18.03.1965
Efri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

120. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Í þessu frv. felast breytingar á l. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og eru þessar breytingar fólgnar í því að lengja orlof ríkisstarfsmanna.

Þessu frv. var visað til heilbr.- og félmn. N. sendi þetta frv. til umsagnar til Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og barst umsögnin frá bandalaginu í bréfi, dags. 8. marz s.l. , og vil ég — með leyfi hæstv. forseta — lesa hér kafla úr þessari umsögn, en þar segir svo:

„Áður en stjórnarfrv. þetta var lagt fram, fóru fram viðræður fulltrúa BSRB við fjmrh., og var honum tjáð, að bandalagið mundi fallast á breytingu, sem í frv. felst, en jafnframt óskað eftir, að orlof þeirra, sem hafa 20 ára starfstíma eða lengri, yrði 30 virkir dagar. Jafnframt því sem stjórn BSRB staðfestir stuðning sinn við nefnt lagafrv., vill hún, að tilgreint sjónarmið komi fram.“

Samkv. núgildandi l. er orlof ríkisstarfsmanna að lágmarki 18 virkir dagar á ári, en fyrir þá, sem hafa starfað frá 10—15 ár í þjónustu ríkisins, er það 21 dagur, en fyrir þá, sem hafa starfað yfir 15 ár, eru það 27 dagar. Ég vil undirstrika það, að orlof opinberra starfsmanna er ákveðið með l., en er ekki eitt þeirra atriða, sem samið er um við bandalagið samkv. l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Eftir þessu frv. eru þær breytingar á orlofsrétti opinberra starfsmanna, að þeir, sem hafa 18 daga orlof, fengju 21 virkan dag, þeir, sem hafa 21 dag, þ.e.a.s. þeir, sem hafa verið 10—15 ár í þjónustu ríkisins, fengju 24 daga, en hins vegar þeir, sem hafa orlof 27 daga, standi í stað. Hvað orlofsrétt þeirra snertir, felst ekki nein breyting í þessu frv.

Áður en þetta frv. var samið, lét fjmrn. fara fram ýtarlega könnun á því, hvaða breytingar hefðu orðið á orlofsreglum í sambandi við júnísamkomulagið á s.l. ári og þær kjarabreytingar, sem fylgdu í kjölfar þess, hjá ýmsum stéttarfélögum, og niðurstaðan af þeirri könnun varð einmitt sú, að þeir starfshópar, sem höfðu mestan orlofsrétt hjá hinum einstöku stéttarfélögum, fengju í mörgum tilfellum enga breytingu eða hækkun á orlofi. Þetta frv. er því alveg í samræmi við þær breytingar, sem urðu á s.l. sumri á orlofsrétti hjá stéttarfélögunum, og gengur alveg fyllilega jafnlangt.

Aftur á móti þegar efni þessa frv. var rætt við bandalagið, hefur það borið fram þá ósk, að þeir, sem hafa unnið sjá ríkinu í 20 ár eða lengur, fengju 30 virkra daga orlof. Það er í raun og veru ný regla, því að eins og gat um áðan, fá þeir hámarksorlof eftir 15 ár, og mér hefur skilizt á þessu bréfi bandalagsins, að það hafi við þessar viðræður sett fram þessa ósk, en samþykkt þessa niðurstöðu, þó að sú ósk væri ekki tekin til greina. Bandalagið var aðeins að korna þessu sjónarmiði sínu á framfæri, þó að það hafi sætt sig við frv. eins og það er.

Eins og ég gat um í upphafi, var þessu frv. vísað til heilbr.- og félmn., og nefndin var sammála um að leggja til, að frv. yrði samþykkt óbreytt.