðru sambandi en við þetta mál.