11.02.1965
Neðri deild: 41. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

104. mál, landgræðsla

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég kem nú hér helzt upp í ræðustól til þess að þakka hv. landbn. fyrir fljóta afgreiðslu á þessu máli, sem miklar vonir eru tengdar við. Og vænti ég, að málið fái góðan framgang gegnum þingið, eins og allt virðist benda til hér í hv. Nd.

Í sambandi við það, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði um forsögu málsins, er það rétt og ekki ástæða fyrir mig að fara mörgum orðum um það, — það er rétt, að hér var flutt frv. 1957 um skipulagsbreytingu og um tekjuöflun, en það frv. fékk ekki fylgi, enda mikið um það deilt, hvort tekjuöflunin væri eðlileg, hvort það væri eðlilegt, eins og lagt er til í frv., að leggja gjald á búpeninginn, hvort það væri eðlilegt að leggja gjald á fóðurbætinn og láta bændur þannig standa að miklu leyti undir kostnaðinum við uppgræðsluna. Um þetta voru skiptar skoðanir, og á því strandaði þetta frv. Frv. 1960 gerði ráð fyrir, að lagt yrði gjald á áfengi, og menn höfðu einnig skiptar skoðanir á því, vegna þess að með því að leggja gjald á áfengi var raunverulega verið að fá fé frá ríkissjóði með öðrum hætti en beinni fjárveitingu. Það er einnig rétt, að 1963 var þetta mál enn endurskoðað og endurbætt, vil ég segja. En eigi að síður þótti ástæða til að skipa nýja nefnd á árinu 1964 til þess að endurskoða málið í heild og styðjast við þau frv., sem fyrir voru. Það verður því að segja, að um þetta mál hafi verið fjallað vel og lengi, og það er ekki síður þess vegna ástæða til að ætla, að það frv., sem við nú erum að ræða um, sé vel úr garði gert, og ástæða til að binda vonir við þá löggjöf, sem hér er fyrirhuguð.

Það er rétt, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan, að í þessu frv, er ekki kveðið neitt á um tekjuöflun, heldur skipulagsbreytingu, sem á að verða til þess að gera framkvæmdina öruggari og viðtækari en áður hefur verið. En tekjuöflun er ekki um að ræða í þessu frv. Og það er vitanlega síður ástæða til þess nú en 1957, vegna þess að með hverju ári síðan hafa fjárveitingar til sandgræðslu verið auknar. 1958 var fjárveiting til sandgræðslunnar 1950 þús., en 1965 7.4 millj. Þetta eru myndarlegar og ríflegar hækkanir, og þetta er veitt á fjárlögum hverju sinni. Það er rétt, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan, að þótt þetta frv. verði lögfest, geta hv. þm. eigi að síður haldið áfram að hugleiða það, hvort finna beri sérstakan tekjustofn til landgræðslunnar. En þessir tekjustofnar, sem staldrað hefur verið við áður, eru vitanlega beint eða óbeint úr ríkissjóði, nema þá gerð yrði tilraun aftur til þess að leggja gjald á búpening eða rekstrarvörur bænda, sem ég hygg að fái ekki frekar byr nú en áður. Og ég tel það ekki réttlátt, vegna þess að gróðurverndin og landgræðslan er ekki fyrir bændurna eina, heldur fyrir þjóðina. Það er nauðsynlegt fyrir þjóðina alla að gera landið byggilegt og forða því frá uppblæstri og eyðingu. Og þess vegna er það eðlilegt, að þjóðin öll standi undir kostnaðinum við uppgræðsluna og við gróðurverndina. Og ég held, að þessi skoðun sé að fá aukið fylgi og það sé mjög vaxandi skilningur allra landsmanna á því, hversu þýðingarmikið það er að auka gróðurinn í landinu og hefta eyðingaröflin. Og ég er sannfærður um það, að þetta frv., sem hér um ræðir, er spor í rétta átt, til þess að ná því marki, sem við vitanlega allir viljum keppa að, og þess vegna er ástæða til að gleðjast yfir því, að hv. Alþingi virðist ætla að sameinast um þetta mál.