19.12.1964
Efri deild: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

102. mál, jarðræktarlög

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Mér þykir vænt um að heyra það, að hv. 8. landsk. þm. er til viðræðu um ýmsar breytingar á þessu frv., sem hér liggur fyrir, ef bændasamtökin óska þess. Ég óttast ekki bændasamtökin í þessum efnum, en það er ýmislegt annað, sem ég held að verði kannske ljón á veginum, og á það kann e.t.v. að reyna síðar. Er ég fús að ræða við hv. þm. um breytingar á þessari löggjöf.

En ég verð að játa það, að ég gat aldrei fengið það út úr því bréfi, sem hæstv. landbrh. las hér áðan, að bændasamtökin sem slík hefðu haft sjálfdæmi um það, hvernig þau hefðu viljað útbúa jarðræktarlögin. Þeim var fyrirlagt í upphafi, að þau mættu hækka þetta mikið, en þau fengu aldrei kost á því að leggja málið fram nú í þetta sinn á þann hátt, sem þau óskuðu. Þeim var fyrirlagt í upphafi, að heildarhækkunin skyldi nema 30%, og á þeim grundvelli skyldi endurskoðun hafin. Þetta er það eina rétta í málinu.

Þá hefur bæði hæstv, ráðh. og hv. 8. landsk. rætt um aðra löggjöf í sambandi við þessa. Ég hef aldrei sagt það, að stofnlánadeildarl. eða sá hlutinn, sem tilheyrir Landnámi ríkisins, og hækkunin, sem orðið hefur á síðustu árum úr 10 ha. upp í 25 ha., sem nýtur framlags frá ríkinu allt að helmingi kostnaðar, væri ekki mikil réttarbót fyrir bændur. Það er síður en svo, enda höfum við framsóknarmenn flutt till. um þetta á hverju einasta ári, þangað til þetta var komið í lög, og í þessu felst að sjálfsögðu mikil réttarbót. En ég er sannfærður um það, að ef við framsóknarmenn hefðum ekki undirbúið þessa löggjöf og komið henni á í tíð vinstri stjórnarinnar, 1957, hefði hún aldrei verið undirbúin í tíð þessarar stjórnar, svo mikið er víst. En það hefur ekki samkv. þeim l. verið réttarbót á öllum þeim liðum, sem tilheyra jarðræktarl. Það er önnur löggjöf, sem ekki ber að ræða nú. Ég hef verið að tala um þá löggjöf, sem hér liggur fyrir, og annað ekki.

Enn fremur vil ég taka það fram, að því er varðar vatnsveiturnar, að þess var ekki að vænta, að við framsóknarmenn óskuðum eftir framlagi ríkisins til vatnsveitna samkv. jarðræktarl., þegar við vorum með það í sérstöku frv. á Alþingi. Og ég tel, að það skipti ekki höfuðmáli, hvort heldur er. Ef á annað borð þetta framlag fæst, þá skiptir ekki máli, hvort það er samkv. sérstakri löggjöf, sem fjallar um vatnsveitur, eða samkv. jarðræktarl.

Ég ætla mér svo ekki að ræða meira um þetta frv. nú í þetta sinn. Ég vil geta þess, af því að hæstv. ráðh. var að tala um, að það hefði þurft áður fleiri dilka til þess að borga dráttarvélina hjá bóndanum heldur en nú, að ég efast mjög um, að þetta sé satt. Ég ætla að kynna mér þetta nánar, en ég efast mjög um, að þetta sé satt, og ég efast líka mjög um, að það þurfi færri mjólkurlítra nú en áður til að borga sama tæki. En nokkuð er víst, að hækkun á sér stað árlega og enn þá er hæstv. landbrh. að hlaða ofan á þessi tæki eins og önnur með hinum nýja söluskatti, sem verið er að leggja á og lögleiða.