17.12.1964
Efri deild: 32. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

31. mál, leiklistarstarfsemi áhugamanna

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Eg vil leyfa mér að taka undir það, sem hv. 5. þm. Reykn. sagði í ræðu sinni áðan um það ákvæði í 1. gr. frv., þar sem ræðir um B-flokk og þar sem heimilað er að styrkja styttri leikrit en fullkomnar kvöldsýningar, að því verði beitt með ýtrustu varúð. En aftur er á hitt að lita, að víða í strjálbýli eru ekki tök á eða menn ráðast varla í að efna til fullkominna leiksýninga, og er þá oft niðurstaðan sú, að valin eru styttri leikrit, kannske einþáttungar, sem sýndir eru ásamt öðru efni í kvölddagskrá eða á kvöldskemmtunum, og væri alla vega ekki rétt að útiloka slíka viðleitni frá því að geta hlotið styrki. En ég vil sem sé taka undir það með hv. þm., að það er fyllsta ástæða til þess að beita þessari heimild með varúð.

Þá hafa þeir hv. 4. þm. Austf. og hv. 1. þm. Norðurl. e. flutt brtt. við frv. Í eðli sínu er sú brtt., þótt öðruvísi sé orðuð og einhver stigsmunur kunni að vera á, þá er hún þó í eðli sínu nokkurn veginn sú sama og brtt., sem flutt var í hv. Nd. og hlaut þar ekki samþykki. Brtt. er um það, að stjórn Bandalags ísl. leikfélaga skuli ávallt gefinn kostur á að gera till. um skiptingu á ríkisframlaginu, en till., sem flutt var í hv. Nd., gekk í þá átt, að fengnar skyldu till. frá Bandalagi ísl. leikfélaga, áður en gengið væri frá skiptingu fjárins. Hv. þm. tók það réttilega fram, að rn. mundi ekki vera bundið af till, bandalagsins samkv. brtt. Það hefði ekki heldur orðið það samkv. þeirri brtt., sem flutt var í Nd. Hún var orðuð þannig, að það væri að fengnum till. frá Bandalagi ísl. leikfélaga, og hefði að sjálfsögðu, þótt samþ. hefði verið, ekki bundið hendur rn. um skiptingu fjárins.

Nú er það svo, að þeir, sem fénu skipta, munu að sjálfsögðu leita sem ýtarlegastra upplýsinga um starfsemi þeirra félaga, sem óska eftir að verða styrks aðnjótandi, og trúlega mundi þá þeirra upplýsinga verða aflað í gegnum bandalag leikfélaganna.

Ég tel með tilliti til þess, sem ég nú hef sagt, að það sé ekki rétt að samþykkja þessa brtt., og ég fyrir mitt leyti leggst gegn henni. Hitt, eins og ég áður sagði, tel ég alveg gefið mál, að rn. hljóti að óska allra upplýsinga, sem það telur máli skipta, frá bandalaginu

og ætti þannig að geta myndað sér grundvallaðar skoðanir um, hvernig skipta skuli styrknum.